SunnudagsMogginn - 24.06.2012, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 24.06.2012, Blaðsíða 30
30 24. júní 2012 Þ að er margt, sem bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn muni á ný taka við forystu í landstjórn- inni eftir næstu þingkosningar. Víst má telja, að stjórnarflokkarnir báðir bíði afhroð en athygli vekur að nýju fram- boðin virðast ekki ætla að ná fótfestu. Það kemur á óvart sérstaklega að því er varðar Samstöðu, flokk Lilju Mósesdóttur en Lilja sjálf hefur augljóslega notið trausts hjá al- menningi. Hún hefur sig of lítið í frammi. Hvað getur valdið því? Framsóknarflokk- urinn hefur verið að treysta stöðu sína en ekki mikið meir. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar við og við að sýna góðan árangur í skoðana- könnunum, nú síðast í fylgi til borgar- stjórnar. Vissulega sýnir reynzlan að þótt á slíkum könnunum sé að byggja þá stund- ina eru þær engin trygging fyrir því sem framundan er. Eins og mál standa nú er þó erfitt að sjá að forysta í landstjórninni geti komið frá öðrum að loknum næstu þing- kosningum. Er Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn til að taka slíkt verkefni að sér? Þessi spurning þvælist töluvert fyrir virkum stuðnings- mönnum Sjálfstæðisflokksins, sem til allrar hamingju eru tilbúnir til að horfa á flokk- inn og störf hans gagnrýnum augum. Það væri til marks um alvarlegan veikleika innan flokksins ef svo væri ekki. Ástæðan fyrir því að vissar efasemdir eru uppi um þetta meðal flokksmanna sjálfra er sú til- finning, sem hverfur ekki, að flokkurinn hafi ekki á eigin vettvangi gert upp sinn hlut í hruninu, sem er forsenda þess, að hann geti tekizt á við verkefni framtíð- arinnar í íslenzku samfélagi. Hvað er átt við með slíku „uppgjöri“ innan flokks? Í samtali við gamlan og góð- an vin minn til meira en sextíu ára á dög- unum áttaði ég mig á að það orð þýðir ekki endilega það sama í allra huga. Sumir telja, að krafa um uppgjör við hrunið innan flokksins sé krafa um uppgjör við einhverja einstaklinga. Í mínum huga er það ekki svo. Hvort þessi eða hinn fer í framboð á ný á vegum Sjálfstæðisflokksins verður ákveðið í prófkjörum. Að vísu kann að vera nauðsynlegt að setja nýjar leikreglur um þau. Þeir sem tala um það á vettvangi Sjálf- stæðisflokksins að flokkurinn hafi ekki gert upp hlut sinn í hruninu eru að mínu mati að fara fram á umræður og hugs- anlega endurskoðun á þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í nokkrum meginmálum. Í slíkum umræðum þarf ekki að felast ásökun á hendur þeim, sem veitt hafa flokknum forystu á undanförnum árum og áratugum. Þvert á móti. Framlag þeirra til slíkra umræðna er kannski það mikilvæg- asta vegna þess að þeir tala af fenginni mikilli reynslu. Um hvað eiga slíkar umræður og endur- skoðun að snúast? Dæmi: Hver er reynsla okkar af EES-samningnum tæpum 20 ár- um eftir að hann var gerður? Óumdeil- anlegt er að hann opnaði Ísland upp á gátt fyrir áhrifum af margvíslegu tagi frá um- heiminum. Einkavæddir íslenzkir bankar hefðu t.d. ekki getað farið í útrás í öðrum löndum nema vegna hans. Og svonefnd útrásarfyrirtæki hefðu ekki orðið til nema vegna þeirra umsvifa bankanna. Hefði ver- ið hægt í skjóli