Skessuhorn - 20.11.2013, Blaðsíða 14
14 MIÐVIKUDAGUR 20 . NÓVEMBER 2013
Karlaveldi sem þróast hafði á Ís-
landi í marga mannsaldra er víða
að gefa mikið eftir og kvenþjóð-
in að taka yfir eða jafna muninn.
Ekki hefur þetta síst átt sér stað í
stétt rakara og hárskera. Karlarn-
ir í rakarastéttinni á Akranesi hafa
haldið betur velli en á mörgum
öðrum stöðum í landinu. Á Akra-
nesi eru þrjár rakarastofur starf-
andi sem reknar eru af körlum, það
er Hársnyrting Hinriks á Vestur-
götu 57, Rakarastofa Jóns Hjartar-
sonar að Kirkjubraut 30 og Rakara-
stofa Gísla við Stekkjarholt 8-10. Á
tveimur fyrstnefndu rakarastofnun-
um eru rakararnir komnir nokkuð
við aldur. Hinrik verður sjötugur á
næsta ári og Jón Hjartarson áttræð-
ur. Þegar blaðamaður Skessuhorns
fór á rakararúnt á Akranesi í síðustu
viku, kom í ljós að hvorugur þeirra
hefur plön um að fara að leggja frá
sér skærin. Hinrik lærði sína iðn
hjá Jóni Hjartarsyni og hann sagð-
ist náttúrlega ómögulega geta hætt
meðan lærifaðirinn væri enn að
störfum. „Ætli það endi ekki bara
með því að við Hinni verðum bara
að ákveða það í sameiningu hvenær
við hættum. Það verða engin vand-
ræði með það. Okkur hefur alltaf
komið vel saman,“ sagði Jón Hjart-
arson og sló á létta strengi þegar
blaðamaður leit inn á rakarastofuna
hjá honum.
Eins og félagsmála-
stofnun
Fyrst var litið inn á Hársnyrt-
ingu Hinriks á Vesturgötu 57. Þar
var þéttsetinn bekkurinn eins og
stundum er, menn koma saman til
að spjalla. Að þessu sinni voru þar
tvennir bræður, það er Hinrik og
Svavar bróðir hans og Guðmundur
og Hallgrímur Þór Hallgrímssyn-
ir. Fyrr en varði bættist svo Bene-
dikt Jónmundsson í hópinn. „Hér
er mikið spjallað, sagðar fréttir og
spáð í spilin, pólitíkina, bæjarmál-
in og knattspyrnuna. Hérna hafa
meira að segja orðið til heilu fram-
boðslistarnir. Það má búast við að
svoleiðis törn fari að byrja núna
fyrst það verða bæjarstjórnarkosn-
ingar næsta vor,“ segir Svavar Har-
aldsson og hinir taka undir það.
„Það er oft gaman hérna og menn
koma ekki endilega til að láta klippa
sig eða raka. Annars er ég að þjóna
stóru svæði og hef nóg að gera. Síð-
an Villi Valli hætti á Ísafirði held ég
að Djúpmenn leiti helst hingað.
Það er enginn karlrakari í bæjunum
á Snæfellsnesi svo best ég viti eða
í Borgarnesi. Ég fæ viðskiptavini
frá Hólmavík úr Húnavatnssýslum
og víðar frá. Ég er ekkert farinn að
leiða hugann að því að hætta, enda
yrðu það gríðarleg viðbrigði fyr-
ir mig og marga aðra. Rakarastof-
an hjá mér er eins og félagsmála-
stofnun. Svo get ég náttúrlega ekki
hætt meðan lærifaðir minn er starf-
andi,“ segir Hinrik og brosir. Hann
hefur starfrækt rakarastofuna síð-
an 1965 á sama stað og rakari hef-
ur starfað í þessu húsnæði allar göt-
ur síðan 1937. „Ég held að hvergi í
landinu hafi rakarastofa verið í sama
húsinu jafn lengi. Það var byggt
sem símstöð sem var í húsinu til
1935. Í tvö ár skilst mér að hafi ver-
ið hér verslun. Aðallega hafi verið
verslað með skólavörur, enda gamli
skólinn hér steinsnar frá. Það sagði
mér samt maður að hér hefði hann
borðað í fyrsta sinn banana, þannig
að ég hef grun um að hér hafi verið
verslað með fleira en skólavörur,“
sagði Hinrik Haraldsson.
