Bændablaðið - 14.11.2013, Qupperneq 43

Bændablaðið - 14.11.2013, Qupperneq 43
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. nóvember 2013 Eitt og annað hrossatengt Kynbótasýningar hrossa hafa þann grunntilgang að stiga gripi og staðsetja eiginleika þeirra á opinberum kvarða. Niðurstöður dómanna eru undirstaða reiknaðs kynbótamats sem er hjálplegt verkfæri og áttaviti ræktenda í viðleitni sinni til að efla og bæta stofninn, hver eftir sínu höfði. Óhjákvæmilegur fylgifiskur allra dóma og röðunar gripa er áhrif þeirra á fjárhagslegt verðmæti. Kynbótadómar eru og verða ákveðinn verðmiði á hross ásamt með t.d. keppnisárangri, ætterni grips, væntingum hestamanna og hrossapólitík sem erfitt er að höndla. Þegar saman koma miklar væntingar, metnaður, ræktunarástríða, huglægt mat eiginleika og miklir fjárhagslegir hagsmunir verður til eldfim blanda. Þegar spennustig á kynbótasýningum verður á stundum áþreifanlegt getur verið hollt að minnast og halla sér að grunnstefinu, sem er búfjárdómur. Dómskerfi Það kerfi og regluverk kynbóta- sýninga sem rammar starfið á sér langa og farsæla sögu. Um það vitnar best að skoða þá gripi sem hæst eru metnir í dag – samanborið við fyrirrennara undangenginna áratuga. Stofninn er jafnbetri og breiddin mikil. Vandamál, ef svo skyldi kalla, væri fremur valkvíði hryssueigenda frammi fyrir stórum hópi góðra stóðhesta, fremur en skortur á valkostum. Óþarft er að heiðra skipulagið um of sem aðeins er birtingarmynd af þeim hugmyndum, tækni, þekkingu og fjármagni sem hvert líðandi tímabil hefur úr að spila. Ríkari ástæða er til að hylla það fólk sem af brennandi áhuga ræktaði og ræktar hross jafnt á kreppu- sem „gróðæristímum“. Orðið kerfi hefur oft í ræðu og riti verið sett í neikvætt samhengi og engu líkara en kerfin lifi sjálfstæðu og sjálfráðu lífi í samfélagi manna. Kerfi eru þó fyrst og síðast það skipulag og regluverk sem menn hafa komist að niðurstöðu um að notfæra sér á ákveðinni vegferð með skýrum markmiðum. Virkt kerfi er þannig í sífelldri endurmótun og á að vera í stöðugri sjálfs- og utanaðkomandi gagnrýni. Tíðarandi breytist, ný tækni kemur til sögu, ný þekking verður til, áherslur hnikast, fólk dettur niður á snjallar lausnir og hugmyndir. Af öllu þessu og fleiru verður framkvæmd á virku starfi að taka mið. Framkvæmd kynbótasýninga nýliðins sumars gekk almennt vel. Aðstaða til sýningahalds er gerbreytt frá fyrri tímum, góðir vellir og inniaðstaða til byggingadóma, metnaður hjá staðarhöldurum að gera vel í öllu sem að þeim snýr. Fjölmargir sýningamöguleikar og tímasetningar voru í boði og sýningar vel sóttar. Illu heilli virðist samt sem mjög umrætt og þekkt atvik á kynbótasýningu á Selfossi og eftirmál þess standi upp úr öllu því mikla verki sem eftir stendur, í hugum sumra. Kannski verður sýningasumarið 2013 í annálum nefnt útvarpssumarið mikla. Gagnrýni er góð. Gagnrýni er nauðsynleg til framþróunar og jákvæðra breytinga. Listin við gagnrýnina er hins vegar að benda á betri lausnir, færar leiðir í stöðunni, og umfram allt að fara í boltann en ekki manninn, svo gripið sé til klisju. Umræða um flest það er lýtur að kynbótasýningum hrossa hefur verið lífleg síðustu misseri og skemmst er að minnast málþings á Hvanneyri á haustdögum. Margar skoðanir eru á lofti, misjafnlega útfærðar og grundvallaðar. Umræðan er þörf og gagnleg fyrir alla sem að málunum koma, ekki síst þá aðila sem sitja í hinu stefnumótandi Fagráði hrossaræktar. Í ráðinu eiga sæti þrír fulltrúar frá Félagi hrossabænda, einn frá LH, einn frá FT og þrír tilnefndir af Bændasamtökum Íslands (1). Formleg leið allra breytinga á regluverki og stefnumörkun í kynbóta starfinu liggur frá samþykktum tillögum félaga og hagsmuna aðila inn á borð Fagráðs til meðferðar og úrskurðar. Efst á baugi Á því hvað hæst ber og hvar brýnast er að breyta til kunna menn að hafa fjölbreyttar skoðanir. Fróðlegt er að glugga í samantekt hópastarfs á Hvanneyrarmálþinginu en þar