Morgunblaðið - 12.03.2012, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 12.03.2012, Blaðsíða 25
MINNINGAR 25 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. MARS 2012 Elsku hjartans Steingrímur minn, ég trúi því varla að þú sért farinn en því miður er það þannig. Þú ert mesta hetja sem ég hef kynnst á ævinni og gætu allir fundið eitthvað í þér til að taka til fyrirmyndar, því þú varst frábær fyrirmynd. Ég á eftir að minnast þín alla ævi, á eftir að segja sögur af þér og tala um þig. Ég á eftir að sakna þín svo mikið, Steingrímur minn. Ég er Guði þakklátur fyrir að hafa kynnst þér, og að sonur minn hafi fengið að hitta þig, þó svo að hann sé bara lítill peyi. En nú ertu farinn og óska ég þér góðrar ferð- ar, elsku góði Steingrímur. Ég veit að þar sem þú ert núna verður þér vel tekið eins og alls staðar. Hvíldu í friði, minn kæri Stein- grímur. Þinn Gústaf. Elsku Steingrímur. Það er ekki hægt að lýsa því í orðum hversu mikil sorg ríkir í fjölskyldunni okkar núna. Þú varst svo mikil hetja í veik- indunum, og ætlaðir að sigra, ann- að kom bara ekki til greina. Bar- áttuviljinn og þrekið var ótrúlegt, og það var með ólíkindum hversu sterkur þú varst, aldrei kvartaðir þú. Aldrei. Þú ætlaðir að standa uppi sem sigurvegari, því varstu vanur úr fótboltanum. En svo urðu veikind- in þannig að ekki varð við neitt ráðið, en jafnvel þá var alltaf stutt í grínið og jákvæðnina. Þú varst einfaldlega þannig karakter, hörkutól sem tókst öllu með jafn- aðargeði, og þú barðist hetjulega til síðustu mínútu. Hún systir mín hefði ekki getað eignast betri mann. Þið byrjuðuð saman þegar Jóna Dís var bara 15 ára og þú 18 ára. Þá strax varstu orðinn einn af okkur í fjölskyld- unni. Þið voruð svo hamingjusöm og byrjuðuð fljótt að búa saman, voruð mjög samheldið par og mik- ið fjölskyldufólk. Stofnuðuð fljótt ykkar eigin fjölskyldu og gullmol- inn ykkar hún Kristjana María fæddist. Nokkrum árum seinna fluttust þið upp á land og byggðuð upp líf ykkar þar, alltaf jafnham- ingjusöm og ánægð hvort með annað. Tíu árum eftir að frum- burðurinn fæddist eignuðust þið svo annan gullmola, hana Jóhönnu Rún. Lífið lék við ykkur og þið voruð svo sátt við ykkar, voruð yndisleg fjögurra manna fjöl- skylda sem var svo mikið fyrir að vera saman. Það fannst ykkur best, að vera saman. Þú, Steingrímur, varst einstak- lega góður maður. Sem fótbolta- maður varstu til fyrirmyndar inn- an vallar sem utan, vinsæll meðal stuðningsmanna og gafst þér allt- af tíma til að tala um boltann við þá sem hittu þig á förnum vegi. Sem fjölskyldumaður varstu einstakur, fjölskyldan var alltaf númer eitt hjá þér, og þú elskaðir og dáðir stelpurnar þínar þrjár. Allar ákvarðanir sem þú tókst voru teknar út frá þeim og öllum þínum frítíma varðir þú með fjöl- skyldunni þinni. Þú elskaðir föð- urhlutverkið og varst frábær pabbi, svo þolinmóður og góður við prinsessurnar þínar. Enda elskuðu þær að vera með þér. Sem einstaklingur varstu hjartahlýr, vildir öllum allt það besta, vinnusamur með eindæm- um, alltaf tilbúinn að hjálpa okkur í fjölskyldunni þinni, þú varst vel liðinn alls staðar og öllum líkaði við þig, þú varst og ert einstakur. Ég mun aldrei skilja af hverju við þurfum að kveðja þig svona snemma, þú sem áttir allt lífið framundan og svo mikið til að lifa fyrir. Mér þykir óendanlega vænt um þig og við fjölskyldan verðum aldrei söm eftir að hafa misst þig frá okkur. Þín