Trúað fyrir ýmsu
Í kjallarahúsnæði við Kirkjubraut
30 er Jón Hjartarson með sína rak-
arastofu. Hann er búinn að klippa
marga kollana um tíðina enda bú-
inn að starfa við rakaraiðnina í 64
ár núna í haust. Hann talar um 65
starfsafmælið á næsta ári rétt eins
og það sé bara áfangi en ekki enda-
lok. „Það er ekkert á dagskránni að
hætta en tíminn leiðir það bara í
ljós hvað ég held lengi áfram. Ég er
búinn að vera svo lengi í þessu að
ég kann ekki að hætta. Það er líka
svo gaman ennþá að klippa og hitta
fólk,“ segir Jón sem hefur starfrækt
rakarastofuna á þessum stað við
Kirkjubrautina í 34 ár, en þar áður
var hann á ýmsum stöðum. Að-
spurður segir þann um hvort hann
eigi ekki einhverja skemmtilega
sögu að segja frá löngum ferli al-
veg frá því hann var 15 ára: „Hérna
fréttir maður náttúrlega ýmislegt,
en ætli viti svo sem ekki allir um
það sem gerist í bænum. Mér er
trúað fyrir ýmsu og fer náttúrlega
ekki að bregðast því trausti. Ég á
marga góða og trygga viðskiptavini
og kynnist mörgum í gegnum þetta
starf,“ segir Jón. Þeirri sögu var
reyndar skotið að blaðamanni áður
en hann fór að hitta Jón að á dög-
unum hafi komið þangað áttræður
maður með sextugan son sinn með
sér í klippingu. Þegar þeir feðgar
fóru kvaddi Jón þann með því að
segja við þann áttræða: „Þú kemur
svo með strákinn aftur eftir mán-
uð.“
Áhættufælinn en
bættist í hópinn
Gísli Guðmundsson er langyngst-
ur í hópi karlrakaranna á Akranesi.
Hann er innfæddur Skagamaður en
nam sína iðn hjá Björgu Óskars-
dóttur á stofunni Permu við Eið-
storg í Reykjavík. „Það voru margir
búnir að orða það við mig hvort ég
ætlaði ekki að koma heim á Skaga
og opna stofu. Ég er áhættufælinn
maður og var tvístígandi lengi en lét
svo vaða. Lét verða að því 1. sept-
ember 2007 að opna stofu hérna á
Akranesi. Ég sé ekki eftir því og hef
alltaf haft nóg að gera. Ég sá fljót-
lega að ég gat bætt við manneskju
með mér. Eftir árið kom Haddý og
hefur klippt með mér síðan. Núna
fer náttúrlega að byrja aðaltörnin
hjá okkur. Það er mest að gera fyr-
ir jólin. Síðasta sumar þegar Haddý
fór í sumarfrí var reyndar svo brjál-
að að gera að ég hafði varla und-
an,“ segir Gísli, sem síðustu misser-
in hefur verið með stofuna, Rakara-
stofu Gísla í Stekkjarholti 8-10 eft-
ir að hafa verið um tíma neðarlega
við Kirkjubraut. Gísli segir að sam-
skiptin við fólk sé það sem m.a. geri
rakarastarfið skemmtilegt. „Hingað
kemur fólk á öllum aldri. Það var
t.d. komið með gutta sem varla var
orðinn tveggja ára. Okkar var sagt
að hann væri svolítið órólegur en
tónlist róaði hann mikið, Mugison
væri í uppáhaldi hjá honum. Ég tók
þá símann minn, fann myndband og
lag með frænda mínum inni á net-
inu. Rétti litla Mugison prinsinum
símann og hann hlustaði hugfang-
inn í sínum heimi. Ég hafði gam-
an af þessu og ekki síst hvað sá litli
hafði góðan tónlistarsmekk,“ sagði
Gísli í lok þessa rakararúnts blaða-
manns á Akranesi.
þá
Rakarastéttin ennþá sterk á Akranesi
Bræðurnir Guðmundur og Hallgrímur Þór Hallgrímssynir, Hinrik Haraldsson, Benedikt Jónmundsson og Svavar Haraldsson.
Hallgrímur Þór aldeilis orðinn fínn í stólnum hjá Hinna rakara.
Jón Hjartarson klippir Lárus Ólafsson svona listavel, enda hefur Jón 64 ára
reynslu sem rakari.
Gísli Guðmundsson rakari á stofu sinni.
Haddý, Hallfríður Jóna Jónsdóttir, sem vinnur á stofunni hjá Gísla klippir ungan
viðskiptavin.