Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 42

Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 42
42 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. mars 2013 Lesendabás Skrumskæling lýðræðis er leiðin til glötunar. Að telja fólki trú um að það að setja ,,X“ á blað á fjögurra ára fresti hafi mikið með lýðræði að gera hlýtur að vera einhver mesta blekking sögunnar. Þessi blekkingarleikur elur af sér samþjöppun valds og einhæfni í lagasetningu. Kjörnir fulltrúar tengjast vafasömum skúmaskotum þröngra sérhagsmuna. Hrossakaup og baktjaldamakk er partur af pólitískri tugþraut. Dómarar vel valdir og skipaðir. Embættismannakerfið rótgróinn fléttulisti fjórflokksins. Vinavæðingin þéttr iðin. Ráðningarferli seðlabankastjóra lélegur brandari til áratuga. Forseti Íslands er eini þjóðkjörni fulltrúinn í æðstu valdastöðu. Ráðamenn ræða helst við þjóðina í fjölmiðlum. Umfjöllun fjölmiðla bítur seint og illa. Þar er um að kenna hagsmunatengslum í bland við þekkingar- og tímaskort. Einstaka starfsmenn fjölmiðla virðast hafa einlægan vilja til upplýsingagjafar og eiga hrós skilið fyrir viðleitni, en það ristir sjaldan djúpt og gerir lítið gagn. Umfjöllun fjölmiðla, í undanfara bankahrunsins árið 2008, segir allt sem segja þarf. Mér er til efs að einhver hafi spurt opinberlega ,,hver ber ábyrgð á Icesave ef illa fer?“ svo dæmi sé tekið. Einfaldar spurningar af þessu tagi hefðu mögulega getað sparað íslensku þjóðinni umtalsverða fjármuni og tíma. Fulltrúar þjóðarinnar? Kjörnir fulltrúar ættu að tryggja ríkisbúskapinn en tekst það mjög takmarkað, að mínu mati. Ástæðan er sennilega valdagræðgi, eiginhagsmunapot og skortur á fjármálalæsi. Eitt er þó verra en gjörsamlega gagnslaus snyrtipinni og jafnvel skaðvaldur í sölum Alþingis. Það er illa upplýstur kjósandi, sem kemur honum til valda. Miðað við núverandi lýðræðisfyrirkomulag má líkja þessu við barn, sem kaupir áfengi handa virkum alkóhólista. Ekki fögur mynd. Allt of fáir taka allt of stórar ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar, sem þjóðin er illa upplýst um, skilur lítið í og skiptir sér lítið af. Lýðræði, flokksræði, ráðherraræði, foringjaræði, þingræði, peningaræði og önnur hugtök af svipuðum toga, hafa verið notuð til þess skilgreina grundvöll hins þrískipta valds, sem við búum við. Grunnurinn er hinsvegar skaðræði, sem leynist í núverandi lýðræðisfyrirkomulagi. Birtingarmyndin er fulltrúalýðræði með þingbundinni stjórn. Hversu gagnlegt var það í aðdraganda bankahrunsins? Við verðum að breyta fyrirkomulaginu frá skaðræði til raunverulegs lýðræðis, í besta skilningi þess hugtaks. Ég skora á frambjóðendur, hvar í flokki sem þeir standa, að pólitískt láti þeir hvorki hóta sér né kaupa, heldur standi í lappirnar á grundvelli almannahagsmuna, ásamt því að fullnægja kröfu um fjármálalæsi. Úrbætur Fjármálaöryggi þjóðarinnar á að hámarka en ekki kollvarpa. Kjósendur verða að gera kröfur til frambjóðenda. Það er að hluta kjósendum að kenna, eða þakka, hvernig fer. Hugtökin hægri og vinstri virðast skipta fólk litlu máli, sem reynir frekar að átta sig á hvað snýr upp og hvað snýr niður. Á þessu þarf að skerpa. Stefnu ráðandi afla verða að fylgja skýr skilyrði. Í stjórnsýslunni þarf harðari varnagla. Hér verða að eiga sér stað áþreifanlegar úrbætur, t.d. á fjármálakerfi, hagstjórn, lýðræði, umfjöllun fjölmiðla um stjórnmál og fjármál, auk kennslu í fjármálalæsi á öllum skólastigum. Venjulegir kjósendur og skattgreiðendur geta ekki setið aðgerðalausir. Okkur ber siðferðileg skylda til þess að sinna öflugu aðhaldi og virku eftirliti, ásamt því að krefjast úrbóta og fylgja þeirri kröfu eftir. Orðin tóm eru aum en verkin tala best. Öll verðum við að leggja lóð okkar á vogarskálina, ekki vegna þess sem við fáum, heldur þrátt fyrir að færa fórnir. Í