Bændablaðið - 05.09.2013, Blaðsíða 27

Bændablaðið - 05.09.2013, Blaðsíða 27
27Bændablaðið | Fimmtudagur 5. september 2013 þennan stóra skafl. Eftir því sem leið á veturinn bætti þó auðvitað stöðugt á háheiðina. Í restina voru því komin dálítið djúp göng þar sem það hlánaði aldrei. Heiðin teppist t.d. hér síðustu helgina í maí. Ingjaldssandsmegin í heiðinni var aftur á móti minni snjór en þeim mun meiri svell og klakabunkar sem ég hafði verið laus við tvö árin á undan.“ – Hver sér um snjómoksturinn til þín? „Ísafjarðarbær á að sjá um þetta en Vegagerðin er með fyrstu mokstrana á haustin og síðan á vorin. Bærinn á að sjá um mokstur alveg fram á vor þegar skóla lýkur til að strákurinn komist heim eins mikið um helgar og hægt er. Hann á að vísu rétt á því að komast heim á hverjum degi, sem er auðvitað ekki raunhæft. Því finnst mér lágmark að reynt sé að koma honum yfir þegar skóla lýkur á föstudögum og síðan til baka á sunnudagskvöldi eða mánudagsmorgni.“ Spurning hvað gerist í samgöngumálunum „Strákurinn fer í tíunda bekk á næsta ári og maður spyr sig hvað gerist eftir þann vetur. Verður heiðin þá bara lokuð strax eftir fyrsta snjó á haustin? Það er alltaf verið að draga úr þjónustunni og það hefur ekki einu sinni verið lappað upp á veginn þar sem bleytublettir hafa verið. Hingað út eftir er heldur ekki komið með veghefil. Ég veit svo sem að suma kafla er erfitt að hefla, en mér finnst lágmark að laga hér lágdalinn. Hér er allt í skorningum fram sandinn og ekkert gert. Sennilega eru menn að bíða eftir að maður gefist upp. Ætli það endi ekki á því að maður fái sér hross og fari á því fram og til baka og hverfi þannig aftur til fortíðar,“ segir Bettý og hlær. Sjálf er hún ekki með hross en í frammi í dalnum mátti sjá nokkur hross sem Bettý segir að séu í eigu fólks úr Bolungarvík sem á Hraun með öðrum og nýtir minkahúsin þar fyrir hestana. Segir hún að þetta fólk hugsi vel um hestana og komi reglulega á vélsleðum yfir heiðina til að annast um þá ef ekki er mokað. Hún segir að síðastliðinn vetur hafi reyndar engar girðingar haldið hrossunum því rafmagnsgirðingar hafi ýmist farið á kaf eða slitnað í óveðrum. Hrossin hafi því haldið sig í austanverðum dalnum og þar hafi verið nægur gróður fyrir þau að bíta. Svo sé landslagið þannig að þau komist alltaf í skjól fyrir öllum áttum og hafi það gott. Með um 200 fjár á fóðrum – Nú ert þú með sauðfé, hvað varst þú með margt á fóðrum síðastliðinn vetur? „Það var í kringum tvö hundruð þegar ég tel með féð sem kom úr Barðanum.“ Hún segist hafa verið blessunar- lega laus við kal á túnum í vor. Eftir áramótaveðrið hafi gert gríðarlegar rigningar og í rigningunum í febrúar hafi heilmikinn snjó tekið upp á láglendi. „Sem betur fer snjóaði þó yfir það áður en það fraus aftur svo það var eins og teppi hér yfir öllum túnum. Það kól ekkert. Það sem kom síðast undan snjóum í vor var bara grænt. Þá er þetta í fyrsta skiptið núna í mörg ár sem maður sér Sandstykkin græn, því þau hafa yfirleitt verið brunnin af þurrki.“ Svo þú kvartar ekkert yfir verunni hérna? „Auðvitað er þetta kaflaskipt eftir árstímum. Það er t.d. gífurlega mikil vinna að klára að smala hér. Maður fer kannski upp í einn dalinn og þar er engin rolla og ekki heldur í næsta dal. Svo eru kannski komnar rollur á morgun í dalinn sem þú smalaðir í gær. Svo þarf að fara út í Barða og þetta er svo mikil yfirferð og erfitt að hitta á hvar féð heldur sig hverju sinni. Það verður því alltaf eitthvað eftir.“ Vel gengur að manna smölun – Hvernig gengur að fá mannskap til að smala með þér? „Þegar aðalsmölun er hér í heima- dalnum hef ég fengið krakka sem eru við nám í strandsvæðastjórnun í Háskólasetrinu Vestfjarða á Ísafirði. Það byrjuðu að koma krakkar úr fyrsta hópnum þar fyrir fimm árum. Síðan hafa alltaf einhverjir verið lengur við nám og hafa þá dregið nemendur úr næsta hópi með sér. Ég læt þau ganga hér undir klettum og Steini á Kirkjubóli kemur í Hrafnaskálanúpinn því fé frá honum er þar líka. Hann fer svo þar sem enginn annar fer því hann er algjör fjallageit. Í fyrstu leit næst megnið af fénu og síðan vel ég þá úr hópnum sem hægt er að treysta vel í erfiða göngu til að fara með mér út í Nesdal. Svo eru alltaf einhverjir Íslendingar sem koma til að hjálpa mér og ég treysti til að fara upp á Barðann. Steini kom í þetta í fyrra og strákur sem heitir Óli kom frá Ísafirði og var með lið með sér sem ég treysti. Það er fólk sem veit hvað það er að gera. Ég var líka með nokkra útlendinga með mér auk þess sem strákur úr Súgandafirði sem heitir Valur hefur komið hér af og til og hjálpað mér heilmikið, m.a. við að sækja óþekkar rollur út í Barða. Í Barðanum er stór skál sem kölluð er Púrka með góðum grasbala. Þarna getur fé hafst við allan veturinn án þess að vera í snjóflóðahættu og ef veður versnar fer það niður og þar eru gríðarstórir steinar sem veita skjól. Þá hefur það fjörubeit ef allt annað bregst.“ Fullyrðir ekkert um áframhaldandi búsetu – Þú ert sem sagt ekkert að gefast upp á verunni hér? „Ég ætla ekkert að segja um það ef mér tekst að heyja í sumar, þá verð ég hér næsta vetur. Og ef ég kem vel undan vetri sé ég til hvort ég geti heyjað næsta sumar. Ég ætla ekkert að vera hér ellidauð, það fer bara eftir því hvernig landið liggur. Maður getur ekkert sagt um það hvað morgun dagurinn ber í skauti sér og best að vera ekki með neinar fullyrðingar,“ sagði þessi eldhressa kjarnakona sem verður líklegast síðasti ábúandinn á Ingjaldssandi. /HKr. Ú r ljó ði nu F ja llg an ga e ft ir Tó m as G uð m un ds so n URÐ OG GRJÓT UPP Í MÓT Elísabet var með um 200 fjár á fóðrum síðastliðinn vetur í húsunum sem sjást í bakgrunni skammt frá íbúðarhúsinu.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.