Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 38

Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. mars 2013 Aldrei hærra hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónum – íslenska heimsmetið bætt 2012 og ekkert annað land í heiminum kemst nálægt Íslandi í hlutfalli mjólkur frá mjaltaþjónabúum Nú liggur fyrir uppgjör ársins 2012 um mjólkurframleiðslu kúabúa með mjaltaþjóna. Alls voru um áramótin 105 kúabú með mjaltaþjóna en árið 2011 voru þau 101 og er það aukning um 4% á milli ára. Þrátt fyrir að kúabúum með mjaltaþjóna hafi fjölgað um 4 fjölgaði mjaltaþjónum á landinu ekki nema um 3, úr 120 í 123. Skýringin felst m.a. í því að endur- sala varð á notuðum mjaltaþjónum á árinu auk þess sem til voru mun fleiri mjaltaþjónar um áramótin, en þeir voru ekki í notkun eða ótengdir og teljast því ekki með í þessu upp- gjöri. Á árinu bættust ekki við nýjar tegundir mjaltaþjóna á Íslandi og enn sem komið er eru einungis Lely- og DeLaval-mjaltaþjónar í notkun hér á landi. Bættu heimsmetið Árið 2011 settu íslensk kúabú heimsmet þegar hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum nam alls 28,2% af heildarinnvigtun til afurðastöðva á landinu öllu. Það ár nam innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum 35,2 milljónum lítra en árið 2012 jókst þetta magn í 37,2 milljónir lítra og hlutfall þeirrar mjólkur af heildarinnvigtun nam 29,7%, sem er nýtt heimsmet. Ekkert annað land í heiminum kemst nálægt Íslandi á þessu sviði, en næst á eftir eru dönsk kúabú með um 26-27% mjólkurinnar frá mjaltaþjónabúum. Rúmlega 300 þúsund lítrar Að jafnaði er hvert bú að leggja inn 302.077 lítra frá hverjum mjaltaþjóni en mikill munur er þó á milli búa. Þannig nam mesta innvigtunin 444.757 lítrum frá hverjum mjaltaþjóni og minnst var hún 117.755 lítrar. Samanborið við fyrra ár nemur meðalaukningin 3,1% á hvern mjaltaþjón en hámarksinnvigtunin árið 2012 var þó töluvert lægri en mesta innvigtun árið 2011, þegar hún fór í 470 þúsund lítra. Ef horft er til hámarksframleiðslugetu (miðað við innlagða mjólk) árið 2012 mætti auka framleiðslu mjaltaþjóna búanna í 54,7 milljónir lítra án a.m.k. nýfjárfestinga í mjaltatækninni sem slíkri, en auðvitað þyrftu aðrar aðstæður einnig að vera til staðar. Sé horft út fyrir landsins steina og rýnt í innvigtunartölur afurðahæstu búanna með mjaltaþjóna er algengt að meðalinnvigtun sé í kringum 650- 700 þúsund lítrar og allt upp í eina milljón lítra, sem þó er afar sjaldséð framleiðslugeta. Þess má geta að alls voru 10 kúabú hér á landi með meira en 400 þúsund lítra innlagða eftir hvern mjaltaþjón árið 2012. 91% nýtingarhlutfall Þegar skoðaðar eru niðurstöður skýrsluhalds Bændasamtakanna og þær bornar við skráningar búa með mjaltaþjóna kemur í ljós að af þessum 105 búum taka 98 þátt í skýrsluhaldinu, eða 93%. Meðalnýtingarhlutfall þessara búa, þ.e. innvegið mjólkurmagn miðað við reiknaða skýrsluhaldsnyt, er 91,0% sem er lækkun frá árinu 2011 þegar hlutfallið var 92,8%. Erfitt er að skýra þennan mun á milli ára en ætla má að frávik frá reiknaðri skýrsluhaldsnyt og svo innvigtun mjólkur felist í heimanotum og heimavinnslu. Ekki er þó útilokað að í einhverjum tilfellum séu mælingar ekki réttar en erlendis er miðað við að skoða sérstaklega þau tilfelli þegar veruleg frávik verða frá innvigtun miðað við reiknaða framleiðslu. Taka má sem dæmi að sé nýtingarhlutfallið undir 85% þá svarar það til 45.300 lítra á hvern mjaltaþjón árið 2012, eða sem nemur um 125 lítra heimanotum á dag allt árið um kring. Árið 2012 voru alls 9 bú af þessum 105 með reiknaða nýtingu undir 85% og þar af voru 6 þeirra með nýtingarhlutfall undir 80%. Skoða þarf sérstaklega hvað kann að skýra þennan mikla mun en vera má að ofmæld nyt kúa felist hreinlega í biluðum mjólkurmælum eða að tilfellið sé einfaldlega að heimanotin séu óvenju mikil. 