Skessuhorn


Skessuhorn - 22.08.2007, Blaðsíða 30

Skessuhorn - 22.08.2007, Blaðsíða 30
30 MIÐVIKUDAGUR 22. ÁGÚST Nýtt vegstæði austan við Tröllháls. Loftmynd: Loftmyndir ehf. Skólarnir að byrja Nú er sólríku og góðu sumri senn lokið en mörgum finnst að þegar kennsla hefst í grunnskólunum sé komið haust. Haustið er tími breytinga í lífi okkar og því fylgir oft ákveðin endurskipulagning á heimilislífinu. Þessu geta fylgt aukin fjárútlát og gott að hafa útsjónarsemi hvað allt umstangið varðar. Eftir verslunarmannahelgina fara foreldrar gjarnan að huga að undirbúningi fyrir skólann. Skólatöskur eru teknar fram og hugað að innkaupalistum. Gott er að athuga hvort hægt sé að nota skóladótið frá því í fyrra því með smá upplyftingu má oft nýta það sem til er og óþarfi að kaupa allt nýtt. Í júlí byrja auglýsendur að minna okkur á hvað til stendur með auglýsingaherferðum um skólafatnað og ýmsar nauðsynlegar skólavörur. En það er að mörgu að hyggja og börnin þurfa svo sannarlega á foreldrum sínum að halda þegar skólinn byrjar. Nú eru þau árinu eldri og ný verkefni blasa við, kannski nýr skóli, nýr kennari eða nýr bekkur. Skólar hefjast yfirleitt eftir miðjan ágúst og standa fram í júní en flestir skólar á höfuðborgarsvæðinu verða settir 22. ágúst. Mörgum foreldrum finnst gott að hafa lokið innkaupum og undirbúningi fyrir skólagönguna í tíma en yfirleitt eru birtar upplýsingar um það hvenær nemendur eigi að mæta á heimasíðum skólanna. Þar er einnig hægt að nálgast upplýsingar um skráningu í mataráskrift og viðveru eftir skóla, innkaupalista, stundaskrár og skóladagatal. Í einstaka skóla hefst kennsla sama dag og skólasetningin. Handleiðsla foreldra er mjög mikilvæg alla skólagönguna og verður seint ofmetin en sérstaklega þarf að huga að sex ára börnum í skólabyrjun. Sum þessara barna eiga nú erfiðara með að sofna á kvöldin og foreldrar finna að börnin hafa væntingar, eru jafnvel spennt en sum geta líka verið áhugalítil. Mikilvægt er að foreldrar undirbúi börn sín vel og fylgist með líðan barna sinna í aðdraganda skólans. Margir foreldrar finna líka sjálfir fyrir kvíða sem tengist skólagöngu barnsins. Hvernig verður stundaskráin? Verður boðið upp á mat í skólanum eða þarf barnið að koma með nesti? Verður bekknum kannski skipt upp? Hvernig verður með heimanámið, samskipti við bekkjarfélaga og kennara? Mun barnið fá kennslu við hæfi, verður boðið upp á stoðþjónustu? Hvenær er vetrarfríið? Einnig er gott að skoða hvaða upplýsingar liggja nú fyrir um barnið í skólanum og mikilvægt er að foreldrar tilkynni skólanum ef um er að ræða breytta hagi hjá barninu eða foreldrum þess. Gott er að fara yfir hvaða aðstandendur eru skráðir hjá barninu og hvort ný eða breytt símanúmer eru hjá þeim. Sé barnið í stjúpfjölskyldu er rétt að taka það fram. Nauðsynlegt er að foreldrar leiti upplýsinga og fái svör við þeim spurningum sem vakna. Á heimasíðum skóla eða hjá skólariturum er hægt að fá allar upplýsingar um Mentor, viðtalstíma kennara og einnig er þar hægt að leita upplýsinga um foreldraráð, foreldrafélög og hvaðeina er tengist skólagöngu barnsins. Í flestum skólum er boðið upp á skólafærninámskeið fyrir foreldra 6 ára barna og í sumum skólum fyrir foreldra nemenda í öðrum bekkjardeildum líka. Foreldrar eru hvattir til að sækja þessi fróðlegu námskeið. Þar fá þeir kynningu á skólastarfinu, fræðast m.a. um þroska barna á hinum ýmsu aldursskeiðum, kynnast kennurum barnsins og foreldrum bekkjarfélaganna. Sumir skólar hafa foreldraviðtöl í tengslum við skólasetningu þar sem foreldrar geta hitt kennara barnsins strax fyrsta daginn í persónulegu viðtali. Láta foreldrar mjög vel af því að fá aðgang að kennaranum í skólabyrjun þar sem hægt er að miðla nauðsynlegum upplýsingum. Viðhorf foreldra endurspeglast oft í viðhorfi barnanna til skólans því er mikilvægt að foreldrar séu jákvæðir og ræði ekki neikvæðar hliðar skólastarfsins í návist barnanna. Nemendur þurfa að koma að hreinu borði í orðsins fyllstu merkingu og ekki er gott að draga fram gamla drauga eða atburði síðasta skólaárs. Foreldrar þurfa að huga vel að líðan barna sinna og leggja sig fram um að skapa börnunum jákvætt og uppbyggilegt námsumhverfi til að þau verði móttækileg fyrir því sem skólinn hefur fram að færa. Foreldrar verum til staðar fyrir börnin okkar, nú sem endranær. Helga Margrét Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla ­ landssamtökum foreldra. Atriði sem gott er að hafa í huga: Upphaf skólagöngu eru mikil