Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 07.12.2000, Blaðsíða 15

Fréttir - Eyjafréttir - 07.12.2000, Blaðsíða 15
Fimmtudagur 7. desember 2000 15 Erna Dögg og Sveindís vel klæddar og komnar á ról og tilbúnar til að leiðbeina þeim sem ekki ætla í jólaköttinn í ár. Tískuverslunin Flamingó: Allt á konur og karla Gunnhildur Jónasdóttir, ítísku- versluninni Flamingó Heiðarvegi 6, skiptir verslun sinni í tvennt, karla- og kvennadeild. „Við erum með tískufatnað fyrir fólk á öllum aldri og einnig skó,“ segir Gunnhildur. „Fyrir nokkru stækkuðum við verslunarplássið og skiptum því upp í konu- og herradeild. I herradeildinni erum við með alla línuna frá 4 - U. í kvennadeildinni er þetta meira blandað í merkjum en þar eiga konur að geta fengið föt á sig í öllum stærðum. Og núna er nýkomið mikið af jólafötum." Þegar Gunnhildur er spurð að því hvort einhver sérstök lína sé ráðandi nú fyrir jólin segir hún að mikið sé um flotta kjóla og svolítill „glamour“ ráði ríkjum núna sem komi fram í gull- og silfurlitum. „Við bjóðum upp á allt fyrir kon- una, blússur, peysur, buxur, dragtir, pils, toppa og svo erum við með nýja leðurjakka á bæði dömur og herra. Svo má ekki gleyma silkiskyrtum á herrana sem alltaf eru vinsælar um jólin. Einnig erum við með Diesel gallabuxur, peysur og boli. Þegar búið er að velja fötin og skóna liggur beinast við að kílja á fylgihluti sem hér eru til í miklu úrvali, bæði veski og skartgripir," segir Gunnhildur og lofar því að enginn þurfi að fara í jólaköttinn í ár. Prófasturinn: Glæsilegt jólahlaðborð Hjalli, Kiddi, Unnur og Lára taka vel á móti gestum og bjóða upp á glæsilegt hlaðborð. Á jólahlaðborði Prófastsins kennir ýmissa grasa, og þó líklega hvað síst grasa þar sem flestallt á því ágæta borði er ættað úr dýraríkinu. Af köldum réttum eru fiskréttirnir hvað fyrir- ferðarmestir og þar er síldin í öndvegi en boðið er upp á marineraða síld, síldarsalat og síld í sinnepssósu og karrýsósu. Þá er einnig í boði grafinn lax og reyktur, piparlax og kryddlax. Auk þess sjávarréttakokteill, laxapate, sjávarréttapate og rækjur. Af köldum kjötréttum má nefna jólasalat, sveitapate og grafna svartfuglsbringu. En svo er það heita borðið og þar er margt gott og girnilegt. Þar eru forvitnilegir réttir, sem líklega hafa ekki sést áður á jólahlaðborði, ný og reykt súla. En af kunnuglegri hlaðborðsréttum eru kalkúnabringur léttreyktar og nýjar, appelsínugljáð önd og drottningarskinka. Af öðrum enn kunnuglegri jólamat má nefna hangikjöt, hreindýrakjöt, svínapurusteik, reykt svínakjöt og lambalæri. Með þessum herlegheitum er svo viðeigandi meðlæti, hvert með sínum rétti, svo sem rúgbrauð og smjör með síldinni, rófur og uppstúf með hangikjötinu og svo framvegis. Fyrir þá sem enn hafa magarými eftir nokkrar ferðir að hlaðborðinu er svo hægt að fá sér eftirrétt að hætti hússins. Ef maður tárast við að þvo skötuna Þá er hún fullkæst -segir Valdi í Kinn Valdi í Kinn með eina væna sem væntanlega á eftir að koma út gleðitárum á einhverjum á Þorláksmessu. Þorláksmessa er í huga margra órjúfandi tengd skötuáti. Sá siður mun upphaflega vera vestfirskur en hefur breiðst út um allt land og er í dag fastur liður í undirbúningi fyrir jólahald. Einn þeirra sem verkar skötu í Vestmannaeyjum erÁstvaldur Valtýsson, eða Valdi í Kinn eins og hann er oftast kallaður. Valdi segir að hjá Kinn séu tekin u.