Bæjarins besta


Bæjarins besta - 10.12.2009, Blaðsíða 14

Bæjarins besta - 10.12.2009, Blaðsíða 14
14 FIMMTUDAGUR 10. DESEMBER 2009 Varð að bregðast við innrás veruleikans Eiríkur Örn Norðdahl hefur sent frá sér sína þriðju skáldsögu, Gæsku. Bókin hefur fengið góðar viðtökur og frábæra dóma. Henni voru gefnar fjórar stjörnur bæði í Morgunblaðinu og á Pressan.is og gagnrýnendurnir báðir sam- mála um að hér sé sennilega á ferðinni besta skáldsagan um hrunið. Auk þess lofa þau Eirík Örn í hástert fyrir stílfimi og hug- myndaauðgi. Eiríkur er búsettur í Svíþjóð en Bæjarins besta sló á þráðinn og rakti úr honum garn- irnar um bókina, byltinguna, borgina, bæinn og „hinn reiða unga mann“ á fertugsaldrinum. – Þú segist hafa byrjað á bók- inni 2007, tók hún miklum stakkaskiptum áköpunartíman- um í ljósi atburða frá og með hausti 2008? „Hlutar hennar gerðu það - fyrri hlutinn er lítið breyttur, efn- islega, en seinni hlutinn gerir ráð fyrir byltingu, sem reyndar fær ekki sjálf að vera með í bókinni nema sem eyða í tíma. Bókin átti upphaflega að koma út í fyrra en ég lagði hana frá mér um vorið vegna þess að ég sá ekki fram á að geta klárað hana jafn vel og mér þótti hún eiga skilið. Ég var búinn að skrifa inn í bókina „hrun krónunnar“ - og gerði það hálfu ári áður en hin raunverulega króna hrundi. Í bókinni verða Íslendingar öreigar á einni nóttu, betlarar og beiningamenn. Þegar hin raunverulega króna svo hrundi fékk ég hálfgert sjokk – þessi fína symbólíska hugmynd mín var orðin að einhverju allt öðru en ég ætlaði henni. Skyndilega var hugmyndin orðin að innleggi í pólitískan raunveruleika og ég sjálfur einhvers konar tíðaranda- veiðari, korteri of seinn að gefa út kreppuspá. Og það var aldrei meiningin, en ég varð auðvitað að bregðast við þessari innrás veruleikans í bókina mína og úr því viðbragði spratt seinni hluti bókarinnar – það sem ég var bú- inn að skrifa um eftirleik krónu- hrunsins fór auðvitað út í veður og vind og nýr þráður spann sig sjálfur út að nýjum endalokum bókarinnar.“ – Svo þú sást hrunið fyrir? „Gjaldmiðlar eru alltaf að hrynja. Ég held það hafi mun fleiri séð þetta fyrir en vilja muna það - það er einfaldlega þægilegra að láta eins og maður hafi ekki vitað neitt, því ekkert okkar gerði auðvitað neitt, ekkert sem skipti neinu máli allavega. Þegar ég byrja að skrifa bókina er ég ný- hættur á Bæjarins besta og búinn að eyða nokkrum árum í að hlusta á útgerðarmenn kvarta yfir of hátt skráðri krónu – þegar ég hætti flutti ég til Helsinki og þar átti ég spjall við stærðfræðing sem hafði verið ráðinn til Háskól- ans í Reykjavík til að rannsaka íslenskt fjármálakerfi. Hann spurði mig ítrekað hvaðan þetta ríkidæmi Íslendinga kæmi og ég svaraði honum til að ég héldi ekki að þetta væri neitt ríkidæmi heldur lán – þetta væri sami gamli góði íslenski hæfileiki og flestir kaupsýslumenn á landinu hafa keyrt á áratugum ef ekki árhundr- uðum saman: að geta kjaftað lán út úr bankastjóranum. En nei - það var ekki ég sem átti þá hug- mynd að kapítalisminn sé bóla. Sú hugmynd er að minnsta kosti 160 ára gömul. Ég lærði það með- al annars í þjóðhagfræði í Mennta- skólanum á Ísafirði að eitt helsta einkenni frjálsra markaðshag- kerfa sé reglubundnar kreppur. Þetta sagði sig einfaldlega sjálft. Og ég lagði upp með að skrifa bók sem væri „pólitísk hystería“ – og spurði mig hvað gæti sett Ísland á aðra hliðina? Þetta var eitt ótal svara við þeirri spurn- ingu. Það vill svo reyndar til að krepp- an er engin kreppa og byltingin engin bylting – ekki í hreintrúar- skilningi. Kreppan á Íslandi er ekki Bandaríkin 1929 og bylting- in ekki Rússland 1917. Í bókinni er ekki jafn auðvelt að flýja af- leiðingarnar og í raunveruleikan- um - þar verður fólk í alvörunni allslaust, einn, tveir og bingó.