Bændablaðið - 05.09.2013, Blaðsíða 35

Bændablaðið - 05.09.2013, Blaðsíða 35
35Bændablaðið | Fimmtudagur 5. september 2013 „Bændur verða stöðugt að leita leiða til þess að bæta framleiðsluna og gera sér starfið auðveldara. Það gera þeir meðal annars með því að tala við aðra bændur og deila þekk- ingu sín á milli,“ sagði Åke Hantoft við forystumenn norrænna bænda á dögunum. Åke er kúabóndi í Svíþjóð og stjórnarformaður hjá Arla Foods, eins stærsta matvælafyrirtækis í Norður-Evrópu, sem er í eigu um 8.000 bænda í Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi. Hann hélt erindi á fundi norrænna bænda á dögunum um sjálfbærni í landbúnaði og stefnu Arla í þeim efnum. Åke sagði að bændur innan Arla, sem eru frá 6 löndum og eru um 20 þúsund talsins, væru stöðugt að leita að leiðum til þess að bæta sig og sína framleiðslu. Neytendur kalla á aukna sjálfbærni „Umhverfisstefna Arla gengur meðal annars út á sjálfbærni í framleiðslunni, að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, fara vel með vatn og lágmarka orkunotkun auk þess að minnka sóun og úrgang frá landbúnaðinum. Neytendur eru kröfuharðir og þeir vilja að bændur standi sig í stykkinu, til dæmis varðandi dýravelferð, líffræðilega fjölbreytni og sjálfbærni í framleiðslunni.“ Åke sagði að það væri alltaf tækifæri hjá bændum til þess að bæta sig. „Bændur geta bætt notkun sinna aðfanga og hagað framleiðsluferlum þannig að það gagnist umhverfinu. Með því skapast ýmis tækifæri, til dæmis að auka framleiðsluna, spara fjármuni, minnka umhverfisálag og bæta markaðsaðgang og samkeppnishæfni framleiðsluvörunnar.“ Lærum hver af öðrum Til þess að vekja bændur til umhugsu- nar um sjálfbærni í framleiðslunni he- fur Arla hvatt þá til þess að halda litla fundi inni á kúabúunum þar sem um- ræðuefnin eru margvísleg. „Bændur hafa meðal annars rætt saman um fóðrun, orkunotkun og aðferðir til þess að standa betur að búrekstrinum. Þeir skiptast á skoðunum og mark- miðið er að læra hver af öðrum,“ segir Åke. Í Bretlandi hafa verið haldnir 185 fundir síðastliðna mánuði og um 80 í Svíþjóð og Danmörku. „Fyrir Arla þýða betri framleiðsluhættir á kúabúunum bætt orðspor og meira traust markaðarins. Það skilar sér á endanum þegar við semjum um verðið við stórmarkaðina,“ segir Åke Hantoft, stjórnarformaður hjá Arla Foods. /TB Norrænir bændur þinguðu í Danmörku: Þjóðir gætu þurft að minnka útflutning á mat og sinna heimamarkaðnum betur Nauðsyn þess að framleiða mat fyrir heimsbyggðina skapar tækifæri til vaxtar fyrir norrænan landbúnað og Norðurlöndin geta verið í forystu þeirra landa sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi við framleiðslu búvara. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi bænda í Samtökum norrænna bænda (NBC) sem haldinn var í Danmörku dagana 28.-30. ágúst síðastliðinn. Þema fundarins var sjálfbærni og aukin framleiðni í landbúnaði. Eftir fundinn var send ályktun til norrænna landbúnaðar- ráðherra þar sem hvatt var til þess að ríkisstjórnir settu málefni landbúnaðar og matvælaiðnaðar á oddinn. Fulltrúar íslenskra bænda sátu fundinn ásamt fólki frá Noregi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Sú staðreynd að Matvælastofnun SÞ (FAO) telur að auka þurfi matvælaframleiðslu í heiminum um 60% fram að árinu 2050 kallar á nýjar lausnir í landbúnaði og matvælaframleiðslu. Til þess að ræða þessi mál var boðið til fundarins gestafyrirlesara frá framkvæmdastjórn ESB, dr. Leonard Mizzi. Hann hélt erindi þar sem hann velti upp þeirri spurningu hvernig alþjóðlegur landbúnaður gæti brugðist við aukinni eftirspurn eftir matvælum. Í máli hans kom fram að engin augljós lausn væri í sjónmáli en mikilvægt væri að þjóðir heims snéru bökum saman til að takast á við viðfangsefnið. Það væri ekki síður mikilvægt að neytendur tækju til sinna ráða og höguðu neyslu sinni með ábyrgari hætti en nú tíðkast. Nefndi Mizzi sóun á mat og einnig að heilsusamlegt val réði miklu um hvernig matur yrði framleiddur í framtíðinni. Þá ræddi hann um landakaup stórþjóða og samkeppni um land sem nú þegar bæri töluvert á. Nefndi hann dæmi um kaup Kínverja á landi í Afríku og víðar. Eftirspurn eftir ræktunarlandi ásamt vatnsskorti víða um heim væru flókin viðfangsefni sem þyrfti að leysa. Athyglisvert var að Mizzi velti því upp að ef til vill þyrftu þjóðir í hinum vestræna heimi að endurskipuleggja sína landbúnaðarstefnu á komandi árum. Þær gætu þurft að minnka áherslu á útflutning á mat og sinna heimamarkaðnum betur. Ólíkar áherslur Í erindum fulltrúa bænda frá Norðurlöndunum og í umræðum á eftir kom ýmislegt fram sem telja má jákvætt fyrir norrænan landbúnað. Johan Aaberg frá Finnlandi benti á það að víðast á Norðurlöndum væri til nóg af hreinu vatni. Endurnýjanlega orku væri víða að finna og ör tækniþróun gerði það að verkum að norrænu þjóðirnar gætu átt samkeppnisforskot á önnur lönd. Það væri þó veikleiki að eftir því sem norðar drægi treystu bændur um of á innflutt próteinfóður. Kari Redse Håskjold frá Norsk landbrukssamvirke ræddi um mikil- vægi stefnu í landbúnaði og hver markmið matvælaframleiðslunnar ættu að vera. Nefndi hún að þar hefðu Norðmenn lagt áherslu á fjöl- skyldubú og að framleiða eins mikið og hægt er fyrir innanlandsmarkað. Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur BÍ, hélt erindi fyrir hönd Íslands en þar rakti hún meðal annars þá möguleika sem íslenskur land- búnaður hefði með sínu hreina vatni, nægu landrými og aðgangi að endurnýjanlegri orku. Þá gerði hún að umtalsefni gæðastjórnun í búvöruframleiðslu, uppgræðslu lands og þau verðmæti sem felast í bættri þekkingu bænda og annarra sem starfa við matvælaframleiðslu. Ólíkar áherslur Norðurlandanna voru þó greinilegar þegar fulltrúi Dana tók til máls, Søren Gade, framkvæmdastjóri Landbrug og fødevarer. Honum var tíðrætt um þau tækifæri sem fælust í því að flytja búvörur út til landa eins og Kína og Indlands þar sem mikill vöxtur væri fyrirsjáanlegur. Þessi boðskapur rímar ágætlega við það sem Danir hafa lagt áherslu á undan- farin ár en það er meðal annars að greiða fyrir viðskiptum með búvörur og framleiða mikið magn fyrir stærri markaði en innanlandsmarkað. Efnahagslegur stöðugleiki og skilningur stjórnvalda Að fundi loknum var eins og áður sagði send út áskorun til ráðamanna á Norðurlöndum. Þar var meðal annars hvatt til þess að efla land- búnað og leggja áherslu á lausnir sem draga úr umhverfisáhrifum og efla skilvirkni í gegnum alla fæðu- keðjuna. Bændur í þessum löndum ættu mikil tækifæri ef stefnan væri skýr og stöðugleiki fyrir hendi í efnahagsumhverfinu. Það væri því afar mikilvægt að stjórnmálamenn sköpuðu þær aðstæður að það væri eftirsóknarvert fyrir fjárfesta að koma að landbúnaði og nýjum lausnum í orkumálum. Noregur leiðir starfið næstu tvö ár Í lok NBC-fundarins lét Martin Merrild, formaður Landbrug og fødevarer, af störfum sem for- seti NBC en við keflinu tók Nils T. Björke sem er formaður Norsk bondelag. Noregur mun fara með for- mennsku í samtökunum næstu tvö árin. /TB Maltverjinn dr. Leonard Mizzi. Fulltrúar norrænna bænda. Martti Asunta, forseti samvinnufélagsins Pellervo í Finnlandi, Nils T. Björke, formaður Norges bondelag, Helena Jonsson, for- maður sænsku bændasamtakanna LRF, Martin Merrild, formaður Landbrug og fødevarer, Juha Marttila, formaður MTK í Finnlandi, og Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda. Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, gat því miður ekki sótt fundinn þar sem hann var heima við smalamennsku vegna óveðursspár. Stjórnarformaður Arla: „Allir bændur geta bætt sig“ – kúabændur sem leggja inn hjá Arla halda fundi inni á búunum Åke Hantoft, stjórnarformaður Arla, segir að aukin sjálfbærni í mjólkur- framleiðslu og meiri þekking bænda skili sér í bættu orðspori og auknu trausti á vörunni. Mynd / TB Húsgagnagerð úr skógarefni Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins og Ólafur G. E. Sæmundsen skógtæknir Jólatrjáaræktun Böðvar Guðmundsson áætlunarfulltrúi Suðurlandsskóga og Hallur Björgvins- son svæðisstjóri Suðurlandsskóga Grunnur að blómaskreytingum Brynja Bárðardóttir brautarstjóri blómaskreytingarbrautar LbhÍ Mengun - Vatnsmengun Cornelis Aart Meijles umhverfisverkfræðingur í Hollandi Á stubbnum Ýmsir sérfræðingar Tálgunarnámskeið - ferskar viðarnytjar Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins Aðventuskreytingar Brynja Bárðardóttir brautarstjóri blómaskreytingarbrautar LbhÍ Endurmenntun LbhÍ Kynbótakerfið í hrossarækt Í samstarfi við Fagráð í hrossarækt Ýmsir sérfræðingar Sveppir og sveppatínsla Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor við LbhÍ Mengun - meðhöndlun úrgangs Cornelis Aart Meijles umhverfisverkfræðingur í Hollandi Trjáfellingar og grisjun Í samstarfi við Skjólskóga, Skógræktina og Héraðs og Austurlandsskóga Björgvin Örn Eggertsson skógfræðingur við LbhÍ Lífrænn landbúnaður Ragnhildur Helga Jónsdóttir umhverfis- fræðingur og kennari við LbhÍ Ostagerð - heimavinnsla afurða Í samstarfi við IÐAN fræðslusetur Þórarinn Egill Sveinsson mjólkurverkfræðingur Torf og grjóthleðsla Guðjón Kristinsson torf og grjót- hleðslumeistari og kennari LbhÍ Allar nánari upplýsingar má finna á www.lbhi.is/namskeid Skráning fer fram á endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5000 Við erum líka á Facebook - facebook.com/namskeid

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.