þ.b. tvö tonn af skötu á ári og stærsti hlutinn af henni sé snæddur á Þorláksmessu. Valdisegirað nýtingin í skötunni sé um 40%, aðeins börðin eru hirt af henni og svo rýrnar hún líka í salti, þannig að framleiðslan er eitthvað um tonn, miðað við fullverkaða skötu. Fyrst er skatan börðuð, skorin þannig að aðeins börðin af henni eru hirt. Þá er hún lögð í haug, oftast í fiskikar, og látin kæsast. Við kæsinguna myndast ammoníak sem ver fiskinn gegn skemmdum. Kæsing er nefnilega ekki það sama og ýlda þó svo að margir rugli því saman, heldur er kæsing ævagömul verkunaraðferð. Valdi segir að mikilvægt sé að slepjan sé á skötunni þegar hún er sett í hauginn og eins sé mikilvægt að vatn komist ekki að henni, þá úldnar hún. Þá þarf haugurinn að vera vel þéttur. Þær sögur gengu um kæsingu fyrr á árum að menn köstuðu af sér vatni í hauginn, til að auka ammoníakmagnið, líkast til eru það ýkjusögur, a.m.k. tíðkast slíkt ekki í Kinn og skatan sjálf sér fyrir nógu ammoníaki og engin þörf á að bæta við það. Það fer eftir hitastigi hve kæsingin tekur langan tíma, Við góð skilyrði tekur það um hálfan mánuð en getur tekið lengri tíma ef kalt er á haugnum. Valdi segir að hægt sé að sjá þegar skatan er fullkæst, þegar hún sé orðin eldrauð frá þynnsta hluta barðsins og 10 til 15 cm upp, þá sé hún fullkæst. Valdi segir að menn þurfi að tárast við að þvo skötuna, þá sé hún í lagi. Að kæsingu lokinni er skatan þvegin vandlega og síðan söltuð. Eftir hálfan mánuð er hún búin að taka saltið í sig og sé hún látin liggja lengur í salti er hætt við að hún þorni. Langmest af skötunni er etið á Þorláksmessu en skata er einnig á matseðli margra allt árið um kring. T.d. segist Valdi hafa verið alinn upp við það að skata væri á borðum a.m.k. einu sinni í mánuði og til sjós var lengi vel saltfiskur eða skata fastur réttur á laugardagsmatseðlinum. Útvatna þarf skötuna, a.m.k. í hálfan annan sólarhring áður en hún er elduð. Of sölt skata er nánast óæt og Valdi segir að betra sé að láta hana liggja lengur í bleyti og bæta þá frekar salti í pottinn við suðu. Fiskurinn verður stífur ef hann er of saltur en vel útvötnuð skata á að vera þannig að fiskurinn losni vel frá brjóskinu að lokinni suðu. Skata þarf ekki langa suðu, um 15 mínútur sé fiskurinn settur í sjóðandi vatn. Akógesar hafa um nokkurra ára skeið haft þann sið að bjóða til skötuveislu á Þorláksmessu fyrir félaga og gesti þeirra. Valdi hefur frá upphafi séð um matreiðslu hennar, ásamt Magnúsi Sveinssyni á Kletti. Öll skata í þeirri veislu er frá Kinn og auk hennar er boðið upp á ýmislegt annað fiskmeti, svo sem siginn fisk og kinnar. Þá er svokallaður Vestfirðingur líka á boðstólum, en það er tindabikkja sem er börðuð og eingöngu kæst en ekki söltuð. Sú skata er talsvert bragðmeiri en hin venjulega og oft sem menn taka andköf yfir henni við matarborðið þar sem meira ammoníak er í henni. Skötuveislurnar í Akóges hafa notið mikilla vinsælda, í fyrra mættu um 130 manns í skötuveislu. Hefðbundið meðlæti með skötu er soðnar kartöflur og rófurog hamsatólg eða hnoðmör er ómissandi útálát. Sumir veigra sér við að elda skötu heima hjá sér þar sem þeirri eldamennsku fylgir talsverð lykt sem ekki þykir öllum jafngóð. Þó segja sumir að skötulyktin á Þorláksmessu sé jafn ómissandi í undirbúningi jólanna og hangikjötslyktin, eplalyktin og grenilyktin. Sigurg.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.