Morgunblaðið - 04.12.2012, Blaðsíða 23
23
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 4. DESEMBER 2012
Góð fyrirmynd Inga Björk Bjarnadóttir hlaut í gær hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands fyrir að vera öðrum fyrirmynd og berjast fyrir bættri þjónustu fyrir fatlað fólk í Borgarbyggð.
Verðlaunin afhenti Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, við athöfn í Salnum í Kópavogi á alþjóðadegi fatlaðra. Jón Harðarson og Jón Margeir Sverrisson fengu einnig verðlaunin.
Kristinn
Þá er nú svo komið að
skrípalætin á alþingi hafa náð
hámarki. Tveir þingmenn gripu
óbeint fram í fyrir öðrum þing-
manni með því að ganga fram
fyrir ræðustól með árituð
ádeiluspjöld í hans garð í fang-
inu, beinandi þeim að mynda-
vélum sjónvarps. Nýverið
heyrðust fréttir af alþing-
ismönnum sem sátu skríkjandi
og flissandi á aftasta bekk eins
og táningar á hormónaflippi, í
tíma sem þeim finnst leiðinlegur, á síðasta
degi fyrir sumarfrí. Einhvers staðar las ég
að fyrrnefnd spjöld hefðu átt að vera fyndin
en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.
Hins vegar finnst mér ekki ósennilegt að
börn sem stunda sandkassaleiki í leik-
skólum landsins myndu aldrei láta sér detta
slíkt í hug.
Á ákveðnum stað á netmiðlum las ég
einnig að þetta uppátæki teldist vera allt í
lagi af því að virðing landsmanna gagnvart
alþingi væri hvort eð er engin. Þjóðin hefði
ekki trú á því fólki sem þar situr og að
„fjórflokkurinn“, og þá kannski sérstaklega
stjórnarandstaðan, væru svo slæm að ekki
væri við öðru að búast.
Viðhorf þings og þjóðar í þessum efnum
finnst mér alveg hreint arfaslæmt og skiptir
þá engu hvort horft er á það út frá stjórn-
málum eða almennri kurteisi. Þeir þing-
menn sem svona haga sér sýna samstarfs-
mönnum sínum ekki mikla virðingu. Ég hélt
þar til nú að þegar á heildina er litið væru
allir alþingismenn að vinna að sama hlutn-
um, velferð þjóðarinnar, þó með misjöfnum
aðferðum sé. Sú skoðun dalaði hins vegar
heldur með þessum gjörningi.
Hvernig myndi ykkur líka það að vinna á
vinnustað þar sem gripið væri fram í fyrir
ykkur með háðsglósum og gert lítið úr ykk-
ar skoðunum í stað þess að ræða þær á
málefnalegum grunni? Þar að auki finnst
mér það alveg glórulaust að halda að slíkur
dónaskapur sé allt að því eðlilegur á alþingi
okkar Íslendinga. Hvað varð um almenna
kurteisi? Hvað varð um virðingu gagnvart
skoðunum annarra? Er það orðinn eðlilegur
hlutur íslensks samfélags að það sé allt í
lagi að vera með persónulegar háðsglósur á
annarra hlut eingöngu af því að okkur líka
ekki skoðanir þeirra? Ég held sömuleiðis að
þingmenn, sem þora ekki að mæta öðrum
þingmönnum í ræðustól á mál-
efnalegum grunni og ræða mis-
jafnar skoðanir heldur koma
fram með viðlíka (ég leyfi mér
að segja óþroskuð) viðbrögð,
hafi ekki mikið til málanna að
leggja og ættu betur heima á
öðrum vettvangi. Jafnframt vil
ég meina að slíkt fólk sé hætt
að hugsa um hag þjóðarinnar
og sé farið að hugsa meira um
sinn eigin hag. Það er algjör
lágmarkskrafa til þingmanna
okkar (sama úr hvaða flokki
þeir koma) að þeir sýni alþingi
þá virðingu sem það á skilið, enda hefur það
þjónað sínum tilgangi vel í töluverðan fjölda
ára.
Mér finnst hins vegar það versta við
fréttir af slíku virðingarleysi, og at-
hugasemdir við þær, hversu mikla við-
urkenningu dónaskapur hefur hlotið í sam-
félaginu. Það virðist stundum sem þeir sem
tala hvað digurbarkalegast komist lengst
áfram. Ekki af því að þeir hafi margar
lausnir á þjóðfélagsmeinum til málanna að
leggja heldur vegna þess að þeir eru nógu
duglegir við að úthúða andstæðingum sínum
á persónulegum grunni. Það þýðir ekki
lengur fyrir okkur þjóðina að kenna stjórn-
málamönnum um þessa þróun, þetta er
ábyrgð okkar allra. Það erum við sem kjós-
um fólk á alþingi og í sveitarstjórnir um allt
land. Það er á okkar ábyrgð að hleypa ekki
fólki áfram sem hefur engar lausnir fram að
færa heldur aðeins skítkast í garð náung-
ans. Það er á okkar ábyrgð að kjósa fólk
sem sýnir almenna kurteisi og virðingu
gagnvart samlöndum sínum og það er á
okkar ábyrgð að kjósa fólk sem hefur eitt-
hvað annað til landsmálanna að leggja en
persónulegar móðganir í garð keppinauta
sinna.
Ég vona að desember, sem og aðrir mán-
uðir, verði ykkur öllum til gleði.
