Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.11.2009, Blaðsíða 13

Neytendablaðið - 01.11.2009, Blaðsíða 13
Jóhannes Gunnarsson forma›ur Neytendasamtakanna Ábyrgar lánveitingar, raunhæft greiðslumat Undanfarin ár hafa Neytendasamtökin barist fyrir því að lánveit- endur viðhafi ábyrgar lánveitingar sem byggjast á raunhæfu greiðslumati. Þegar samtökin hófu þessa baráttu fannst mörgum að hér væri um óþarfa forsjárhyggju að ræða og þá ekki síst þeim sem fengið höfðu annað hvort synjun á lánveitingu sinni eða minni fyrirgreiðslu en þeir höfðu vænst. Í málflutningi sínum hafa Neyt- endasamtökin hins vegar lagt áherslu á að það væri engum greiði gerður að fá lán umfram greiðslugetu heldur væri slíkt eingöngu ávísun á greiðsluerfiðleika síðar meir. Einnig var hluti af þessari baráttu háður til að losna sem mest við ábyrgðarmannakerfið sem var miklu algengara hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Það hefur verið og er skoðun Neytendasamtakanna að lána eigi á grundvelli fjárhagsstöðu viðkomandi lántaka, en ekki eigi að notast við þriðja aðila sem gengst í sjálfskuldarábyrgð nema í undan- tekningartilvikum. Á þetta sjónarmið hafa í raun allir aðilar fallist núna. Seinni hluta októbermánaðar sendu Neytendasamtökin erindi til til Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem lögð var áhersla á að raunhæft greiðslumat lægi fyrir þegar mat væri lagt á hvort lána ætti viðkomandi aðila. Bent var á í bréfinu að „greiðsluörðugleikar heimilanna skrifast ekki eingöngu á gengisfall íslensku krónunnar eða vaxandi verðbólgu og atvinnuleysi, heldur einnig það að framboð af lánsfé var of mikið. Lánsfjárhæðir voru því oft í engu samræmi við greiðslugetu og framfærslukostnað lántaka.” Einnig að gera megi ráð fyrir því að hefði lánveitendum verið gert skylt að framkvæma raunhæft greiðslumat væru færri heimili í greiðsluvanda heldur en nú er. Loks var bent á að þetta væri ekki séríslenskt fyrirbrigði og bent á hugmyndir sem breska fjármálaeftirlitið hefur til skoðunar sem snúa að því að herða mjög reglur um ábyrgar lánveitingar og framkvæmd greiðslumats. Einu ákvæðin í íslenskum lögum um greiðslumat er að finna í lögum um húsnæðismál og í lögum um ábyrgðarmenn. Í fyrrnefndu lögunum er að finna ákvæði um að Íbúðalánasjóði sé heimilt að synja umsækjanda um lánveitingu uppfylli hann ekki skilyrði viðmiðunarreglna sjóðsins um greiðslugetu. Í síðarnefndu lögunum er sú skylda lögð á lánveitendur að greiðslumeta lántakanda þegar annar einstaklingur gengst í ábyrgð til tryggingar á greiðslu láns. Í þessum lögum er einnig heimild fyrir efnahags- og viðskiptaráðherra að setja reglugerð um framkvæmd greiðslumats en ráðherra hefur ekki nýtt sér þá heimild. Það er mat Neytendasamtakanna að full þörf sé á að slík reglugerð verði sett, enda vandséð hvernig lánveit- endur geti ella uppfyllt skyldur sínar sem kveðið er á um í þessum lögum. Hvergi er í lögum að finna ákvæði um hvernig greiðslumat skuli framkvæmt. Eini neyslustaðallinn sem er til um þetta eru neysluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Því miður er það svo að þar er miðað við mjög lágar tölur hvað varðar framfærslukostnað heimilis. Tölurnar eru raunar það lágar að margir hafa nefnt það „sultarneyslu”, enda eru þau viðmið sniðin að fólki í verulegum fjárhagsörðugleikum. Hér er svo naumt skammtað varðandi framfærslu að það kallar á vandamál hjá viðkomandi síðar meir. Því skortir sárlega reglur um greiðslumat, bæði varðandi skyldu lánveitenda til að framkvæma greiðslumat og eins hvernig framkvæma eigi slíkt greiðslumat og hvað leggja beri þar til grundvallar. Stjórn Neytendasamtakanna sendi frá sér svohljóðandi ályktun í maímánuði sl.: „Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir því að komið verði upp neyslustaðli sem byggist á raunhæfri viðmiðunar- neyslu. Slíkur staðall er nauðsynlegur til að meta greiðslugetu heimila. Neytendasamtökin vilja að þegar verði komið upp slíkum staðli hér á landi eins og annars staðar á Norðurlöndum og raunar víðar. Raunhæft greiðslumat þarf að byggjast á slíkum staðli og miðast við verðbólguspá viðkomandi fjármálafyrirtækis en ekki við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Án þess verður ekki hægt að koma á ábyrgum lánveitingum, sem hlýtur að vera eitt helsta mark- miðið á fjármálasviði eftir reynslu síðustu mánaða og missera.“ Það er jafnframt krafa Neytendasamtakanna að þegar slíkar reglur hafa verið settar beri lánveitendur ekki síður ábyrgð en lántakar geti lántaki ekki staðið við sitt og ef greiðslumat hefur ekki verið framkvæmt á ábyrgan hátt. Í því uppbyggingarstarfi sem nú er framundan í íslensku samfélagi eftir hrunið skiptir miklu að koma á ábyrgum lánveitingum og raunhæfu greiðslumati. Þetta verða stjórnvöld að tryggja með setningu laga sé það nauðsynlegt. Neytendasamtökin lýsa sig reiðubúin til samstarfs við stjórnvöld til að tryggja að þessum markmiðum verði náð. 1 NEYTENDABLA‹I‹ 4. TBL. 2009

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.