Morgunblaðið - 12.03.2012, Síða 24

Morgunblaðið - 12.03.2012, Síða 24
24 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. MARS 2012 ✝ SteingrímurJóhannesson fæddist 14. júní 1973. Hann lést á krabbameinslækn- ingadeild Landspít- alans þann 1. mars sl. Hann var sonur hjónanna Jóhann- esar Kristinssonar f. 11. maí 1943, d. 14. júlí 1990 og Geirrúnar Tómasdóttur f. 2. apríl 1946. Systkini Steingríms: 1) Tómas f. 1967, maki Margrét Sigurgeirsdóttir, 2) Lúðvík f. 1969, maki Ingibjörg Þorsteins- dóttir, 3) Hjalti f. 1974, maki Þórdís Sigurðardóttir, 4) Hlyn- ur f. 1974, maki Aldís Björg- vinsdóttir, 5) Helga f. 1980 og 6) Sæþór f. 1983, maki Svanhildur Hanna Freysteinsdóttir. Stein- grímur kvæntist 20. maí 2002 Jónu Dís Kristjánsdóttur. Dæt- ur Steingríms og Jónu Dísar eru Kristjana María, f. 13. sept- ember 1997 og Jóhanna Rún, f. 29. október 2007. Foreldrar Jónu Dísar eru Kristján Birg- isson, f. 20. maí 1952 og María Gústafsdóttir, f. 7. febrúar 1953. Systkini Jónu Dísar eru: 1) Að- alheiður f. 1973, 2) María Ýr f. 1981, 3) Gústaf f. 1985, maki Silja Rós Guðjóns- dóttir og 4) Kári Kristján f. 1984, maki Kristjana Ingibergsdóttir. Steingrímur ólst upp í Vest- mannaeyjum þar sem hann var mikið í íþróttum, hand- bolta, frjálsum íþróttum og síðast en ekki síst fótbolta sem var mjög stór hluti af lífi hans. Hann spilaði stærstan hluta af ferli sínum fyrir ÍBV en einnig fyrir Fylki, Selfoss og KFS, en aldrei mátti gleymast að hann var Þórsari. Stein- grímur og Jóna Dís hófu sinn búskap í Vestmannaeyjum árið 1995 en fluttust til Reykjavíkur árið 2001 og hafa búið þar síð- an. Steingrímur lærði rafvirkj- un og starfaði sem slíkur og nú síðustu ár hjá Rafmiðlun þar til hann veiktist alvarlega sl. sum- ar og varð að hætta störfum. Hann var afskaplega laginn til allra verka, duglegur, glaðlynd- ur, ljúfur, góður og ótrúlegur baráttumaður allt til dauða- dags. Útför Steingríms fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 12. mars 2012, og hefst athöfnin kl 13. Elsku Steingrímur minn, lífið var ekki gott við okkur síðustu mánuði. Ég get svo lítið sagt en það veit ég að þú barðist lengur og meira en nokkur annar mannleg- ur máttur hefði getað. Daga og nætur mig dreymir mig dreymir þá stöðugt um þig mér finnst að þú hvílir við hlið mér með handlegginn utan um mig þú brosir og blíðlega strýkur burtu hvert sorgartár þú leggur að brjósti mér lófann og læknar mitt hjartasár. En þegar til vitundar vakna veit ég þú ert ekki hér tíminn svo lengi að líða því lífsklukkan gengur með þér hvert augnablik verður að árum hver einasta mínúta öld hver tilfinning verður að tárum af trega mín sála er köld. (Rúna 1960.) Þú ert og verður ástin mín og klettur alla tíð. Þú ert ljós í myrkri minnar sálar minningarnar ylja á sorgarstund. Er þræddi eg ljósi byrgðar brautir hálar birti upp þín hlýja og góða lund. Þú gafst mér von í veður lífsins dróma, vinur, sem að aldrei gleymist mér, með nálægð þinni hvunndag léstu ljóma lífið varð mér sælla nærri þér. Þú verður hér í draumi dags og nætur ef dreyra þakinn hugur kvelur mig, ef sorgir á mig herja og hjartað grætur huggunin, er minningin um þig. Ég kveð þig nú með djúpan harm í