þeirri frómu ósk felst hagur þjóðarinnar, öryggi og styrkur. Pétur Fjeldsted Einarsson Í stjórn Hægri grænna info@peturfjeldsted.is Vegna mistaka féll út hluti texta í þessari grein í síðasta tölublaði Bændablaðsins. Er hún því endurbirt hér í heild sinni og er beðist velvirðingar á mistökunum. Feluleikur lýðræðis Norsk byggðastefna og jöfnun húshitunarkostnaðar Rafmagnskostnaður í dreifbýli og á köldum svæðum er gríðarlega hár sé miðað við önnur svæði. Þetta er mjög óréttlátt í ljósi þess að rafmagn og húshitun á að flokkast sem sjálfsögð grunn- þjónusta. Í Noregi er mjög virk byggðastefna sem m.a. felur í sér að íbúar á dreifbýlum svæðum greiða lægra rafmagns- verð heldur en í stórborgum. Framsóknarflokkurinn hefur lagt til að mótuð verði almenn byggðastefna að norskri fyrir- mynd og höfum við m.a. ítrekað talað fyrir tillögum um fulla jöfn- un raforkuverðs. Þessi stefna var jafnframt staðfest á nýafstöðnu flokksþingi. 20-35% lægra orkuverð á dreifbýlum svæðum í Noregi Norsk byggðastefna byggir á almennum aðgerðum fremur en sértækum. Fyrirkomulag raforkumála er gott dæmi um hvernig almenn byggðastefna í Noregi virkar. Á dreifbýlum svæðum er sérstakt dreifbýlisþak sett á rafmagnskostnað. Heimili á þessum svæðum greiða aldrei hærra verð fyrir raforku en sem nemur ákveðinni krónutölu á ári. Í norður Noregi greiða íbúar að jafnaði um 20% lægra verð fyrir raforku heldur en í suður Noregi. Dreifbýlisþakið lækkar síðan eftir því sem norðar dregur og íbúar Tromsfylkis og Finnmerkur, sem eru nyrstu fylkin í Noregi, búa síðan við dreifbýlisþak sem tryggir þeim að jafnaði 35% lægra raforkuverð. Stjórnvöld í Noregi hafa ákveðið að auka enn frekar við þennan stuðning enda hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að íbúum í norður- Noregi fjölgar á ný eftir mikla fólksfækkun undanfarinna áratuga. RARIK og Orkubú Vestfjarða krafin um arðgreiðslur í ríkissjóð Íslendingar eru ekki komnir jafn langt í byggðajafnrétti og mikinn skilning skortir á málinu. Þetta kom vel fram í fjárlagafrumvarpi ríkis- stjórnarinnar fyrir árið 2013. Með fjárlögum ársins 2013 er RARIK krafið um 310 milljónir og Orkubú Vestfjarða um 60 milljónir í arð- greiðslur til ríkissjóðs. Af þessari upphæð er einungis 175 milljónum veitt til aukningar á niðurgreiðslum til húshitunar á köldum svæðum og er sú tala um þrisvar sinnum lægri en þarf til að jafna húshitunar- kostnað að fullu. Framsókn ítrekað lagt til fulla jöfnun húshitunarkostnaðar Í desember 2011 skilaði starfshópur um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar skýrslu og lagði til breytingar á fyrirkomulagi til niðurgreiðslu húshitunar. Lagt var til að komið yrði á fót sérstökum jöfnunarsjóði sem fjármagnaður yrði með 0,10 kr. skattlagningu á hverja kWst. Fjármagnið yrði síðan notað til að niðurgreiða flutning og dreifingu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis í dreifbýli og á köldum svæðum. Framsókn hefur ítrekað lagt fram á Alþingi tillögu um að koma upp slíkum jöfnunarsjóði. Þessar tillögur hafa ekki hlotið brautargengi en hinsvegar var sérstakur orkuskattur sem var settur á árið 2009 framlengdur nú um áramótin. Upphæð skattsins er 0,12 kr. á hverja kWst af seldri raforku en 2% af smásöluverði á heitu vatni. Ekki skortir vilja til þess að innheimta orkuskatt en hinsvegar virðist skorta pólitískan vilja til að veita fjármununum beint til jöfnun húshitunarkostnaðar. Framsókn mun halda áfram að þrýsta á þetta mál og við höfum ítrekað hvatt til þess að þingmenn vinni saman að því að koma upp slíku jöfnunarkerfi. Norsk byggðastefna á Íslandi? Framsóknarflokkurinn hefur allt þetta kjörtímabil lagt til á Alþingi að fulltrúar ríkisvalds og sveitarfélaga móti í sameiningu stefnu í byggða- málum sem byggir á norskri hugmynda fræði. Landinu verði skipt upp í ákveðin