Bæjarins besta


Bæjarins besta - 10.12.2009, Blaðsíða 10

Bæjarins besta - 10.12.2009, Blaðsíða 10
10 FIMMTUDAGUR 10. DESEMBER 2009 Reykvíkingurinn sem breyttist í ramman Vestfirðing – spjallað við Hallgrím Sveinsson bókaútgefanda og mjög lengi staðarhaldara á Hrafnseyri Hallgrímur Sveinsson á Brekku í Dýrafirði er einkum kunnur fyrir tvennt: Annars vegar var hann ásamt Guðrúnu Steinþórs- dóttur eiginkonu sinni staðar- haldari á Hrafnseyri við Arnar- fjörð, fæðingarstað Jóns forseta, í liðlega fjóra áratugi. Hins vegar hefur hann hin síðari árin stundað öfluga bókaútgáfu undir nafni Vestfirska forlagsins og meðal annars bjargað þar mörgum fróð- leik sem ella hefði horfið í glat- kistuna að eilífu. Um þessar mundir er Vestfirska forlagið fimmtán ára. Hallgrím sjálfan skortir hins vegar hálft ár í sjötugt en hann er fæddur sumarið 1940. Enda þótt Hallgrímur Sveins- son sé samgróinn Vestfjörðum í hartnær hálfa öld er hann Reyk- víkingur að uppruna og uppalinn á götunum í Reykjavík, eins og hann kemst sjálfur að orði. Hann kveðst hafa átt frekar erfiðar að- stæður í uppvextinum, alinn upp að miklu leyti af einstæðri móður ásamt fjórum öðrum systkinum. „Ég ólst upp í Höfðahverfinu og gekk í Laugarnesskólann. Það var góður skóli að mörgu leyti. Þar var ég meðal annars undir handarjaðri þriggja kennara sem ég minnist með mikilli ánægju. Þetta voru þeir Magnús Sigurðs- son, Pálmi Pétursson og Guð- mundur Magnússon. Þegar ég byrjaði mína skólagöngu var ýmislegt andstætt hjá manni. Að- stæðurnar voru slíkar. Það átti líka við um marga sem gengu í þann skóla. Fátæktin í Reykjavík var mikil og húsnæðiseklan hafði sín áhrif.“ Ekki síst var mikil fátækt í Höfðaborginni, þar sem Hall- grímur átti heima á tímabili. Höfðaborgin var til komin vegna húsnæðisskortsins. Hún var reist á borgarstjórnarárum Bjarna Benediktssonar. Það er merkilegt að í Höfðaborginni voru vatns- salerni sem voru nú ekki alls staðar í Reykjavík á þeim árum, að ekki sé nú talað um úti á landsbyggðinni. Þetta hafði Höfðaborgin fram yfir mörg önn- ur betri hús. Ekki eintómir englar „Við bröskuðum margt strák- arnir í Höfðaborginni. Sjálfsagt væri hægt að finna í hirslum Reykjavíkurborgar einhverjar skýrslur þar sem fram kemur að það var ekki alltaf elsku mamma hjá okkur félögunum. En íþróttir voru fremst á stefnuskránni, fót- boltinn á sumrin og handboltinn á vetrum. Þarna bjuggu ekki ein- tómir englar, en margt var þar af úrvalsfólki sem húsnæðisvand- ræðin og atvinnuleysi höfðu leik- ið grátt. Þegar ég var um níu eða tíu ára aldur sáu kennarar mínir, áður nefndir, í mér einhverja bjarta og góða punkta og fluttu mig í miklu betri bekk í árganginum, tóku mig úr einhverjum slakasta bekknum og settu mig í einhvern þann besta. Þetta hafði mjög góð áhrif á mig. Ég minnist þessara góðu kennara minna með miklu þakklæti. Það er ákaflega mikil- vægt að gott fólk veljist í þá stétt.