Bændablaðið - 14.11.2013, Síða 24

Bændablaðið - 14.11.2013, Síða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. nóvember 2013 Bændafundir Bændasamtakanna haldnir víða um land: Verðugt markmið að skilgreina matarhandverk Á bændafundi Bændasamtakanna 19. nóvember næstkomandi sem haldinn verður í Ásgarði í Kjós mun Óli Þór Hilmarsson, sérfræðingur hjá Matís, fjalla um heimavinnslu matvæla. Á síðari árum hefur orðið umtalsverð aukning á heimavinnslu afurða til sölu beint frá býli. Um 90 býli um allt land eru til að mynda þátttakendur í félagsskapnum Beint frá býli sem er félag heimavinnsluaðila. Óli Þór segir að heimavinnsla matvæla sé þekkt fyrirbæri um allan heim. „Heimavinnsla er stunduð á hverjum degi á langflestum heimilum í formi matseldar fyrir heimilisfólkið. Hvað matvælin eru mikið unnin á heimilinu er oftast í samræmi við þann tíma sem viðkomandi hefur til matargerðarinnar. Það er hins vegar ekki það sem átt er við í þessu samhengi heldur heimavinnsla matvæla til sölu eða dreifingar.“ – Er orðið of stutt á milli matar- handverks og iðnaðarframleiðslu? Óli Þór nefnir að það hafi færst í vöxt undanfarin ár að ýmsir aðilar stundi smáframleiðslu á matvælum til sölu og sé það ekki einskorðað við bændur. „Félagsskapurinn Beint frá býli er í hugum margra eitt og hið sama og sú heimavinnsla matvæla sem ætluð er í sölu. En nú hafa fleiri en þeir sem búa á býli bæst í þennan hóp t.d. er þekkt að trillukarlar verki makríl og húsmæður og -feður í bæ og borg sjóði sultu og baki brauð. Þetta fólk verður sér síðan úti um starfsleyfi yfirvalda og selur og dreifir vörum sínum. Aðilar utan samtakana Beint frá býli hafa verið kallaðir smáframleiðendur eða frumkvöðlar í matvælavinnslu eða jafnvel sprotar. Skilgreiningar á öllum þessum smáframleiðendum eru oft ekki ljósar. Hver er til dæmis munur á brauði beint frá býli eða næsta bakaríi? Eða þá sultu úr sveitinni á móti þeirri sem fæst í Bónus? Oft er munurinn ekki annar en að varan er framleidd í smáum stíl en ekki verksmiðju. Hráefnin eru svipuð og rotvarnarefnin líka, oft er listi E-númera jafn langur á heimaunnu vörunni og þeirri úr verksmiðjunni.“ Að mati Óla Þórs er full ástæða til að velta fyrir sér þessum mun og hvort hætta sé á að sérstaða smáframleiðslunnar þynnist út. „Er þá munurinn ekki orðinn full lítill á milli heimaunninnar vöru og þeirrar sem unnin er í stórum stíl? Er hugsanlegt að áhugi markaðar- ins minnki um leið og nýjabrumið hverfur og hvað er þá til ráða? Svíar byggja orðið á langri hefð heima- vinnslu matvæla og þar hafa hlutir þróast í þá átt að aðgreining heima- vinnslunnar og verksmiðjufram- leiðslu er sífellt að verða meiri. Í dag er talað um matarhandverk sem mótvægi við iðnaðarframleiðslu. Slíkt matar handverk gengur meðal annars út á að nota nota heimafengið hráefni eins og frekast er kostur. Þá á helst ekki að nota nein rotvarnarefni þar sem því verður við komið og ekki heldur bindiefni sem hafi þann eina tilgang að binda vatn í vöru til að gera hana ódýrari. Litið er á það sem eðlilegan hlut að vara geti verið frá- brugðin frá einni framleiðslulotu til annarrar og því eigi ekki að nota tæknileg hjálparefni til að gera fram- leiðsluna einsleita heldur byggja á handverki sem slíku.