dreifbýlissvæði og á þeim grunni lagðar til almennar byggðajafnréttisaðgerðir. Þessar aðgerðir byggja á því að til dæmis skattar, gjöld á einstaklinga og fyrirtæki, afborgunarbirgði námslána, barnabætur, orku- kostnaður er hagstæðara eftir því sem lengra er komið frá þéttbýlli svæðum. Reynsla Norðmanna sýnir að með bættri umgjörð og almennum byggðaaðgerðum er mögulegt að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem landsbyggðin býður uppá. Almennar byggðaaðgerðir efla ekki einungis dreifbýl svæði landsins heldur fær ríkissjóður og þjóðin öll þetta margfalt til baka í aukinni verðmætasköpun og gjaldeyris- tekjum. Ásmundur Einar Daðason Alþingismaður Framsóknarflokksins Pétur Fjeldsted Einarsson Ásmundur Einar Daðason Nú liggur áburðarverð 2013 fyrir. Ekki dugar að horfa á tonna- verðið eitt, afhendingarskilmálar eru mismunandi og ekki gegnsæir að öllu. En mestu skiptir magn áburðarefna í hverju tonni og þar með verð þeirra. Köfnunarefni (nitur) Allir seljendur bjóða kalkammon undir mismunandi heiti, en það er eingildur N-áburður með 27% N. Mér sýnist líklegast að það sé blanda NH4NO3 (Kjarna) og kalktegunda, ýmist með eða án magnesíum. En hvort sem það er vegna samkeppni eða annars er verð þessarar vöru nánast hið sama hjá öllum seljendum, um 70.000 kr./ tonn, rétt um 260 kr./kg N. Einn seljandi, Búvís, selur óblandaðan Kjarna með 34,4% N. Sá áburður er mun ódýrari, því í honum er verðið 192 kr./kg N. Reikna má kalkverð út frá verðmun Kjarna og kalkammon. Ef N í kalk ammon er verðlagt eins og í Kjarna (192 kr./kg) kostar kalk- íblöndunin 70.000-270*192=18.160 kr./tonn. Kalsíum magnið er nálægt 8% og kostar þá hvert kg af kalsíum 225 krónur. Umreiknað í kalk (sem er með um 40% Ca) eru þetta nálægt 90 krónur/kg kalk. Til samanburðar kostar kornað kalk hjá Skeljungi (aðrir bjóða ekki venjulegt kalk) 36.400 kr./tonn (100 kr./kg Ca) og fínkornað Mg-kalk frá Yara er á liðlega 30.000. Fosfór Til að reikna fosfórverð verður að skoða tvígildar NP-blöndur og reikna með sama N-verði og kalkammon. Niðurstaðan er allbreytileg, en yfirleitt á bilinu 3-400 kr kg/P. Hér þarf þó að slá varnagla, því önnur efni (Ca, Mg og S) koma við sögu í mismiklu magni. Kalí Kalíverð má nálgast, með mörgum fyrirvörum þó, með því að gefa sér verð á N og P. Hér er reiknað með 260 kg kg/N og 350 kr kg/P. Þá eru aðeins teknar tegundirnar Fjölgræðir 6 (22-11-11), Sprettur 20-10-10, Völlur 20-0-10 og NPK 21-4-10. Í þeim öllum er S og sumum einnig Ca og Mg en ekkert tillit er tekið til þessa.. Verðið, svona reiknað er breytilegt frá 144-227 kr./kg K. Önnur efni Allir áburðarsalar bjóða hliðstæðan áburð með eða án brennisteins (S), en magn annarra aukaefna er mis- munandi. Verðmunur á tonni er 1.700-1.900 krónur að óbreyttu magni meginefna, en í einni tegund er N aðeins lægra og að teknu tilliti til þess er verðmunur 3.700 kr/tonn. Gróft sagt má ætla að S-blöndun í áburð kosti um 1.800 krónur/tonn. Skeljungur og Yara bjóða áburð með seleni (Se), og Skeljungur hefur að auki sérmeðhöndlaðan fosfór (Avail) í sömu blöndum. Ekki er hægt reikna verð á seleni hjá Yara vegna munar á öðrum efnum. Verðmunur á blöndum Skeljungs, þar sem aðeins munar í seleni er tæpar 2.000 krónur/ tonn, en í tveim samanburðum þar sem bæði munar í seleni og Avail- fosfórs er verðmunur 2.100 og 4.800 kr./tonn. Selenbæting kostar þannig um 2.000/tonn. Hafa verður fyrirvara á þessum útreikningum þar sem munur getur verið á aukaefnum. Verðið er lægsta verð í auglýsingu í Bændablaðinu 21. febrúar. Flutningskostnaði er haldið utan við. Þá geta verið skekkjur vegna upphækkunar í efnamagni. Loks er ekkert tillit tekið til eðlis- eða efnafræðilegra eiginleika áburðarins. Ríkharð Brynjólfsson Hvað kosta áburðarefnin 2013?

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.