Bændablaðið - 14.11.2013, Qupperneq 31
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. nóvember 2013
Æðarræktarfélag Íslands og
Samtök selabænda héldu aðalfundi
sína á Hótel Sögu 9. nóvember. Að
hluta er um sama fólk að ræða
í báðum þessum félögum. Fram
kom á fundi æðarbænda að staða
greinarinnar væri mjög góð um
þessar mundir vegna mikillar
eftirspurnar eftir dún. Eigi að síður
hafa bændur verulegar áhyggjur
af vaxandi ágangi tófunnar í
varplöndin.
Vaxandi tekjur af æðardúnsölu
Sigríður Ólafsdóttir, nýr hlunninda-
ráðgjafi RML, fór yfir stöðu æðar-
ræktarinnar í landinu á fundinum. Í
máli hennar kom fram að seld voru
3.081 kg af æðardún á árinu 2012
fyrir rúmar 507 milljónir króna.
Meðalverð á kíló var 164.860 krónur.
„Það var töluverð verðmætaaukn-
ing frá 2011 þegar heildarmagnið
var svipað en útflutningsverðmætið
var 378 milljónir króna. Í janúar til
ágúst á þessu ári var útflutningurinn
kominn í tæplega 1,7 tonn og verðið
var þá komið í 310 milljónir króna.“
Telur Sigríður útlit fyrir mjög
góða afkomu á árinu í heild. Gott verð
hafi verið að fást fyrir dún í Kína og
Sviss auk þess sem Japanir eru áfram
mjög sterkir kaupendur á íslenskum
æðardún. Þá sé verið að kanna mögu-
leika á að opna Bandaríkjamarkað
fyrir dúnsölu, en nú er bannað að
flytja þangað íslenskan æðardún.
Einnig verður unnið að því að opna
Kanadamarkað.
Bændur hvattir til að friðlýsa
varplönd sín
Hvatti Sigríður æðarbændur til að
friðlýsa æðarvörp sín og að hnitsetja
þau og senda GPS staðsetningarpunkta
til Landhelgisgæslunnar. Gæslan
væri mjög áhugasömu um að fá
staðsetningarpunkta æðarvarps til
að geta forðast yfirflug á þyrlum
Gæslunnar yfir varplöndin á vorin.
Sagði hún að slík hnitsetning
æðarvarps gæti líka styrkt lagalega
stöðu bænda við að verja varplönd
sín í framtíðinni.
Tíðarfarið í meðallagi
Guðrún Gauksdóttir formaður
Æðarræktarfélagsins sagði að
tíðarfar hefði verið í meðallagi fyrir
æðarræktina í maí fyrir utan fyrstu
daga þess mánaðar sem hefðu verið
óvenju kaldir. Snjóa hefði leyst fremur
seint um landið norðaustanvert og
úrkoma verið yfir meðallagi. Júní
hefði verið hlýr og tíðarfar hagstætt
að því undanskildu að sólarlítið hefði
verið suðvestanlands og úrkoma þar
yfir meðallagi. „Það má segja að
fréttir af æðarvarpi hafi almennt verið
góðar, en votviðri hafi víða sett strik
í reikninginn.“
Nýr hlunnindaráðgjafi
Guðrún flutti skýrslu stjórnar.
Kynnti hún nýjan hlunnindarráðgjafa
æðarbænda, en það er Sigríður
Ólafsdóttir sem starfar undir merkjum
Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins
(RML). Hún er búfræðingur og
sauðfjárbóndi á Víðidalstungu
í Austur-Húnavatnssýslu, en
hlunnindaráðgjöfin hefur skrifstofu
á Hvammstanga. Sigríður er með
víðtæka menntun og reynslu
í búvísindum og tók við starfi
Guðbjargar Helgu Jóhannesdóttur,
sem lét af störfum sem ráðgjafi fyrr
á þessu ári eftir fjögurra ára starf.
Þakkaði formaður Guðbjörgu vel
unnin störf í þágu Æðarræktarfélagsins
og þann baráttuanda sem hún hafi
blásið æðarbændum í brjóst á sinni
tíð. Sagði hún að Guðbjörg væri þó
ekki alveg búin að segja skilið við
æðarbændur því hún tæki þátt í að
vinna könnun meðal æðarbænda sem
hún kynnti nánar á aðalfundinum. Þar
er um að ræða samanburðarkönnun á
æðarrækt á Íslandi og í Noregi.