“ Útlendingar álitnir glæpamenn – Hroki og sjálfsánægja Íslend- inga eru nokkuð áberandi í bók- inni og pólitíkin áhrifalaus leikur, finnst þér það vera meginein- kenni á Íslandi nútímans - jafnt fyrir sem eftir kreppu? „Ég er ekki viss um að þessir drættir séu sterkir í svonefndu „venjulegu fólki“ – alþýðunni. Ís- lendingar láta kannski auðveld- lega glepjast og þeir eru alveg tilbúnir til að láta hrósa sér út í hið óendanlega, en hrokinn og sjálfsánægjan grassera mest í valdastéttunum. Sem er auðvitað afleiðing af einhvers konar sinnu- leysi – Íslendingar eru svo upp- teknir af að vera „duglegir“, af að vinna langt fram eftir öllum kvöldum og hleypa út djöflunum þess á milli, að þeir eru of lúnir til að láta sig varða stærri drætti, hið stóra samhengi. Það mætir enginn til að mótmæla því þegar innflytjendur eru sendir út á gaddinn í Grikklandi, þó það sjóði á tugum þúsunda. Íslend- ingar voru í áratugi því mótfallnir að á Íslandi væri herstöð, en þeir létu líka ljúga því í sig að þeir væru það ekki – allar skoðana- kannanir sýndu að fólkið í land- inu var á móti hernum, en það tók enginn mark á því, því Ís- lendingar eru svo seinþreyttir til vandræða. Það var þægilegra að trúa því að við værum öll sama tímaskekkjan en að þurfa að gera eitthvað í því að koma hernum úr landi. Þegar maður veltir því síðan fyrir sér í alþjóðlegu samhengi voru líka ótrúlega fáir sem mættu niður á Austurvöll síðasta vetur, þó 90% þjóðarinnar væru „með þeim í anda“. Þegar ég kom þarna í desember í fyrra voru kannski hundrað manns, af tæplega 200 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki há prósenta. En þetta er ekki hroki og sjálfsánægja held- ur sinnuleysi, kannski þreyta, kannski leti, kannski finnur fólk illa til þess valds sem það þó raunverulega býr yfir. Og það sinnuleysi veldur aftur sjálfs- ánægju, hroka og yfirgengilegri öryggistilfinningu í valdastéttun- um. Valdastéttirnar taka ekki fólkið alvarlega, vegna þess að fólkið gefur ekki valdastéttunum ástæðu til þess.“ – En tekur fólkið valdastéttirn- ar alvarlega? „Að því leyti að það leyfir þeim að komast upp með næstum því hvað sem er, já. En hitt er svo annað að Íslendingar eru að ég held ekkert hræddir við að gera grín að valdastéttunum – þeir bera ekki virðingu fyrir þeim í orði, en þeir gera það á borði.“ Svo við höldum okkur við Gæskuna, viðhorfið til nýbúa sem valdhafar sýna þar er ekki upp á marga fiska: „Það er ekki pláss hér fyrir fleiri Íslendinga, en það er pláss fyrir fleira fólk,“ segir á einum stað. Er það ekki eitt leiðarstefið í bókinni að við virðum ekki þá menningu og áhrif sem nýbúarnir koma með inn í samfélagið? „Það er erfitt að alhæfa um það auðvitað – „við“ erum mörg hver ágæt en það eru líka óttalegir bjánar inn á milli. Hugmyndir um að innflytjendur eigi að verða einhvers konar vara-Íslendingar, ef þeir eigi að fá að vera með yfir höfuð, hafa grasserað alveg frá því Íslendingar fóru að taka á móti innflytjendum, hælisleit- endum og flóttamönnum, sem reyndar er gert alltof