“ Þegar skólagöngunni í Laug- arnesskólanum lauk gekk Hall- grímur í Gagnfræðaskólann við Lindargötu og Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Síðan lá leið hans í Kennaraskólann til Freysteins Gunnarssonar og þaðan útskrif- aðist hann vorið 1961, rúmlega tvítugur að aldri. Eftir það lá leiðin að heimavistarskólanum að Jaðri þar sem Hallgrímur var kennari einn vetur hjá Björgvin Magnússyni vini sínum, kennara og skólastjóra og skátaforingja. „Ég hafði áður verið hjá honum í vinnu sem flokksforingi á Vinnu- og skátaskólanum á Úlfljóts- vatni. Á þessum skólaárum mín- um gengu alls konar félagsstörf fyrir náminu. Það má eiginlega segja að maður hafi verið algjört félagsmálafrík, eins og sagt er í dag. Og íþróttirnar höfðu einnig forgang. Fótboltinn í yngri flokk- unum í Fram á sumrin og hand- boltinn í Ármanni á veturna.“ Forstöðumað- ur í Breiðavík Vorið 1962 var auglýst starf forstöðumanns vistheimilisins í Breiðavík fyrir vestan. „Þótt ungur væri álpaðist ég til að sækja um þá stöðu, fyrir hvatningu ýmissa góðra manna. Þangað fór ég um sumarið og var þar í rúm tvö ár og átti að heita forstöðumaður þess heimilis.“ – Síðustu árin hefur Breiða- víkurheimilið verið mjög í um- ræðunni. Þeir alvarlegu atburðir sem fjallað hefur verið um áttu sér ekki stað á þínum tíma þar. „Að vissu leyti er það rétt, en þó er ekkert hægt að líta framhjá því að mitt nafn kom líka við sögu þegar þessi umfjöllun byrj- aði. Það var mjög þungbært að fylgjast með allri þeirri umræðu. Ég tók hins vegar strax þann pól í hæðina að bera fulla virðingu fyrir því sem þessir menn voru að segja frá æsku sinni í Breiða- vík og víðar. Þetta eru þeirra frásagnir og mér datt síst í hug að gera neinar athugasemdir við þær. Þær verður hver og einn að vega og meta. Af eigin raun get ég ekkert sagt um það hvernig þetta var hjá öðrum forstöðumönnum í Breiðavík. En ég minnist þess glöggt að ég hélt strákunum að íþróttum á öllum árstímum eftir því sem aðstæður voru til, svo dæmi sé nefnt. Einn þeirra sagði reynd- ar í fyrra að ég hefði verið tuttugu til þrjátíu árum á undan minni samtíð í þeim efnum, en það voru hans orð.“ Þekkti hugmynda- heim drengjanna „Það var allt gert sem mögu- legt var til að drengjunum gæti liðið sem best. Þar kom mér að góðum notum að ég þekkti hug- myndaheim þessara drengja og aðstæður allar af eigin raun, eins og fyrr segir. Síðan var þarna búskapur og maður var að reyna að halda drengjunum að vinnu við hæfi, því að slíkt er öllum hollt. Í þessari umræðu um Breiða- vík voru í fyrstu allir settir undir sama hatt. Sjaldan hef ég kynnst öðrum eins öðlingi og Birni Lofts- syni, sem ég tók við af. Björn var gull af manni og fórnaði sér al- gjörlega fyrir þetta heimili. Hann var meðal annars starfsmaður hjá okkur hjónunum í Breiðavík eftir að hann var farinn og kom svo aftur og þau hjónin leystu okkur af. Vistheimilanefnd vinnur við að fara ofan í saumana á þessum hlutum á ýmsum vistheimilum fyrir hönd Alþingis og okkar allra. Það sem einkennir umsagn- ir hennar um dvöl barnanna á þeim vistheimilum sem hún hefur skoðað er einsemd og vanlíðan, eftir því sem fram kemur í frá- sögnum þeirra. Það er hinn rauði þráður að mínu mati. Það hefur trúlega löngum verið svo á slík- um stöðum.