hjarta. Þú hefur lagt af stað þín síðstu spor. Til himnaföður liggur leið þín bjarta, liðnar þrautir, aftur komið vor. (Rúna 1960.) Elsku Steingrímur minn, ég geymi í hjarta mínu allar dásam- legu stundirnar okkar sem við átt- um og árin okkar rúmlega 20. Ég passa stelpurnar okkar eins og ég lofaði. Guð geymi þig. Þín að eilífu, Jóna Dís. Elsku pabbi okkar. Mér tregt er um orð til að þakka þér, hvað þú hefur alla tíð verið mér. Í munann fram myndir streyma. Hver einasta minning er björt og blíð, og bros þitt mun fylgja mér alla tíð, unz hittumst við aftur heima. Ó, elsku pabbi, ég enn þá er aðeins barn, sem vill fylgja þér. Þú heldur í höndina mína. Til starfanna gekkstu með glaðri lund, þú gleymdir ei skyldunum eina stund, að annast um ástvini þína. Þú farinn ert þangað á undan inn. Á eftir komum við, pabbi minn. Það huggar á harmastundum. Þótt hjörtun titri af trega og þrá, við trúum, að þig við hittum þá í alsælu á grónum grundum. Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt, um þrautir og baráttu ræddir fátt og kveiðst ekki komandi degi. (Hugrún.) Þínar uppáhaldsstelpur, Kristjana María og Jóhanna Rún. Hetja varst’ til hinstu stundar heilbrigð lundin aldrei brást. Vinamörg því við þig funda vildu allir, glöggt það sást. Minningarnar margar, góðar mikils nutum, bjarminn skín. Bænir okkar heitar hljóðar með hjartans þökk við minnumst þín. (María Helgadóttir.) Elsku Steingrímur minn, það er sárt að sjá á eftir barni sínu, langt um aldur fram og þú aðeins 38 ára. Þú varst hetja í baráttunni við krabbameinið, bara þreyttur voru þín orð, sagðir með þínu rólega en ákveðna fasi: „Mamma, ég er sóknarmaður og er ekki að gefast upp.“ Svona hresstir þú mig við. En sóknin gekk ekki upp í þetta sinn. Ég geymi minningu um góð- an son í hjarta mínu. Ég veit að pabbi þinn hefur tekið vel á móti þér ásamt hinum sem eru komnir yfir. Þú varst dætrum þínum góður og duglegur faðir. Þeirra sorg er mikil. Þú áttir duglega konu sem stóð eins og klettur við hlið þér alla tíð. Jóna Dís mín, hafðu hjart- ans þökk fyrir það. Megi Guð styrkja þig og dætur þínar í sorg- inni. Mamma (Geirrún). Elsku Steingrímur okkar. Þá er þessum ömurlega leik lokið! Úrslitin hörmuleg og ósann- gjörn enda andstæðingurinn svo óvæginn og grimmur að erfitt var að horfa upp á. Þessi andstæðing- ur var búinn að undirbúa sig lengi áður en hann hóf sýnilega atlögu að þér, Steingrímur minn, án þess að nokkur vissi. Nú hófst mikill baráttuleikur. Með þér í liði var frábært fólk í hverri stöðu. Já, þetta voru færustu læknar og hjúkrunarfólk sem framkvæmdi ótrúlega hluti í þessari baráttu við þennan grimma andstæðing. Auð- vitað var fyrirliðinn og aðalmann- eskja í þínu liði hún Jóna Dís þín sem þú vildir alltaf hafa hjá þér. Á þessum tímapunkti vonuðumst við til að andstæðingnum hefði verið vísað af velli og kæmi ekki meira við sögu. Því miður leið ekki lang- ur tími þar til hann kom inn á aft- ur og fór að leika lausum hala með sínum grófa leik sem fólst í því að gefa þér ekki nein færi. Þá tókst þú þessi mikli baráttujaxl einn af þínum ótrúlegu sprettum og náðir að jafna og í næstu stórsókn að komast yfir eins og þér var einum lagið. Þarna