Bændablaðið - 14.11.2013, Síða 29

Bændablaðið - 14.11.2013, Síða 29
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. nóvember 2013 „Framtíð hestamanna á Akureyri er björt. Æskulýðsstarfið á þó undir högg að sækja því sportið er dýrt en við höfum ýmsar hug myndir um að auka nýliðun í greininni og erum bjartsýn. Keppnis hóparnir okkar eru gríðar lega sterkir og hafa sýnt það undan farið að við erum í hópi þeirra bestu á landinu,“ segir Andrea Margrét Þorvaldsdóttir, formaður Hestamanna félagsins Léttis á Akureyri, en félagið fagnaði fyrr í þessum mánuði 85 ára afmæli sínu, var stofnað 5. nóvember árið 1928. Félagsmenn voru þá 15 talsins en eru nú 455. Nefndi Andrea að Léttir ætti nú Íslandsmeistara í fjórgangi í barnaflokki og félagið hefði átt glæsilega fulltrúa á Fjórðungsmóti hestamanna sem haldið var á Hornafirði á liðnu sumri, þar sem Léttisfélagar röðuðu sér í verðlaunasæti. Höfum komist langt Tilgangur með stofnun félagsins fyrir 85 árum var að stuðla að rétti og góðri meðferð á hestum, efla áhuga og þekkingu á ágæti þeirra, greiða fyrir því að félagsmenn gætu haldið hross og að bæta reiðvegi á Akureyri og í nágrenni. „Við höfum komist langt á þeim 85 ár sem liðin eru frá því að félagið var stofnað,“ segir Andrea. Starfsemi félagsins lá að mestu niðri á árunum 1930 til 1942 vegna kreppu en Jón Geirsson læknir hafði svo forgöngu um að endurreisa félagið í maí árið 1942 og hefur síðan verið unnið sleitulaust við að byggja upp hestamennsku á Akureyri. Reiðleiðir hafa verið lagðar, hesthús byggð, keppnisvellir sömuleiðis og unnið að ýmsu félags- og velferðarstarfi. Fyrsti skeiðvöllur félagsins var byggður árið 1942 í svonefndum Stekkjarhólma á vesturbakka Eyjafjarðarár. Léttir gekk til liðs við Landssamband hestamanna árið 1950 og tóku félagsmenn þátt í landsmóti á Þingvöllum það ár. Efnt var til hópferðar, sem líklega er sú fjölmennasta sem farin hefur verið á vegum félagsins, en þátttakendur voru 27 talsins með alls 118 hesta. Hafa Léttismenn takið þátt í öllum landsmótum sem síðan hafa verið haldin og yfirleitt með góðum árangri. Aðstaða á keppnissvæði Léttis eins og best verður á kosið Léttir og hestamannafélagið Funi í Eyjafjarðarsveit sameinuðust um að byggja upp veglegt keppnissvæði á Melgerðismelum og þar var haldið Landsmót árið 1998 og einnig tvö fjórðungsmót. Andrea segir að síðan hafi lítið gerst hvað uppbyggingu varðar þar og Léttir sé svo gott sem kominn út úr eignarhaldi á Melgerðismelum en ráði þó enn yfir hluta svæðisins þar sem ætlunin sé að koma á aukinni fjölskylduhestamennsku. Keppnissvæði félagsins er nú við Hlíðarholt og er aðstaða eins og best verður á kosið. Þar er bæði gæðinga- og íþróttakeppnisvöllur ásamt kynbótavelli og kappreiðabraut auk þess sem þar er stærsta reiðhöll landsins. „Við höldum fjölmörg mót á hverju ár, ísmót, innanhússmót, gæðingakeppni og íþróttakeppnir á útivelli. Þá höldum við líka skeiðkappreiðar og á liðnu sumri héldum við Íslandsmót barna og unglinga sem tókst mjög vel, enda er svæðið einstaklega vel fallið til að halda slík mót.