Morgunblaðið - 01.10.2013, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 01.10.2013, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 1. OKTÓBER 2013 ✝ Erla Sigurð-ardóttir, ljós- móðir, fæddist í Reykjavík 12. mars 1934. Hún lést á Landspítala - há- skólasjúkrahúsi 19. september 2013. Foreldrar henn- ar voru Ingibjörg Guðrún Lovísa Sig- urðardóttir, f. á Ísafirði 29. sept- ember 1910, d. 12. ágúst 1966, og Sigurður Ágúst Þorláksson, f. á Brunnhóli í Mýrarhreppi 10. ágúst 1905, d. 31. júlí 1977. Systkini Erlu eru Sigríður Ze- bitz, f. 1. apríl 1936, Árni Ágúst Sigurðsson, f. 11. desember 1937, d. 18. apríl 2002, Theó- dóra Aldís Sigurðardóttir, f. 22. apríl 1939, og María Sigurð- ardóttir Arnar, f. 17. apríl 1942. Erla giftist Sigfúsi Jónssyni, verslunarmanni, f. 2. febrúar 1930, d. 14. janúar 1999. Þau giftu sig 2. febrúar 1960. Börn þeirra eru: 1) Jón Sigfússon, f. 2. maí 1961. Sambýliskona Unnur Jónsdóttir, f. 13. júní 1960, og 2) Inga Dóra Sig- fúsdóttir, f. 13. júlí 1967. Eiginmaður Símon Sigvaldason, f. 31. maí 1962. Barnabörn Erlu eru sex talsins: Hildur, Hulda, Erla María, Erla, Sonja og Alanta. Barnabarnabarn Erlu er Sigrún María. Erla var fædd og uppalin í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Ljósmæðraskóla Íslands árið 1959 og starfaði sem ljósmóðir í meira en fjóra áratugi. Lengst af starfaði hún á Fæðingarheim- ili Reykjavíkur en einnig í all- mörg ár á fæðingardeild Land- spítala Íslands. Útför Erlu fer fram frá Há- teigskirkju í dag, 1. október 2013, og hefst athöfnin kl. 15. Það er með ólýsanlegum trega og eftirsjá sem við kveðjum ynd- islega mömmu okkar, Erlu ljós- móður, eins og hún var gjarnan kölluð. Það skarð sem hún skilur eftir verður aldrei fyllt. Svo sárt. Svo margir sem sakna. Fjölskyldan hennar; syst- urnar, vinkonurnar allar, ömmu- stelpurnar og allir hinir, sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að kynn- ast Erlu og þeir voru fjölmargir. Hún snerti líf svo margra. Á löngum og farsælum ferli sínum sem ljósmóðir hjálpaði hún þús- undum barna í heiminn; sennilega sem samsvarar heilum árgangi ís- lensku þjóðarinnar. Hún sagði gjarnan að öll börnin sem hún tæki á móti væru bæði falleg og vel gefin, sem lýsti vel einstakri hlýju hennar og visku en ekki síð- ur þeirri alúð sem hún lagði í starfið sitt, sem var henni svo kært. Hver kona og hvert barn sem hún annaðist eignuðust stað í hjarta hennar. Vinir okkar systk- inanna kölluðu hana „mömmu Erlu“ og vinir barnanna okkar „ömmu Erlu“. Hún var alltum- lykjandi; hlý, einstök, hnyttin og vitur. Það voru forréttindi að fá að alast upp við umönnun slíkrar konu. Það var hún sem kenndi okkur systkinum að ást og um- hyggja eru aðaldrifkraftur þessa heims. Það er lítið varið í reglur sem ekki fylgir stuðningur og skynsemi. Mikið ótrúlega munum við sakna hennar. Hún var lyk- ilmanneskjan í lífi okkar og lífs- fylling okkar og svo margra ann- arra. Elsku mamma okkar. Takk fyrir allt sem þú varst fyrir okkur og gafst okkur. Við munum halda í heiðri allt það sem þú kenndir okkur. Í þínum anda munum við leggja okkur fram við að rækta mannskilning okkar og samhygð og leyfa okkur að finna til með þeim sem standa höllum fæti. Inga