héldum við að nú væri sigur í sjónmáli. En þá kom þessi illvígi andstæðingur aftan að þér með fólskubrot og ljóta tækl- ingu og sparkaði þig niður. Þarna var erfitt að standa upp en þú gerðir það nú samt aftur og aftur og sagðir aldrei orð þrátt fyrir óréttlæti. Þá kom dómurinn! Leikurinn flautaður af, andstæð- ingnum grimma „krabbameininu“ dæmdur sigurinn. Þvílíkur dóm- ur! Aldrei hefur nokkur dómur verið okkur jafn sár og ósann- gjarn. Já, elsku Steingrímur okkar, þú sem áttir að eiga allt lífið fram- undan með Jónu Dís þinni og gull- molunum ykkar, Kristjönu Maríu 14 ára og Jóhönnu Rún 4 ára, sem eru búnar að upplifa svo mikið. Þú varst einn okkar besti knatt- spyrnumaður, markahæstur tvö ár í röð og áttir stóran þátt í bikar- og Íslandsmeistaratitli ÍBV. En ekki landsliðsmaður, „ótrúlegt“. Þú komst ungur inn á okkar heim- ili, reyndist okkur einstaklega vel og bauðst til að gera allt með glöðu geði enda öðlingsdrengur, sérstaklega vandvirkur og dug- legur. Þú lærðir rafvirkjun og þar varst þú á heimavelli. Þú vannst undanfarin ár hjá Rafmiðlun og þar áttir þú góða samstarfsmenn og yfirmenn sem hafa reynst þér ómetanlegir og Jónu Dís okkar einstakir á þessum stundum. Við biðjum Guð að launa öllu því góða fólki sem hefur hjálpað ykkur og styrkt, haldið frábært fótboltamót, allt ykkur til stuðn- ings. Þvílíkt öðlingsfólk, án þess hefði baráttan verið óbærileg. Elsku stelpurnar okkar, Guð styrki ykkur, huggi og umvefji hlýju á þessum sorgartímum. Elsku Geirrún, Guð styrki þig og fjölskylduna alla. Við spyrjum Drottin særð, hvers vegna hann hafi það dularfulla verklag að kalla svona vænan vinnumann af velli heim á bæ um miðjan dag. Og þó, með trega og sorg, skal á það sæst að sá með rétti snemma hvílast megi í friði, er hafði, fyrr en sól reis hæst, fundið svo til, að nægði löngum degi. (Jóhann S. Hannesson) Guð geymi þig, elsku Stein- grímur okkar, og takk fyrir allt. Þínir tengdaforeldrar, María og Kristján. Elsku bróðir. Nú þegar þessari erfiðu baráttu er lokið með mikilli sorg og söknuði langaði mig að segja nokkur orð. Ég hef alltaf dáðst að jákvæðni þinni, baráttu- gleðinni, styrkleika, húmor og bara öllu sem þú tókst að þér að gera. Allar minningarnar sem ég á um þig munu alltaf lifa í hjarta mínu. Þegar ég fékk að fara með þér á hljómsveitaræfingarnar með Stertimönnum; þegar þú varst fótbrotinn á hækjum í marki í fótbolta á skólalóðinni og ég mátti alls ekki segja mömmu og pabba það; þegar við fórum með jólakortin á aðfangadag og ég hljóp með öll kortin nema tvö sem þú fórst með sjálfur og lést mig bíða úti í bíl meðan þú stoppaðir í spjalli í hálftíma eða meira hjá Þór og Dollý; eftirminnileg Herjólfs- ferð eftir bikarleikinn ’98 þegar allir voru drullusjóveikir og þú skokkaðir á milli allra til að at- huga heilsuna (sem var ekki vin- sælt) en var bara fyndið; fallegi brúðkaupsdagurinn þinn; leyfðir mér að búa hjá ykkur í tvo mánuði þegar ég flutti fyrst til Reykjavík- ur og svo ótalmargt sem hægt er að telja upp. Ég veit nú að þið pabbi munuð gæta hvor annars og fylgjast vel með okkur öllum, lífið er svo sann- arlega ekki sanngjarnt, svo hér með kveð ég þig elsku bróðir. Elsku Jóna Dís, Kristjana