Morgunblaðið - 20.03.2015, Blaðsíða 30
30 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 20. MARS 2015
✝ BjarnfríðurLeósdóttir var
fædd á Másstöðum í
Innri-Akranes-
hreppi 6. ágúst
1924. Hún lést á
Heilbrigðisstofnun
Vesturlands á
Akranesi 10. mars
2015.
Foreldrar henn-
ar voru Leó Eyj-
ólfsson bifreiðar-
stjóri, og Málfríður Bjarnadóttir
húsmóðir. Bræður Bjarnfríðar
voru Ragnar og Jón Leóssynir.
Eftirlifandi systir hennar er
Hallbera Guðný.
1947 giftist Bjarnfríður Jó-
hannesi Finnssyni frá Önundar-
firði, f. 26. júní 1917, d. 15. febr-
úar 1974. Foreldrar hans voru
Steinunn Jóhannesdóttir og
Finnur Torfi Guðmundsson. Jó-
hannes lauk prófi frá Samvinnu-
skólanum í Reykjavík 1938 og
starfaði lengst sem skrifstofu-
maður á Akranesi en stundaði
einnig sjó. Bjarnfríður og Jó-
hannes eignuðust saman fjögur
börn: 1) Steinunn, f. 24.5. 1948,
maki Einar Karl Haraldsson.
Dætur þeirra: a) Arna Kristín, f.
6.8. 1968, maki Hilmar Þ. Hilm-
arsson. Synir þeirra: Hilmar
Starri og Styrmir Örn. Dóttir
Örnu úr fyrri sambúð er Stein-
sögumaður á Vesturlandi. Á
yngri árum vann hún við síldar-
söltun og verslunarstörf, var
virk í menningarlífi Akraness,
lék um árabil með leikfélaginu
og sat í stjórn þess, tók þátt í
stofnun bókmenntaklúbbs sem
enn lifir og var lengi umboðs-
maður Máls og menningar. Hún
var í stjórn og trúnaðarráði
Verkalýðsfélags Akraness,
varaformaður um árabil, átti
sæti í miðstjórn Alþýðu-
sambands Íslands. Hún var
varafulltrúi Alþýðubandalags-
ins í bæjarstjórn Akraness í
nokkur kjörtímabil og sat 12 ár í
félagsmálaráði. Hún var vara-
þingmaður Alþýðubandalagsins
í Vesturlandskjördæmi og tók
nokkrum sinnum sæti á Alþingi
á áttunda áratugnum. Hún átti
sæti í miðstjórn og fram-
kvæmdastjórn Alþýðubanda-
lagsins og starfaði með Sam-
tökum kvenna á vinnumarkaði.
Hún var í stjórn Félags eldri
borgara á Akranesi um 13 ára
skeið, þar af formaður í níu ár.
Bjarnfríður og Jóhannes reistu
sér hús við Stillholt 13 og þar
bjó hún þar til fyrir einu ári að
hún flutti á Dvalarheimilið
Höfða. Bjarnfríður var gerð
heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi
Akraness 1994. Hún hlaut við-
urkenningu Jafnréttisráðs árið
2000 og var sæmd riddarakrossi
hinnar íslensku fálkaorðu á nýj-
ársdag 2002.
Útför Bjarnfríðar verður
gerð frá Akraneskirkju í dag,
20. mars 2015, og hefst athöfnin
kl. 13.
unn Halla Geirs-
dóttir. b) Vera, f.
11.8. 1980, maki
Kristján Hjálmars-
son, sonur þeirra er
Einar Steinn, dóttir
Kristjáns er Þór-
hildur. c) Gró, f.
12.4. 1988, sam-
býlismaður Robin
Hasselberg. 2) Eyj-
ólfur, f. 11.3. 1950,
d. 12.3. 1950. 3)
Leó, f. 23.9. 1951, maki Sólveig
Reynisdóttir. Börn þeirra: a)
Reynir, f. 20.8. 1979, maki Katr-
ín Rós Baldursdóttir. Synir
þeirra: Leó Ernir og Maron
Birnir. b) Bjarnfríður, f. 2.6.
1985, maki Mikael Marinó Riv-
era, dóttir þeirra: Karmen Sól-
veig. 4) Hallbera, f. 28.9. 1956,
maki Gísli Gíslason. Þeirra
börn: a) Jóhannes, f. 14.2. 1982,
sambýliskona Kristín Ragn-
arsdóttir, dóttir þeirra: Ólafía.
b) Þorsteinn, f. 12.6. 1984, maki
Svala Ýr Smáradóttir, synir
þeirra: Gísli Freyr og Theodór
Smári. c) Hallbera Guðný, f.