Ályktað um refaveiðar
Guðrún nefndi að ályktun félagsins
um refa og minkaveiðar hefði verið
send til ráðherra og þingnefndar en
fyrir Alþingi hefði legið frammi
frá fyrra ári þingsályktun um
endurskipulagningu refaveiða.
Sagði hún að síðasti aðalfundur
félagsins hefði stutt við þessa
þingsályktunartillögu, sem endaði þó
í nefnd á síðasta þingi án samþykktar.
Þá hefði það náðst í gegn að undanþága
væri í dýraverndunarlögum um að
heimilt væri að beita drekkingum
á mink í gildrum, þó að drekkingar
á dýrum væru almennt bannaðar í
lögunum. Á fundinum nú var líka
samþykkt ályktun með áskorun á
stjórnvöld ríkisins og sveitarstjórnir
að endurskoða fyrirkomulag og
framkvæmd refaveiða.
Stefnt að næsta aðalfundi í
Trékyllisvík á Ströndum
Guðrún sagði að helsta mál stjórnar
á yfirstandandi starfsári hefði verið
að ljúka gerð kynningarefnis fyrir
æðarræktina. Þar er um að ræða
kynningar bækling og kvikmynd, en
að auki er verið að setja vefsíðu í
loftið. Sagði hún að stefnt væri að
því að halda næsta aðalfund félagsins
í Trékyllisvík á Ströndum 23. ágúst
2014, en það væri þó ekki endanlega
ákveðið.
Þær breytingar yrðu á stjórn
Æðarræktarfélagsins að Guðni Þór
Ólafsson lét af stjórnarsetu eftir 14 ára
starf og í hans stað var kosinn Björn
Ingi Knútsson frá hinu forna prestsetri
á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði. Aðrir
í stjórn auk Guðrúnar og Björns eru
Erla Friðriksdóttir í Stykkishólmi,
Ásta Flosadóttir, Höfða I á Hauganesi
við Eyjafjörð og Salvar Baldursson í
Vigur við Ísafjarðardjúp.
Tengingar við málefni BÍ
Sindri Sigurgeirsson, formaður
Bændasamtaka Íslands, ávarpaði
fundargesti og lýsti helstu málum
sem væru á dagskrá samtakanna
og hefðu snertifleti við starfsemi
Æðarræktarfélagsins. Þar væru
áhyggjur af fjölgun refs ofarlega á
baugi. Þá þyrfti að kynna mjög vel
fyrir ferðaþjónustunni reglur um
umferð á löndum bænda. Einnig
þyrfti að taka á margvíslegri
grunnþjónustu á landsbyggðinni sem
tengdist ekki bara landbúnaði, eins
og viðhaldi vega, heilbrigðismálum,
afhendingaröryggi rafmagns, móttöku
sjónvarpssendinga, farsímasamband,
nettengingar og fleira. Ekki mætti
heldur gleyma póstþjónustunni, sem
víða væri farin að skerðast.
„Þetta eru allt mjög mikilvæg mál
og nauðsynlegt að minna reglulega
á það að aldrei má víkja frá þeirri
kröfu að búseta í dreifbýli geti verið
raunhæfur valkostur,“ sagði Sindri.
Hann nefndi líka starfsöryggis-
mál en búið væri að setja í gang
vinnu verndar verkefni í landbúnaði
á vegum BÍ. Ýmislegt fleira bar á
góma í máli Sindra, eins og land-
búnaðar klasann og ímyndarmál
landbúnaðarins.
Endurskoðun félagskerfisins
„Veigamesta verkefni okkar nú
um stundir er endurskoðun á
félagskerfinu, en stýrihópur innan
stjórnarinnar hefur haft það verkefni
að móta tillögur um breytingar. Þá er
mikilvægt að kalal efir hugmyndum
frá aðildarfélögum. Stefna síðasta
búnaðarþings var skýr, en markmiðið
er að gera félagskerfið einfaldara,
ódýrara í rekstri og með skilvirkari
hagsmunagæslu.“ Sagði hann
þessa vinnu koma í kjölfar þess að
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
var gerð að sjálfstæðu félagi um
síðustu áramót þó það sé í eigu
Bændasamtakanna. Eftir stæði
á vegum BÍ, hagsmunagæsla,
tölvudeild og kynningarsvið. Þar
sem talið sé hæpið að nota megi
búnaðargjaldið til hagsmunagæslu,
þá þurfi að huga sérstaklega að
fjármögnun félagskerfisins.