tímamót fyrir þig og barnið • Veittu barninu ríkulega hlýju, stuðning og áhuga• Gættu þess að hafa nægan tíma fyrir barnið á degi hverjum • meðan það er að aðlagast skólanum Mundu rétt þinn til 13 vikna launalauss foreldraorlofs frá • vinnu - e.t.v. er þetta rétti tíminn til að nýta sér það? Veldu skólatösku við hæfi sem fer vel með bæði barnið og • töskurnar. Hafðu barnið með, það þarf að máta skólatöskur eins og föt Aðgættu að barnið sé ekki að bera of þunga tösku og að þyngstu • bækurnar séu næst bakinu Röltu með barninu um skólalóðina og helst um skólann, utan • annatíma Sendu barnið alltaf með nægt og hollt nesti í skólann• Merktu allar eigur barnsins, skóladót og allan fatnað þ.m.t. • íþróttafatnað Vertu búin að kaupa inn nauðsynlegt skóladót og merkja • áður en að skólinn hefst. Flestir skólar birta innkaupalista á heimasíðum sínum Vegagerð gengur vel á Uxahryggjum Nýr Uxahryggjavegur frá Sandkluftavatni til Kaldadalsvegar er nú farinn að taka á sig mynd en vinna hefur staðið yfir þar undanfarið. Uxahryggjavegur hefur verið í nokkurri uppbyggingu á undanförnum árum og hefur verið unnið að vegabótum á honum sunnanverðum um Sandkluftavatn. Þeirri framkvæmd er lokið og eru vegabæturnar sem unnið er að núna í beinu framhaldi af þeim. Sú breyting verður með nýja veginum, að sneytt verður alfarið framhjá Tröllhálsi og þannig komist hjá hættulegum hluta leiðarinnar en mesti hallinn á Tröllhálsi er um 20% og getur hann verið erfiður viðureignar í vondu færi. Gamli vegurinn getur varla kallast annað en slóði á köflum, þar sem hann er hlykkjóttur og niðurgrafinn og lokast iðulega í fyrstu snjóum. Uxahryggjavegur er sumarvegur þ.e.a.s. hann er ekki mokaður á vetrum og er opnunartími hans því algerlega háður veðurfari hverju sinni. Með opnun nýju leiðarinnar er vonast til þess að vegurinn opnist fyrr á vorin og haldist opinn lengur, auk þess sem umferðaröryggi batnar. Nýr vegur verður uppbyggður malarvegur um sléttara land, en hann hefur verið hannaður fyrir 90 km hraða, með malbikun í huga einhverntíman í framtíðinni. Vegakaflinn sem um ræðir er 9,7 km að lengd og á þeirri leið er 20m. steinsteypt brú yfir Sandvatnskvísl. Vegagerð gengur vel og eru einungis um 2 km. eftir af henni til þess að tengja nýja veginn við þann gamla, norðanmegin. Sigurður Jóhannsson er eftirlitsmaður með þessu verki, en hann starfar hjá Vegagerðinni á Selfossi. Hann segir vegagerðina ganga vel, þetta sé gott vegstæði sem geri framkvæmdina þægilega og ekkert hafi komið á óvart við hana. Hann segir nýja veginn verða skemmtilegri og greiðfærari en að honum loknum taki við næsti flöskuháls. Að mati Sigurðar er það Uxahryggjavegur frá Kaldadalsvegi og niður í Lundarreykjadalinn. Hann segir að það líti út fyrir að vegurinn frá Sandkluftavatni að Kaldadalsvegi verði lokið á áætlun en samkvæmt útboði skal verki að fullu lokið fyrir 20. október næstkomandi. Þetta mun verða breyting til batnaðar enda er umferð um þennan veg talsverð á sumrin eða um 150 bílar á sólahring. Að sögn Magnúsar Vals Jóhannsonar svæðisstjóra hjá Vegagerðinni í Borgarnesi fást litlar fjárveitingar í fjallvegaverkefni á hverju ári. Þess vegna sé lítið gert í hvert skipti sem fjárveiting fæst. Þó séu einhverjar þreifingar í gangi með framkvæmdir Húsafellsmegin á Kaldadalnum. Þar er verið að velta fyrir sér hugsanlegri nýrri veglínu en sá vegur fer gjarnan illa á vorin vegna vatnavaxta. hög Álfheiður segir börnunum frá einu verkanna á sýningunni. Álfar í Kirkjuhvoli Nú stendur yfir mynd- listasýningin „Líf framundan“ í Listasetrinu Kirkjuhvoli á Akranesi. Þar sýnir Álfheiður Ólafsdóttir olíumálverk sem máluð eru undir áhrifum þjóðsagna um álfa og tröll. Hún hefur unnið að myndlist undanfarin 17 ár og gaf út barnabókina Grímur og Sækýrnar árið 2000. Sýningin stendur til 26. ágúst og er á báðum hæðum Kirkjuhvols. Þann 15. ágúst bauð Kirkjuhvoll krökkum af leikjanámskeiðinu á Akranesi að koma á sýninguna og sagði Álfheiður börnunum frá myndum sínum. Hún var klædd viðeigandi álfaklæðnaði og hreif börnin með sér með spennandi frásögn um þennan hulda heim. Leikjanámskeiðið er samstarfsverkefni Skátafélags Akraness og Akraneskaupstaðar og hafa þessir aðilar haft þann háttinn á í sumar að krakkarnir fara á bókasafnið á miðvikudögum og eru þar lesnar eða sagðar fyrir þau sögur. Í þetta skiptið fengu börnin hinsvegar að fara á listasýningu og virtist það eiga vel við þau. hög

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.