Dóra Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon. Jæja amma mín, þá er bara komið að þessu. Hún er náttúru- lega hálf fáránleg hugmyndin um að þú sért ekki hér til að sjá til þess að heimurinn snúist nú örugglega rétt, eins og Hildur orðaði það svo vel um daginn. Á sama tíma finnst mér gott að hugsa til þess hvað þú skildir vel við allt hér og hvernig síðustu dagar hafa verið eins og þú hefðir líklega planað þá sjálf. Í kvöld fór- um við ömmustelpurnar þínar í Sóltún, pöntuðum pítsu og höfð- um það kósý. Alanta litla fékk hjálp frá Erlu við að skrifa þér bréf og horfði svo á Latabæ í rúm- inu þínu. Við töluðum aðeins um það við hana að nú værir þú komin til afa og nú væri örugglega gam- an hjá ykkur því það væri svo langt síðan þið hittust síðast. Þeg- ar ég spurði hana hvað hún héldi að þið væruð að gera núna uppi hjá Guði var hún ekki lengi að svara: „Kannski hoppa í pollum?“ Ekki lítið sem ég hef gaman af þeirri hugmynd og sé ykkur tvö fyrir mér, á áttræðis- og níræð- isaldri, hoppandi í pollum saman. Í fluginu á leiðinni heim frá Ástr- alíu hafði ég góðan tíma til að leyfa huganum að reika og rifja upp allskonar skemmtilegar minningar. Ein af síðustu minn- ingunum mínum um þig er þegar við sátum saman í rúminu mínu og brutum saman fötin mín til að setja í tösku fyrir Ástralíu. Eftir nokkrar tilraunir áttuðum við okkur á því að best væri að rúlla fötunum upp því þá komst mest fyrir í töskunni. Þegar ég pakkaði svo sömu fötunum niður í töskuna á leiðinni heim frá Ástralíu kom ég ekki nema hluta af þeim ofan í sömu töskuna. Það var eitt af mörgum skiptum sem mér hefði þótt gott að hafa þig hjá mér. Af öðrum góðum minningum þykir mér gott að hugsa um allar stund- irnar þegar ég var að gera mig til heima á leiðinni eitthvert út. Þeg- ar ég hugsa til baka þá einhvern veginn varst þú alltaf á staðnum. Þú hjálpaðir mér að velja kjól fyr- ir síðustu árshátíðina mína í HR eftir að ég var búin að máta nokkra og settir svo „final-touch- ið“ með selskapsveskinu sem þú gafst mér sem þú hafðir sjálf átt. Og þegar þú hjálpaðir mér að festa xD næluna í kjólinn minn fyrir kosningavökuna í vor því ég var sjálf með blautt naglalakk. Ein skemmtilegasta minningin mín úr Sóltúninu var síðan snemma þessa árs þegar ég sat frammi í stofu eitt kvöldið að læra og þú varst eins og svo oft áður komin upp í rúm að tala í símann. Líklegast hefurðu verið að tala við eina systurina eða vinkonu þína en þú hlóst svo mikið að þú náðir varla andanum. Ég vona mikið að ég verði eins hamingjusöm og glöð og þú þegar ég verð komin á áttræðisaldur. Elsku amma mín, ég er þakklát fyrir að hafa náð í skottið á þér og fyrir að hafa feng- ið að halda í mjúku, hlýju höndina þína. Takk fyrir að taka á móti mér í þennan heim og takk fyrir að leyfa mér að vera með þér þeg- ar þú kvaddir hann. Takk fyrir að bíða eftir mér. Ég elska þig. Þín vinkona, Erla María. Elsku amma mín, orð geta ekki lýst hversu sárt það er að þú sért ekki hjá okkur. Í átján ár hefur þú verið minn klettur í lífinu. Mín stoð og stytta í einu og öllu. Þú varst sú sem ég gat alltaf treyst á sama hvað. Hvort sem það var að panta fyrir mig á veitingastöðum eða keyra með mér til Keflavíkur um