14.9. 1986.
Bjarnfríður lauk verslunar-
prófi frá Samvinnuskólanum
1943 og var einn vetur í Hús-
mæðraskólanum í Reykjavík.
Hún hlaut kennsluréttindi frá
KHÍ 1982 og sem svæðisleið-
Í dag kveð ég með söknuði
tengdamóður mína, Bjarnfríði
Leósdóttur, en minnist í þakklæti
þess kærleika og heiðarleika sem
hún gaf svo ríkulega af sér. Það
er ekki vandalaust að velja
Bjarnfríði þá lýsingu sem hæfir
svo stórbrotinni og merkilegri
konu sem hún var. Rætur hennar
lágu djúpt í stétt íslenskrar al-
þýðu, þar sem lífsbaráttan var og
er hörð, en atgervi hennar, góðar
gáfur, áræðni og sterk réttlætis-
kennd leystu úr læðingi þá sann-
færingu og kraft sem gerðu hana
að þeirri baráttukonu sem hún er
hvað best þekkt fyrir. Þegar sam-
an fara þeir eðlisþættir sem
Bjarnfríður hafði til að bera, þá
var einsýnt að mál komust á
hreyfingu og þess nutu konur í
Verkalýðsfélagi Akraness um
langa hríð. Þess nutu einnig sam-
herjar hennar í því fjölbreytta fé-
lagsstarfi sem hún lagði til krafta
sína. Þar sem hallaði á beitti hún
sér af einurð og afli svo sanngirni
og réttlæti mættu hafa fram-
gang, en aldrei vék hún fyrir fylk-
ingu fornra viðhorfa og þröng-
sýni. Frelsi, jafnrétti og
bræðralag voru einkunnarorð
hennar og lífsgildi sem fæddust
og mótuðust í uppeldi hennar og
lífshlaupi.
Landi sínu unni Bjarnfríður og
ferðaðist víða. Hún var óþreyt-
andi að lýsa undrum íslenskrar
náttúru og frásagnir hennar voru
þeim sem á hlýddu sem raun-
verulegt ferðalag um landið þar
sem sögunni var fléttað í frásögn-
ina af einstakri list. Hún Bjarn-
fríður var fjölfróð kona, sem
hafði yndi af því að miðla þekk-
ingu sinni og reynslu til sam-
ferðafólks og ekki síst til nánustu
fjölskyldu sinnar og barnabarna,
sem öll tengdust henni einstak-
lega sterkum og hlýjum böndum.
Á lífshlaup hennar allt skín sá
heiður og sómi, sem fyllir okkur í
fjölskyldunni stolti, gleði og
þakklæti. Þótt heilsunni hrakaði
síðustu daga ævinnar var enn
glampi í augum og hugurinn
skarpur, en síðasta samtal okkar
var um mikilvægi þess að kenna
börnunum að lesa. „Það verður
að kenna börnunum að lesa og
kenna þeim að skilja það sem þau
lesa“ sagði Bjarnfríður við mig
þegar skammt var til leiðarloka.
Og þar talaði hún af reynslu, kon-
an sem ekki aðeins var víðlesnari
en gengur og gerist, heldur kunni
þá list öðrum fremur að lesa upp
þannig að texti ljóða og sagna
varð ljóslifandi þeim er á hlýddu.
Það er einstök gæfa að hafa notið
áratuga samfylgdar við þessa
einstöku manneskju því að mann-
gæska hennar, tær sýn á hið góða
og réttláta var svo áreynslulaus
og sjálfsögð. Þannig hafa áhrif og
lífsviðhorf Bjarnfríðar reynst
mér öruggur og óskeikull leiðar-
vísir í dagsins önn og með sama
hætti njóta börn hennar og niðj-
ar. Hún var sú fyrirmynd sem
bregður birtu á lífið í gleði og
sorg.
Við leiðarlok og að kvöldi
langrar ævi kveð ég hana Bjarn-
fríði með söknuði en um leið
þakklæti fyrir alla þá gleði, visku
og hlýju sem hún gaf af sér þá
daga sem við vorum samferða. Sú
hreina og góða sál þessarar
merkilegu konu er nú farin í
ferðalagið langa, en við sem nut-
um ævidaga með henni búum að
minningunum og gleðinni sem
þeim fylgja. Megi heiður og sómi
ætíð umvefja minninguna um
Bjarnfríði Leósdóttur og hún
hvíla í friði.
Gísli Gíslason.
Tengdamóðir mín var dáfögur
ung kona, glæsileg á miðjum
aldri og virðuleg ættmóðir á gam-
als aldri. Hún var bráðlynd og
geðrík, hataði hálfvelgju, hrein
og bein, lífsglöð og áköf í baráttu.