“ Miklar framfarir með tilkomu reiðhallar Bygging reiðhallar hófst haustið 2006 og var hún formlega tekin í notkun vorið 2009. Með tilkomu hennar rættist 20 ára gamall draumur hestamanna á Akureyri og óhætt að segja að öllu starfi félagsins hafi fleygt mjög fram í kjölfarið, bæði æskulýðsstarf sem og reiðmennsku almennt. „Við stöndum nú jafnfætist þeim bestu í landinu,“ segir Andrea. Akureyrarbær hefur ávallt stutt dyggilega við bakið á hestamönnum í bænum, m.a. við gerð reiðstíga sem og við byggingu reiðhallar. „Stefna okkar og von er sú að allir útivistarhópar í bænum sameinist og búi til eitt stórt útivistarsvæði í og umhverfis bæinn. Þar gætum við öll unað í sátt og samhljómi, það er óþarfi að búa til stíga fyrir hvern hóp fyrir sig, við getum sem best notað sömu stígana,“ segir Andrea. /MÞÞ Hestamannafélagið Léttir á Akureyri 85 ára Baldvin Ari Guðlaugsson hefur um árin sópað til sín fjölda verðlauna. Hér er hann með öll gullin sín. Heiðurshjónin Sigrún Aðalsteinsdóttir og Haraldur Höskuldsson fengu silfur merki Léttis fyrir vel unnin störf. Svipmyndir frá upphafs árum Léttis. Hestamannafélagið Léttir á Akureyri afhjúpaði á dögunum minnisvarða um Georg Schrader í tilefni 85 ára afmælis félagsins. Minnisvarðinn er við Hótel KEA, þar sem húsið Caroline Rest stóð á sínum tíma. Athöfnin fór fram á afmælisdegi Léttis, en félagið var stofnað hinn 5. nóvember árið 1928. Schrader byggði hesthús og gistiheimili á staðnum fyrir hundrað árum, árið 1913 og nefndi það eftir móður sinni, Caroline Rest. Í húsinu var hægt að hýsa 130 hesta og gistiaðstaðan rúmaði 30 manns. Það var Aldís Björnsdóttir heiðursfélagi Léttis, sem afhjúpaði minnisvarðann. Sjálf kom Aldís á yngri árum inn í hesthúsið og man hvernig þar var umhorfs. Halda merkilegri sögu lifandi Sigfús Ólafur Helgason, fyrrverandi formaður Léttis, flutti ávarp við afhjúpun minnisvarðans og sagði Léttismenn vera stolta yfir því að hafa haft um það forgöngu að setja upp minnismerki um þann mikla mann- og hestavin sem Georg Schrader hefði verið. Með því að setja merkið upp héldu þeir merkilegri sögu lifandi. Minnisvarðinn væri afmælisgjöf hestamanna, veitt með því markmiði að varðveita söguna fyrir komandi kynslóðir. Að hesturinn þyrfti ekki að húka undir vegg George Herman Ferdinand Schrader var þýskættaður Bandaríkjamaður sem kom til Akureyrar á fyrri hluta síðustu aldar. Reisti hann greiðasölu og gistiheimili í bænum, bæði fyrir menn og hesta, en hugmyndin með hinu myndarlega hesthúsi sem rúmaði 130 hross var að útbúa athvarf fyrir bændur úr nágrannahéruðum sem erindi áttu í kaupstaðinn. „Og ekki síður var hugsun Schraders að hesturinn, þessi litli ferfætti þarfasti þjónn þess tíma, skyldi ekki þurfa að húka undir vegg, jafnvel svitablautur í hvaða veðrum sem var, á meðan á viðskiptunum stóð, hesturinn skyldi eignast líka sitt hvíldarheimili,“ sagði Sigfús í ávarpi sínu. /MÞÞ Léttismenn afhjúpa minnisvarða um Georg Schrader: Reisti fyrir 100 árum hesthús sem rúmaði 130 hross Aldís Björnsdóttir, heiðursfélagi Léttis, afhjúpar minnisvarðann. Sigfús Ólafur Helgason í einkennis- búningi Léttis og Hólmgeir Valdimarsson fylgjast með, en þeir tveir höfðu forgöngu um að reisa minnisvarðann.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.