Bændablaðið - 29.05.2007, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 29.05.2007, Blaðsíða 12
Bændablaðið | Þriðjudagur 29. maí 200712 Fjárkláða hefur ekki orðið vart í fjögur ár Sigurður Sigurðarson dýralæknir flutti erindi á Oddastefnu sem haldin var nýlega í Heklusetrinu á Leirubakka á Landi. Erindið nefndi hann „Er fjárkláðinn úr sögunni?“ Þar sagði hann að fjár- kláða hafi ekki orðið vart hér á landi síðastliðin fjögur ár. Áður var kláðinn útbreiddur um allt land en tekist hafði að eyða honum alls stað- ar nema á Ströndum og í Húnavatnssýslum og í Skagafirði frá Hrútafirði að Hólabyrðu. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að reyna að ná sam- stöðu meðal bænda á þessu svæði um aðgerðir til að útrýma kláðanum. Í stað þess að baða féð eins og gert var á árum áður var það nú sprautað með alhliða sníkjudýralyfi. Ríkið greiddi fyrir efnið en bændur lögðu til vinnuaflið. Þessi samstaða náðist og hún var alger enda mátti enginn skerast úr leik ef þetta ætti að takast. Féð var sprautað tveim sinnum tvö ár í röð og sums staðar oftar til þess að ná til útigenginna kinda. Sigurður segir að það hafi ekki verið einfalt mál að ná þessari samstöðu. Til voru bændur sem höfðu ekki trú á að þetta tækist núna frekar en í þau 152 skipti sem reynt hafði verið að eyða kláðanum. Sjúkdómurinn barst til landsins 1855 með lambhrútum sem fluttir voru inn frá Englandi að Hraungerði í Flóa. Þeir smituðu á leiðinni fé í Mosfellssveit og síðan smátt og smátt víðar um. Böðin sem reynd voru til að eyða fjárkláða dugðu ekki vegna þess að ekki var full samstaða í landinu um að baða fé. Árið 1761 flutti Hastfer barón á Elliðavatni inn hrúta sem báru með sér húðsjúkdóm sem hefur verið kallaður fyrri kláðinn en líklega hefur það þó ekki verið kláði heldur fjárbóla. Mönnum tókst að uppræta sjúkdóminn á tæplega 30 árum með niðurskurði. Galdraþulan sem dugði Sigurður segir að hann hafi fengið sunnlenskan galdramann, Hilmar Pálsson frá Hjálmsstöðum, til að semja þulu sem flutt skyldi yfir efasemdarmönnum fyrir norðan. Hilmar var beðinn um að setja sig í spor kláðakindar og yrkja í orðastað hennar þar sem hún lýsti tilfinningum sínum og líðan. Þulan er á þessa leið: Ég er geld og golsótt ær gnaga mig stöðugt lýs og flær valda mér ama og angri þær sem er þó létt hjá hinu, heita helvítinu, að kláðamaur í milljónum mínum þjakar útlimum, baki, síðum, bógunum, bringukolli og eyrum. Nú ætla ég frekar enginn vilji heyra um. Af sjálfri mér lítið eftir er engu lambi ég framar ber því jafnvel hrútnum hryllir við mér það held ég sé að vonum því enga hef ég blíðu að bjóða honum. Þessar nauðir náttúruna lamar notið get ég lífsins ekki framar. „Þessa þulu flutti ég gang eftir gang yfir þeim sem voru efins eða andvígir því að fé þeirra væri spraut- að við fjárkláða, þar til þeir gáfust upp og urðu sam- vinnufúsir. Málið leystist og um það varð full sam- staða sem hefur borið þann árangur að ekki hefur komið upp kláðatilfelli í landinu í fjögur ár og nú vonumst við til að sauðkindarinnar forna fjanda sé þar með útrýmt úr landinu. En víst er það alls ekki og fulla aðgát þarf að sýna öllum grunsamlegum ein- kennum á húsi, réttum og sláturhúsum og kalla til dýralækni sér að kostnaðarlausu ef grunur vaknar,“ sagði Sigurður Sigurðarson. S.dór Áhugasamir framleiðendur stefna að því að halda bændamarkaði á Hvanneyri í sumar með svipuðu sniði og Bændamarkaður BV var í fyrra. Bændamarkaður er ætl- aður þeim sem ala, rækta, tína, baka eða á einhvern hátt fram- leiða gæðavörur heima á býli. Þarna er kjörið tækifæri fyrir framleiðendur í sveitum landsins til að koma með gæðavörur sínar og selja milliliðalaust til neyt- enda. Skoða þarf í tilfelli hvers framleiðanda hvort hann upp- fyllir þær kröfur sem heilbrigð- iseftirlitið gerir til framleiðenda á slíkum markaði. Sigríður Jóhannesdóttir hjá BV sagði í samtali við Bændablaðið að það færi allt eftir því hvenær fram- leiðendur væru tilbúnir hvenær mark- aðirnir hæfust. Í fyrra voru framleið- endur á Bændamarkaðnum allt að 12 þegar mest var. Sigríður sagðist von- ast til þess að þeir yrðu fleiri í ár en of snemmt væri að segja til um það. Meðfylgjandi myndir voru teknar á markaðnum í fyrrasumar. Gott samstarf Varðandi það sem bændur þurfa að gera heima hjá sér til að fá leyfi til að selja á markaðnum sagði Sigríður að það væri töluvert en allt hefði það verið unnið í sam- starfi við heilbrigðisfulltrúann í Borgarbyggð og gengið mjög vel. Menn þurfa að merkja vöruna og gefa innihaldslýsingu, svo dæmi séu tekin. Heilbrigðisfulltrúinn fylg- ist mjög vel með því sem verið er að framleiða og hvernig staðið er að því. Sigríður segir að Bændamarkaðir BV hafi gengið vel í fyrra og að aðsóknin hafi verið góð. Neytendur virtust kunna vel að meta það að geta keypt vörur beint af fram- leiðendum. Skemmtileg stemmn- ing skapaðist og allir virtust finna eitthvað við sitt hæfi. Hún sagðist vona að Bændamarkaðurinn væri kominn til að vera. Margar vörutegundir Dæmi um vörur sem eiga heima á slíkum markaði eru fiskur (fersk- ur eða reyktur), hákarl, harðfiskur, ber, jurtir, ábrystir, unnar kjötvör- ur, grænmeti, ávextir, grænmetis- plöntur, sumarblóm, tré og runnar, bakkelsi og margt, margt fleira. Þetta er alls ekki tæmandi listi. Framleiðendur sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkum markaði eru hvattir til að hafa samband við Sigríði sem allra fyrst í síma 437- 1215 eða senda tölvupóst á net- fangið sjo@bondi.is S.dór Bændamarkaðir Stefnt er að því að halda aftur bændamarkaði á Hvanneyri í sumar Landgræðsla í Mývatnssveit Þorlákur Jónsson, landgræðslumaður í Garði, sér um að koma sáð- korni í jörð Kára Þorgrímssonar nágranna síns. Þannig hafa þeir verka- skipti en Kári er kunnur landbótamaður og vinnur í staðinn viðvik fyrir Landgræðsluna og fósturjörðina. Það verða einungis tveir byggakrar í Mývatnssveit í sumar og ekki stórir. Uppskera undangenginna ára gefur ekki tilefni til aukningar í kornrækt hér í sveit. Frá því að Þorlákur sáði 3. maí hefur verið norðanátt og kuldi hér um slóðir og grátt í rót flesta morgna. Svo má segja að maíveðráttan hafi verið þannig nú ár af ári. BFH

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.