leynast margar kveikjur (2). Svo tæpt sé á nokkrum atriðum sem hátt fara í umræðu undangengin misseri má nefna: Hæfi dómara. Íslenskir kynbóta- dómarar eru ekki stór hópur fólks og hann á ekki að vera stór. Alls 18 dómarar komu að íslenskum sýningum 2013 og felldu 1.607 dóma. Allir hafa þeir lokið kandídatsnámi, staðist sérstakt hæfnispróf, svo sem krafist er (3), og aflað sér alþjóðlegra réttinda (FEIF). Þess utan sækja starfandi dómarar samræmingarnámskeið og þurfa að dæma minnst 200 gripi á hverju tveggja ára tímabili til að teljast gildir. Opinberar og skýrar reglur um hæfi í ýmsum vafatilfellum hafa ekki verið umfangsmiklar; svo sem varðandi tengsl dómara við einstaka knapa og hross o.s.frv. Vinna við nánari og skýrari hæfisreglur mun þegar hafin og það er vel. Aðkomu íslenskra dómara að erlendum sýningum ber að tryggja sem best má verða í þeirri viðleitni að samræma dómstörf og staðsetningu á skala, hvar sem íslenskt hross kemur til dóms. Reynslan sýnir þó að betur og meira þyrfti að gera ef raunverulegur árangur á að nást í samræmingu milli landa. Er e.t.v. tímabært að huga að starfi erlendra dómara með íslenskum dómnefndum á stærri sýningum hér heima? Miðað við óbreytt núverandi regluverk myndu erlendu dómararnir aðeins starfa sem gestir og nokkurs konar áheyrnarfulltrúar í dómpalli. Engu að síður hlýtur talsvert að vera til þess vinnandi að gefa erlendum aðilum kost á að komast í stóra hrossahópa. Grunnforsenda réttrar staðsetningar á dómskala verður alltaf þekking á þeirri breidd sem býr í viðkomandi stofni. Að þessu sögðu vakna spurningar um kostnað og hver á að standa straum af verkefninu? Á Íslendingum og Íslandi sem upprunalandi hvílir sú sjálfsagða skylda að leiða ræktunarstarf í stofninum, það er í það minnsta fróm ósk okkar að svo sé og verði. Ef íslensk kynbótadómgæsla er handhafi sannleikans, hin rétta lína, ber okkur að útbreiða það erindi með mjög aukinni samvinnu við aðrar þjóðir. Við myndum að líkindum hagnast stórlega á því sjálf með nýjum hugmyndum, innsýn í aðra nálgun og almennt auknum skilningi milli landa og þjóða. Óþekkt Nn hross í dómi. Þeirri hugmynd hefur verið fleygt á loft að æskilegast væri að dómarar hefðu engar upplýsingar um þá gripi sem til dóms koma; þ.e. ættir, eigendur o.s.frv. og einkum vísað til framkvæmdar byggingardóma. Nú er það svo að í byggingardómi og undanfara hæfileikadóms, hafa dómarar ekkert í höndunum um þau hross sem fyrir þá eru leidd utan nafn, fæðingarnúmer og upp- runa, lit og örmerki. Allar frekari upplýsingar koma því aðeins fram að dómarar spyrji umráða- menn sérstaklega. Dómarar eru sjálfir, sem betur fer, ástríðufullir áhugamenn um hrossarækt og ættfræði. Einföld leið til að eyða hér hugsanlegri tortryggni er að ættir séu alls ekki ræddar meðan á byggingardómi stendur eða að forvitni dómara sé ekki svalað fyrr en dómur er fallinn. Lausnir í þá átt að meðhöndla alla gripi sem viðfangsefni eitt, tvö, þrjú og svo framvegis gegnum dómsferlið, tel ég ekki einasta óþarfar með öllu heldur vinna þær þvert gegn því að gera sýningar áhorfsvænar og áhugaverðar. Góð kynning hrossa í braut er sjálfsagð- ur hluti af ferlinu. Endurtekinn byggingardómur. Sú skoðun heyrist að óæskilegt sé að dómnefndir hafi eldri byggingardóma gripa við höndina þegar þeir koma til dóms að nýju. Almennt er viðurkennt að „rétt“ einkunn í okkar huglæga mati geti hlaupið á hálfum. Leiðarinn styður þessa skoðun og skalinn okkar er einfaldlega ekki fínlegri en þetta. Vandséð hvernig hann getur orðið fínlegri eða næmari miðað það opna ræktunartakmark sem við búum við og þær fjölbreyttu hestgerðir sem menn geta vænst að hljóti sömu einkunn fyrir tiltekna eiginleika. Það yrði létt verk fyrir kynbótadómara að dæma hvern áður sýndan grip án eldri gagna. En hver yrði útkoman – hver ávinningurinn fyrir hesteigandann? Að líkindum hlypu einkunnir mikið til, um hálfan hér og hálfan þar. Það liggur í hlutarins eðli að sú staða getur komið