Bændablaðið - 22.10.2009, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 22.10.2009, Blaðsíða 20
22 Bændablaðið | fimmtudagur 22. október 2009 Kæri lesandi. Reynitré hafa um nokkuð lang- an aldur verið sveipuð ákveðinni dulúð bæði hérlendis og erlendis, um þau hafa sprottið sagnir sem enn lifa jafnvel góðu lífi. Það hlýtur að vera merki um breytta tíma eða táknrænt fyrir hræringar samtímans að nú er talið að hin frægu reynitré á Skriðu í Hörgárdal séu öll. Eða hvað? Lifði í þjóðsögu og ljóðum Þekktasta íslenska þjóðsagan tengd reyniviði hlýtur að teljast vera sú um reyniviðinn í Möðrufellshrauni í Eyjafirði, en sá hefur einnig feng- ið heitið meiðurinn helgi. Í hraun- inu er í dag ekki vitað um lifandi reynivið en „hraun“ þetta er þó reyndar frekar hrun eða grjótskriða úr fjallshlíðinni og því líka talað um Möðrufellsskriðu. Þarna á einu sinni að hafa vaxið upp forkunn- arfagurt reynitré sem enginn vissi hvaðan kom og spratt upp af því eftirfarandi saga, sem birtist árið 1961 í Ömmu og Árni Bjarnarson hafði skrásett: „Endur fyrir löngu bjuggu systk- in tvö í Eyjafirði. Var ástríki þeirra mikið, svo að af leiddi óleyfileg- ar ástir, og varð systirin þung- uð af völdum bróður síns. Þá var Stóridómur í lögum, og áttu systk- inin samkvæmt honum að líflátast fyrir brot þetta. Tóku þau til þess ráðs að flýja í Möðrufellshraun í fylgsni, er þar var, og höfðust þau þar við um skeið. Gat kona ein í Möðrufelli, húsfreyja þar eða hús- kona, pírt í þau mat á laun, og segja sumir, að gegnt hafi verið í fylgsnið úr búrinu. En svo fór, að kona þessi dó, og urðu systkinin skömmu síðar hungurmorða, en upp af leif- um þeirra óx reyniviður mikill og fagur, sem lengi lifði þar í hraun- inu, og fundust tvær beinagrind- ur undir rótum hans. Önnur sögn hermir, að systkinin væru háls- höggvin og dysjuð, og yxi hríslan upp af dysinni.“ Tvö kvæði eru þekkt um þenn- an sama reynivið. Annað þeirra er eftir Gísla Brynjólfsson og á að hafa birst í Nýjum félagsritum árið 1847. Það hefst á þessa leið: Í Eyjafirði aldinn stendur reynir í auðri kleif, í laungum fjalladal, þar sem að bruna bunulækir hreinir um bjarta grund úr dimmum hamrasal, þar sem að autt er allt, og naktir klettar, og aldrei heyrist neinna manna tal. Hitt kvæðið var víst prent- að í Norðra árið 1856 og er talið vera eftir mann að nafni Friðrik Daníelsson frá Skáldstöðum í Saurbæjarhreppi, en það hefst á eft- irfarandi hátt: Reyniviðarrunnur græni rósin fagra, blíð og trú, innra hrærður augum mæni á þann stað, hvar fyrri þú stóðst á grundu föstum fótum, fagurlima prýði há, nægum ástum nærður hótum náttúrunnar hendi frá. ...og í líklegum afkomendum Steindór Steindórsson frá Hlöðum er á því að meiðurinn helgi hafi orðið þannig til að þegar hlíðar Eyjafjarðar hafi verið skógi vaxn- ar hér í öndverðu þá hafi á víð og dreif staðið eitt og eitt reynitré. Þegar skógurinn hafi eyðst hafi svo þessi eini reynir staðið eftir eða vaxið aftur upp af rótunum sem lifðu í jarðveginum. Þar sem skógurinn var horfinn, hafi fólk þá farið að líta á þetta eina tré sem helgidóm og átrúnaður skapast í kringum það. Því er lýst svo að hjátrú í kringum meiðinn helga hafi síðan orðið svo mikil að fólk hafi flykkst að viðnum með gjafir og ljós og hafi ýmiss konar helgisiðir fylgt þessum heimsóknum. Hjátrú þessi fór víst mikið fyrir brjóstið á kirkjuyfirvöldum og er talið að viðurinn hafi svo verið höggvinn fyrir þeirra tilstilli. Önnur kenning er sú að hreinlega hafi skort við og þessi verið nýttur í dráttarvagn, þar sem ekki hafi annar