Bændablaðið - 14.11.2013, Qupperneq 47
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. nóvember 2013
hlj@bondi.is
Vélabásinn
Hjörtur L. Jónsson
Bændasamtökin eiga nokkurra
ára gamlan Subaru Forester
sem hefur þjónað samtökunum
og Bændablaðinu ágætlega.
Um síðustu áramót kom nýr
og breyttur Subaru Forester á
markað og hugðist ég bera þessa
bíla saman. Skemmst er frá því að
segja að munurinn er svo mikill
á bílunum að það er varla hægt
að bera þá saman, nema að báðir
heita Forester.
Öryggið í fyrirrúmi
Það er nánast ekkert eins í nýja og
gamla Forester; vélin, skiptingin,
drifbúnaðurinn, innréttingin og
yfirbyggingin eru gjörbreytt.
Þegar ég settist inn í bílinn fann ég
strax mun, sætin voru þægilegri,
fótapláss mun meira og útsýni allt
annað. Mælaborðið er hefðbundið
og vel staðsett, en hægra megin við
það er upplýsingaskjár sem gefur
mikið af góðum upplýsingum, s.s.
um aksturstíma, eyðslu, vegalengd
ökuferðar, útihita, innihita og fleira.
Öll yfirbyggingin er smíðuð og
hönnuð sérstaklega með öryggi að
leiðarljósi, ekki ósvipuð hönnun
og veltibúr í rallýbíl. Loftpúðar
eru margir og loftpúðinn fyrir
farþega í framsæti er ekki virkur
nema farþegi sé í sætinu og því blæs
hann ekki út ef bílstjóri er einn í
bílnum og lendir í höggi. Þess eru
enda dæmi að farþegapúðinn hafi
slasað ökumann við árekstur og
kastað honum í hliðarrúðuna eftir
að ökumannspúðinn hefur sprungið
í fang hans. Fyrir allan þennan
öryggisbúnað fékk Subaru Forester
fimm stjarna öryggisverðlaun Euro
NCAP, sem er hæsta mögulega
stigagjöf fyrir öryggi.
Mikil eyðsla á kaldri vél
en snarminnkar eftir einnar
mínútu akstur
Vélin er kraftmikil tveggja lítra
boxer-vél sem á að skila 150
hestöflum við 6.200 snúninga.
Þrátt fyrir að Subaru Forester sé
alltaf í fjórhjóladrifinu eyðir hann
ekki miklu bensíni, en þessi nýja
endurhannaða vél er gefin upp fyrir
að vera með eyðslu upp á 8,5 lítra á
hundraðið í innanbæjarakstri og ekki
nema 6,0 lítra í langkeyrslu. Þetta
er mikil framför frá gamla bílnum,
sem var að eyða yfir 10-11 lítrum
innanbæjar og nálægt 9 í langkeyrslu.
Sjálfur ók ég bílnum langt og var
ekkert að reyna sérstaklega að spara
bensín, útkoman var 6,9 lítrar hjá
mér. Hins vegar er manni svolítið
brugðið þegar bíllinn er ískaldur
því þá sýnir eyðslumælirinn allt
að 40 lítra eyðslu á hundraðið, en
strax eftir eina mínútu í gangi eða
eins kílómetra akstur er mælirinn
farin að sýna lægri tölur og eftir
um 5-10 mínútna akstur er eyðslan
dottin niður í tölu sem heldur manni
brosandi ánægðum.
Ný keðjudrifin þrepalaus
skipting
Drifbúnaðurinn er nýr og nefnist
Xmode, en með einum takka fyrir
framan gírstöngina er hægt að setja
inn stillingu fyrir erfiðar aðstæður.
Þessi stilling gefur aukna möguleika
til að bregðast við betra áframátaki
og bremsuátaki til að hámarka grip
hvers hjóls miðað við aðstæður. Ég
prófaði þetta aðeins á vegslóða sem
var með snjó og klaka og bíllinn var
á sumardekkjum, en miðað við grip
áfram og hemlun hefði mátt halda að
bíllinn hefði verið á góðum vetrar-
hjólbörðum. Hæðin undir lægsta
punkt er 22 cm, sem er með því
mesta í flokki þessara bíla, og hornið
frá framstuðara niður í framdekk er
26 gráður, sem gefur möguleika á
töluvert miklum torfæruslóðaakstri.
Skiptingin er stiglaus línusjálfskipt-
ing, snörp skipting sem er keðju-
drifin (sem skilar þessari snerpu) og
ætti að þola meira en hefðbundnar
svipaðar sjálfskiptingar sem almennt
eru reimdrifnar.
Tog vélarinnar gerir bílinn
sérstaklega hæfan fyrir
kerrudrátt
Farangursrými er mjög mikið (sé
miðað við eldri bílinn er farangurs-
rýmið töluvert meira) og dráttarget-
an er 2.000 kg. Þetta tvennt gerir
bílinn sérstaklega fjölskylduvænan
og ætti að henta vel til að draga
hestakerru og hjólhýsi, þar sem tog
vélarinnar er mjög gott og bíllinn
tapar ótrúlega litlum hraða þegar
komið er að bröttum brekkum. Að
lokum vil ég nefna einn lítinn takka
í stýrinu, en hægra megin á því eru
tveir takkar sem merktir eru með I
og S. Ef taka þarf fram úr bíl á þjóð-
vegi er gott að ýta á S-takkann og
gefa svo í fram úr. Bíllinn hreinlega
hendist áfram og framúrtakan verð-
ur snögg og snörp en ef maður gerir
þetta ekki verður hún mun hægari.
Muna svo að stilla á I-takkann á eftir
(til að spara eldsneyti).
Miðað við verð og kynni mín
af bílnum tel ég Forester vera með
vænlegri kostum í bílakaupum sé
verið að leita eftir fjórhjóladrifnum
bíl.
Nýr og breyttur Subaru Forester:
Ódýr, öruggur og gjörbreyttur
Lengd: 4.495 mm
Hæð 1.735 mm
Breidd: 1.795 mm
Þyngd: 1.502 kg
Verð: Bensínvél 2,0 5.790.000
Subaru Forester
Subaru Forester. Myndir / HLJ
Hliðarspeglar eru mjög góðir.
Hátt er upp undir bílinn að framan, sem gerir honum kleift að brölta mjög
torfæra slóða án þess að eiga á hættu að reka niður framendann.
Upplýsingaskjárinn sýndi að eftir tveggja tíma akstur var eyðslan 6,9 lítrar
á hundraðið en frá því að A-kílómetramælirinn var núllaður var hún samtals
7,8 lítrar á hundraðið.
S og I takkarnir, I fyrir sparakstur og
S fyrir snerpu.