“ Allir settir undir sama hatt – Þú eða þitt fólk hafið ekki verið borin sökum um harðræði eða neitt annað misjafnt í Breiða- vík. „Ég var fimmti forstöðumað- urinn í Breiðavík. Í skýrslu vist- heimilanefndar um heimilið segir að drengirnir sem voru þar undir mínum handarjaðri beri mér að flestu leyti vel söguna og allur aðbúnaður á heimilinu hafi tekið breytingum til hins betra undir minni stjórn. Sem betur fer hefur mér ekki verið borið neitt á brýn eins og sumir eru ásakaðir fyrir. Hitt er annað mál, að ég ætla ekki að setjast í dómarasæti yfir einum eða neinum. Ég segi það úr því að þú spyrð um þessi mál. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan, að allir sem störfuðu á þessum vistheimilum voru settir undir sama hatt af almenn- ingi, sérstaklega á Breiðavíkur- heimilinu, því að það var hið fyrsta í röðinni í þessari rannsókn og mest athyglin var bundin við það. Ég veit hins vegar að gegn- um tíðina starfaði þar fjöldi fólks sem lét einungis gott af sér leiða. Ég kynntist mörgu af þessu fólki bæði fyrr og síðar. Það er enginn vafi að margt af því fólki hefur fengið sár á sálina við þessa um- fjöllun, þar sem enginn var und- anskilinn.“ Hér má skjóta því inn, að Guð- rún Steinþórsdóttir eiginkona Hallgríms kom í Breiðavík sem ráðskona og þar kynntust þau. Til Hrafnseyrar við Arnarfjörð – Hvert lá svo leiðin frá Breiða- vík? „Þá lá leið okkar hjónanna til Hrafnseyrar við Arnarfjörð. Við tókum þá við staðnum á Hrafns- eyri fyrir forgöngu Sigurbjarnar Einarssonar biskups. Hann var örlagavaldurinn í því efni.“ Ekki var tjaldað til einnar næt- ur á Hrafnseyri því að dvöl þeirra hjóna við staðarhald þar varð rúm fjörutíu ár. „Við komum þangað haustið 1964. Þá var hugmyndin sú að setja þar á stofn lítinn skóla. Það var farskóli í sveitinni en börnin orðin fá. Við vorum þarna með skóla fyrstu tvö árin, ef ég man rétt, en síðan var hreinlega ekki grundvöllur fyrir því. Annað árið sem við vorum á Hrafnseyri fórum við út í búskap og stunduðum hann þar í fjörutíu ár.“ – Var það eingöngu vegna skólahalds sem þið fóruð að Hrafnseyri eða var það líka eitt- hvað í beinum tengslum við fæð- ingarstað Jóns Sigurðssonar? „Hrafnseyrarnefnd var þá undir forsæti Ásgeirs Ásgeirs- sonar forseta. Það sem bjó að baki var að taka við vörslu og umhirðu staðarins og reyna að koma honum í horf sem gæti verið þjóðinni til nokkurs sóma. Búið var að reisa þar hálfkarað hús sem átti að vera prestssetur og skóli, en Hrafnseyrarpresta- kall var svokallað kennslupresta- kall. Aðeins voru örfá ár liðin frá því að séra Kári Valsson, síðasti presturinn á Hrafnseyri, fór það- an. Enn var staðurinn prestssetur að lögum þegar við settumst þar að en prestakallinu þjónað frá Þingeyri. Prestur var aldrei á Hrafnseyri eftir þetta. Hugmyndin var sú, að á Hrafns- eyri yrði einhvers konar safn með munum og bókum til minningar um Jón forseta og skóli fyrir byggðir Arnarfjarðar. Þar átti líka að vera bóndi og búið var að byggja fjós fyrir eina tíu gripi þegar við komum. Fjárhús voru hins vegar kofar út um allt tún upp á gamla móðinn.“ Stakkaskipti á Hrafnseyri – Það urðu talsverð stakka- skipti á Hrafnseyri í fjögurra ára- tuga setu ykkar þar. „Já, það er óhætt að segja það. Þar voru stigin mörg framfara- skref á ýmsan hátt. Einna hæst ber opnun Safns Jóns Sigurðs- sonar árið 1980. Þá kom Vigdís

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.