upp, þó „rétt“ sé dæmt, að sami gripur metist hálfum hærri/ lægri fyrir byggingu milli sýninga. Er plásturinn á þá niðurstöðu þá að reikna meðaleinkunn allra eldri dóma til að nálgast hina einu sönnu tölu? Ég hygg að hross geri mun oftar að hækka en lækka við endurmat á eldra dómi og núverandi vinnubrögð. Er raunverulegur ávinningur í að hnika þessu formi? Gætu menn sætt sig við að renna, að kalla, blint í sjóinn með endurtekinn byggingardóm – segjum í aðdraganda LM? Kröfur til ungra hrossa. Eftirminnilegustu galdrastundir undirritaðs við kynbótabrautina tengjast afrekum 4v. eðlisgæðinga og samvinnu þeirra við sanngjarna knapa. Að sama skapi er hryggilegt að horfa upp á sýningar þar sem farið er fram úr getu ungra hrossa, þar sem allt er sótt með afli og þvingun og skilið eftir í braut. Hver þarf að leiðrétta kúrsinn hér? Tæplega er það dómskerfið sem beinlínis ber að leggja sömu mælistiku á sérhvert hross, sami skali alltaf og alls staðar. Er ekki nær að viðurkenna þá staðreynd að það er aðeins brot af heildarfjölda 4v. tryppa sem á raunverulegt erindi í hæfileika- hluta kynbótadóms? Þetta brot er stórgaman að sjá í braut enda okkar verðmætustu ræktunargripir. Stærstan hluta 4v. tryppa er farsæl- ast að sjá fyrst að ári liðnu, sterk, djörf og kvíðalaus. Vilji og geðslag. Það eru víst engin stórtíðindi að segja þetta þann eiginleika sem núverandi kerfi á erfiðast með að meta til gagns, einkum og sérílagi geðslagið sjálft. Vandræðalaust má segja, fyrir dómara, að tylla hrossum á sitthvorn endann á kvarðanum, taka hross niður fyrir sjaldséða geðslagsbresti í braut og hampa sérstaklega fjöri með einstakri þjálni. Stærstur hlutinn liggur hins vegar á bilinu 7,5 til 8,5 fyrir eiginleikann en í þeim hópi leynist klárlega fjöldinn allur af hrossum með geðslag sem er íslenskri hrossarækt aldrei til framdráttar og annar hluti með afar eftirsóknar- vert geðslag en ekki auðsýnilega ásækinn í vilja. Nú er auðvitað hverjum manni í sjálfsvald sett að rækta það geðs- lag sem honum þykir hentast. Hlutverk kynbótadómsins er engu að síður að gefa upplýsingar og lýsingu á öllum dæmdum eigin- leikum. Þetta hutverk er dómurinn ekki að höndla í dag m.t.t. geðs- lags. Afleiðingin er að úrval á grunni geðslags er í besta falli ómarkvisst. Vissulega koma skot- heldar reynsluupplýsingar fram í afkvæmum stóðhesta þegar frá líður, afkvæmahópurinn vex og tamningamenn deila reynslu sinni. Þegar þær upplýsingar loks koma fram, og ef neikvæðar, hafa margir fórnað sínum uppáhaldshryssum og dýrmætu krónum í pörun sem þeir helst vildu geta tekið til baka. Af sjálfu leiðir að það liggja miklir hagsmunir í því fyrir greinina alla að ná betur utan um þennan mikilvæga eiginleika (mikilvægasta?). Hvort raunhæfar leiðir liggja e.t.v. í gegnum endurvakið mat viljadómara í kynbótadómi, gagnaöflun og grófa flokkun tryppa frá hendi afkastamikilla tamningamanna skal ósagt látið. Verkefnið er brýnt og aðsteðjandi og krefst umræðu og brúklegra lausna. Kynbótaskipulag í hrossarækt er ekki fullkomið kerfi né nokkru sinni fullmótað. Íslenskir hestamenn verða seint sakaðir um að hafa ekki nægar skoðanir á straumum og stefnum eða hugmyndir um hvað beri að gera. Umræðuna og hugmyndabankann þarf að virkja að vetri og framkvæma að vori. Nánar: 1) http://www.bondi.is/pages/1038 2 ) h t t p : / / w w w . l b h i . is/?q=is%2Fhvernig_naum_vid_ meiri_arangri 3) http://www.rml.is/static/files/ Hrossaraekt_RML/reglur_um_ kynbotasyningar.pdf Pétur Halldórsson Hrossaræktarráðunautur hjá RML Hvolsvelli S: 487-1513 / 862-9322 petur@rml.is Leiðrétting Rangt nafn var sett við mynd af Guðmundi Jóhannessyni, ábyrgðarmanni í nautgriparækt hjá Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins, í síðasta blaði. Er Guðmundur beðinn velvirðingar á þessum mistökum. Guðmundur Jóhannesson. Þráður frá Þúfu IS2008184553, knapi Elvar Þormarsson. Mynd/ Óðinn Örn Jóhannsson Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.