“ Styðjast ætti við grunnhugmyndir Til að skilgreina heimavinnslu eða matarhandverk leggur Óli Þór því til að fólk styðjist við ákveðnar grunnhugmyndir. „Í sinni einföldu mynd má þá segja að matarhandverks matvæli séu unnin í höndum, úr hreinu hráefni úr nágrenninu, oft og iðulega byggt á gömlum hefðum en ekki unnin í sjálfvirkum vélum með öllum mögu- legum rotvarnarefnum, bragðaukandi efnum og þeim tæknilegu hjálpar- efnum sem tryggja eiga að varan sé alltaf eins bæði í áferð, lit og undir tönn. Það væri verðugt markmið hjá öllum þeim sem vilja vinna og selja matvæli í smáum stíl.“ /fr Fjárfestinga þörf til upp- byggingar í landbúnaði Bernhard Bernhardsson, útibús- stjóri Arion banka í Borgarnesi, mun á komandi bændafundum fara yfir fjárfestingar í landbúnaði, lánakjör og annað sem tengist uppbyggingu og fjármálum. Efnið hlýtur að vera bændum mjög hugleikið enda víðast hvar þörf á fjárfestingum, hvort sem um er að ræða uppbyggingu fasteigna eða lán vegna vélakaupa, kvóta eða annarrar uppbyggingar. Á fundunum hyggst Bernhard fara yfir helstu atriði sem að þessu lúta. „Ég hyggst fjalla um hvernig það er þegar bændur sækja um lán og hvernig það fer fram þegar bankinn metur slíkar umsóknir. Það getur átt við þegar bændur ætla að kaupa kvóta eða fara í framkvæmdir. Um þetta hyggst ég fjalla og hugsanlega taka dæmisögu um það hvernig slíkt færi fram, til dæmis um lán til kvótakaupa. Ég hyggst því fara yfir málsmeðferðina og hvert framboðið er á leiðum sem hægt er að fara í þessum efnum. Það getur verið talsverður blæbrigðamunur á því hvaða leiðir þarf að fara. Við sem erum lykilmenn í hverjum landshluta hvað varðar landbúnaðarmál teljum okkur hafa talsvert yfirgripsmikla og góða þekkingu á landbúnaði almennt og eins á okkar svæðum. Við skiljum vel hvað stendur að baki hjá hverjum bónda og setjum okkur inn í stöðu mála hjá hverjum og einum. Við gerum ekki mun á milli aðila heldur metum greiðslugetu í hvert og eitt skipti og tökum ákvarðanir út frá því. Það er allt metið út frá rekstrartölum og uppgjöri og við reynum að leggja okkur af fremsta megni fram um að útskýra hvað liggur að baki ákvörðunum hjá okkur.“ Ákvarðanataka færð til útibúanna – Stundum er talað um það, einkum nú eftir hrun, að meira sé um miðlægar ákvarðanir innan banka stofnananna og þekking á landbúnaði sem hafi verið hvað mest í útibúunum úti um land sé ekki nýtt eins og vera skyldi. Getur þú tekið undir þetta? „Ég get ekki svarað fyrir aðrar fjármálastofnanir en þessu er í raun þveröfugt farið hjá Arion banka. Það er erfitt að finna þann bónda sem ekki getur fengið þá fyrirgreiðslu sem hann þarf á að halda í sínu útibúi. Við höfum komið á svæða- fyrirkomulagi þar sem búið er að færa ákvarðanatökuna út á mörkina og höfuðstöðvarnar eru í raun lítið sem ekkert með puttana í lánum til landbúnaðarins í bankanum. Hjá Arion banka varð mönnum ljóst að þekkingin í landbúnaði lá í útibú- unum og því var þessi ákvörðun tekin. Ég til að mynda er sjálfur með landbúnaðarmenntun og hjá mér hér í Borgarnesi er ég með mann sem hefur mikla þekkingu á málaflokknum eftir að hafa unnið hjá Hagþjónustu landbúnaðarins. Þetta á líka við um önnur svæði; á Suðurlandi er til að mynda yfir þess- um málum fyrrverandi ráðunautur. Það sem hefur breyst í Arion banka frá því fyrir hrun er það að við í framlínunni höfum nú umboð til að þjónusta bændur án þess að leita til höfuðstöðva. Ef ég ætti að nefna eitthvað sem hefur gengið sérstaklega vel hjá bankanum myndi ég nefna samskipti við bændur, enda höfum við verið að fá til okkar viðskiptavini úr bændastétt.