miðja nótt því ég þorði ekki ein. Það tæki mörg ár að rifja upp góðu stundirnar sem við áttum saman, eru einfaldlega of margar. Það sem situr efst í huga mér eru allar stundirnar sem við áttum saman í Sóltúni. Þegar við sátum saman inni í stofu og vorum að lesa og spjalla langt fram á nótt. Einnig þegar við vorum saman úti í Kaliforníu og New York. Þú varst alltaf að stússa svo mikið með okkur og varst ekki bara amma heldur líka vinkona. Þú stóðst alltaf með okkur hvort sem við áttum rétt á því eða ekki. Þú hringdir líka á hverju kvöldi til að passa upp á að allir væru örugg- lega komnir heim og allt væri eins og það ætti að vera. Ef það leið dagur án þess að ég talaði við þig þá fékk ég óþægindatilfinningu í líkamann og byrjaði ósjálfrátt að ímynda mér að eitthvað slæmt hefði komið fyrir. Þú varst alltaf í kringum okkur og það var svo notalegt. Við gátum líka alltaf komið til þín þegar við vorum eitt- hvað ósátt út í mömmu og pabba. Þú skilur eftir þig stórt gat í hjörtum allra sem urðu svo heppnir að fá að kynnast þér. Þú varst engin venjuleg manneskja, elsku amma mín. Það verður líka aldrei neinn sem kemur í þinn stað. Þegar mesti sársaukinn er farinn munu sitja eftir fallegustu og ljúfustu minningarnar. Það eiga allir sínar manneskjur í lífinu og það var ekki af tilviljun að þú varðst mín. Ég elska þig af öllu hjarta. Hér er ljóð til þín. Þitt gefandi eðli, þín góðláta hönd geymdi okkar hjörtu, batt eilífðarbönd. Nú böndin ei bresta þó upp fari önd og berist svo tær yfir frelsarans lönd. Við kveðjum þig sátt en minningin skýr skín ljóst sem viti er leið okkar stýr. Þinn kærleikur vafði svo heill og svo hlýr, hann í hjarta okkar lifir og að eilífu býr. (Héðinn Unnsteinsson) Þín nafna, Erla. Elsku amma Erla, eða amma Skipó eins og við kölluðum þig alltaf. Mín fyrstu kynni af þér voru hinn 15. ágúst 1986. Daginn sem ég fæddist. Ég var svo heppin að þú varst ljósmóðirin sem tókst á móti mér. Naflastrengurinn var vafinn þétt um hálsinn á mér svo ég blánaði í framan en þú varst ekki lengi að kippa mér upp og klippa á hann. Þú horfðir á mig taka fyrsta andardrátt minn og ég var hjá þér þína síðustu stund. Lífið er svo ósköp undarlegt en um leið svo fagurt. Minningar mínar um þig og afa Sigfús frá því í æsku eru svo ótal- margar. Ég man eftir því að hafa leikið lausum hala í Skipholtinu og fengið að gera næstum allt sem mér datt í hug. Eitt kvöldið sem ég var í pössun langaði mig að búa til sullumall í eldhúsinu. Ég blandaði saman hveiti, lyftidufti, vatni, karrýi og fleiru. Ég fór al- sæl að sofa, angandi af karrýlykt. Engar hugmyndir voru of skrítn- ar í Skipholtinu. Ég fékk að vera barn. Ég gleymdi mér og var frjáls, umlukin væntumþykju og hlýju ykkar afa. Stundirnar í Skorradalnum voru yndislegar. Ég sé þig fyrir mér á veröndinni þar sem við gát- um hlaupið til þín og fengið eitt- hvað að drekka, stundum nammi og jafnvel amerískt tyggjó sem afi hafði keypt í sölunefndinni. Þetta var rosalegt sport. Á seinni árum ævi minnar hef- ur þú verið ein besta vinkona mín. Þú hefur látið þig öll mín mál varða og alltaf verið með hlutina á hreinu. Ég sakna þess að hringja í þig á daginn eða hitta þig og drekka kaffi saman. Það var alltaf