Skessuhorn


Skessuhorn - 05.02.2014, Síða 24

Skessuhorn - 05.02.2014, Síða 24
24 MIÐVIKUDAGUR 5. FEBRÚAR 2014 Sumarið 1966, fyrir nálega 48 árum síðan, hófust miklar framkvæmdir við Miðsand í Hvalfirði. Smíða átti mikla bryggju sem dæla mátti um olíu í og úr skipum sem legðust þar að. Í landi voru settir upp fjórir nýir olíu- geymar sem rúmuðu hver um sig 13 þúsund tonn. Einnig voru settar upp dælustöðvar og reist rafstöðvarhús. Þetta voru með stærstu framkvæmdum þess tíma á Íslandi. Nýlega komu í leitirnar ljósmyndir sem voru teknar af framkvæmdum við byggingu olíubryggj- unnar sumrin 1966 og 1967. Þær voru tekn- ar af Brynjólfi Brynjólfssyni starfsmanni Ís- lenskra aðalverktaka. Myndirnar eru nú í fórum Markúsar Karls Valssonar ljósmynd- ara frá Garði sem búsettur er í Njarðvíkum og birtar hér í Skessuhorni með góðfúslegu leyfi hans. Þær hafa að best er vitað ekki birst opinberlega fyrr, en segja margt um merkan áfanga í atvinnusögunni. Kærkomin vinna á krepputíma Sama ár og hafist var handa í Hvalfirði hófst bygging Búrfellsvirkjunar. Um leið náð- ust samningar um að reisa álver í Straums- vík en orkuframleiðsla frá virkjuninni var forsenda þess. Framkvæmdirnar í Hvalfirði voru á vegum Norður Atlantshafsbandalags- ins (NATO). Íslenskir aðalverktakar gerðu samninga um þessar framkvæmdir skömmu fyrir jól 1965. Verkið hljóðaði upp á 300 til 400 milljónir íslenskra króna. Það var mik- ið fé á þessum tíma. Samningurinn var enda sá stærsti sem verktakafyrirtækið hafði gert. Strax á nýju ári hófst undirbúningur fram- kvæmdanna. Þær fóru svo á fullt skrið um sumarið og stóðu allt til loka ársins 1968. Öll þessi umsvif komu sér vel fyrir íslenska þjóðarbúið. Óvænt kreppa hafði skollið á þegar skyndilega dró úr síldarafla árið 1965. Það gerðist samfara kulda- og hafísskeiði sem stóð yfir frá því ári allt fram yfir 1970. Norsk- íslenski síldarstofninn hrundi af þeim sökum og síldin hvarf. Það varð þungt efnahagslegt áfall fyrir Íslendinga. Hvalfjörður, Búrfell og Straumsvík linuðu þannig hremmingar þjóð- arinnar á þessum erfiðu tímum. Verkefnin þar lögðu sitt af mörkum til að halda hjólum atvinnulífsins í gangi og koma þjóðarbúinu yfir hjallann. Mikið ævintýri Sjálf olíubryggjan var stærsta framkvæmdin í Hvalfirði. Hún skyldi verða 365 metra löng, byggð á stálbitum. Þeir voru rafsoðnir saman inni í Hvalfirði og reknir með fallhamri ofan í sjávarbotninn. Annað burðarvirki yrði úr tré og gólf bryggjunnar úr steinsteypu. Um bryggjuna yrðu lagðar leiðslur fyrir olíu, vatn og gufu. Sitt hvoru megin út frá enda bryggj- unnar yrðu síðan armar sem mynduðu við- legukant fyrir skipin. Þau yrðu af nánast öll- um stærðum og gerðum, bæði flutningaskip, herskip og jafnvel kafbátar. Kalda stríðið svo- kallaða var hvað kaldast á þessum árum. Vest- urveldin og Austurveldin stóðu grá fyrir járn- um í Evrópu og Víetnamstyrjöldin stóð hvað hæst. Alls voru á bilinu 170 til 180 menn við störf í Hvalfirði þegar mest var. Einn þeirra var Jónas Guðmundsson frá Bjarteyjarsandi. „Þetta var ansi mikið ævintýri fyrir ungan mann. Vélarnar voru stórar og miklar. Miklu stærri en maður hafði áður séð. Ég hafði þó verið í jarðvinnu og kynnst bæði skurðgröf- um og jarðýtum,“ segir Jónas þegar hann rifj- ar þessa tíma upp. Mennirnir bjuggu flestir í vinnubúðum sem settar voru upp á staðnum. „Mannskap- urinn var hópur af Bandaríkjamönnum og svo