“ Bændur almennt góðir rekstrarmenn Bernhard segist telja að miklir möguleikar séu fyrir hendi í landbúnaði. „Ef sama mynstur verður í til dæmis uppbyggingu í mjólkurframleiðslu, líkt og verið hefur síðustu ár og áratugi, verður mikillar fjárfestingar þörf á næstu árum. Enn er mikið af gömlum byggingum í notkun svo dæmi sé tekið og því líklegt að þörf sé á talsverðu viðhaldi, breytingum eða nýbyggingum. Ég held því að það sé heilmikil uppbygging fram undan.“ Að mati Bernhards eru þeir bændur sem staðið hafa í uppbyggingu og fjárfestingum almennt góðir rekstrar- menn. „Mér finnst þeir almennt vel upplýstir og vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Arion banki er því alls ekki smeykur við að lána til framkvæmda bænda, með öllum eðlilegum forsendum auðvitað.“ /fr Nýliðun snýst um pólitíska stefnu Helgi Haukur Hauksson, stjórnar- maður í Landssamtökum sauðfjár- bænda og fyrrverandi formaður Samtaka ungra bænda, hyggst á bændafundum fjalla um nýliðun í landbúnaði, efni sem hefur verið til umræðu innan bændastéttar jafn lengi og félagsmál almennt. Með stækkandi búum og sí auknum áhuga ungs fólks á búskap, sem birtist ekki síst í mikilli ásókn í nám í bændadeild á Hvanneyri, er þessi spurning æ meira knýjandi. Helgi hyggst reyna að nálgast málið á eins röklegan hátt og tök eru á. „Það sem ég ætla að reyna að gera á þessum fundum er að draga fram einhver gögn sem við eigum til haldbær um nýliðun í landbúnaði. Þá á ég við rannsóknir sem gerðar hafa verið og gögn sem hefur verið safnað og reyna með því að varpa einhverju ljósi á nýliðun út frá rökum, en ekki pólitík eða tilfinningum.“ Nýliðun mismunandi Ýmis gögn eru til hvað varðar þennan þátt landbúnaðar. „Þetta eru ýmsar upplýsingar frá opinberum aðilum, hagtölur landbúnaðarins, skýrslur og verkefni sem unnin hafa verið við háskólastofnanir. Ég ætla ekki að halda því fram að hægt sé að fá einhverjar beinar niðurstöður en það er hægt að draga ályktanir út frá þessu efni sem svo er hægt að byggja á“, segir Helgi. Ekki er auðvelt að draga neina eina línu í þessum efnum að mati Helga. „Nýliðun í landbúnaði er mis- munandi milli svæða og einnig í einhverjum mæli milli búgreina. Þessir tveir þættir skarast vitan lega einnig. Það er svo erfitt að meta ástæður þess að þessu sé mismunandi farið en það er hægt að gera tilraun til þess þó. Við vitum að það eru ákveðnar aðgangshindranir þegar kemur að nýliðun í íslenskum landbúnaði. Við vitum líka að okkar kerfi er alls ekki algalið miðað við það sem gengur og gerist erlendis. Á þessu eru sem sagt bæði kostir og gallar. Jarða verð hér á landi er vissulega til dæmis hátt en víða erlendis er það mun hærra. Við þurfum hins vegar fyrst og fremst að taka ákvörðun um hvaða pólitík við ætlum að reka varðandi þennan þátt land búnaðar hérlendis, nýliðun. Það er það sem bændur þurfa að velta upp.“ Búseta í sveitum líka undir Eitt af því sem Helgi vill velta upp er sú spurning hvort nýliðunar sé þörf til að endurnýja og þar með viðhalda bændastétt eða hvort þörf sé á fjölgun í stéttinni. „Þetta er pólitísk spurning. Við sjáum að það er hægt að hagræða talsvert mikið í búrekstri almennt með því að fækka búum og stækka þau. Ef sú stefna yrði tekin þyrfti hugsanlega ekki að hafa jafn miklar áhyggjur af nýliðun í greininni hvað fjölda varðar en að sama skapi yrði fjárfestingin sem nýir bændur yrðu að leggja í enn meiri og hugsanlega hamlandi að því leytinu. Á sama tíma þyrfti að spyrja þeirrar spurningar hvernig haga eigi búsetu í sveitum landsins.“ /fr Óli Þór Hilmarsson Bernhard Bernhardsson Helgi Haukur Hauksson Borgarfjörður eystri, Staðarfjall í baksýn. Mynd / HKr.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.