Boðberi K.Þ. - 01.06.1992, Qupperneq 18
Sunnuferðir - sólarflug
Hreiðar Karlsson
Löngum hefur það verið vandasamt hlutskipti
að sitja á háum stóli fyrir allra augum og mega
hvorki misstíga sig í orðavali né göngulagi - þurfa
jafnvel að vera sjálfum sér samkvæmur frá degi til
dags. Þetta er auk þess hálfu erfiðara fyrir þá sem
oft þurfa að tjá sig og hafa gaman af því.
Það máttu leiðtogar Neytendasamtakanna
reyna nú fyrir skemmstu þegar Sólarferðir Guðna
féllu skyndilega niður og hópur fólks sat eftir með
sárt ennið í rigriingunni. Þá voru menn fljótir að
sjá þjófnað og skepnuskap og biðja Blöndal um
hjálp og opinbera rannsókn.
Nú er það því miður ekki nýtt að fyrirtæki á ís-
landi fari á hausinn. Það er því miður líka algengt
að þau selji vörur og þjónustu undir raunverulegu
kostnaðarverði og að það endi með ósköpum.
Neytendapostular eru hins vegar ekki vanir að
kvarta yfir því, heldur hafa þeir hrósað þessum
aðilum í hástert fyrir frumleika, verðlag, sam-
keppni og annað ágæti, hvað sem líður gæðum á
viðkomandi vöru eða þjónustu. Gildir þá einu
hvort fyrirtækið heitir Kostakaup eða Bónus;i
Kjarabót eða Kjötmiðstöð. Þegar kemur að Sól-
arflugi, vantar hins vegar nokkuð upp á sam-
ræmið hjá postulunum, því það er engu betri ver-
knaður að verða gjaldþrota við neysluvörur en
ferðalög, - að glata peningum Páls fremur en
Péturs.
Nei, munurinn er sá, að þegar matvörukaup-
maður fer á hausinn, þykjast neytendur hafa
notið góðs af vitlausu verði, en birgjar og fram-
leiðendur bera tapið. Þegar Sólarflug kom til
jarðar, bitnaði það strax á ferðalöngunum
sjálfum, hinum svokölluðu neytendum - með
ærnum sársauka. En var það svo ósanngjamt?
Var það ekki einmitt sami aðili, hinn óbreytti
neytandi, farþeginn, sem naut góðs af brölti
Guðna og lækkun flugfargjalda?
Þarna fór saman ávinningur og áhætta. Það var
neytandinn sem græddi á Guðna, tók áhættuna og
skellinn að lokum og það er í sjálfu sér bæði sann-
gjarnt og rökrétt. Gallinn var bara sá, að það voru
ekki endilega sömu neytendurnir, sem græddu og
þeir sem borguðu - og svíður nú að vonum.
Það er verkefni réttra yfirvalda að meta, „hve-
nær maður stelur peningum" og hvenær ekki. Hitt
er okkur öllum hollt að muna, bæði neytenda-
postulum og öðrum, að raunverulegar hagsbætur
fást ekki með ævintýramennsku eða gylliboðum,
sem ekki standast í raun. Gjaldþrotin þarf líka að
borga, og á endanum gerir samfélagið það með
einum eða öðrum hætti, þ.e. neytendur sjálfir.
Hagsmunir þeirra eru því einkum þeir að fá
vörur og þjónustu á eðlilegu verði og heilbrigðum
grunni, að samræmi sé miili verðs og gæða, áhættu
og ávinnings. Það eru þau markaðsöfl sem eiga að
ráða, en hvorki spilakóngar né spákaupmenn.
Hreiðar Karlsson
Myndbandsspólur á tilboði:
3 spólur 195 mín í pakka á aðeins kr. 1.393.-.
18