Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 25

Bændablaðið - 07.03.2013, Blaðsíða 25
25Bændablaðið | Fimmtudagur 7. mars 2013 BÚNAÐARÞING 2013 Framleiðum Vélboða mykjudreifara í mörgum stærðum Vélboði ehf. Hafnarfirði. Sími. 565-1800 Heimasíða. www.velbodi.is Búnaðarþing 2013 var sett við hátíðlega athöfn í Súlnasal Hótels Sögu á sunnudaginn var. Að þessu sinni voru einkunnarorð þingsins „Bændur segja allt gott“. Fjöldi manns mætti til athafnarinnar, sem þótti lífleg og skemmtileg og gefa góð fyrirheit um kraftinn sem býr í íslenskum landbúnaði. Í setningarræðu sinni lagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, út af einkunnarorðum þingsins. „Við [bændur] höfum fjölgað störfum á undanförnum árum. Við höfum byggt nýjar búgreinar, hafið nýja vinnslu. Landbúnaðurinn og nátengd fyrirtæki hans skapa 12.000 manns atvinnu. Við erum fulltrúar atvinnugreinar sem árið 2011 framleiddi verðmæti fyrir um 150 milljónir hvern einasta dag. Við vinnum þjóð okkar verðmæti fyrir rúma 50 milljarða á ári sem aftur var margfaldað með vinnu fjölmargra fyrirtækja – fólksins sem vinnur við að breyta framleiðslu bænda í markaðsvörur. Við eigum og rekum fyrirtæki sem kappkosta að bjóða fjölbreytt úrval innlendra búvara. Við framleiðum útflutningsvörur fyrir 11 milljarða á ári. Samt erum við fyrst og fremst að sinna innlendum markaði,“ sagði Haraldur og bætti við: „Algengasta spurning til bænda er þessi: „Hvað segja bændur?“ Bændur segja allt gott.“ Haraldur kom víða við í ræðu sinni og gerði erfið rekstarskilyrði í landbúnaði meðal annars að umtalsefni. „Við lokum hins vegar ekki augunum fyrir erfiðum og versnandi rekstrarskilyrðum búa okkar, sem koma svo glöggt fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Framleiðsluverðmæti búvöru á grunnverði hefur hækkað um 49% frá 2007 til 2011. En verð á aðföngum til sömu framleiðslu hefur hækkað um 60% á sama tíma. Þá eru ekki einu sinni taldar með þær gífurlegu hækkanir á fjármagnskostnaði sem urðu á tímabilinu. Mismuninn hafa bændur sótt í eigin vasa, með því að ganga á eigin laun og fresta endurnýjun og viðhaldi. En við þurfum að sækja fram. Sækja ótrauð fram og minna á að við verðum að hugsa til langs tíma og byggja á traustum grunni. En meginspurningin er hvernig og hvaða stöðu ætla íslenskir bændur að taka sér í breyttum heimi? Veröldin hefur breyst. Matvælaverð í heiminum hefur rúmlega tvöfaldast á áratug. Kemur það ekki okkur við?“ Ráðherra boðar breytingar á jarðalögum Að lokinni ræðu Haraldar ávarpaði Steingrímur J. Sigfús son, atvinnuvega- og nýsköpunar ráðherra, búnaðarþing. Greindi hann m.a. frá því að nefnd sem skipuð var til að leggja mat á ýmsa þætti jarðalaga hefði skilað niðurstöðu sem kynnt hefði verið í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag. „Þeirri nefnd fól ég að skoða og leggja mat á nokkra þætti sem ofar lega eru í umræðunni. Má þar nefna hvort rétt sé að skýra frekar orðið lögbýli – hvort það á að vera notað nema þar sem jörðin er á skilgreindu landbúnaðarlandi og með fastri ábúð. Nú er það staðreyndin að fjöldi jarða á landbúnaðarlandi er í raun í eyði eins og það orð hefur verið túlkað – engin búseta og engin ljós í gluggum. Enn má nefna, og það ekki minnsta atriðið, að ásókn hefur verið í að skipta góðum bújörðum upp í fjölda smærri eininga með sumarbústaðadvöl í huga eða fasta ábúð nýrra íbúa í viðkomandi sveitarfélagi. Og er þá nema von að spurningar vakni sem rétt er að velta fyrir sér; Á að banna sveitarfélagi að leysa úr landbúnaðarnotum e.t.v. bestu bújarðirnar en fá í staðinn fleira fólk og nýja skattgreiðendur? Eða á að leyfa hiklaust að leysa slíkar jarðir úr landbúnaðarnotum þannig að í framtíðinni verði besta landbúnaðarlandið horfið og búskapur stundaður við lakari skilyrði annars staðar? Ábyrgð okkar í þessum efnum er mikil, fæðuöryggi þjóða er alls staðar á leið upp forgangslistann í heiminum, leikreglur sjálfbærrar þróunar kalla á að sjálfbærni sé efld jafnt staðbundið sem á lands-, og heimsvísu. Matvæla framleiðsluþörfin kallar á hið sama, sem og þörfin fyrir að lágmarka vistspor mannsins. Þessar spurningar eru fjarri því einfaldar en ég held að meðvitundarleysi og óbreytt ástand sé ekki valkostur. Eða eins og sagði í frægri auglýsingu – ekki gera ekki neitt,“ sagði Steingrímur í ræðu sinni og bætti því við að hann hefði óskað eftir því að niðurstöður nefndarinnar yrðu lagðar fyrir búnaðarþing til umræðu. /fr Bændur segja allt gott Haraldur Benediktsson í ræðustóli við setningu Búnaðarþings 2013. Myndir / HKr. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Erlendir gestir á Búnaðarþingi ásamt forseta Íslands. Talið frá vinstri: Lars Nielsen frá Grænlandi, Jens Ring frá Danmörku, Bjørn Gimming frá Noregi og Ólafur Ragnar Grímsson forseti.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.