María, Jóhanna Rún, mamma og bræður, minnumst hans og leyf- um honum að lifa áfram í hjarta okkar með öllum fallegu minning- unum um hann og gefumst aldrei upp. Er sárasta sorg okkur mætir og söknuður huga vorn grætir þá líður sem leiftur úr skýjum ljósgeisli af minningum hlýjum. (H.J.H.) Helga Jóhannesdóttir. Mig langar með nokkrum orð- um að minnast elskulegs bróður míns sem féll frá hinn 1. mars langt um aldur fram eftir mjög erfið veikindi. Steingrímur var góð fyrirmynd í íþróttum og ég var stoltur af að vera bróðir hans og fylltist stolti þegar ég var kynntur sem bróðir Steingríms. Það könnuðust allir við Stein- grím úr boltanum og allir höfðu það sama að segja um hann: heið- arlegur, skemmtilegur, sann- gjarn, vinnusamur og vandvirkur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Mér er minnisstætt þegar við bræðurnir Steingrímur, Hjalti og ég vorum alltaf að keppa í frjálsum, þá skiptumst við Hjalti á að taka silfrið og bronsið þar sem gullið var alltaf um hálsinn á Steingrími að keppni lokinni (enda var hann gull af manni!) og ekki skömm að vera á eftir svona miklum íþróttamanni og fljótasta manni í heimi, enda átti hann það alltaf skilið. Aldrei minnist ég þess að hann hafi sýnt hroka, verið ósanngjarn, montað sig af þeim sigrum sem hann hefur unnið í gegnum árin eða sett sig á hærri stall en aðrir. Hann kunni líka að tapa og prúð- ari mann innan vallar sem utan er erfitt að finna. Ég þakka fyrir þann tíma 2004- 2008 þar sem við unnum saman upp á hvern einasta dag, þá var frábært að hafa hann sér við hlið sem kennara og félaga. Skipu- lagður og einstaklega skemmti- legur strákur með frábæran húm- or sem kom vel saman við alla. Aldrei sá ég hann skipta skapi, vera reiður eða tala illa um nokk- urn mann. Aldrei hef ég heyrt neitt slæmt um hann nema þá helst að ekki virtist hann kunna á klukku, hann var ekki að stressa sig á nokkrum mínutum til eða frá. Rútur vinur minn sagði mér að Steingrímur hefði verið sá eini sem aldrei var hræddur við þjálf- arana sína. Hann sagði það sem aðrir þorðu ekki að segja. En hann kom því bara svo skemmti- lega frá sér, stundum með sínum svarta húmor. Hann naut virðing- ar hjá öllum, enda var ekki hægt að vera reiður við Steingrím. Það var í maí sem hann sagði mér fyrst að hann væri með ein- hverja tannpínu og væri að fara að athuga það, en fljótlega kom í ljós að þetta var krabbamein. Hann tók því sem verkefni og barðist hetjulega og kvartaði aldrei þrátt fyrir mjög erfiðar meðferðir. Húmornum hélt hann til lokadags og ég minnist góðs bróður með þakklæti fyrir allt í gegnum lífið og er sár að lífið skuli vera svona ósanngjarnt en greinilegt er að hans bíður stærra hlutverk á öðr- um vígstöðvum (þeir deyja svo sannarlega ungir sem guðirnir elska). Pabbi var rétt rúmlega 47 ára og þú rétt rúmlega 39 ára, vá hvað lífið er ósanngjarnt. En að baki kraftmiklum og stórkostleg- um manni stendur kraftmikil og stórkostleg kona. Jóna Dís stóð alltaf þétt við hlið Steingríms og stóð sig eins og hetja í öllum þess- um erfiðu veikindum og alveg fram í andlátið. Elsku Jóna Dís, Kristjana María og Jóhanna Rún, megi Guð gefa ykkur styrk og kraft til að halda áfram að takast