samningsins eða þrátt fyrir hann að setja upp meiri girðingar, þannig að þessi smáþjóð hefði ekki verið eins og bátskel í ólgusjó úti á reginhafi á tímum al- þjóðavæðingar? Hver er reynslan okkar af aðild að Schengen? Hefur sú aðild opnað fyrir innrás glæpahringa í Ísland? Hver er reynsla okkar af einkavæðingu ríkisfyrirtækja? Hefur einkavæðing síma- þjónustu orðið hagstæð fyrir notendur? Hver er reynsla okkar af einkavæðingu bankanna? Var sjálfsagt að hefja einkavæð- ingu þeirra á ný ári eftir hrun eins og nú- verandi ríkisstjórn gerði og stefnir á í rík- ara mæli án þess að setja nýja alvöru löggjöf um starfsemi fjármálafyrirtækja þar sem m.a. er tekin afstaða til þess, hvort skilja á að starfsemi viðskiptabanka og fjárfest- ingabanka? Hver er reynsla okkar af þeim hvata- kerfum, sem byggð voru upp í bönkum og öðrum fyrirtækjum á árunum fyrir hrun og færðu einstaklingum milljónatugi og hundruð milljóna. Í öðrum löndum er ver- ið með löggjöf að stöðva þá þróun af. Hér hefur heyrzt endurómur af röksemdum áranna fyrir hrun um að borga yrði nú- tímalegum bankamönnum vel til þess að halda þeim í landinu. Ætli sé eftirspurn eft- ir þeim á heimsvísu? Þetta eru nokkur dæmi um málefnalegar umræður, sem þurfa að fara fram innan Sjálfstæðisflokksins til þess að hann geti verið betur undir það búinn að taka við landstjórninni á nýjan leik, sjái þjóðin ástæðu til að treysta flokknum fyrir því verkefni. Þeir sem bezt fylgjast með samfélags- þróuninni um þessar mundir eru þeirrar skoðunar að athafnamenn áranna fyrir hrun búi sig nú undir það margir hverjir að snúa til baka og leiti leiða til þess að koma fjármunum, sem þeir ráði yfir í útlöndum til Íslands á nýjan leik. Er sjálfsagt að þeim takist það? Óhætt er að fullyrða, að mikill meirihluti þjóðarinnar er ekki þeirrar skoðunar. En til þess að hafa hemil á þessari þróun á næstu árum er nauðsynlegt að undirbúa vandaða löggjöf um viðskiptalífið. Það á ekki að vera sjálfsagt að hér verði til á ný stórar viðskiptasamsteypur, sem leggi allt undir sig eins og gerðist síðustu árin fyrir hrun. Til þess að Sjálfstæðiflokkurinn verði þeim vanda vaxinn að takast á við það verkefni þurfa umræður og endurskoðun af því tagi, sem hér er fjallað um að fara fram innan flokksins og skoðanaskipti manna á milli. Það er til lítils að taka við landstjórninni ef ekki eru fyrir hendi uppbyggilegar hugmyndir um til hvers það verði gert. Er Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn að taka við? Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Núningur milli hinna frjálsu þjóða og alræð-isaflanna í Sovétríkjunum var þegar hafinní lok síðari heimsstyrjaldar og átti eftir aðstigmagnast og ná hámarki í Kúbudeilunni árið 1962 en hvorki fyrr né síðar hefur heimurinn verið jafn nærri kjarnorkustríði og þá. En á þessum degi árið 1948 hófst annars konar deila sem markar upphafið á spennunni milli Bandaríkjanna og Sov- étríkjanna á seinni hluta tuttugustu aldar. Á þessum degi lokuðu Sovétríkin á alla lestarflutninga til og frá Vestur-Berlín og öllum vegum. Nýr gjaldmiðill og ríki Í lok síðari heimsstyrjaldar var Þýskalandi skipt upp í stjórnsvæði Bandaríkjanna, Breta, Frakka og Sovét- ríkjanna. Vesturhluti