Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 22

Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. mars 2013 Árlegt umhverfis- og lýðheilsuþing Stórutjarnaskóla var haldið nýverið og þá í fjórða sinn. Þótti það takast vel, en nemendur höfðu lagt á sig mikla vinnu við undirbúning þess, bæði með söng, úrvinnslu kannana og glærukynningum. Mæting var með allra besta móti og að þessu sinni komu nokkrir kennarar frá öðrum skólum til að fylgjast með og er það sérstakt ánægjuefni. Foreldrar mættu vel og einnig kynslóðin þar fyrir ofan en geta má þess að á sama tíma var opið hús eldri borgara í Stórutjarnaskóla. Þá komu á þingið nokkrir aðilar úr stjórnsýslu Þingeyjarsveitar að sveitarstjóra meðtöldum. „Umhverfismál hafa sífellt leitað á samfélagið með auknum áherslum og árið 2007 var ákveðið í Stórutjarnaskóla að taka stórt skref í þeim málum og ganga í raðir skóla á grænni grein Landverndar. Því fylgdu ákveðnar kvaðir, vinna þurfti verkefnið í ákveðnum skrefum og eitt þeirra var að samfara því að halda umhverfismálum á lofti og vinna að úrbótum innan skólanna með einum og öðrum hætti þurfti að reyna að hafa mótandi áhrif á samfélagið og sveitarstjórnarfólk. Þá kviknaði sú hugmynd að einfaldast væri að setja allt í einn pakka, fræðslu til starfsfólks og nemenda, upplýsingar og nettan áróður til foreldra og annarra í sveitinni. Þannig urðu umhverfisþingin til,“ segir Sigrún Jónsdóttir, formaður umhverfisnefndar Stórutjarnaskóla, en hún hefur stýrt umhverfismálunum innan skólans frá upphafi af mikilli festu. Umhverfisþing eru nú einnig haldin í sumum öðrum grunnskólum landsins en segja má að þau eigi uppruna sinn í Stórutjarnaskóla, sem fyrstur reið á vaðið með að halda slík þing. Rík þörf fyrir að sækja út í náttúruna Aðalfyrirlesarinn að þessu sinni var Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur og náði erindi hans vel til allra í salnum, bæði eldri og yngri áheyrenda. Hann lagði út af þörf fólks fyrir að hlaða batteríin, safna orku, því orkuna þryti stundum hjá mönnunum rétt eins og hjá farsímunum okkar. Rannsóknir hefðu sýnt að skjótvirkasta leið flestra við að endurnýja orkuna væri að fara út í náttúruna. Samkvæmt fræðum Páls er svo stutt síðan maðurinn lifði alfarið á og í náttúrunni að það býr enn með okkur rík þörf fyrir að sækja þangað. Þá kom það fram að almennt þarf að hafa í huga þessa frumþörf mannsins við gerð mannvirkja og skipulags þannig að mannvirkin séu í sem eðlilegustu samhengi við náttúruna í kring. Við þannig aðstæður líður manninum best. Eldri nemendur í umhverfis- og lýðheilsunefndinni gerðu skýra grein fyrir niðurstöðum fæðuviðhorfskannanna sem gerðar voru í nóvember sl. og yngri nemendurnir kenndu viðstöddum hvernig fara á að við moltugerð. Að því loknu hleypti skólastjórinn moltuverkefninu formlega af stokkunum. Viðfangsefnið útvíkkað Sigrún segir að á síðasta ári hafi verið ákveðið að útvíkka viðfangsefni umhverfisnefndar skólans og ákveðið að ganga líka í raðir heilsueflandi skóla. Ástæðan var sú að það þótti erfitt að greina á milli efnisflokka grænfánaverkefnisins, þar var m.a. tekið á lýðheilsumálum og því þótti þetta fara afarvel saman, lýðheilsa grænfánaverkefnisins