Hún lét frekar koma sér úr störf-
um en gefa eftir.
Bjarnfríður var alþýðukona að
ætt og upplagi, íhaldsöm á þjóð-
leg gildi, áhugasöm um andleg
málefni, ákafur lýðveldis- og
sjálfstæðissinni, andstæðingur
erlendra herstöðva, unnandi
náttúrunnar og íslenskra ætt-
jarðarljóða, umboðsmaður Máls
og menningar og mesti bókaorm-
ur sem ég hef kynnst. Á sínum
tíma lék hún stórar rullur með
leikfélaginu og það átti örugglega
sinn þátt í að hún bar sig ævin-
lega eins og hefðarkona og var
hrífandi í málflutningi.
Hún var leidd inn í pólitík og
verkalýðsforystu en ýtt út aftur,
lítilmannlega. Hún passaði ekki
inn í stóru myndina, hinar hönn-
uðu atburðarásir og tæpu meiri-
hluta þar sem ekki mátti rugga
bátnum, eins og rakið er í Lífs-
sögu hennar frá 1986. Samstarf
hennar og Herdísar Ólafsdóttur í
Kvennadeild Verkalýðsfélagsins
var landsfrægt. Nágranni þeirra
kallaði þær kommu og semí-
kommu. „Kommurnar“ voru sér-
fræðingar í að „gera hvell“ eins
og Valla vinkona þeirra sagði,
oftast án þess að ætla sér það
beinlínis. Þær gerðu sína eigin
útreikninga og börðust svo fyrir
því sem þeim þótti vera réttur
sinna kvenna.
Bjarnfríður átti kosta völ. Hún
gekk í Samvinnuskólann og hafði
hafið nám í Kennaraskólanum
þegar losnaði pláss í Húsmæðra-
skólanum. „Já, þið getið orðið
kaupfélagsstjórafrúr“, sagði Jón-
as Jónsson. Þannig voru tímarnir
og Bjarnfríður svaraði kalli
þeirra um að verða húsfrú á
Akranesi. Eftir fráfall eigin-
manns síns aflaði hún sér starfs-
réttinda sem kennari og síðar
sem svæðisleiðsögumaður á
Vesturlandi. Dæmigert fyrir
hana var að í vélritun lét hún
nemendur rita upp Stjórnarskrá
íslenska lýðveldisins og helstu at-
riði úr sifjarétti. „Það geri ég til
þess að þið vitið ykkar rétt, stúlk-
ur“, sagði hún. Og auðvitað var
Bjarnfríður eldsál í félagsmálum
bæjarins og brautryðjandi í starfi
eldri borgara þegar þar að kom.
Hún var Skagakona af lífi og sál.
Mér var hún hin besta tengda-
móðir og vinátta okkar varð djúp
og einlæg. Hún leit á lífsbarátt-
una eins og Jakobsglímu. Enginn
ætti að sleppa sínum Guði án þess
að krefja hann um blessun hvern-
ig sem ástatt er. Hennar líf var í
fullu samræmi við þessa afstöðu
og hún kvaddi í gleði yfir framtíð-
ardraumum afkomenda sinna.
Einar Karl Haraldsson.
Það var 17. júní 1976 sem ég
hitti Bjarnfríði tengdamóður
mína í fyrsta sinn en veturinn á
undan höfðum við Leó sonur
hennar orðið par, þá búsett í Sví-
þjóð sem námsmenn. Ekki man
ég eftir hefðbundnum hátíða-
höldum þennan dag, þau hljóta
þó að hafa verið. Hitt er mér í
fersku minni að eftir snemmbú-
inn morgunverð var ekið sem leið
lá frá Akranesi inn í Grundar-
tanga en þar var saman kominn
hópur fólks sem vildi á táknræn-
an hátt mótmæla fyrirhugaðri
stóriðju með því að sá grasfræj-
um í landið þar sem stórtækar
vélar höfðu farið um. Undir
stjórn Jónasar Árnasonar þing-
manns voru baráttusöngvar
sungnir og ræður fluttar.
Þetta var upphafið að langri og
góðri vegferð sem við Bjarnfríð-
ur áttum saman bæði sem nánir
vinir, samstarfskonur og umfram
allt meðlimir sömu fjölskyldu þar
sem hún var allt um vefjandi ætt-
móðir. Bjarnfríður var sambland
af róttæklingi, jafnréttissinna,
náttúruverndarsinna, fagurkera
og íhaldsmanni, allt eftir því hvað
átti við hverju sinni. Í stjórnmál-
um og verkalýðsmálum gustaði
vissulega um hana þegar hún
þurfti að kljást við „karlana“og
stundum var sem ástríðan fyrir
góðu málefni gæti borið hana of-
urliði. Samt minnist ég hennar
skýrar sem yfirvegaðrar og stað-
fastrar kjarnakonu þegar kom að
félagsmálum. Við unnum náið
saman í fjögur ár, hún sem
fulltrúi í félagsmálaráði og ég
sem félagsmálastjóri á Akranesi.