Eftir Sigríði
Ólafsdóttur
»Mér finnst hins vegar það
versta við fréttir af slíku
virðingarleysi, og athugasemd-
ir við þær, hversu mikla við-
urkenningu dónaskapur hefur
hlotið í samfélaginu.
Sigríður
Ólafsdóttir
Höfundur er sauðfjárbóndi.
Kurteisi
Nú er liðið á annað ár síðan St. Jósefsspítala
í Hafnarfirði var lokað, eftir 85 ára farsælt
starf fram til síðasta dags. Síðustu árin hafði
spítalinn þróað starfsemi á afmörkuðum svið-
um heilbrigðisþjónustunnar, sem markaði hon-
um sérstöðu í heilbrigðiskerfinu sem sér-
greinasjúkrahús. Árangur spítalans og
starfsfólksins þar dugði þó ekki til gagnvart
fyrirætlunum ríkisvaldsins og þessi þjónusta
lagðist þar af með lokun spítalans. Búnaður og
tæki, sem mörg höfðu verið gefin af velgjörð-
armönnum og félagasamtökum í bænum, voru
flutt út úr húsnæði spítalans við Suðurgötu.
Um hundrað störf lögðust af eða fluttust frá
Hafnarfirði. Þegar stofnun á borð við St. Jós-
efsspítala er lögð niður hverfa ekki aðeins efn-
isleg verðmæti úr bænum, heldur skaðast sú
velvild og sá metnaður sem samfélagið hefur
haft til starfseminnar og verður ekki metinn til
fjár.
Nýtt hlutverk St. Jósefsspítala?
Hús St. Jósefsspítala stendur eftir, glæsileg
bygging í hjarta Hafnarfjarðar sem nú hefur
um alllangt skeið staðið auð og án hlutverks,
nöturlegur vitnisburður um skeytingarleysi
ríkisvaldsins, sem á spítalahúsið að stærstum
hluta. Á hverjum degi minnir húsið á sig í bæj-
armyndinni, minnisvarði um gróskumikið og
gefandi starf um áratuga skeið. Ekki hefur lið-
ið sá dagur eftir að spítalinn var tæmdur, að
Hafnfirðingar hafi ekki hugsað til þess hvað
verði um bygginguna.
Ýmsum hugmyndum hefur verið varpað
fram um nýtingu á húsi St. Jósefsspítala – á
vegum einkaaðila eða fyrir opinbera starfsemi.
Þar má nefna hótel eða starfsemi sem tengdist
t.d. heilsutengdri ferðaþjónustu, skólastarf,
námsmannaheimili eða stúdentagarða, eða
jafnvel ráðhús bæjarins. Þá má nefna vinnuað-
stöðu fyrir frumkvöðla í sprotafyrirtækjum eða
listamenn, starfsemi fyrir aldraða, eða heil-
brigðis- eða hjúkrunarstarfsemi af einhverju
tagi. Ýmis tækifæri felast í nálægð við Flens-
borgarskólann og Menntasetrið við lækinn, þar
sem m.a. hefur verið starfrækt öflugt fjarnám
á háskólastigi. Þá má nefna þörf sem nú þegar
er fyrir ýmis dvalarúrræði tengd öldr-
unarmálum, sem St. Jósefsspítali gæti hugs-
anlega hentað vel fyrir.
Það vekur furðu hve hljótt fer um að stjórn-
völd finni húsi St. Jósefsspítala nýtt hlutverk,
hvort heldur sem er af hálfu ríkisvaldsins eða
hjá þeim sem fara með meirihlutavöld í Hafn-
arfirði. Ef eitthvað slíkt hefur verið uppi á vett-
vangi bæjarstjórnar hefur ekkert samráð verið
haft við minnihlutann þar, bæjarfulltrúa Sjálf-
stæðisflokksins, sem þó hafa ítrekað látið sig
málefni St. Jósefsspítala varða. Í nýlegu viðtali
við fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar og
alþingismann Samfylkingarinnar kemur ber-
lega í ljós að framtíðarsýn fyrir St. Jósefsspít-
ala vefst fyrir mönnum og ekkert liggur enn
fyrir um framtíðaráform fyrir húsið.
Velferð í verki?
St. Jósefsspítali stóð af sér fyrri atlögur, þar
sem Hafnfirðingar, starfsfólk og velunnarar
spítalans slógu um hann skjaldborg til að verja
starfsemina. Svo fór þó að það var einmitt rík-
isstjórn skjaldborgarinnar sem að lokum veitti
sjúkrahúsinu náðarhöggið. Það er vert að hafa
í huga að St. Jósefsspítali var lagður niður þeg-
ar fulltrúar Samfylkingarinnar fóru í senn með
stjórn heilbrigðismála í ríkisstjórn og jafn-
framt með meirihlutavöld í bæjarstjórn Hafn-
arfjarðar. Þeir sömu og boðuðu „vinnu og vel-
ferð“ í Hafnarfirði horfðu þannig á eftir
hundrað störfum að velferðarmálum hverfa úr
bæjarfélaginu. Örlög St. Jósefsspítala verða
ekki gleymd Hafnfirðingum, eða þeim sem not-
ið hafa þar umönnunar í áranna rás, þegar
kemur að uppgjöri við velferðarstjórn að vori.
Eftir Kristin Andersen og Geir Jónsson
» St. Jósefsspítali í Hafn-
arfirði á farsælt starf að
baki, en hvar er framtíð-
arsýnin?
Höfundar eru bæjarfulltrúar
Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
St. Jósefsspítali –
er líf eftir lokun?
Geir Jónsson Kristinn Andersen