Aðalheiður. Elsku Steingrímur, nú er hetjulegri baráttu þinni við illvíg- an sjúkdóm lokið. Ég kveð þig með miklum söknuði og þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Það voru mikil forréttindi að fá að kynnast þér Sofðu vinur vært og rótt, verndi þig Drottinn góður. Dreymi þig vel á dimmri nótt dýrð þíns Jesú bróður. (Þorkell G. Sigurbjörnsson) Elsku Jóna Dís, Kristjana María, Jóhanna Rún og aðrir að- standendur. Megi góður Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Minningin um góðan dreng lif- ir. Silja Rós. Elsku Steingrímur minn. Orð fá því ekki lýst hversu sárt mér þykir að skrifa um þig minn- ingargrein. Ég var svo lánsöm að kynnast þér þegar ég kom inn í tengdafjölskylduna okkar fyrir rúmlega níu árum síðan. Okkur kom alltaf vel saman, enda ekki annað hægt en að kunna vel við þig. Það er margt sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til þín, sím- talið okkar sem við áttum áður en þú fórst í fyrstu aðgerðina þína sem mér þykir mjög vænt um, en það er bara okkar á milli. Þú varst með eindæmum hjálp- samur, blíður og góður maður, Steini minn, og, ekki má gleyma því, ótrúlega skemmtilegur. Þú gast alltaf fundið eitthvað til að grínast með. Þegar ég hugsa um ykkur hjónin saman þá fannst mér alltaf svo vinalegt og fallegt ykkar samband. Öll þessi ár sem ég þekkti þig þá sá ég þig aldrei reiðan, hækka röddina né skamm- ast. Það segir margt um þinn innri mann, svo einstakur. Í veikindum þínum var aðdáun- arvert að fylgjast með því hvernig þú tókst á hlutunum, reyndir allt sem þú gast til að vera jákvæður, geðgóður og alltaf var stutt í brandarana. Jóna Dís þín stóð eins og klettur við hlið þér allan tímann ásamt dásamlegu tengda- foreldrum okkar. Eftir alla barátt- una er svo ósanngjarnt að þú hafir ekki unnið, því þú barðist svo hetjulega og gafst aldrei upp. Eft- ir sitja perlurnar þínar þrjár ásamt okkur hinum sem þótti svo vænt um þig. Þú mátt treysta því, Steini minn, að við fjölskyldan gerum allt sem við getum í að um- vefja perlurnar þínar af allri þeirri ást og umhyggju sem við eigum til og varðveitum minningu þína alla daga. Þín verður sárt saknað. Hvíldu í friði, elsku vinur. Þín, Kristjana. Steingrímur Jóhannesson, Stóní eða bara Steini minn, eins og pabbi kallaði þig alltaf, var góð- ur maður. Þegar ég segi góður maður þá meina ég frábær og kemur það frá mér í allri heimsins einlægni. Ég kynntist þér þegar þú byrj- aðir að dandalast í kringum húsið mitt og hafði ég ekki grænan grun um hvað þú varst alltaf að gera. Strax í kjölfarið byrjaðir þú að koma með mömmu þinni í kaffi til mömmu minnar, furðulegt! Það var ekki fyrr en þú varst orðinn íbúi á Heiðartúni 4 að ég gerði mér grein fyrir að þetta var allt saman skipulagt í þaula, eins og stórt púsluspil en þú varst alltaf ógeðslega góður að púsla :O). Já þú gekkst um húsið eins og þú ættir heima þar, milli þess sem þú kysstir systur mína. Þetta var víst kallað að vera kærustupar en það var óþarfi hjá þér að borða frá mér allan matinn en þú gerðir það samt ekki. Þú beiðst alltaf, kurt- eisin og prúðmennskan uppmáluð, eins og á vellinum, þangað til allir voru búnir og þá fór þessi 85 kílóa líkami að borða eins og bergrisi. Þeir sem þekkja til vita að þá var sjón sögu ríkari. Þú komst snemma inn í líf mitt og áttaði ég mig varla á því hvort þú værir ekki bara bróðir minn en það var víst ekki þannig. Þú ert búinn að vera hluti af