Bændablaðið - 14.11.2013, Qupperneq 46
47Bændablaðið | Fimmtudagur 14. nóvember 2013
Nytjaskóga er hægt að rækta á Íslandi
ekki síður en í nágrannalöndum okkar
– rætt við Björgvin Örn Eggertsson um nýja bók um skógrækt
Eftirspurn eftir margvíslegum
afurðum skóga fer stöðugt
vaxandi. Aðstæður til ræktunar
nytja skóga víða hér á landi
standast samanburð við skógrækt
í nágranna löndum okkar.
Möguleikar skógareigenda á
Íslandi til aukinnar auðlinda-
sköpunar eru því miklir, ef rétt
er að málum staðir. Tugþúsundir
tonna af nýjum viði verða árlega
til í skógum landsins. Og skógarnir
gefa einnig af sér margt annað en
timbur; margs konar matvæli,
lyf, efni til handverks og skrauts,
skjól, bætt andrúmsloft, og svo
mætti lengi telja.
Á ofangreindum orðum hefst
bókin Skógarauðlindin – ræktun,
umhirða og nýting, sem kom út
fyrir skömmu. Þessari bók er ætlað
að gefa yfirlit yfir helstu atriði
sem hyggja þarf að við ræktun
skóga. Í bókinni er farið yfir
undirbúning og skipulagningu,
og helstu framkvæmdaatriði í
ræktun og umhirðu miðað við
reynslu og aðstæður hér á landi.
Einnig eru kynntar fjölbreyttari
útfærslur og aðferðir við trjá- og
skógrækt en tíðkast í hefðbundinni
timburframleiðsluskógrækt. Óhætt
er að fullyrða að þetta er bók fyrir
alla þá sem áhuga hafa á skógrækt.
Margs konar tekjur af skógrækt
Björgvin leggur áherslu á að
skógrækt sé langtíma fjárfesting en
ekki stundargróði. „Það er hægt að
hafa margskonar tekjur af skógrækt
eða af áhrifum skógræktar og spara
þannig heilmikinn gjaldeyrir og
skapa jafnframt fjölmörg störf,“
segir Björgvin og bendir á að
tekjurnar komi oft frá hlutum sem
séu jákvæðir fylgifiskar skógarins
– lokaafurðinni.
„Ber og sveppir vaxa í skógunum
sem hægt er að koma í verð. Greinar,
laufblöð, grös og annað sem hægt
er að nýta í skreytingarefni eða
nytjajurtir. Tjaldstæði í eða við
skóg eru vinsælir áningarstaðir. Sala
á íslenskum jólatrjám eykst ár frá
ári og þykir orðið hallærislegt að
vera ekki með íslenskt tré í stofunni
um jólin. Grisjunarviður er orðin
verslunar vara, bæði sem kurl,
spónn, timbur og grófur smíðaviður.
Einnig held ég að bændur fari í auknu
mæli að kaupa meira af íslenskum
girðingarstaura í stað þeirra sem eru
fluttir inn. Þannig að það er hægt að
hafa tekjur af ýmsu í skógræktinni.
Skógurinn er framtíðarauðlind sem
á eftir að velta milljörðum fyrr en
margan grunar,“ segir Björgvin.
Öflug samtök skógareigenda
Oft er sagt að öflug samtök
skógareigenda séu lykillinn að
framþróun í skógrækt. Björgvin
tekur undir það og segir að starfandi
séu félög skógarbænda í öllum
landshlutun og einnig Landsamtök
skógareigenda. „Samtökin eru
ekki gömul en hafa það m.a. sem
markmið að vinna að sameiginlegum
markaðsmálum skógareigenda.
Samvinna þeirra hefur gengið vel
og eru eigendurnir úr ýmsum stéttum
þjóðfélagsins, sem gerir það að
verkum að víðsýnin
er mikil meðal skógar-
eigenda.“
Almennur áhugi á
skógum
Afstaða almennings
til skógræktar skiptir
ekki síður máli og
sagði Björgvin að
þéttbýlisbúar væru
duglegir við að nýta
sér nágrannaskóga.
Þannig hefði heim-
sóknum í Heið mörk,
Öskjuhlíð og önnur
skógi vaxin svæði
fjölgað ár frá ári, ekki bara á sumrin
heldur á öllum tímum ársins.