viður verið við höndina. Talið er nokkuð víst að umrædd reynitré á Skriðu í Hörgárdal séu komin af þessum fræga reynivið, meiðnum helga. Síðan á fólk að hafa tekið af þeim trjám hríslur og að þaðan séu gömlu reynitréin á Akureyri komin. Þar á meðal á að vera reyniviðurinn fyrir framan Laxdalshús á Akureyri sem þekktur er af gömlum myndum. Þær hug- myndir bera jú þess merki að meið- urinn helgi lifi enn góðu lífi ein- hvers staðar í hugarfylgsnum okkar samtímafólks. Heimildir og heimildafólk: Jóhann Thorarensen, garðyrkjufræðingur. Unnar Örn J. Auðarson, myndlistarmaður. Steindór Steindórsson: „Reynirinn í Möðru fellshrauni.“. Amma - Þjóðleg fræði og skemmtun. Bókaútgáfan þjóð- saga. Akureyri, 1961. Bls. 430-435. „Systkinin í Möðrufellshrauni“. Árni Bjarnarson skrásetti. Amma.- Þjóðleg fræði og skemmtun. Bókaútgáfan þjóð- saga. Akureyri, 1961. Bls. 426-429. Meiðurinn helgi og önnur reynitré Nú er góður tími til þess að safna fræjum. Þó hafa þrestirnir víðast hvar lík- lega klárað flest reyniber, en þar sem eitthvað er eftir, má kippa slatta inn, taka berin af grein- unum, merja vel í berjapressu (líkt og fer fyrir berjunum í fuglsmaga) og dreifa á slatta af moldar-sandblöndu í sáðbakka. Nokkru af sandi er sáldrað yfir, til að halda fræjunum á sínum stað. Bakkanum er síðan stillt út til að vetrast þar, en verja þarf berjamaukið í honum fyrir fuglum, til dæmis með glerplötu eða með því að stilla bakkanum inn í kaldan ræktunarkassa. Fræ birkis og elris eru víðast hvar nú þroskuð og eru fræreklarnir teknir beint af trjánum. Fræin eru dregin af þeim eða hrist úr reklunum og þeim dreift yfir moldar-sandblöndu og fá þau svo álíka meðferð og reyni- berjamaukið. Og þá eru ekki öll fræ upptalin. Talið er að reynitrén á Skriðu í Hörgárdal séu upprunalega komin af meiðnum helga, reyniviðnum í Möðru- fellshrauni inni í Eyjafirði, en að eldri reynitré á Akureyri hafi verið tekin af trjánum á Skriðu. Álíka og afkomendur meiðsins helga, þá hefur þjóðsagan um hann lifað góðu lífi og borist manna á milli. Myndin hér er af póstkorti sem líklega er prentað um 1920 og er úr póstkortasafni Unnars Arnar, myndlistarmanns. Kristín Þóra Kjartansdóttir sagnfræðingur og garðyrkjunemi kristinkj@gmx.net Gróður og garðmenning TÍÐNI HJARTA- og æðasjúkdóma er há hér á landi líkt og í mörgum öðrum löndum í hinum vestræna heimi. Þessir sjúkdómar eru að miklu leyti tengdir óheilbrigðum lífsstíl og mataræði. Meðal annars eykur neysla á of mikilli harðri fitu og salti líkurnar á slíkum sjúkdóm- um. Neysla á salti á Íslandi er mun meiri en ráðleggingar segja til um en talið er að um 80% af saltinu sem við neytum komi úr unnum matvörum. Unnar kjötvörur inni- halda oft mikið af bæði harðri fitu og salti. Í könnun Manneldisráðs árið 2002 á mataræði Íslendinga kom í ljós að kjöt og kjötvörur lögðu til 19% af neyslu mettaðrar fitu og u.þ.b. 16% af neyslu salts. Því má ætla að með því að þróa kjötvörur sem innihalda minna af harðri fitu og salti sé hægt að hafa áhrif á neyslu almennings og þar með stuðla að fækkun tilfella af hjarta- og æðasjúkdómum. Matís ohf. hefur unnið að slíkri vöruþróun í samvinnu við Norðlenska ehf. með styrk frá Tækniþróunarsjóði. Þróaðar voru fitu- og saltminni kjötbollur og vín- arpylsur auk fituminni spægipylsu. Gerðar voru ýmsar rannsóknir á vörunum en meðal annars voru gerðar neytendakannanir til að athuga hvernig neytendum líkuðu vörurnar. Einnig var spurt út í við- horf tengd fituskerðingu á kjötvör- um, lífsstíl og hvaða upplýsingum neytendur leita eftir á