Mikill styrkur íslenska
æðardúnsins á Japansmarkaði
Halldór Elís Ólafsson, viðskipta-
fulltrúi í sendiráði Íslands í Japan,
lýsti fyrir fundargestum á aðalfundi
Æðarræktarfélags Íslands stöðu
íslenska æðardúnsins í Japan. Taldi
hann ekkert lát vera á áhuga Japana
á dúninum en þaðan koma um 50%
af sölutekjum á íslenskum æðardún.
Sagði hann að í sendiráðinu í
Tokyo starfi fjórir einstaklingar, en
Hannes Heimisson hefði tekið þar
við sendiherrastöðunni í septem ber.
Auk Japans þjónusta þau Filippseyjar,
Indónesíu, Brunei Darussalam og
Papúa Nýju-Gíneu. Sjálfur hefur
Halldór verið búsettur í Japan í sex
ár og er nýlega komin til liðs við
sendiráðið í september eins og Hannes
en staraði áður hjá söluskrifstofu áður
fyrir Icelandair í Tokyo.
Sagði hann íslenska æðardúninn
hafa sérlega sterka stöðu sem
lúxusvara á japanska markaðinn.
Ísland nyti þar líka góðrar ímyndar
hreinleika og sjálfbærni. Þar er um
að ræða þriðja stærsta hagkerfi heims
með 127 milljónir íbúa. Þar af byggju
35 milljónir manna í Tokyo sem væri
jafnfram með mestan kaupmátt allra
borga í heiminum. Fjöldi efnaðra
Japana væri því mjög mikill og þeir
settu verð á dúnsængum ekki fyrir
sig. Þetta væri líka að uppistöðu sá
hópur Japana sem mikið ferðaðist
til Íslands, en um 70% þeirra 13-14
þúsund ferðamanna sem hingað
koma frá Japan kæmu aðallega yfir
vetrartímann eða á tímabilinu frá
október til loka mars.
„Ég tel fullvíst að japönskum
ferðamönnum mun fjölga til Íslands
á næstu árum. Ég tel líka fullvíst að
það verði seldar feyri dúnsængur í
Japan en hingað til. Svo framarlega
að við höldum áfram að auka okkar
tengsl við Japan og tengsl þeirra hér
heima. Það er mikill ávinningur í að
bæta þetta samstarf.“
Borga 1,5 til 2,3 milljónir króna
fyrir dúnsængur
Sagðist Halldór hafa gert lauslega
könnun á verði á dúnsængum í Japan.
Nefndi hann dæmi af dúnsæng með
íslenskum dún sem saumuð hafi
verið úr silki í Þýskalandi kostaði
um 1,8 milljónir jena eða tæplega
2,3 milljónir króna. Algengt verð
á venjulegum dúnsængum í Japan
væri 1,2 milljónir jena eða tæpar
1,5 milljónir króna. Sagðist Halldór
telja að nær engin takmörk væru
fyrir því hvað verðið á dúnsængum
gæti farið hátt á meðan passað
væri að halda upp á þá góðu ímynd
hreinleika og sjálfbærni sem íslenska
æðardúnsframleiðslan hefði.
/HKr.
Gott gengi í æðarræktinni – æðar- og selabændur héldu aðalfundi sína um síðustu helgi:
Í fyrra voru seld ríflega 3 tonn af æðardún
fyrir rúmlega hálfan milljarð króna
– viðskiptafulltrúi í sendiráði Íslands í Japan er bjartsýnn á vaxandi gengi íslenska æðardúnsins í landinu
Guðrún Gauksdóttir, formaður Æðar-
ræktarfélagsins.
Frá Aðalfundi Æðarræktarfélags Íslands á Hótel Sögu síðastliðinn laugardag. Myndir / HKr.
Halldór Elís Ólafsson, viðskiptafull-
trúi í sendiráði Íslands í Japan.