„Fjölbreytileiki árstíðanna er
oft mikill í skógunum og er fólk að
koma og upplifa þær. Almenningur
er farinn að gera auknar kröfur um
skjól í sínum byggðalögum og vilja
fá meiri skóg í næsta nágrenni. Nú
styttist til dæmis í þann tíma þegar
hvað flestar fjölskyldur fara saman í
skógarferð til að kaupa íslensk jólatré
sem að þau geta fengið að saga sjálf
hjá fjölmörgum skógræktarfélögum
víða um land. Listaháskólinn og
skógareigendur vinna saman.
Hvað hafa skógareigendur gert til
að auka á verðmæti skóganna?
Björgvin minnir á að skógareigendur
og nemendur Listaháskólans hafi
tekið höndum saman í verkefni sem
kallað var Stefnumót við bændur,en
það er hluti af námi í vöruhönnun
við skólann. „Þar fara nemendur í
heimsókn til skógarbænda og skoða
skóginn hjá þeim og fá yfirsýn yfir
ræktunarstarfið. Í framhaldinu fara
nemendurnir í vöruþróunarvinnu út frá
hugmynd sinni af hlut eða afurð sem
þau búa til og kynna í lok áfangans.
Útkoman er ótrúlega fjölbreytt og
margir nytsamlegir hlutir hafa litið
dagsins ljós. Með verkefninu opnast
augu nemenda og annarra á að úr
skóginum er hægt að búa til fjölmargar
aðrar afurðir en timbur.“
Skjólbeltaræktun – skógar og
búpeningur
Björgvin segir að fyrstu skref bænda í
skógrækt felist oft í skjólbeltaræktun.
„Bændur landsins eiga eftir
að taka mörg skref hvað varðar
skjólbeltaræktun en einnig ættu margir
þeirra að athuga þann möguleika að
rækta trjálundi á víð og dreif. Í allri
ræktun skiptir skjól og hiti miklu
máli. Þetta á jafnt við um jarðrækt
og skepnuhald. Sumrin eru stutt og
bændum veitir ekki af sem mestri
uppskeru á túnum sínum. Með því
að minnka vindinn getur lofthitinn
hækkað um einhverjar gráður, sem
leiðir til aukinnar uppskeru. Meiri
trjágróður eykur líka á velferð
bú peningsins.
Hitt er svo aftur annað mál að
það skiptir máli að ungskógur fái
frið fyrir beit fyrstu árin meðan
hann er að vaxa úr grasi, þannig að
dýrin hafi ekki möguleika á að bíta
toppana af trjánum. Þetta getur tekið
mislangan tíma, allt eftir trjátegund
og vaxtarskilyrðum. Þegar skógurinn
hefur náð nægilegri hæð er ekkert því
til fyrirstöðu að beita skóginn, svo
framarlega sem skepnurnar valda ekki
skaða á trjánum.“
Þekking og aftur þekking
Björgvin segir að Svíar hafi góða
reynslu af því að nota bókina til að
fræða áhugsamt skógræktarfólk. Þar
í landi var bókin lykillinn að almennri
umræðu um skógrækt þar sem ekki
var farið of djúpt í fræðin.
„Árangur í skógrækt er ekki
sjálfgefinn. Þekking er upphaf og
endir alls í skógrækt eins og svo
mörgu öðru. Nýja bókin gefur svör
við ýmsu en til viðbótar er gott að
sækja sér enn frekari fræðslu á borð
við Grænni skóga eða taka þátt í
leshringjum eða jafningjafræðslu,“
segir Björgvin að lokum. /ÁÞ
Algeng landstærð til skógræktar hér á landi er 40-80 hektara skógur. Það getur svarað til ársframleiðslu á 100–300 m3 af bolvið, sem getur þýtt ársveltu
upp á 700 þúsund til rúmlega tveggja milljóna króna þegar fram líða stundir.
Bækur
Skógarauðlindin
– ræktun, umhirða og nýting
Bókin er hluti af verkefninu Kraftmeiri skógur, sem
er fræðsluverkefni sem leggur áherslu á að fjalla
um skógrækt sem fjölskyldufyrirtæki og nauðsyn
þess að hlúa vel að ræktuninni til að ná árangri.
Þessu nýja verkefni er ætlað að ná til sem flestra
skógareigenda á Íslandi með almennri fræðslu,
persónulegum heimsóknum, útgáfu á kennsluefni,
virkri heimasíðu og ýmiss konar endurmenntun.
Á myndinni er ritstjórn bókarinnar Skógarauðlindin – ræktun, umhirða og nýting. Frá vinstri: Hallur Björgvinsson,
Björn B. Jónsson, Harpa Dís Harðardóttir og Björgvin Örn Eggertsson.
Í dag eru nokkrir tugir einstaklinga hér á landi menntaðir í skógfræði eða
skógverkfræði eða með verknám í skógrækt.