Bændablaðið - 14.11.2013, Síða 45

Bændablaðið - 14.11.2013, Síða 45
46 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. nóvember 2013 Lesendabás Raforkusala um sæstreng Það felst grundvallarbreyting í slíku verki að leggja raforkustreng til Evrópu. Þar er um að ræða algjör- lega nýja tegund af útflutningi, að flytja úr landi raforku án þess að hér fari fram frekari nýting hennar til framleiðslu. Það er vissulega spennandi og áhugavert að geta með þessum hætti sett fleiri stoðir undir útflutning okkar og efnahag. Áður en að því kemur þarf þó að fjalla um marga þætti og ekki síður að svara ákveðnum grundvallarspurningum um hvernig við viljum nýta auðlindir okkar. Sú nýting er í því falin að framleiða orku með sjálfbærum hætti. Ég vil því fyrir fram ekki hafna þeirri leið að það geti bætt og treyst efnahag okkar að taka upp þessa útflutningsleið. Í skýrslu sem iðnaðar- og viðskipta- ráðherra lagði fyrir Alþingi er leitast við að svara aðkallandi spurningum. Í henni er fjallað um að með því að tengjast Evrópu með þessum hætti megi ná fram mark miðum er hafa verið sett á meginlandinu um sjálfbærar orkugefandi auðlindir til að nýta í þeim heimshluta. Eftirspurn eftir sjálfbærum orkulindum hefur verið mjög mikil að undanförnu en það eru blikur á lofti á orku mörkuðum. Því tel ég mikilvægt að atvinnuveganefnd Alþingis, sem fjallar um þetta mál, fái sérstaka og sjálfstæða skoðun á framtíðarspá sérfræðinga á orku- markaði. Við skulum heldur ekki gleyma að verulegur hluti af því framboð á svokallaðri grænni orku er drifið áfram með umfangsmiklu styrkjakerfi ESB. Verðum að rýna í stöðu okkar hér heima Fólkið í landinu hefur miklar skoðanir á því hvernig eigi að fara með þessa auðlind. Ég tel mjög mikilvægt að við tökum undir þann þátt sem iðnaðarráðherra hefur lagt áherslu á, að þjóðarsátt verði að myndast um þennan sæstreng. Til að slíkt takist verðum við að rýnaí stöðu okkar hér heima. Þar á ég við að víða skortir í sveitum aðgengi að þriggja fasa rafmagni. Við verðum að horfa til þátta eins og að afhendingaröryggi á raforku hér heima sé ásættanlegt. Við verðum að horfa til þess að margir hús eigendur hér heima hafa ekki aðra kosti en að nota raforku til að hita húsin sín. Það er gríðarlegur verðmunur á þeirri orku sem felst í að nota jarðhita til húshitunar og annarri orku. Undanfarin ár hefur flutningskostnaður á raforku orðið æ sýnilegri og stærri hluti af orkukostnaði heimila og fyrirtækja. Við búum við mismunun Við búum við þann mismun að við innheimtum hærri flutningskostnað á raforku í dreifbýli en þéttbýli og við mismunum í gjaldskrám orku- kaupanda sem notar rafmagn á við heilt byggðarlag sem býr í því sem kallað er dreifbýli umfram heimilisnotanda sem býr í þéttbýli. Það er samt sama rafmagnið og sótt er í virkjanir sem flestar eru í dreifbýlinu og er flutt til tengistöðva sem eru nærri þéttbýli. Þó er sú stefna uppi að okkur finnst allt í lagi að innheimta meiri flutningskostnað hjá byggðinni þar sem virkjunin er. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tel einmitt nauðsynlegt að við ræðum til þess að mynda þá þjóðarsátt sem iðnaðarráðherra kallaði eftir í umræðu um orkustrenginn. Eftir lestur skýrslunnar sem ráðherra lagði fyrir alþingi og umræðu sem orðið hefur eftir útkomu hennar má síst vanmeta raunverulegan möguleika á því að umræðan leiði til þess að við treystum stöðu okkar á orkusölumarkaði og ég tek undir það. Ef það getur treyst samningsstöðu okkar er það vel. Horfum til aukinnar raforkuframleiðslu Ég horfi sannarlega bjartsýnum augum til framtíðar og ég tel reyndar að við eigum að horfa til þess að framleiða mun meiri raforku og selja hana en við gerum nú. Ég tel líka mikilvægt að við horfum til annarra kosta í raforkuframleiðslu en stórvirkjana. Þar nefni ég sérstaklega virkjunarkosti er felast í því að nýta það sem stundum hefur verið kallað bændavirkjanir, en það eru virkjunarkostir sem felast