fjölskyld- unni minni svo lengi að ég á varla minningar fyrir þinn dag. Þú af- rekaðir margt á stuttri ævi og þú skilur eftir þig fræ sem gera heim- inn nú þegar blómlegri en hann var. Þú varst mér og mínum ein- stakur og þá sérstaklega foreldr- um mínum sem höfðu og hafa þig í guðatölu. Þessi óendanlega lang- lund og þolinmæði sem þú bjóst yfir er dyggð sem hver maður vildi óska sér. Þú varst alltaf boð- inn og búinn að hjálpa til við hvaða aðstæður sem er. Ég á þér líka svo margt að þakka. Þú varst systur minni svo góður og barst hana á höndum þér alla tíð og með þér blómstraði hún og í senn þið saman. Þið eignuðust tvær yndislegar stelpur og þakka ég þér fyrir að hafa verið um- hyggjusamur, ábyrgur og um- fram allt ástríkur pabbi sem gerði allt fyrir stelpurnar sínar og munu þær búa að þessari ást til fram- búðar. Já, genin þín halda áfram að prýða heiminn og ég veit það fyrir víst að stelpurnar þínar eiga eftir að láta að sér kveða í framtíð- inni því að eins og „kallinn“ ganga þær ekki frá hálfunnu verki. Ég kveð þig með trega og sökn- uði. Við töluðumst ekki við á hverjum degi en við áttum okkar samband og mér fannst það gott samband. Báðir latir við að hringja og skildum þ.a.l. hvor ann- an :O). En ég get ekki kvatt þig án þess að vera reiður. Af hverju varstu tekinn frá okkur svona snemma? Þessari spurningu verð- ur aldrei svarað en henni mun skjóta upp í huga mínum svo lengi sem ég dvel á þessum stað. Órétt- læti sýnir sig þarna í sinni verstu mynd og sárt er að játa sig sigr- aðan á því. En við getum ekki endað þetta nema á góðu nótunum því að þær voru þær einu sem þú kunnir að slá. Eftir þig liggja stórkostlegar minningar sem eiga aldrei eftir að gleymast og eftirmyndir þínar og yndislega konan þín eiga eftir að halda nafni þínu á lofti um ókomna tíð. Kári Kristján. Okkar verður ætíð minnst fyrir sporin sem við skiljum eftir okkur og þín spor eru svo sannarlega gæfuspor, sem við dáumst að. Þú komst inní líf mitt þegar ég var 11 ára, þegar systir mín var svo lánsöm að kynnast þér, og fluttir í næsta herbergi. Á þessum tuttugu árum hef ég verið svo heppin að fá að taka mikinn þátt í ykkar lífi og gimsteinanna ykkar, Kristjönu Maríu og Jóhönnu Rún- ar. Ég er óendanlega þakklát fyrir það, það er mér ómetanlegt. Þú hefur alltaf tekið vel á móti mér, og látið mig finna að ég sé velkomin á ykkar heimili, og verið svo góður við mig. Við höfum aldr- ei orðið ósátt og aldrei orðið hnökrar á okkar samskiptum. Því- líkt umburðarlyndi, endalaus þol- inmæði, heiðarleiki, dugnaður og góðvild er aðeins lítið brot af kost- um þínum. Þú varst yndislegur faðir og þið Jóna Dís systir alltaf svo ham- ingjusöm. Þú hjálpaðir mér svo mikið og kenndir mér svo ótalmargt um líf- ið. Þú varst dásamleg manneskja, gull af manni! Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi, hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér. Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi, og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Elsku systir mín, Kristjana María og Jóhanna Rún. Megi Guð gefa ykkur styrk og vaka yfir ykk- ur. Góða nótt og Guð geymi þig elsku Steingrímur. Þín María Ýr. Það er erfitt minn kæri félagi að meðtaka það að þú ert horfinn á braut. Þegar ég fékk fréttina af andláti þínu kom tómarúm í til- veruna og ég spurði mig: Hvers vegna þú? Við því fæ ég aldrei svar en minningin um þig og hvað þú gerðir í þínu lífi