á við lífið. Stoltur bróðir Steingríms Jó- hannessonar, Hlynur Jóhannesson. Þá kom kallið, símhringingin sem ég hafði lengi kviðið fyrir, þú hafðir kvatt þennan heim eftir hetjulega baráttu í úrslitaleik þar sem spilað var til sigurs en í þetta sinn dugði ekki öll þín keppnis- harka, dugnaður og ótrúlega já- kvæðni til. Ég minnist áranna á Bröttó með brosi, mikið var brall- að, slegist og keppt. Við keppt- umst við að bera út Moggann, hver með sitt hverfið, hver yrði fyrstur í dag? Við öttum líka kappi í frjálsum íþróttum þar sem við Hlynur unnum til skiptis annað- hvort silfur eða brons en alltaf vannst þú gullið. Við unnum líka mörg sumur saman í Vallógeng- inu hjá Sigga Valló þar sem við slógum gras og æfðum fótbolta á kvöldin, þar varstu líka í fremstu röð og þegar mig langaði að fara aftur í ÍBV eftir hlé hvattir þú mig til að hringja í Bjarna Jóh. sem og ég gerði og þá spiluðum við bræð- urnir saman undir merki ÍBV þar sem við áttum þessi frábæru tíma- bil saman sem verða mér hjart- fólgin um alla tíð. Og síðan þá þekkist ég varla undir öðru nafni en Hjalti Jóh. bróðir Steingríms. Þú varst góð fyrirmynd innan vallar sem utan, alltaf prúð- mennskan uppmáluð og húmorinn aldrei langt undan, þessi hnyttni dásamlegi húmor sem þú gast slengt á fólk og beiðst svo bros- andi eftir viðbrögðum. Mér er svo minnisstætt þegar þú varst í viðtali við einhverja sjónvarpsrásina á Fylkisvellinum og við hlið þér stóð Bjarni Jóh. Hann var að hrósa þér fyrir frammistöðuna í leiknum og þá sagðir þú: „Það er nú óþarfi að vera eitthvað væminn þótt ég standi hérna,“ svo kom brosið og hláturinn. Þarna var þér rétt lýst, aðeins að rugga bátnum. Þú varst öðlingur í alla staði og ég þakka fyrir þann tíma sem við áttum saman. Lífið er svo hverfult og fyrir tæpu ári fékk ég sjálfur áminn- ingu og séns þar sem við vorum þrír skipsfélagar hætt komnir við störf okkar en betur fór en á horfðist og ég fékk annað tæki- færi. En það var greinilegt að þú áttir að sinna öðrum verkefnum á öðrum stað eins og þú sagðir sjálf- ur. „Hann vantar pottþétt raf- virkja þarna uppi,“ þegar bakslag kom í einni meðferðinni. En aldrei léstu deigan síga, það var ekki í þínu eðli að gefast upp. Hetjuleg barátta ykkar Jónu Dísar við þennan illvíga sjúkdóm var ótrú- leg, þið voruð frábært teymi, vor- uð staðráðin í að vinna þessa bar- áttu og það eina sem ég gat gert var að hvetja á hliðarlínunni og fékk engu ráðið um framgöngu mála. Það er það erfiðasta sem ég hef upplifað og það eina sem ég gat gert var að trúa og vona að við fengjum ósk okkar uppfyllta að kraftaverk myndi gerast og við myndum geta spilað eins og einn eða fleiri fótboltaleiki saman, ég í vörninni og þú að skora mörkin. Elsku Jóna Dís, Kristjana María og Jóhanna Rún, Guð blessi ykkur og styrki í áframhaldandi lífsins baráttu. Hjalti Jóhannesson. Kæri bróðir, sorgin kallar á tómleikann, depurðina, svart- nættið, reiðina og þunglyndið.Til hvers er þetta óréttlæti að hrifsa þig, reglumanninn, á besta aldri frá fjölskyldu og ástvinum þín- um? Eitt sinn verða allir menn að deyja segir í góðum texta og það er víst komið að þér. En í miðju svartholinu birtir yfir og fallegu minningarnar um