svo gott að tala við þig og fá ráð. Þú tvínónaðir ekki við hlutina og sagðir alltaf þína skoðun. Oft óma setningar í huga mínum sem þú hefur sagt og hafa nýst mér vel. Árið 2008 fórum við saman til Kína í heimsókn til Erlu Maríu systur. Við fórum í alls þrjú flug í röð og mér er það minnisstætt að á flugvellinum í Hong Kong fékk ég blóðsykursfall og þú fékkst mig til að drekka appelsínusafa. Þarna var ég rétt rúmlega tvítug og þú amma mín, svo hraust og lést það ekki á þig fá að þurfa að fljúga þvert yfir hnöttinn. Í fyrra áttum við yndislegar stundir í New York en þar vorum við í septembermánuði í um þrjár vikur. Við keyptum jólagjafir, ým- ist röltum um eða hóuðum í leigu- bíl, drukkum nóg af kaffi, hlógum, borðuðum ís og drukkum léttvín með matnum. Þetta var ómetan- legur tími með þér, elsku amma, sólin skein og okkur leið vel. Nú ári síðar hefurðu kvatt, afi Sigfús kom að sækja þig. Þú elsk- aðir afa alltaf svo mikið og mér er það minnisstætt að þú sagðist allt- af vera gift kona, jafnvel þó hann hafi kvatt okkur fyrir mörgum ár- um. Ég gæti skrifað svo margt elsku amma mín en ætla þess í stað að njóta þess að kveikja á kertum á kvöldin og hugsa til þín. Ég brosi svo oft yfir daginn, þeg- ar mér verður hugsað til þín. Þú varst líka svo hnyttin og sniðug. Þú komst mér svo oft til að hlæja og sjá lífið með öðrum augum. Nú kveð ég þig amma mín og þakka þér fyrir allt sem þú hefur fært mér. Minning þín lifir svo sannar- lega áfram í gegnum okkur sem elskuðum þig svo mikið. Þín, Hulda. Þitt bros og blíðlyndi lifir og bjarma á sporin slær, það vermir kvöldgöngu veginn, þú varst okkur stjarna skær. Þitt hús var sem helgur staður, hvar hamingjan vonir ól. Þín ástúð til okkar streymdi sem ylur frá bjartri sól. Við þökkum þá ástúð alla, sem okkur þú njóta lést, í sorgum og sólarleysi það sást jafnan allra best. Þín milda og fagra minning sem morgunbjart sólskin er. Þá kallið til okkar kemur, við komum á eftir þér. (F.A.) Þessi orð skáldsins eru lýsandi um systur mína sem nú hefur kvatt þennan heim eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Mik- ill söknuður og eftirsjá er að þess- ari elstu systur minni, heimsókn- ir hennar voru tíðar á heimili okkar, símtölin enn fleiri, sam- verustundirnar ógleymanlegar. Hún leiddi mig sem barn og ég hana síðan sem fullorðna konu. Erla systir var ljósmóðir að mennt og starfaði við það í meira en fjóra áratugi. Í minningunni finnst mér eins og hún hafi alltaf verið á vakt, því að aldrei man ég eftir því að hún væri ekki tilbúin að hjálpa þegar til hennar var leitað utan vinnutíma hennar. Hún var líka svo gæfusöm í sínu starfi að aldrei bar skugga á og alltaf gat hún farið glöð og sátt heim að loknum degi. Það hefur svo sannarlega sagt mér mikið um umönnun hennar við allar konur sem nutu aðhlynningar hennar, að ósjaldan var hún kysst og föðmuð á almannafæri af konum sem hún hafði tekið á móti börnum hjá og það jafnvel hjá fleiri en einni kynslóð kvenna í sömu fjölskyldu. Það sagði við mig vinkona mín sem var ein þessara kvenna, að hún hefði haft gullhendur. Mannleg samskipti voru henni eðlislæg. Hún átti auðvelt með að kynnast fólki og ná sambandi við það, hvort sem um var að ræða