Læknablaðið : fylgirit - 01.10.2010, Qupperneq 5
XIX ÞING LYFLÆKNA
FYLGIRIT 65
Velkomin á XIX. þing Félags íslenskra lyflækna
Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin á XIX.
vísindaþing Félags íslenskra lyflækna í Reykjavík. Blað er nú
brotið í sögu þingsins því það er haldið í höfuðborginni í fyrsta
sinn. Óneitanlega er eftirsjá af þeirri stemningu sem jafnan
hefur fylgt þinghaldi á landsbyggðinni að sumarlagi. En þrátt
fyrir áhugaverða dagskrá hefur þátttaka ekki staðið undir
væntingum síðustu ár og því var ákveðið að halda þingið í
Reykjavík að þessu sinni.
Ötullega hefur verið unnið að því að gera dagskrá þingsins
sem glæsilegasta og munu valinkunnir innlendir fyrirlesarar
fjalla um viðfangsefni sem ættu að höfða til allra lyflækna og
annarra áhugasamra um lyflæknisfræði. ítarleg umfjöllun
verður um langvinna lungnateppu og kæfisvefn sem er meðal
algengustu heilbrigðisvandamála Vesturlanda. Þá verður fjallað
um berkla sem enn eru yfirvofandi ógnvaldur sökum sýkla-
lyfjaónæmis og um viðbrögð við inflúensufaröldrum með hlið-
sjón af nýafstaðinni svínaflensu. Greint verður frá framþróun
í meðferð HlV-sýkingar sem breyst hefur í viðráðanlegan
langvirvnan sjúkdóm. Ennfremur verða krufin til mergjar algeng
álitamál varðandi lyfjameðferð, annars vegar blóðþynningar-
meðferð hjá sjúklingum með gáttatif og hins vegar notagildi
prótóndæluhemla.
Að vanda eru vísindarannsóknir veigamikill hluti þingsins.
Alls hafa 102 innsend ágrip verið valin til kynningar á þinginu
og verða þau öll kynnt með veggspjaldi auk þess sem höfundar
munu gera grein fyrir helstu niðurstöðum sínum í stuttu máli.
Þessi mikli fjöldi ágripa er til vitnis um verulega grósku í
vísindaiðkun lækna og er það afar ánægjulegt, ekki síst í ljósi
erfiðleika sem nú steðja að íslensku samfélagi vegna efna-
hagshrunsins og óneitanlega þrengja að akademísku starfi. A
slíkum tímum er mikilvægara en nokkru sinni að við snúum
bökum saman í því skyni að varðveita og jafnvel efla vísinda-
starfsemi með hag sjúklinga okkar og samfélags að leiðarljósi.
Þetta göfuga markmið er í raun megintilgangur þings Félags
íslenskra lyflækna. Fyrir unga vísindamenn er þingið kjörinn
vettvangur til að koma afrakstri starfa sinna á framfæri. Að venju
verða veitt verðlaun fyrir besta ágrip ungs læknis og læknanema
og hafa sex framúrskarandi ágrip verið valin af vísindanefnd
Félags íslenskra lyflækna til að keppa um verðlaunin. Þá verður
málþing þar sem kastljósi verður beint að rannsóknum Hjarta-
verndar og íslenskrar erfðagreiningar og er óhætt að segja það sé
einn af hápunktum þingsins. Þessar vísindastofnanir hafa verið í
fremstu röð í heiminum á sviði faraldsfræði- og erfðarannsókna
undanfarin ár og munu forsvarsmenn þeirra, Vilmundur Guðna-
son og Kári Stefánsson, reifa merka áfanga sem náðst hafa og
veita innsýn í hvert för verður heitið á næstu árum. Loks verður
fjallað um stöðu klínískra lyfjarannsókna og leitast við að meta
hvort raunveruleg tækifæri séu fyrir slíkar rannsóknir hér á
landi í framtíðinni.
Þinginu lýkur með hátíðarkvöldverði á veitingastaðnum
Silfri á Hótel Borg og vonast ég til að sem flestir lyflæknar og
aðrir þinggestir sjái sér fært að koma og njóta ánægjulegrar
samverustundar í góðra vina hópi.
Margir hafa lagt hönd á plóg til að gera þetta þing að veruleika
og færi ég þeim öllum bestu þakkir fyrir. Ráðstefnufyrirtækið
Athygli - ráðstefnur annast nú skipulag og undirbúning þings-
ins í fyrsta skipti og þakka ég þeim fyrir sérlega ánægjulegt
samstarf. Að síðustu færi ég öllum þeim fyrirtækjum sem styrkt
hafa þingið okkar bestu þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag.
Runólfur Pálsson, læknir
Formaður Félags íslenskra lyflækna
Stjórn Félags íslenskra lyflækna
Runólfur Pálsson, formaður
Sigurður Ólafsson, gjaldkeri
Davíð O. Arnar, ritari
Rafn Benediktsson, formaður
vísindanefndar
Hlíf Steingrímsdóttir
Sigurður Guðmundsson
Vísindanefnd Félags íslenskra lyflækna
Rafn Benediktsson, formaður
Björn Rúnar Lúðvíksson
Gerður Gröndal
Margrét B. Andrésdóttir
Vísindanefnd til aðstoðar við mat á ágripum
Davíð O. Arnar
Hlíf Steingrímsdóttir
Sigurður Ólafsson
Runólfur Pálsson
Dómnefnd vegna verðlauna á XIX. þingi
Félags íslenskra lyflækna
Gerður Gröndal, formaður
Björn Rúnar Lúðvíksson
Margrét B. Andrésdóttir
Rafn Benediktsson
ATHYGLI
RÁBSTEFNUR
Umsjón með undirbúningi
og framkvæmd þings
www.athygliradstefnur.is
thorunn@athygii.is
birna@athygii.is
LÆKNAblaðið 2010/96 5