í að byggja sírennslisvirkjanir sem hafa takmörkuð umhverfisáhrif. Við þekkjum marga slíka kosti og margar slíkar virkjanir hafa verið byggðar á undanförnum árum. Þær gætu einar og sér breytt mjög mikið búsetumöguleikum úti í hinum dreifðu byggðum. Ákvörðun um lagningu sæstrengs er ekki á næsta leiti – mögulega er það góður kostur – en óvissan er mjög mikil ennþá. En til að ná þangað verðum við að taka til hér heima hjá okkur. /Haraldur Benediktsson Neytendur eiga rétt á að vita hvaðan varan kemur sem þeir eru að kaupa; hvort sem um er að ræða matvöru eða hönnunar- vöru. Mér finnst ekki rétt að selja fólki vörur í þeirri trú að varan sé íslensk, en þegar betur er að gáð er hráefnið erlent og framleiðslan fer fram erlendis en umbúðirnar eru á íslensku og vörumerkið íslenskt. Einhvers staðar á umbúðunum, með örsmáu letri, er hægt að sjá hvaðan varan kemur. Made in Iceland Ég tek dæmi um kjötvörur sem eru stundum markaðssettar með þessum hætti. Svona vinnubrögð eru til þess fallin að blekkja neytendur. Annað dæmi er lopapeysuframleiðsla, en hún er mjög vinsæl vara hjá erlendum ferðamönnum og þeir telja sig vera að kaupa séríslenska vöru, merkta „Made in Iceland“. En það hefur gerst að lopinn sem notaður er í peysurnar er erlendur, framleiðslan fer fram erlendis og því er ekkert íslenskt nema vörumerkið. Er þetta þá íslensk vara? Nota má fánann án sérstaks leyfis Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp sem fjallar um að rýmka lög um notkun á þjóðfána Íslands. Ef slík lög verða samþykkt heimila þau notkun fánans við markaðssetningu á íslenskum vörum án þess að sérstaklega sé sótt um leyfi til þess. Undantekning frá þessu er þegar fáninn er notaður í vörumerki sem skal skrásetja hjá Einkaleyfastofunni en þá þarf leyfi ráðherra fyrir notkun fánans að liggja fyrir. Hugmyndin er að vörur sem eru íslenskar að uppruna verði þá vel merktar með íslenska fánanum. Þetta mál hefur lengi verið til umfjöllunar og farið fyrir nokkur þing. Ályktun Bændasamtaka Íslands Ýmsir aðilar hafa látið sig málið varða á þessum tíma, m.a. hafa Bændasamtök Íslands og Samtök iðnaðarins sent þinginu umsagnir og ályktað um mikilvægi þess að unnt verði að nota þjóðfána Íslendinga til að auðkenna íslenska framleiðslu. Íslandsstofa hefur einnig unnið að undirbúningi málsins, sem og Félag atvinnurekenda og fleiri. Umsögn um áður framlagt frumvarp barst nefndarsviði Alþingis þann 21. júní 2010 frá Bændasamtökum Íslands og hún hljóðar svo: „Bændasamtök Íslands fagna framlagningu ofangreinds frumvarps enda hafa samtökin í áraraðir beitt sér fyrir því, í samræmi við ályktanir Búnaðar þings, að fá almenna heimild til notkunar þjóðfánans við markaðssetningu búvara. Þó vilja samtökin benda á að þau telja ekki ljóst samkvæmt núgildandi lögum og ofangreindu frumvarpi til breytinga á þeim, hver skuli hafa eftirlit með óleyfilegri notkun þjóðfánans á söluvarning, umbúðir eða í auglýsingu vöru og þjónustu. Bændasamtök Íslands vilja þannig leggja áherslu á mikilvægi þess að nánari ákvæði um skilyrði fyrir notkun þjóðfánans með þessum hætti, verði sett með reglugerð.“ Hönnun og hefðir Matar- og menningarferðamennska nýtur vaxandi vinsælda og því væri það ekki síður gagnlegt fyrir erlenda ferðamenn sem áhuga hafa á innlendri matargerð og matarminjagripum, sem og íslenska neytendur, að vörur af íslenskum uppruna væru merktar með íslenska fánanum. Þær myndu klárlega vekja meiri athygli og um leið tryggja ákveðin gæði. Í greinargerð með frumvarpinu eru tekin dæmi um vörur sem engum blandast hugur um að séu íslenskar, eins og grænmeti sem er ræktað á Íslandi, kjöt af íslenskum sláturdýrum og sjávarfang sem veitt er í íslenskri landhelgi og unnið á Íslandi. Flækjustigið sem ég rak mig á við endurskoðun þessa frumvarps var skilgreiningin varðandi hönnunarvörur og hið sama gildir um hefðbundnar íslenskar matvörur, sem þó eru úr erlendu hráefni. Þannig að lausnin er að hönnunarvara sé hönnuð og framleidd hér á landi þó að hráefnið sé erlent, t.d. húsgögn og fatnaður. Hið sama gildir um vörur framleiddar skv. íslenskri hefð eða sem hafa verið framleiddar í meira en hálfa öld, eins og t.d. Nóa konfekt, kleinur og slíkt, en þær yrðu einnig skilgreindar sem vörur af íslenskum uppruna. Rétt er að geta þess grundvöllur þessara skilgreininga og laga- breytingar er að fánanum sé ekki óvirðing gerð. Nú er þetta mál til umfjöllunar hjá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og verður vonandi afgreitt á Alþingi síðar í vetur. Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þingmaður Suðurkjördæmis, Framsóknarflokki. Íslenskt, já takk! Hjálpari og hestamaður – listamaður og lífskúnstner Bækur & diskar Haraldur Benediktsson Silja Dögg Gunnarsdóttir Ævisagan Snorri á Fossum –Hjálpari og hestamaður – listamaður og lífskúnstner er komin út hjá Bókaútgáfunni Sölku, en hinn góðkunni sagnamaður Bragi Þórðarson rekur hér fróðlega og bráðskemmtilega ævisögu Snorra Hjálmarssonar. Snorri á Fossum er að góðu kunnur. Borgfirðingar þekkja hann sem dugandi bónda, hestamann, gleðimann og leikara, en á undanförnum árum hefur hann orðið landsþekktur söngvari og „hjálpari“. Með því er átt við hæfileika Snorra til að koma öðrum til aðstoðar með ýmsum hætti. Hann getur fundið vatn í jörðu með spáteinum, hann sér óorðna hluti og veitir hjálp í veikindum og annars konar erfiðleikum með stuðningi frá öðrum heimi. Snorri Hjálmarsson er upprunninn í Aðalvík á Hornströndum en fluttist í Andakílinn eftir upp vöxt og skólagöngu í Reykjavík og á Hvanneyri. Hann hreppti kóngs- dótturina, Sigríði Guðjónsdóttur á Syðstu-Fossum, hálft ríkið og síðan allt, eins og í sönnu ævintýri, og hefur ríkt þar síðan. Bragi Þórðarson, segir í þessari bók sögu Snorra sem er allt í senn – fróðleg, umhugsunarverð og bráðskemmtileg. Hér eru á ferðinni æviminningar manns með einstaka hæfileika og jákvæða lífssýn, manns sem gefur lífinu lit og er ávallt reiðubúinn að rétta náunganum hjálparhönd. Dráttarvélar vítt og breitt um landið Tókatækni hefur gefið út DVD- diskinn Dráttarvélar vítt og breitt um landið. Á síðustu árum hefur áhugi á að gera upp gamlar dráttarvélar aukist mikið og æði stór hópur hefur áhuga á slíku. Vítt og breitt um Ísland má finna vélagrúskara. Sumir hafa gert upp eina dráttarvél, aðrir margar. Við hittum nokkra fyrir í fyrra og var gefinn út diskur með þeim. Eins og nafnið gefur til kynna var farið vítt og breitt um landið. Diskurinn er 110 mínútur með 16 innslögum. Á Vestfjörðum hittum við Deutz- aðdáendurna Elvar Sigurgeirsson í Bolungarvík og Guðmund Sigurðsson á Svarthamri við Súðavík. Við hittum líka Sæmund Þóroddsson í Dýrafirði sem sýnir okkur sína vél. Vélagrúskarar eru á öllum aldri; við ræðum við Almar Óla 14 ára á Hvolsvelli, sem gerir upp Deutz, og Inga Þór 12 ára í Borgarfirði sem er langt kominn í vélagrúskinu. Enn lengra komnir eru eldri herrarnir sem hafa athvarf á Finnsstöðum á Fljótsdalshéraði, en þeir hittast nánast daglega til að skrúfa og skrafa. Við skoðum aflmesta traktor landsins og hittum Jóhann Marvinsson bónda á Svínabökkum og David Brown aðdáanda. Vélaáhuginn hefur ýmsar birtingarmyndir og við hittum tvo menn sem fara sínar eigin leiðir. Rætt er við Odd Einarsson, framkvæmdastjóra Þórs hf., um sögu fyrirtækisins og Sigurð Skarphéðinsson, sem fylgdi MF 100 línunni úr hlaði hér á landi og þjónustaði þær vélar í áratugi. Litið er við á Grund í Reykhólasveit og Farmall BMD Super í Bárðardal skoðaður. Í fróðleikshorninu er sandblástur kynntur og farið yfir undirbúning fyrir málningu. Auk þess er á disknum einstök kvikmynd frá heyskap á Vesturlandi árið 1957. Verðið á disknum er 3.600 kr. m.vsk. og mun salan fyrst og fremst fara fram í beinni sölu frá framleiðanda með tölvupósti á tokataekni@gmail. com og í síma 471 3898. Móttaka pantana er hafin.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.