vini eða vinkonur ömmustelpna sinna eða þá vini eða kunningja fjölskyldunnar sem hún hitti í boðum eða bara tilfallandi í heim- sóknum til annarra. Hún talaði við alla sem jafningja og auðvitað vissi hún allt um þau að hálftíma liðnum, hún átti svo auðvelt með að ná til allra. Erla systir var einnig bóngóð, hvernig sem á stóð hjá henni var hún ávallt til í búðarferð, eða á kaffihús, en það þótti henni einstaklega skemmti- legt. Systir mín var yndisleg kona, hún var heittelskuð og dáð af börnunum sínum, tengdabörnum og börnum þeirra sem hún var í daglegu sambandi við. Söknuður þeirra er mikill og okkar systr- anna og fjölskyldna okkar. Börn- unum hennar og fjölskyldu þeirra bið ég hjartans blessunar og styrks til að komast í gegnum erfiða tíma. Góði Guð, legg þú elsku systur mína að brjósti þér. María (Mæja) systir. Ljósmóðurstarfið er eitt göf- ugsta og mikilvægasta starf í ver- öldinni að mati þess sem þetta skrifar því að hvað er göfugra en að taka á móti nýju lífi, hlúa að því og búa svo um að öryggi ný- fædds barns sé tryggt unz það er falið í hendur móður? Mágkona mín, Guðrún Erla, sem hér er kvödd með meiri trega en orð fá lýst gegndi þessu starfi um margra áratuga skeið og þau eru ófá nýfædd börnin sem hafa fengið einstaka blíðlega móttöku af hendi þessarar einstöku konu og litið ljósið í fyrsta sinn og ekki síst birtuna sem endurspeglaðist í kærlegri og blíðri ásýnd hennar Erlu eins og hún var jafnan nefnd af þeim sem þekktu hana. Erla var full af kærleika og gæsku, var ávallt til staðar fyrir manninn sinn, Sigfús Jónsson, sem hún missti fyrir fjórtán ár- um, börnin sín tvö og maka þeirra, svo og barnabörnin öll sem hún umvafði af umhyggju sinni, var þeim stoð og stytta í blíðu og stríðu. Hún var í reynd óhemju dugleg við að aðstoða sína nánustu með oddi og egg, al- veg fram á síðustu stund ævi sinnar, en varð að lokum að láta undan í því stríði sem við munum öll heyja seint um síðir. Erla var elzt alsystkina sinna og sem slík gegndi hún ákveðnu forystuhlutverki og var hinum systkinunum til fyrirmyndar í eljusemi og vinnuhörku. Sem vin- sæl ljósmóðir þurfti hún oft að sinna kalli utan vinnutíma, því að konur sem höfðu einu sinni átt barn undir handleiðslu hennar sóttust eftir að fá hana aftur við fæðingu síðari barna. Segir það sitt um vinsældir hennar sem ljósmóður. Eftir að hún hætti ljósmóðurstarfinu helgaði hún fjölskyldu sinni alla krafta sína, en hún taldi aldrei eftir sér að bjóða fram hjálp sína, þetta var henni í blóð borið, kærleikurinn og umhyggjan ofar öllu. Mér þótti ákaflega vænt um þessa mágkonu mína, það var unnt að hafa í flimtingum við hana og hún tók öllu gríni með jafnaðargeði og ég held að hún hafi undir niðri haft gaman af því. Léttleikinn var í fyrirrúmi hjá henni og hún kvaddi ávallt með bros á vör. Það var gott að fá hana í heimsókn og heimsókna hennar verður sárlega saknað. Nú er hún Guði falin, en minn- ingin um kærleiksríka konu lifir meðal eftirlifenda, barna hennar, tengdabarna, barnabarna, systra og fjölskyldu þeirra, svo og allra þeirra sem þekktu hana. Samúð mín er með þeim öllum. Megi þau öll fá styrk í sorginni í orðum frelsara okkar, Jesú Krists: „Sæl- ir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.