Fréttablaðið - 22.01.2013, Blaðsíða 12
22. janúar 2013 ÞRIÐJUDAGUR| FRÉTTIR | 12
TROMSÖ, FRÉTTABLAÐIÐ Umhverfis-
vernd kemur alltaf fyrst þegar
tækifæri á norðurslóðum verða
nýtt í nútíð og framtíð. Spenna
á milli þjóðlanda sem eiga hags-
muna að gæta á svæðinu er mjög
ýkt í almennri umræðu. Um þetta
tvennt eru utanríkisráðherrar
Noregs og Svíþjóðar sammála.
Þetta er meðal þess sem kom
fram á fyrsta degi sjöundu norð-
urslóðaráðstefnunnar Arctic
Frontiers 2013, sem nú er haldin
í Tromsö í Noregi og þeirrar sjö-
undu í röðinni.
Svæði sem var áberandi í óör-
yggi kaldastríðsáranna er nú fyr-
irmynd í alþjóðasamstarfi sagði
Carl Bildt, utanríkisráðherra Sví-
þjóðar og formaður Norðurskauts-
ráðsins, í ræðu sinni. Hann bætti
við að ef aðeins eitt sé öruggt
þá sé það sú staðreynd að mikil-
vægi norðurslóða mun stóraukast
á allra næstu árum, og samstarf
þjóða skyldi skoða í því ljósi.
„Umhverfismálin eru í for-
grunni þess sem við erum að
gera. Hlýnun jarðar er staðreynd
á sama tíma og Kínverjar og Ind-
verjar opna nokkrar verksmiðjur á
mánuði sem nýta kolaorku. Þróun-
in vekur ugg og við sjáum afleið-
ingarnar hér,“ sagði Bildt og bætti
við að þessum staðreyndum verði
að halda á lofti á alþjóðlegum
vettvangi á sama tíma og lönd á
norður slóðum þurfi að gera meira
í tilliti til umhverfismála.
Bildt tók sérstaklega fram að
olíu- og gasvinnsla væri mest í
umræðunni en námuvinnslu ættu
menn að gefa meiri gaum. „Það
er í þessu ljósi sem unnið er að
því að styrkja Norðurskautsráðið
sem langmikilvægasta vettvang
þessarar umræðu og vettvang
framtíðar samvinnu þjóða í þess-
um heimshluta um fyrirsjáanlega
framtíð,“ sagði Bildt.
Espen Barth Eide, utanríkis-
ráðherra Noregs, sagði að málefni
norðurslóða hafi verið og verði eitt
af hryggjarstykkjunum í norskri
utanríkisstefnu; að vinna að
sífellt betra alþjóðlegu samstarfi
um nýtingu og verndun svæðis-
ins með sjálfbærni að leiðarljósi.
Hann sagði tækifærin nær enda-
laus í kjölfar þess að sífellt fleiri
svæði væru að verða aðgengileg á
norðurslóðum. Það þýði jafnframt
að álitamálunum sem krefjast
úrlausnar fjölgar að sama skapi.
„Hlýnun jarðar eru vondar
fréttir, og mannamót um tæki-
færi sem loftslagsbreytingar hafa
í för með sér verður alltaf að hafa
þá staðreynd í forgrunni,“ sagði
Eide og lagði þunga áherslu á að
umhverfismál yrðu alltaf að vera
mönnum ofarlega í huga þegar
nýting, hver sem hún væri, er
rædd.
Eide sagði öll löndin sem eiga
hagsmuna að gæta á svæðinu við-
urkenna að hafréttarsáttmáli Sam-
einuðu þjóðanna gildi á svæðinu
„Við búum því á svæði sem gæti
verið vettvangur átaka og spennu,
en þvert á móti, einkennir friður
og eindrægni öll samskipti,“ sagði
Eide.
svavar@frettabladid.is
Umhverfið skal alltaf njóta vafans
Umhverfisvernd á að vera í forgrunni allrar ákvarðanatöku um norðurslóðir, að mati norrænna utanríkisráðherra. Spenna á milli
landa vegna hagsmuna á svæðinu er ekki til staðar. Magnús Jóhannesson gegnir stöðu framkvæmdastjóra Norðurskautsráðsins.
➜ Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfis-
ráðuneytisins til margra ára, tók í gær við embætti
framkvæmdastjóra Norðurskautsráðsins, þegar
fastaskrifstofa ráðsins var opnuð í Tromsö. Að
mati utanríkisráðherra Svíþjóðar og Noregs, Espen
Barth Eide og Carl Bildt, hefur mikilvægi Norður-
skautsráðsins stóraukist á stuttum tíma, og er
orðinn vettvangur ákvörðunartöku en ekki aðeins
samræðu.
➜ Norðurskautsráðið er mikilvægasti vettvangurinn
fyrir samráð og samstarf á norðurslóðum.
➜ Ráðið eru einu svæðasamtökin sem ná til alls
svæðisins með aðild allra ríkja þess.
➜ Það var stofnað árið 1996 sem samráðs- og sam-
starfsvettvangur norðurskautsríkjanna átta,
Bandaríkjanna, Danmerkur (Grænland, Færeyjar),
Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og
Svíþjóðar, og sex helstu samtaka þeirra frumbyggja
sem þar búa.
➜ Megináherslur Norðurskautsráðsins hafa frá upphafi
snúið að umhverfismálum og leiðum til að tryggja
sjálfbæra þróun á norðurslóðum. Vaxandi sókn í
auðlindir norðurslóða og auðveldari aðgangur að
þeim með tilkomu nýrrar tækni og hlýnandi lofts-
lags hefur orðið til þess að auka pólitískt mikilvægi
Norðurskautsráðsins.
ORÐINN VETTVANGUR ÁKVÖRÐUNARTÖKU
Fjörefni úr frystinum
Fæst í verslunum Bónus
NÝ FASTASKRIFSTOFA Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, og Magnús Jóhannesson, framkvæmdastjóri Norður-
skautsráðsins við opnun fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins í Tromsö í Noregi í gær.