Fréttablaðið - 07.06.2014, Síða 26
7. júní 2014 LAUGARDAGUR| HELGIN | 26
1. Allt svo grand
Hafnarsvæðið í Reykjavík er suðu-
pottur með sælkeraveitingastaði
eins og Hamborgarabúlluna, Höfn-
ina, Víkina, Kol og salt, Café Retró,
Kaffi Haítí og hinn klassíska
Kaffivagn. Þar eru Sögusafnið og
Sjóminjasafnið og í gömlu verbúð-
unum eru vinnustofur listamanna
og hönnuða, Valdís og Búrið osta-
búð. Gamlar gersemar fást svo í
Húsi fiðrildanna á Hólmaslóð. Þar
sem Daníelsslippurinn var er búið
að útbúa skemmtilegan leikvöll í
anda sjómennskunnar.
2. Um sundin blá
Elding og Sérferðir – Special
Tours – halda úti ævintýraferðum
á sjó frá Reykjavíkurhöfn. Í boði
eru hvalaskoðun þar sem skimað
er eftir hrefnum, hnúfubökum og
höfrungum, lundaskoðun í Akur-
ey með leiðsögumanni, sjóstanga-
veiði, kvöldverðarsiglingar og
aðrar skemmtireisur.
3. Útivistarperla
Heiðmörkin er bakgarður
Reykjavíkur, Kópavogs og
Garðabæjar. Einn af heillandi
göngustígum hennar liggur í
hring um Vífilsstaðahlíð, Svína-
og Urriðakotshraun og við hann
eru hellar og forn fjárbyrgi.
Aðkoma að hringnum er um
Flóttamannaveg úr Hafnarfirði,
um Vífilsstaðaveg úr Garðabæ
og um Elliðavatnsveg úr Kópa-
vogi og Reykjavík.
4. Upp í mót
Esjan er höfuðprýði svæðisins
enda afar vinsæl til uppgöngu.
Enn auðveldara er að sigra lægri
fell eins og Vífilsfell ofan Sand-
skeiðs, sem heitir eftir þræli Ing-
ólfs, og Helgafell í Hafnarfirði en
við rætur þess er hin rómantíska
vin, Valaból. Lyklafell, skammt
frá Litlu kaffistofunni, er gamall
áningarstaður. Þar eru klettar
sem krakkar geta klifrað í.
5. Gott útsýni
Í Smalaholti á Rjúpnahæð, á bæj-
armörkum Kópavogs og Garða-
bæjar, hefur nýlega verið sett upp
hringsjá. Jakob Hálfdánarson
útbjó skífuna með aðstoð annarra
örnefnafróðra manna. Auðvelt
er að komast að hringsjánni úr
Austurkór í Kópavogi og þaðan er
víðsýnt til allra átta.
6. Fuglaskoðun
Fjörlegt fuglalíf er á Kasthúsa-
tjörn við enda Norðurnesvegar á
Álftanesi og samkvæmt fræðslu-
skilti á bakkanum sjást þar oft
sjaldgæfar tegundir. Þaðan ligg-
ur göngustígur til norðurs með-
fram ströndinni að litlum varð-
turni frá hernámsárunum. Á
miðri leið er bekkur sem býður
upp á nestisstopp. Svo er upplagt
að skella sér í Álftaneslaugina.
7. Hott hott á hesti
Víkingahraðferð heitir ein hesta-
ferðin af mörgum hjá Íshestum í
Hafnarfirði. Hún tekur um þrjá
tíma og er sögð tilvalin fyrir fólk
sem hefur reynslu af útreiðum og
vill spretta dálítið úr spori. Lagt
er upp klukkan 13 daglega og
leiðsögumaður er með í för.
Býður upp á friðsæld og fjör
Íslendingum er tamara að hugsa til landsbyggðarinnar í sumarfríinu en borgarinnar og nágrennis hennar. Þó felur
höfuðborgarsvæðið í sér fjölmargt áhugavert bæði fyrir heimafólk og gesti á öllum aldri, svo sem afbragðs gönguleiðir,
siglingar, útreiðartúra, sundstaði með ævintýralegum rennibrautum, söfn af ýmsu tagi, götumarkaði og gallerí.
8. Að Hraðastöðum í Mosfellsdal
er húsdýragarður sem gaman er
að heimsækja. Yrðlingurinn Móey
og hvolpurinn Snotra eru bestu
vinir sem veltast um og slást en
leggja svo kinn við kinn þegar þeir
lepja mjólk úr sama ílátinu.
Linda og Sara Bjarnadætur
reka garðinn sem er við Helga-
dalsveg og er opinn frá 11 til 17
alla daga.
SKYLDI HANN VERÐA SJÓMAÐUR?
Á leikvellinum við gamla Daníelsslippinn.
Neytum og njótum
11. Bragðlaukarnir kitlaðir
Ekki er nauðsynlegt að ferðast til
fjarlægra heimsálfa til að upp-
lifa framandi matarmenningu.
Veitingastaðurinn Bangkok á
Skemmuvegi 11 í Kópavogi hefur
á borðum hina ýmsu rétti sem
ilma og bragðast nákvæmlega
eins og þeir væru búnir til í Taíl-
andi – og eru tælandi.
12. Eitthvað fyrir alla
Útipallurinn á Kexi hosteli við
Skúlagötu er sólarmegin og í
góðu skjóli fyrir norðanáttinni.
Kex býður upp á léttar veitingar
og bruggar meðal annars sinn
eigin bjór. Gott aðgengi er fyrir
barnavagna á pallinn og stundum
er lifandi tónlist á staðnum.
13. Sumar sumar
Café Flóra í Grasagarðinum í
Reykjavík er eitt allra sumar-
legasta veitingahúsið í þessum
heimshluta þegar sólin skín. Þá
er setið um allar stéttir innan um
blómstrandi gróðurinn, með heitt
súkkulaði, kaffi eða bjór og við-
eigandi meðlæti.
9. Úr sveitinni
Verslunin Frú Lauga
við Laugalæk í Reykja-
vík er sveitamark-
aður í borg. Mest ber á fersku
grænmeti og kryddjurtum en
frosið kjöt, egg úr frjálsum land-
námshænum sem njóta útivistar,
flatkökur frá hinu húnvetnska
Sveitabakaríi og fleira góðmeti
fæst þar líka.
10. Frú forseti
Sýningin Ertu tilbúin
frú forseti, með fatn-
aði Vigdísar Finnboga-
dóttur frá forsetatíð hennar, er í
Hönnunarsafni Íslands á Garða-
torgi í Garðabæ í allt sumar og
fram til 5. október. Fleira for-
vitnilegt er til sýnis á safninu
sem er opið frá 12-17 alla daga
nema mánudaga.
FJÖLSKYLDAN
1
4
9 10
13
Ekki þarf að fara langt því ævintýrin bíða allt í kringum okkur
HÖFUÐBORGAR-
SVÆÐIÐ
Útivist og afþreying