Þýskalands og Vestur-Berlín voru undir stjórn Vesturveldanna en austurhlutinn í umsjón alræðisaflanna í austri. Strax varð ljóst að áform og áherslur stórveldanna voru ólíkar um framtíð Þýskalands. Meðan Sovétríkin sóttu bætur frá Þjóðverjum í formi hráefna, fjármuna og fram- leiðslutækja vildu Bandaríkin byggja upp þýskan iðn- að og styrkja landið með það í huga að hafa Þýska- land sem stuðpúða milli Vesturveldanna og Sovétríkjanna. Bandaríkin, Bretar og Frakkar vildu snemma koma á fót þýsku ríki og höfðu rætt aðkomu að stofnun ríkisstjórnar í Vestur-Þýskalandi. Þessu voru Sovét- ríkin andsnúin og endanlega sauð upp úr þegar ákveðið var að taka upp nýjan gjaldmiðil í Vestur Þýskalandi. Því svöruðu Sovétríkin með því að loka á alla vegi og lestir til Vestur-Berlínar. Hugðust þau svelta vesturhluta borgarinnar á sitt vald en með því uppátæki urðu þau fyrir miklum álitshnekki og styrktu stöðu Bandaríkjanna í harðri viðleitni sinni gegn alræðisstefnu Sovétríkjanna. Aðeins tveimur dögum eftir lokun Sovétríkjanna hófu Bandaríkin ásamt bandamönnum sínum reglu- legar loftferðir með flugvélum bandaríska og breska flughersins frá Vestur-Þýskalandi til Berlínar. Skammtímalausn sem entist í ár Upphaflega ætluðu Bandaríkin og bandamenn þeirra að beita loftbrúnni sem skammtímalausn en hún átti eftir að standa í nærri því heilt ár eða til 12. maí 1949 þegar Sovétríkin afléttu einangrun á Berlínar. Alls flugu Bandaríkin og bandamenn þeirra 227.728 flug- ferðir milli Vestur-Þýskalands og Berlínar og þegar mest var fóru Bandaríkin og Bretar 27.717 ferðir til borgarinnar. Skilvirknin var orðin svo mikil síðustu mánuðina að ekki tók nema 8 mínútur að afferma vélarnar í Berlín og koma þeim aftur af stað. Það sem kom Sovétríkjunum einna mest á óvart var geta Bandaríkjanna og Breta til að flytja vistir til Berlínar en fyrst um sinn töldu Sovétríkin það nærri ómögulegt að flytja sambærilegt magn og áður hafði verið gert í gegnum lesta- og vegakerfið til borg- arinnar. Staðreyndin reyndist hins vegar vera sú að flutningar í lofti urðu meiri en geta vegakerfisins hafði verið fyrir lokun. Það var ekki síst vegna þess sem Sovétríkin létu að lokum undan og opnuðu aftur fyrir vega- og lestarsamgöngur til borgarinnar. Baráttan við alræðið var dýr en vel þess virði Bandaríkin, Bretar og Frakkar stóðu að mestu undir kosnaðinum við loftbrúna en hún kostaði um 500 milljónir dollara. Loftbrúin var hverrar krónu virði enda mikilvægur þáttur í því að sýna alræðisöflunum í Moskvu vilja og styrk vesturveldanna til að halda Vestur-Berlín frjálsri frá alræði kommúnismans. Til að tryggja sjálfstæði Berlínar frá Sovétríkjunum voru flutt 250.794 tonn af matkvælum, kolum og öðrum varningi þá mánuði sem borgin var einangruð en til þess þurfti að fara 380 ferðir á dag. vilhjalmur@mbl.is Þjóðirnar sem björg- uðu Berlín Þýskaland Skipting Þýskalands eftir síðari heimsstyrjöld. ’ Loftbrúin var hverrar krónu virði enda mikilvægur þáttur í því að sýna alræðisöflunum í Moskvu vilja og styrk vesturveldanna til að halda Vestur-Berlín frjálsri Loftbrú Bandarískar vélar á Tempelhof flugvöllinum í Berlín. Á þessum degi 24. júní 1948

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.