14 bú yfir 98% nýtingarhlutfalli Á hinn bóginn eru óvenju mörg kúabú sem virðast leggja inn nánast alla þá mjólk sem skýrsluhaldið segir að þau framleiði. Oft er miðað við að fari nýtingarhlutfallið yfir 98% af skýrsluhaldsnyt megi finna skýringu á því s.s. vegna þess að mjólkurmælar dragi úr nyt kúnna og mæli ekki rétt. Erlendis er afar óalgengt að nýtingarhlutfall fari mikið yfir 96% en eðlilega hækkar nýtingarhlutfallið eitthvað eftir því sem búin stækka, þar sem mjólk sem fer í „annað“ en tankinn verður hlutfallslega minni. Árið 2012 voru 14 búanna með nýtingarhlutfallið yfir 98%, sem gera að meðaltali heimanot upp á 17 lítra á dag miðað við meðalframleiðsluna og er þá allt talið. Vissulega er ekki hægt að útiloka jafn lítil not eða niðurhellingu mjólkur, en þegar þetta hlutfall fer yfir 100% er ljóst að nytmælingin er ekki rétt. Þetta er einmitt tilfellið fyrir 9 af þessum 105 búum. Hér þarf að skoða sérstaklega hvað kann að skýra þetta vanmat á meðalafurðum búanna. 26,4% kúa landsins Svo unnt sé að áætla heildar árskúafjölda allra mjaltaþjónabúa var við þetta uppgjör nauðsynlegt að setja inn áætlun um fjölda kúa á þau bú sem ekki taka þátt í skýrsluhaldi. Var það gert út frá upplýsingum um heildarinnvigtun búanna í afurðastöð og svo reiknað meðalnýtingarhlutfall allra búa á þessi umræddu bú. Svo var miðað við að þau væru öll með „meðalkýr“ annarra mjaltaþjónabúa. Með þessum hætti var hægt að ætla heildarfjölda árskúa í mjaltaþjónum árið 2012, en ætla má að fjöldi þeirra hafi verið 6.785. Sé miðað við að árskúafjöldinn á Íslandi sé áþekkur því sem hann var árið 2011, þ.e. 25.700 kýr (nýrri upplýsingar ekki aðgengilegar enn) er hlutfall kúa í mjaltaþjónafjósum 26,4% og meðalfjöldi á hverju búi 64,6 árskýr. Þar sem að jafnaði eru 1,17 mjaltaþjónar á hverju búi er því fjöldi kúa á hvern mjaltaþjón 55,2, sem er mjög svipaður fjöldi og þekkist erlendis. Mjaltaþjónabú með hærri nyt Eins og vænta má er meðalnyt kúabúa með mjaltaþjóna nokkuð hærri en annarra búa, en skýringin felst m.a. í tíðari mjöltum. Samkvæmt skýrsluhaldinu var meðalnytin árið 2012 á landinu öllu 5.606 kg en þegar búið er að taka skýrsluhaldsafurðir mjaltaþjónabúanna frá öðrum búum er meðalnyt þeirra 5.444 en meðalnyt mjaltaþjónabúanna 6.020 kg. Munar þarna 10,6%, sem er nokkuð meira en búast mætti við, en skýra má afurðamun upp á 6-7,5% með tíðari mjöltum. Nytmunurinn umfram það felst í öðrum þáttum, s.s. bústjórn. Snorri Sigurðsson Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku Samantekt þessi byggir á upplýsingum frá: Fóðurblöndunni, VB landbúnaði, Bændasamtökum Íslands, Landssambandi kúabænda, Auðhumlu, Mjólkurafurðastöð KS, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Matvælastofnun. Kúabúskapur Kýr eru fl jótar að tileinka sér tæknina og kunna greinilega vel að meta sjálfvirku mjaltaþjónana eða róbotana eins og sumir vilja kalla þá.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.