og áherslur heilsueflandi skóla. „Þess vegna var farið í jafnréttis- og kynjafræðsluna, í framhaldi af umræðum um hollan og óhollan mat var gerð fæðuviðhorfskönnun meðal nemenda og foreldra, sín hvor könnunin. Með þeirri könnun var freistast til að fá nemendur til að íhuga og líta í eigin barm hve meðvitaðir þeir væru um hollustu þess sem þeir sæktu í að borða,“ segir hún. Fyrri þing líka fróðleg Fyrri umhverfis- og lýðheilsuþing hafa einnig verið fróðleg að sögn Sigrúnar, en fyrsta árið komu fulltrúar Endurvinnslunnar á Akureyri og fluttu fyrirlestra en fyrsta verkefnið í skólanum á þessum vettvangi var flokkun sorps. Síðar komu fulltrúar frá leikskólanum Pálmholti í heimsókn og fræddu um grænfánaverkefnið sem þar var komið á góðan rekspöl á þeim tíma. Stórutjarnaskóli fékk sinn Grænfána fyrst vorið 2011. Eins má nefna að á fyrri þingum hafa verið flutt erindi um loftslagsbreytingar, jafnréttis- og kynjamál og fjölbreytilegt fugla- og jurtalíf í nágrenni skólans. Auk utanaðkomandi fyrirlesara hafa nemendur verið með fræðslu og kynningar öll árin, m.a. um málefni er varða skólann og nemendur hans. Dropinn holar steininn Sigrún segir að umhverfis- og lýðheilsuþingin í Stjórutjarnaskóla hafi hægt og bítandi haft þau áhrif að nemendur líti á þessa þætti sem fasta í skólastarfinu. „Þeir fá mikla reynslu í að koma fram og standa sjálfir að málum, til skiptis á milli ára. Dropinn holar steininn og smátt og smátt opnast fleiri augu fyrir því að ekki er farsælt fyrir menn og annað líf í okkar heimi að svo margir sitji aðgerðalausir hvað umhverfis- og lýðheilsumál varðar,“ segir Sigrún. „Það er unga fólkið, litla fólkið í skólakerfinu, sem kemur til með að taka við málum af okkur sem eldri erum er fram líða stundir og því tæplega réttlætanlegt að búa ekki eins vel um hnútana og okkur er kostur.“ /MÞÞ Samkeppni um umhverfismál Árlega er boðað til samkeppni um umhverfismál á meðal grunnskólabarna í 5. til 10. bekk. Keppnin kallast Varðliðar umhverfisins og það eru umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landvernd og Náttúruskóli Reykja- víkur sem standa að henni. Á degi umhverfisins 25. apríl 2012 voru nemendur tveggja skóla verðlaunaðir, nemendur í 7. og 8. bekk Stórutjarnaskóla fyrir verkefnið þeirra, Ert þú í rusli? Er rusl úrgangur eða hráefni, en einnig aðrir nemendur skólans og starfsfólk fyrir vinnu þeirra við umhverfisþing skólans undanfarin 3 ár. „Þetta var okkur veruleg hvatning en ekki síður mikið ánægjuefni,“ segir Sigrún Jónsdóttir í Stórutjarnaskóla. Umhverfis- og lýðheilsuþing haldið í Stórutjarnaskóla: Skjótvirkasta leiðin til að endurnýja orku er að fara út í náttúruna Nemendur sungu þrjú lög fyrir áheyrendur og allir tóku hressilega undir í „Vorvindar glaðir“, rétt til að minna á að það styttist í vorið eftir langan vetur. Sigrún Jónsdóttir, formaður Ólafur Arngrímsson skólastjóri liðsinnir nemendum. Nemendur kynna verkefni sitt. Páll Jakob Líndal umhverfis- vel til allra í salnum, en hann lagði út af þörf fólks fyrir að hlaða bat- teríin, safna orku, því orkuna þryti stundum hjá mönnunum rétt eins og hjá farsímunum okkar.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.