mun lifa. Þú varst baráttumaður alla þína tíð, einstaklega hæfileikaríkur íþróttamaður, vinnusamur og tókst á við þín veikindi af æðru- leysi og bjartsýni. Nákvæmlega á sama máta og ég þekkti þig fyrir, þegar við áttum frábæran tíma saman sem liðsfélagar í knatt- spyrnunni og vinir frá því við hóf- um að leika saman. Þó að nokkur ár séu á milli okk- ar þá náðum við vel saman innan vallar sem utan og í keppnisferð- um sem herbergisfélagar. Þú varst alltaf svo hreinskiptinn en umfram allt einn sá mest ómiss- andi karakter sem ég og fleiri höf- um leikið með á okkar ferli. Það var alltaf líf og fjör í kringum þig og ég gleymi aldrei fyrstu æfinga- ferðinni þinni til Þýskalands þeg- ar þú, nýliðinn í hópnum, stóðst fyrir nördakosningu eitt kvöldið og varst búinn að tryggja það hver yrði fyrir valinu. Það sýndi gleðina og skemmtilegheitin sem þú bjóst yfir. Hins vegar voru það hæfileik- ar þínir á knattspyrnuvellinum sem eftir var tekið og þú ert einn mesti markaskorari sem Eyjarn- ar hafa alið af sér, sem og á lands- vísu. Hæfileikarnir fólust hvað helst í dugnaði þínum og hraða, enda áttu varnarmenn landsins fullt í fangi með að halda aftur af þér. Mætur þjálfari okkar sagði eitt sinn að þú værir sá eini sem hann hefði séð að gæti einn press- að fjögurra manna vörn. Þú varst öðrum fyrirmynd og ég tala nú ekki um þegar þú allt í einu eitt ár- ið tókst upp á því að verða örv- fættur. Það var tímabilið 1998 þegar þú varst markakóngur deildarinnar og skoraðir hvert glæsimarkið á fætur öðru og þá flest með vinstri fæti. Saga þín lif- ir. Hin síðari ár þegar þú og fjöl- skyldan fluttust til Reykjavíkur þá fækkaði skiptunum sem við hittumst en alltaf þegar við töluð- um saman þá fann ég hvað þér þótti vænt um þennan góða tíma sem knattspyrnan gaf þér. Þinn ferill var farsæll, Íslandsmeistari í tvígang, bikarmeistari og lékst fyrir Íslands hönd. Ég þakka þér kæri vinur fyrir þau skipti þar sem þú gafst mér færi á að heimsækja þig á sjúkra- húsinu og nú síðast rétt rúmri viku fyrir andlátið. Baráttan sem þú sýndir var aðdáunarverð og þú varst alltaf þú sjálfur. Mína síð- ustu stund með þér mun ég ætíð varðveita, þá kvöddumst við með innilegu faðmlagi enda gagn- kvæm virðing á milli okkar. Það er mikil sorg sem Jóna Dís, dæturnar Kristjana María og Jó- hanna Rún, Geirrún, María og Kiddi og aðrir ættingjar takast á við. Hann barðist hetjulega við þann vágest sem krabbamein er en þurfti að játa sig sigraðan að lokum. Lífið er gleði og sorg og það fékk Steingrímur að reyna í sínu lífi. Ég og mín fjölskylda sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að veita ykkur styrk til að takast á við sorgina. Minningin um þennan mæta dreng, góðan fjölskylduföð- ur sem vann hörðum höndum fyr- ir framtíð síns fólks, mun lifa í hjörtum okkar allra. Hvíl í friði, kæri vinur. Ingi Sig. Gamli vinur. Það er mikil hryggð sem sækir að manni þessa dagana og afar erfitt að átta sig á því að þú sért raunverulega dáinn. Minningarnar um samverustund- ir okkar hrannast upp. Þú varst afburðaíþróttamaður og skaraðir fram úr í þeim greinum sem þú valdir þér, sér í lagi í fótboltanum þar sem ferill þinn er flestum kunnur. Kraftmikill og duglegur, kappsmikill og fylginn þér, en um- fram allt heiðarlegur leikmaður sem naut virðingar samherja jafnt sem mótherja. Utan vallar varstu eins, sannur dáðadrengur og heið- arlegur, hörkuduglegur, trúr og tryggur