Ægir

Árgangur

Ægir - 01.09.2009, Blaðsíða 6

Ægir - 01.09.2009, Blaðsíða 6
6 R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L Hafi Íslendingar staðið frammi fyrir stóru verkefni sem þjóð á undanförnum árum og áratugum, ef ekki árhundruðum, þá er það nú. Og hafi Íslendingar þurft sem aldrei fyrr á sjávarútvegi að halda - þá er það nú. Sjávarútvegurinn er jú ein af allra mik- ilvægustu auðlindum sem við eigum og höfum í að sækja þeg- ar á þarf að halda. Og þá skiptir öllu máli að greinin skili sem mestum og bestum arði í þjóðarbúið til að halda uppi atvinnu- stigi og knýja þau hjól sem þurfa að bera drekkhlaðinn ríkis- sjóð af skuldum. Það er svo allt annar handleggur hvernig þær byrðar allar eru til komnar. Óvissa er það sem einkennt hefur umræðu hér á landi um margra mánaða skeið og þarf ekki sálfræðimenntað fólk til að sjá að slík einhliða umræða dregur smám saman mátt úr fólki, hefur áhrif á frumkvöðlakraftinn og driftina sem einkennt hefur þjóðina alla tíð. Venjulegum Íslendingum gengur illa að fóta sig í þessari umræðu; hvers vegna varð hrunið, hvers vegna hrynja lán yfir okkur í þeim mæli sem raun ber vitni, stöndum við undir öllum þeim skuldbindingum sem við höfum tekist á herðar. Þannig spyr fólk sig út um allt þjóðfélag og við spurn- ingunum er ekki til eitt svar. Svipaðar spurningar mætti yfirfæra á sjávarútvegsumræð- una í heild sinni. Sjávarútvegurinn er í eðli sínu grein sem byggir á óvissu um fiskistofna, tíðarfar, markaði og þannig mætti áfram telja. Þessu til viðbótar koma svo óvissuþættirnir sem eru í mannlegu valdi. Stjórnmálamennirnir með sín stefnu- mál í sjávarútvegsmálum, ákvarðanir í efnahagsmálum sem nær undantekningalaust snerta greinina verulega. Verulega finnst fyrir því í sjávarútveginum nú um stundir að óvissa er uppi. Óvissan um hina margumtöluðu fyrningarleið – innköllun aflaheimilda sem margir kalla. Þetta er dæmigerð óvissa um stefnumál stjórnmálamanna. Strax og ljóst var að fyrningarleið væri í stefnupakka ríkisstjórnarflokkanna hefur verið greinilegt að óvissan hefur haldið aftur af mörgum fyrir- tækjum í fjárfestingum og framtíðaruppbyggingu. Sem er skað- legt þar sem fjárfestingar eru nauðsynlegur drifkraftur í endur- reisn atvinnulífsins. Öllu skiptir að sú nefnd sem nú er að störf- um og ræðir fyrningarleiðina svokölluðu komist að niðurstöðu sem fyrst þannig að umræða um þetta mikilvæga mál verðið útkljáð. Fyrningaleiðin og Icesave-umræðan eiga það sam- merkt að geta valdið skaða eftir því sem lengra líður án niður- stöðu. Það er engu að síður bráðnauðsynlegt að full umræða verði tekin um fyrningarleiðina og allir fletir hennar fái kast- ljós. Ekki þarf að undra að fyrningarleiðin kom fyrir á nýliðnum aðalfundum þriggja stórra samtaka í sjávarútvegi; Landssam- bands útvegsmanna, Landssambands smábátaeigenda og Samtaka fiskvinnslustöðva. Einna helst er það óvenjulegt að þessi samtök séu jafn samhljóma um mál og raun ber vitni hvað fyrningarleiðina varðar. En sú staðreynd undirstrikar öðru fremur hversu miklu það skiptir að vita eftir hvaða leikreglum á að spila inn í framtíðina. Ef leikkerfið er ekki klárt þá eru litl- ar sem engar líkur á að leikurinn vinnist. Óvissan er verst Ómakleg gagnrýni á Hafrannsóknastofnunina Varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, Ólína Þorvarðardóttir, ritaði grein í Morgunblaðið þann 29. október sl. Þar tínir hún til allt sem hún finnur til að gera lítið úr vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar og sleppir öllu því sem gæti talist þeim til tekna. Þetta er ómerkilegt lýðskrum enda veit hún að fréttir um að hafið sé fullt af fiski falla í frjó- an jarðveg hjá sjómönnum. Ef þingmaðurinn hefði haft fyrir því að koma við á Hafró hefðu starfsmenn getað leiðrétt mik- ið af rangfærslum í grein hennar. En þingmaður sem veit allt, kann allt og getur allt þarf auðvitað engin heilræði. ... Hafrannsóknastofnunin er ekki hafin yfir gagnrýni stjórnmála- manna, en gagnrýnin þarf að vera á málefnalegum og vís- indalegum grunni. Ósanngjarnt er að horfa framhjá því sem vel hefur tekist og blasir við þeim sem lesa skýrslur Hafró um ástand og horfur hinna ýmsu stofna. Viljum Íslendingar taka slíka áhættu í stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar? Hvort vilja menn byggja ákvarðanir í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar á vísindum eða fiskisögum? (Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur í grein á fréttavefnum www.bb.is) Fiskveiðistjórnunarmál - vandasamt verk Meðal þess sem reynslan kennir okkur þegar við ræðum fisk- veiðistjórnarmál, er að fara fram með aðgát. Þess hefur ekki alltaf verið gætt og því miður eru of mörg dæmi um að afleið- ingarnar af tilteknum ákvörðunum á þessu sviði hafa komið mönnum á óvart. Þetta ættum við að hafa í huga þegar rætt er um að endurskoða fiskveiðistjórnarmálin. Ekki af því að þau þurfi ekki endurskoðunar við. Heldur vegna þess að mikið er í húfi að vel takist til. Það sem virð- ist einfalt og viðblasandi, hefur vanalega á sér fleiri hliðar, þegar betur er að gáð. 25 ára reynsla af aflamarkskerfi getur að minnsta kosti fært okkur heim sanninn um þetta. Þó svo að allir viti að um fiskveiðistjórnarmálin sé mikill ágreiningur; jafnt um markmið og leiðir og brýnt sé því að vilji sé til stað- ar að betrumbæta lagaverkið. Tökum einfalt dæmi sem skýrir þetta mál kannski eilítið. Mesti ásteytingssteinninn í lögum um stjórn fiskveiða er örugglega spurningin um frjálsa framsalið. Í þeirri mynd sem við þekkkjum, kom það inn í lögin árið 1990, undir forystu þáverandi ríkisstjórnar sem að stóðu Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag. Talsmenn þessa fyrir- komulags telja það forsendu hagræðingar og að menn geti lækkað kostnað og nýtt takmarkað aflamagn á sem skyn- samlegastan máta er leiði til sem mestrar verðmætasköpun- ar. Andstæðingar þess telja það hins vegar vera rót óréttlæt- isins, sem sé vont fyrir sjómenn og skapi óöryggi í byggðum landsins. (Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður, í grein á heimasíðu sinni, www.egk.is) U M M Æ L I

x

Ægir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ægir
https://timarit.is/publication/584

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.