pakkningum. Í ljós kom að neytendur hafa almennt mikinn áhuga á fituminni kjötvörum, þó er áhuginn mismikill eftir tegundum kjötvara. Neytendur virðast jákvæðari fyrir fituskertum kjötbollum en fituskertum vín- arpylsum og frekar neikvæðir fyrir fituskertri spægipylsu. Þetta gæti tengst því að notkun þessara vara er ólík. Flestir telja kjötbollur vera venjulegan heimilismat en vín- arpylsur hafa frekar á sér skyndi- bitastimpil þó að neysla þeirra sé jafnvel meiri en neysla á kjötboll- um. Bragðgæði spægipylsu virðast skipta mun meira máli en hollusta. Talsverður munur var á viðhorfum karla og kvenna. Konur hugsa mun meira um hollustu matar en karl- ar og þær eru miklu líklegri til að kaupa fituskertar kjötvörur. Þegar fitu- og saltmagn er minnkað í unnum kjötvörum verða ýmsar breytingar á vörunni, sér- staklega í áferð en einnig í bragði, lykt og útliti. Það getur því verið flókið að minnka salt og fitu án þess að það breyti vörunni of mikið og í mörgum tilfellum er nauð- synlegt að setja í staðinn önnur efni sem gegna svipuðu hlut- verki. Ýmis efni hafa verið notuð í stað fitu í unnum kjötvörum og koma flest þeirra úr plöntum. Trefjar hafa verið notaðar en einnig sterkja og sojaprótein. Öll þessi efni eru mun orkuminni en fita og geta því fækkað hitaein- ingum í vörunum talsvert. Aftur á móti finnst mörgum neytendum neikvætt að nota önnur efni í stað fitu. Af þeim efnum sem spurt var um eru neytendur, og þá sérstak- lega konur, jákvæðastir fyrir trefj- um en sterkjan er óvinsælust. Ekki er hægt að staðhæfa hvað veldur þessu en neytendur eru oft íhalds- samir og ekki hrifnir af breytingum á hefðbundnum matvörum. Við vöruþróun skipta pakkn- ingar og merking þeirra miklu máli. Neytandinn velur út frá útliti vörunnar og því hvaða upplýs- ingar koma fram á pakkningum. Neytendur voru spurðir um hvaða upplýsingum þeir leituðu eftir við val á kjötvörum. Ekki kemur á óvart að nánast allir athuga verð, kjöttegund, dagsetningu og magn. Flestir athuga líka upprunaland og skoða innihaldslýsingu. Örlítið færri athuga fitumagn, vörumerki og næringargildi. Saltmagn og það hversu umhverfisvæn varan er rekur lestina en konur hafa þó meiri áhuga en karlar á því að vita hvort varan er umhverfisvæn. Fitumagn virðist þannig skipta neytendur meira máli en saltmagn. Íslenskir neytendur vilja kaupa íslenskt. Þeim finnst mjög jákvætt að vara sé úr íslensku hráefni og leita eftir upplýsingum um upp- runaland á pakkningum. Þeir eru líka mjög jákvæðir fyrir fituminni kjötvörum og telja þær hollari en þær hefðbundnu. Þegar kjötvörur eru þróaðar þarf að hafa í huga að fyrir neytandann skiptir mestu máli að maturinn sé bragðgóður. Verð skiptir einnig máli en minna þó. Neytendur hugsa um hollustu kjötv- ara en eru ekki tilbúnir að skipta út bragðgæðum fyrir hollustu. Vilja neytendur hollari kjötvörur? Aðalheiður Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Matís Námskeið í lífefldri ræktun á Sólheimum og í Skaftholti Dagana 27.-29. nóvember verður haldið námskeið á Sólheimum og í Skaftholti í lífefldri (bíodýnam- iskri) ræktun undir handleiðslu Hollendingsins Henk-Jan Meyer. Á námskeiðinu verður fjallað um þau gæði sem vottunarstaðallinn „Demeter“ stendur fyrir og unnið verður með landbúnaðarnámskeið Rudolfs Steiner. Gisting er í boði fyrir þátttakendur á Sólheimum og í Skaftholti. Nánari upplýsingar um námskeiðið má fá í síma 486-6002, auk þess sem hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið skaftholt@simnet.is.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.