fjölskyldumaður. Lífs- gleðin og galsinn einkenndu þig, alltaf brosandi og til í eitthvað sprell. Það er erfitt að ímynda sér hvað þú sjálfur og fjölskyldan þín hafið gengið í gegnum þessar síð- ustu vikur og mánuði. Nú er þess- ari þrautagöngu lokið. Auðvitað barðistu til loka, eins og við var að búast af keppnismanni eins og þér. Vonandi líður þér vel á nýjum stað. Þaðan geturðu fylgst með dætrum þínum vaxa úr grasi og vakað yfir þeim. Á þeim stað von- ast ég til að hitta þig síðar. Hvíldu í friði, minn kæri vinur. Ómar Smárason. Frábær félagi er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Ég kynnt- ist Steingrími þegar við spiluðum saman með ÍBV fyrir rúmlega áratug. Hann var einn af þessum peyjum sem öllum líkaði vel við. Með sinn einstaka húmor, léttu lund og góðu nærveru var hann óneitanlega einn sterkasti hlekk- urinn í samheldnum leikmanna- hópi á þessum tíma. Það var alltaf skemmtilegt að æfa og leika með Steingrími. Hann var ekkert að stressa sig á því að vera sífellt að lyfta lóðum eins og lagt var fyrir okkur leikmennina að gera. Hann kom á æfingar með góða skapið og húmorinn í lagi og vildi bara spila fótbolta, lyftingar og langhlaup var ekki það sem fótbolti gekk út á að hans mati. En þrátt fyrir þenn- an takmarkaða áhuga á líkams- rækt kom það ekki í veg fyrir góð- an árangur hjá Steingrími því hann var sterkbyggður frá náttúr- unnar hendi og með einstakan hraða á vellinum. Hraðinn sem hann bjó yfir var hans aðalsmerki og skapaði ávallt hættu við mark andstæðinganna og gerði hann að einum marksæknasta leikmanni Íslands. Ég þakka fyrir að hafa kynnst Steingrími, prúðmenni sem alltaf skapaði jákvætt og skemmtilegt andrúmsloft jafnt innan vallar sem utan. Kæra Jóna Dís, Kristjana María, Jóhanna Rún og fjöl- skylda, missir ykkar er mikill og megi Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Birkir Kristinsson. Mig langar að minnast látins vinar míns, Steingríms Jóhannes- sonar, en hann lést langt fyrir ald- ur fram þann 1. mars sl. eftir stutta en erfiða baráttu við illvíg- an sjúkdóm. Steingrímur kom ungur inn í knattspyrnulið ÍBV og átti eftir að verða máttarstólpi á gullaldartíma liðsins í á annan tug ára. Hann lék stórt hlutverk þeg- ar ÍBV varð tvisvar Íslandsmeist- ari árin 1997 og 1998 og bikar- meistari 1998. Þá var hann markahæsti leikmaður Íslands- mótsins 1998 og skoraði 16 mörk. Það kom fljótt í ljós að hann yrði máttarstólpi í liðinu þessi ár, dugnaður, kraftur og hraði ein- kenndi hann sem leikmann. Hann var leikmaður sem allir varnar- menn óttuðust vegna þessa. Hann gafst aldrei upp og smitaði þannig út frá sér til annarra leikmanna liðsins. En það var ekki bara framlag hans á vellinum sem gerði hann að mikilvægum hlekk í þess- um hópi, því hann lék stórt hlut- verk í þeim léttleika sem var inn- an hópsins á þessum tíma. Hann var virkur þátttakandi þegar leik- menn ÍBV tóku upp á því að skapa „fögn“ eftir að boltinn lá í neti andstæðinganna. Í minningunni er hann oft aðalmaðurinn í þess- um skemmtilegu uppátækjum sem vöktu mikla athygli. Hann var dáður og dýrkaður af stuðn- ingsmönnum liðsins. Það sama má segja um mitt heimili og þegar sonurinn eignaðist sitt fyrsta gæludýr, kom ekkert annað nafn til greina en „Steini sprettur“ í höfuðið á Steingrími. Við fórum saman með liðinu í margar æf- inga- og keppnisferðir og þá var hann hrókur alls fagnaðar og stóð fyrir ýmsum uppákomum. Engum var