“ Birgir Arnar. Erla, mín elskulega vinkona, er dáin. Ógnarhraðinn í kringum veikindi hennar gera það að verk- um og ég er engan veginn búin að átta mig á brottför hennar, ég sakna Erlu ofsalega. Við Erla kynntumst í febrúar 1963 um borð í Gullfossi, þar vor- um við í skemmtiferð með eigin- mönnum okkar. Maðurinn minn, hann Villi, sem var brunavörður, hafði kynnst Erlu sem starfaði sem ljósmóðir á Fæðingarheim- ilinu er hann kom þangað með fæðandi konur. Við hjónin náðum öll strax vel saman. Þegar við stoppuðum í Kaupmannahöfn var mikill kuldi og svo einkennilega vildi til eftir búðarferð einn dag- inn að við Erla mættum með ná- kvæmlega eins loðhúfur. Mikið gátum við hlegið að þessu. Það var alltaf skemmtilegt að vera með Erlu og við vinkonurnar gát- um bókstaflega hlegið út í eitt. 1997 missti ég minn mann og ári seinna missti Erla Sigfús sinn. Þau höfðu verið einstaklega sam- rýnd og samstiga hjón. Við Erla tókum þarna upp vinkonusam- band sem aldrei bar skugga á. Við nutum lífsins saman, fórum í ut- anlandsferðir, glöddumst í leik- húsklúbbi, matarklúbbi og áttum ótal dásamlegar ferðir í sumar- hús Erlu í Skorradal, alltaf gam- an. Erla varð vinkona allra í minni fjölskyldu. Lítill sonarsonur minn sagði eitt sinn: „Amma, eruð þið Erla systur – þið eruð alveg eins.“ Sama má segja um mig, ég kynnt- ist yndislegu fjölskyldunni henn- ar Erlu. Einstakt kærleikssam- band var milli Erlu og barnanna hennar og barnabarna. Já, við Erla vorum miklar vinkonur í öllu okkar lífi. Erla hjálpaði mér oft í búðinni minni Hárprýði og síð- ustu árin heyrðumst við nær dag- lega. Þegar ég flutti í sumar var Erla mætt, alltaf boðin og búin að hjálpa, ráðagóð og björt. Börnin mín í Noregi hafa öll verið að hringja og hugsa til Erlu. Erla hafði nefnilega einstakt lag á að umvefja alla með hlýju sinni og elsku. Þau senda hjartans sam- úðarkveðjur. Sambýlismaður minn, Pétur, minnist allra góða stunda með Erlu vinkonu og sendir bestu kærleikskveðjur. Ég kveð Erlu, mína yndislegu vinkonu, með söknuði og hjartans þökk fyrir allt og allt. Birna Björnsdóttir. Starfsfélagar og vinir við Fæð- ingarheimili Reykjavíkur þakka Erlu allar ljúfar og ógleymanleg- ar samverustundir í tugi ára og fela hana sem og fjölskyldu henn- ar og ástvini alla í umsjá almætt- isins um alla framtíð. Blessuð sé minningin um ein- staka konu, sem við söknum sár- lega. Sérstök kveðja frá Söndru með djúpri þökk fyrir umhyggju alla frá fyrstu stund. Hulda. Erla Sigurðardóttir HINSTA KVEÐJA Það hefur verið mér mik- il gjöf og blessun að hafa átt Erlu ljósmóður að vini og verndara í 40 ár og bar þar aldrei skugga á. Ég og börnin mín fimm eigum minningar um yndislega konu sem ávallt sendi birtu á veginn. Elsku Erla, þú munt ávallt lifa í hjörtum okkar. Þín vinkona María Marteinsdóttir. Lengi hefur ljósan þörf linað þjáning sára, fögur unnið fórnarstörf fjóra tugi ára Loks hún mömmu leggur hjá lítinn reifastranga, þá er ljósa björt á brá brosið hýrt á vanga (G.M.B.) Oft hef ég hugsað hlý- lega til hennar Erlu minn- ar, hversu góð og blíð ljós- móðir hún var. Ég bið henni og ástvin- um hennar Guðs blessunar. Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.