þig ylja hjarta- rætur mínar. Gosárið 1973 þegar þú komst í heiminn og ætlaðir þér að verða fyrstur og bestur, þurft- um við bræðurnir í ófá skiptin að fara aftur út í bíl til að uppfylla það. Þér lá svo mikið á að komast fyrstur inn heima eitt skiptið að þú lést þig gossa út úr bílnum á ferð neðst í Bröttugötubeygjunni og slappst með skrámu. Íþróttir áttu fljótlega hug þinn allan og með krafti þínum og ákveðni náðir þú í fremstu röð. Þú áttir það til að breytast í ró- legheitin þar sem staður og stund voru ekki til. Þú fetaðir vinnuleið- ina mína fljótlega, fyrst með blaðaútburði, síðar yfir í rafvirkj- unina. Náðum við að starfa saman á þeim vettvangi þar sem þrjóska, dugnaður og færni þín kom ber- lega í ljós. Einnig fórum við saman í draumaferðina í Karíbahafið með konurnar okkar. Þú varst mikill fjölskyldumaður og naust sam- veru við hana. Þá taka örlögin í taumana og þú þurftir að heyja hetjulega en ósanngjarna baráttu við veikindi þín. Náðir þú að skjóta okkur ref fyrir rass enn og aftur og kveður þennan heim á undan okkur systkinunum. Þú hlýtur að hafa fengið mjög mikilvægt hlutverk í himnaríki. Þakka þér fyrir allar góðu stundirnar. Guð geymi þig og varðveiti. Fjölskyldu þinni sem var þér dýrmætust, Jónu Dís, Kristjönu Maríu og Jóhönnu Rún, sam- hryggist ég innilega fyrir þeirra missi. Kær kveðja, þinn einlægur bróðir, Tómas. Elsku besti Steingrímur minn. Ég veit ekki hvar ég á að byrja, enda yfir mikið að fara því þú hef- ur verið í lífi mínu frá því að ég var aðeins átta ára gamall. Fyrir mér varst þú meira en bara mág- ur minn, þú varst líka eins og stóri bróðir minn. Okkar tengsl voru frábær, við náðum alltaf svo vel saman og þú stóðst alltaf með mér þegar ég þurfti á því að halda og ég verð ávallt þakklátur fyrir það. Ég verð alltaf þakklátur fyrir það að þú og systir mín funduð hvort annað, því að þannig komstu inn í fjölskylduna og passaðir þar svo vel. Upp úr því urðu til margar yndislegar og ógleymanlegar minningar sem við fáum alltaf að eiga. Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir sem krakki þegar þú varst nýkominn í fjölskylduna, var það hversu ótrúlega mikið þú gast borðað og þá einna helst hversu mikið af osti þú gast sett á eina brauðsneið. Þú tókst þér líka þinn tíma í að borða, sem var mjög langur því að þú gast borðað á við okkur öll. Það var hið besta mál, nema á jólunum þegar við vorum krakkar. Biðin eftir þér að borða svo við gætum farið að opna pakk- ana var auðvitað endalaus fyrir okkur krakkana, en við brosum og hlæjum yfir þessu enn í dag. Þú varst og ert með skemmti- legri og hressari mönnum sem hægt er að finna, alltaf í góðu skapi og maður vissi alltaf hvar maður hafði þig, því þú komst allt- af til dyranna eins og þú varst klæddur. Við áttum það líka sam- eiginlegt að við vorum með ná- kvæmlega sama svarta (og að mínu mati skemmtilega) húmor- inn, enda var það stundum þannig að þú einn fattaðir brandarann minn og öfugt. Við skemmtum okkur oft konunglega við að hneyksla fólk og það vissi engan veginn hvort okkur væri alvara eða hvort við værum að grínast. Frábærar stundir! Steingrímur Jóhannesson

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.