hlíft, hvorki formanni knatt- spyrnudeildar né elstu leikmönn- um liðsins sem höfðu kallað eftir ákveðinni virðingu hjá sér yngri leikmönnum. Eitt sinn hringdi hann í mig til segja að honum hefði borist tilboð frá öðru liði sem hann gæti ekki hafnað. Þarna var hann að taka þátt í símahrekk sem átti að spila á skemmtikvöldi hjá liðinu. Sem betur fer var þetta samtal aldrei spilað vegna þeirra orða sem okkur fóru á milli. Hann vissi vel að hann var einn af mín- um uppáhaldsleikmönnum og að ég vildi alls ekki missa hann til annarra liða. Ég kynntist Stein- grími ekki bara sem leikmanni ÍBV-liðsins heldur urðum við vinir á þessum tíma sem entist alla tíð þó tengslin hafi minnkað eftir að hann flutti til Reykjavíkur. Ég hafði mikla ánægju af því að hjálpa honum við að standsetja íbúð sem þau Jóna Dís höfðu keypt sér við Kirkjuveg og var greinilegt að hann kunni sannar- lega að meta að ég hefði aðstoðað þau á þessum fyrstu búskaparár- um. Ég heimsótti Steingrím á sjúkrahúsið fimm dögum fyrir andlát hans. Þar rifjuðum við upp skemmtilega tíma sem við höfðum upplifað á þessum góðu árum með ÍBV og einnig margt annað. Þó af honum hafi verið dregið var það eins og ég væri að tala við hann á vellinum í gamla daga, ekki skyldi gefist upp í baráttu við sjúkdóm- inn. Þar kom þó að þessi harð- skeytti andstæðingur sigraði að lokum og baráttumaðurinn varð að lúta í lægra haldi. Ég sendi fyr- ir hönd fjölskyldu minnar samúð- arkveðjur til Jónu Dísar, dætra þeirra og annarra ættinga. Minn- ingin um góðan dreng lifir. Jóhannes Ólafsson, fyrrv. formaður Knattspyrnuráðs ÍBV. Mikill harmur er kveðinn að fjölskyldu og vinum Steingríms Jóhannessonar, sem jarðsettur verður í dag. Steingrímur háði erfiða baráttu við krabbamein síð- ustu mánuði. Ég hefi verið svo lánsamur að fá að fylgjast með þessum strák, bræðrum hans og frændum frá þeirra barnæsku. Hefi reyndar átt vináttu móður- fólksins alla tíð. Eitthvert albesta fólk, sem ég hefi kynnst. Stein- grímur sór sig svo sannarlega í ættina. Skemmtilegur dugnaðar- forkur, með fallegt hjartalag. Áleitnar spurningar um lífsins tilgang vakna við ótímabært frá- fall þessa öðlings. Ef eitthvað er ósanngjarnt í lífinu, þá er það þetta. Til hvers er barist? Við, sem eftir stöndum, skiljum ekki hvers vegna sumir fá að vera þátttak- endur í ævintýrum lífsins, aðrir ekki. Skiljum ekki hvers vegna strákur sá er við nú sárt söknum er hrifinn á brott frá fjölskyldu sinni og vinum. Strákur, sem okk- ur fannst gera allt rétt, og var til fyrirmyndar í hvívetna. Það er þyngra en tárum tekur, að hugsa til þess, að dætur þeirra hjóna upplifa nú sömu örlög og Stein- grímur og systkini hans, þegar faðir þeirra féll frá á besta aldri. Fallegar minningar um góðan dreng leita nú á hugann. Megi all- ar góðar vættir styrkja og hugga eftirlifandi eiginkonu, dætur, móður og alla aðra ættingja og vini Steingríms Jóhannessonar. Friðbjörn Ólafur Valtýsson. Það var auðvelt fyrir mig sem peyja í Vestmannaeyjum að líta upp til Steingríms Jóhannesson- ar. Hann var ekki bara ein aðal- hetjan í knattspyrnuliði ÍBV, heldur einnig bróðir míns besta vinar. Það var því ekki ónýtt að vera jafn velkominn og ég hef allt- af verið í fjölskylduna á Bröttu- götu 9. Það var mitt annað heimili og, eins og geta má, mikið um að vera. Steingrímur lét svo sem ekkert mikið fyrir sér fara, enda SJÁ SÍÐU 26

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.