lítið af. Þess- ar hugmyndir náðu svo nýjum hæðum þegar Magnús Þór Haf- steinsson, Jón Magnússon, Viðar Helgi Guðjohnsen og fleiri fóru að láta til sín taka í innflytjenda- málum – þar var það lagt að jöfnu að vera útlendingur og að vera glæpamaður. Ekki bara oft á tíðum, heldur ítrekað og að manni virtist einbeitt og viljandi. Þetta er hættulegur áróður sem hefur sem betur fer ekki náð að festa rætur – enda Frjálslyndi flokkurinn horfinn af yfirborði jarðar. Ég hafði miklar áhyggjur af því að ef Íslendingar yrðu einhvern tíma aftur fátækir (sem ég geri ráð fyrir að eigi eftir að gerast, einhverntíma) þá yrði hjólað í innflytjendurna. Eitt af því jákvæða sem kom út úr hrun- inu var að umræðan um útlend- inga sem vandamál varð hjákát- leg, okkur varð skyndilega ljós uppspretta vandræða okkar. Og þau upphófust ekki í Tælandi eða Póllandi heldur í kaupsýslu- höllum í Reykjavík. Hvort sá lær- dómur endist, hvort við látum glepjast aftur, hvort útlendinga- hræðslan spretti upp að nýju tví- efld síðar, verður svo bara tíminn að leiða í ljós. En svo ég svari spurningunni, þá jú, byggja leiðarstef bókar- innar á hugmyndum Íslendinga um sjálfa sig og heiminn, og ekki bara þegar kemur að útlending- um.“ Ósammála öllum – Finnst þér það vera hlutverk rithöfundarins að segja þjóð sinni til syndanna? „Ég veit það ekki. Ég er hrein- lega ekki góður í að skilgreina hlutverk rithöfunda, þó ég telji þá reyndar gegna hlutverki og hlutverkum. Bókmenntir eru, fyrir mér, það sem liggur bak við heiminn – veröldin þegar búið er að skjóta á hana göt svo sjáist í gegn. Þetta er einhver virkni sem ég get ekki alveg skilgreint, þó sjálfsagt geti það einhver svo mér líki sjálfum. Ég sest svo sannarlega ekki niður til að skrifa sögu sem segir þjóðinni til synd- anna, þegar ég er í þannig skapi sný ég mér að bloggsíðunni minni og læt móðan mása. En svo er ég ekki heldur svo vitlaus að halda því fram að ég sé ekki að segja þjóðinni til syndanna í Gæsku, ég er í það minnsta að segja ein- hverjum til syndanna. En ég að- hyllist ekki félagslegt raunsæi og á dálítið bágt með svart-hvítan skilning á þjóðinni, að minnsta kosti þegar ég er að skrifa bók- menntir. Þjóðin er góð og vond, falleg og ljót. Hún er meira að segja bæði raunveruleg og óraun- veruleg, til og tilbúningur.“ – Þú verður nú seint sakaður um að skrifa í anda félagslegs raunsæis, en það er samt greini- legt að mál samfélagsins brenna á þér. Ertu alin upp í mikilli póli- tík? „Ég á foreldra sem eru dugleg að ræða málin sín á milli – ég er alinn upp við að fjölskyldan rök- ræði við eldhúsborðið og yfir uppvaskinu, og ég er ekki alinn upp við neina tæpitungu né að maður komist upp með einhver „afþvíbara“-rök. Ég á það til að vera ósammála öllum sem ég tala við um alla skapaða hluti, sem er auðvitað vandræðaástand á köfl- um. Mér þykir ekki beinlínis gaman að rífast (nema stundum), þetta er meira einhvers konar heilkenni, einhver létt einhverfa. Ef ég er ósammála einhverju eða þegar mér þykir ósæmilega veist að einhverjum á ég einfaldlega mjög erfitt með að halda í mér - stundum hef ég á réttu að standa, stundum ekki. Þetta er ekki alltaf auðvelt fyrir þá sem þurfa að umgangast mig, og nálgast kannski stundum einhvern brjál- æðislegan hroka - en ég er líka ágætur í að biðjast afsökunar, eftir mikla æfingu. Samfélagið er auðvitað alls

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.