Ægir - 01.08.2001, Blaðsíða 19
19
Æ G I S V I Ð T A L I Ð
ekki að fara út í viðbótarfjárfestingu til þess að þurrka
saltfisk,“ sagði Gunnlaugur.
Í góðu sambandi við kaupendur
Til þessa hefur GPG eingöngu unnið svokallaðan
blautfisk. „Portúgal er okkar stærsti markaður fyrir
blautverkaðan saltfisk. Einnig framleiðum við tölu-
vert inn á Spán, Ítalíu, og Grikkland. Þurrkaða
hryggi og hausa seljum við hins vegar til Nígeríu,“
sagði Gunnlaugur. Hann orðar það svo að fyrirtækið
hafi ekki „bundið sig við ákveðin fyrirtæki“ varðandi
sölumálin. „Við erum að kaupa fisk á frjálsum mark-
aði og að sama skapi seljum við fisk á frjálsum mark-
aði. Sölunni högum við töluvert eftir því hver borgar
best í hverjum tíma. Stundum tökum við ákvörðun
um að selja ekki frá okkur fisk en safna þess í stað
birgðum. Til þeirra ráða grípum við þegar aðstæður á
markaðnum eru þannig að salan er lítil og verðið á
fiskinum af þeim sökum lágt. Til dæmis er yfirleitt
lítil sala yfir sumarmánuðina og afurðaverð lágt, en á
haustin, í október og nóvember, eykst salan jafnt og
þétt og afurðaverð hækkar,“ segir Gunnlaugur. „Ég
er í beinu tölvu- eða faxsambandi við okkar kaupend-
ur og sömuleiðis fylgist ég með gangi mála í gegnum
þá umboðsaðila sem hafa ákveðna kaupendur á sínum
snærum, sem ég hef hins vegar ekki náð beinum við-
skiptum við. Ég geri töluvert af því að fara sjálfur
þarna niðureftir og heilsa upp á kaupendur. Slík per-
sónuleg tengsl eru afar mikilvæg.“
Gunnlaugur á ekki von á frekari verðhækkunum á
saltfiski. „Stóri saltfiskurinn, sem veitingahúsamark-
aðurinn kaupir fyrst og fremst, er mjög dýr og ég tel
útilokað að verð á honum muni hækka enn frekar.
Reyndar berast fregnir af því að sum veitingahús hafi
tekið þessa vöru af matseðlum vegna þess að gestir
kaupa hana ekki af þeirri ástæðu að hún sé of dýr.
Þessar verðhækkanir á saltfiski eru að einhverju leyti
komnar til af því að þorskveiðin hefur verið að drag-
ast saman, til dæmis í Barentshafi, og einkanlega hef-
ur framboðið á stórum fiski minnkað verulega. Stærri
saltfiskurinn hefur sem sagt verið mest seldur á veit-
ingahúsum en hinn almenni neytandi kaupir smærri
saltfisk út í búð fyrir töluvert lægra verð.“
Engin óþarfa yfirbygging
Það væri synd að segja að mikil yfirbygging sé í GPG
ehf. Á morgnana er Gunnlaugur einn á skrifstofunni
og sér um daglega stjórnun, hráefnisöflun og drjúgan
hluta af sölumálunum. Seinni part dags leggur bók-
ari Gunnlaugi lið við bókhaldsmálin. Það er því von
að spurt sé hvort framkvæmdastjórinn sé ekki frá
morgni til kvölds á kontórnum? „Jú, óneitanlega eru
vinnudagarnir oft langir. Ég hef ekki viljað mikla
yfirbyggingu í fyrirtækinu á meðan við erum enn að
byggja það upp. Í upphafi settum við okkur það
markmið að ná fram ákveðinni veltutölu, en reyndar
höfum við alltaf farið fram úr okkar áætlunum. Á
þeim fjórum árum sem fyrirtækið hefur starfað hefur
veltan tífaldast. Það er því óneitanlega mikill vöxtur
í fyrirtækinu og kannski verður einhvern tímann
svigrúm til þess að ráða annan mann á skrifstofu!“
Gunnlaugur segist ekki geta annað en verið sáttur
við uppbyggingu og gang GPG til þessa. „Markmið-
ið hefur verið frá upphafi að fyrirtækið sé fyrir ofan
núllið en ekki fyrir neðan það og það hefur tekist. Við
fórum upphaflega af stað til þess að skapa ný störf á
Húsavík og það hefur líka gengið eftir. Við höfum
vel þjálfað starfsfólk sem að hluta hefur verið hér hjá
okkur frá byrjun og það býr því yfir mikilli verk-
kunnáttu,“ sagði Gunnlaugur.
Almennt má segja um rekstur GPG að þar er gætt
hagkvæmni og engin óþarfa áhætta tekin. Gunnlaug-
ur segir ekkert launungarmál að menn hafi ógjarnan
viljað fara í fjárfestingar nema að eiga fyrir þeim á
heftinu. „Við höfum leitast við að halda öllum kostn-
aði í rekstri fyrirtækisins niðri eins og mögulegt er.
Félagið er óverulega skuldsett og því kom gengissig-
ið fyrr á árinu hverfandi lítið við okkur nema til
hækkunar á afurðaverði. Ég tel að staða fyrirtækisins
sé sterk og ef okkur tekst að halda rétt á spilunum á
næstu misserum er ég viss um að við eigum ýmis
sóknarfæri,“ sagði Gunnlaugur K. Hreinsson.
Tveir öflugir í salt-
fiskvinnslunni;
Nikola Nikic (t.v.) og
Grétar Björnsson.
Viðtal og
ljósmyndir:
Óskar
Halldórsson