Íslendingar. Uppistaðan í íslenska mann- skapnum til að byrja með voru Keflvíkingar sem unnu hjá Íslenskum aðalverktökum suð- ur frá. Síðan bættust menn ört í hópinn þeg- ar framkvæmdirnar komust á fullt skrið. Það voru menn af Akranesi og margir úr sveitun- um í Hvalfirði. Það bjuggu allir á staðnum en menn fóru heim um helgar. Þetta voru góð- ar tekjur og fín vinna. Ég starfaði við þetta frá því í janúar 1966 þar til í desember 1968. Þetta urðu þannig tvö ár og bryggjan var full- smíðuð með lögnum og öllu saman þegar ég kvaddi.“ Hefur verið í notkun í nær hálfa öld Framkvæmdirnar í Hvalfirði gengu ekki án tafa. „Það átti að byggja olíubryggjuna á einu ári. Hins vegar reyndist helmingi dýpra en ætlað var niður úr sandinum og leðjunni ofan á fast. Það þurfti því að reka stálbitana í und- irstöðurnar lengra niður sem því svaraði. Efn- ið í bryggjuna kláraðist því strax fyrsta sum- arið. Þá var bryggjan ekki nema hálfnuð. Það varð því að gera hálfgildings hlé á verkinu á meðan beðið var eftir fleiri stálbitum erlendis frá. Þeir komu svo vorið eða sumarið eftir og menn gátu haldið áfram,“ segir Jónas. Bryggjan í Hvalfirði hefur þjónað vel allt fram á þennan dag. Sem betur fer kom aldrei til þess að hún yrði notuð í hernaðarskyni. Í dag er bryggjan í eigu olíufélagsins Skeljungs eftir að íslenska ríkið seldi mannvirkið 2007. Hún er enn í dag, tæpri hálfri öld eftir að hún var byggð, allmikið notuð af olíuskipum sem koma og fara með eldsneyti sem geymt er í Hvalfirði. mþh Bryggja byggð í Hvalfirði Vélar og búnaður var flutt inn í Hvalfjörð á gamalli landgönguferju úr seinni heimsstyrjöld. Ferjunni var siglt upp í sand- fjöruna á Miðsandi og tækjunum ekið á land. Framkvæmdir að hefjast við olíubryggjuna vorið 1966. Byrjað er að gera grjótgarða út í sjó. Sá sem er hægra megin á síðan að verða bryggjustæði olíu- bryggjunnar. Hvalbátur og togarinn Akurey AK liggja við festar á firðinum. Einnig sést prammi sem var notaður fyrir loftpressu og gröfu sem hélt á lofthamrinum sem rak niður stálstólpa bryggjunnar. Fjær eru svo Harðarhólmi og Þyrilsnes. Um borð í prammanum sem notaður var fyrir tækin sem ráku niður stálstólpa bryggjunnar. Mennirnir næst frá vinstri eru: Þorgils Stefánsson frá Kalastöðum í Hvalfirði, Gunnólfur Sigurjónsson sem var verkstjóri yfir íslenskum starfsmönnum og Magni Ingólfsson bifvélavirki frá Akranesi. Tækjabúnaður- inn er meðal annars loftpressa fyrir hamarinn og vindubúnaður sem dró prammann úr einni stöðu í aðra. Efnið í gerð bryggjunnar kom með skipum erlendis frá. Mestu af því var skipað upp á Akranesi. Hér eru stálbitar í undirstöður bryggjunnar hífðir á land í maí 1966 og þeim komið fyrir á tengivagni flutningabíls. Rútan á bryggjunni flutti starfsmenn Íslenskra aðalverktaka. Horft út um brúarglugga Jo Redwood í átt að Þyrli og Hvalstöðinni þar sem skipið lá við olíubryggjuna nú í janúar. Dýpið við hana mælist 13 metrar. Ljósm. Faxaflóahafnir. Olíubryggjan er notuð enn í dag. Hér kemur olíuskipið Jo Redwood frá Björgvin í Noregi inn í Hvalfjörð með farm nú í janúar. Skipið kom daginn fyrir gamlársdag. Vegna norðan hvassviðris gat það þó ekki siglt inn í Hvalfjörð fyrr en 8. janúar en lónaði í staðinn dögum saman úti á Faxaflóa. Þetta er sennilega stærsta skip sem nokkru sinni hefur lagst við bryggjuna. Ljósm. Faxaflóahafnir.

x

Skessuhorn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.