Um líkt leyti var hún kosin í
stjórn Félags eldri borgara á
Akranesi. Í þrettán ár áttum við
farsælt samstarf um málefni
aldraðra en Bjarnfríður varð öt-
ull talsmaður þeirra. Hún tók auk
þess þátt í að stofna kór eldri
borgara og var þátttakandi í kór-
starfinu allt til loka. Það fer þess
vegna vel á því að félagar hennar
í kórnum munu heiðra minningu
hennar með söng þegar hún verð-
ur kvödd hinstu kveðju í Akra-
neskirkju í dag.
Bjarnfríður var hlý og kær-
leiksrík amma sem lét sig miklu
varða velferð barnabarnanna. Og
metnaðargjörn og kappsöm gat
hún orðið fyrir þeirra hönd og að
prófum loknum vildi hún helst fá
að heyra háar einkunnir nefndar,
sem þær vissulega voru stundum
en ekki nærri alltaf. Og eftir
knattspyrnuleiki sem sonur okk-
ar var þátttakandi í spurði hún
gjarnan: skoraðir þú ekki mark,
sem var viðkvæm spurning þar
sem drengurinn gerði fá ef nokk-
ur í efstu deild, enda varnarmað-
ur fyrst og fremst. En þó að hún
sjálf hafi verið í pólitík þá minnist
ég þess ekki að hún hafi ætlast til
þess að sonardóttirin fetaði sömu
leið. Engu að síður bað hún
ömmustelpurnar sínar, Bjarn-
fríði og Hallberu Guðnýju, um að
þær gengju í Samfylkinguna. Þá
fyrst og fremst til að geta stutt
Ingibjörgu Sólrúnu til formanns,
það væri bráðnauðsynlegt að fá
konu í forystu. Ég minnist Bjarn-
fríðar með þakklæti fyrir það hve
vel hún reyndist börnum mínum
og barnabörnum. Hún verður
þeim kærleiksrík amma alla tíð.
Í upphafi ætlaði ég ekki að búa
á Akranesi nema í fáein ár. Þau
eru nú reyndar orðin tæplega
þrjátíu. En það hve vel mér hefur
liðið hér á ég ekki hvað síst
tengdamóður minni að þakka.
Blessuð sé minning hennar.
Sólveig Reynisdóttir.
„Ungt fólk hefur enga afsökun
fyrir því að þekkja ekki hetjurnar
sínar,“ sagði eitt sinn ameríski
djassistinn og baráttukonan Nína
Simone. Þessi tilvitnun í hana
skaust upp í huga mér þegar ég
heyrði um andlát ömmu minnar.
Ég fann fyrir sterkri þörf til að
tala um ömmu mína. Mig langaði
til þess að segja eins mörgum og
ég gat frá eins miklu og ég gæti.
Amma mín var nefnilega svo mik-
il hetja.
Það er reyndar fullt af fólki
sem veit hver amma mín var, án
þess að ég þurfi að segja því frá
henni og margir geta gert henni
betri skil en ég. Hún hefur hitt og
snert svo marga á sinni löngu og
áhrifaríku ævi. Ég man t.d. eftir
því að hafa viljað senda ömmu
póstkort frá útlöndum, en varð að
sleppa því af því ég mundi ekki
allt heimilisfangið. Þegar ég
sagði frændfólki mínu frá þessu
hló það glatt og sagði: Þú hefðir
bara getað skrifað Amma Bía,
Akranesi og póstkortið hefði
komist til skila. Það vissu nefni-
lega allir á Skaganum hver Bía
var.
En þegar komið er út fyrir
Akranes og landsteinana er það
allt í einu ekki jafn sjálfsagt að
vita hver konan á Stillholtinu var.
Konan sem barðist svo ötullega
fyrir réttindum kvenna og verka-
lýðsins. Hún sem fór sem sendi-
fulltrúi til Rússlands þegar karl-
arnir þorðu því ekki (að hennar
sögn)! Hún sem lét nemendur
sína í ritvinnslu skrifa upp stjórn-
arskrána og sifjaréttinn í staðinn
fyrir asdf-æfingar. Það var ekki
síst fyrir stúlkurnar, sagði hún.
Og hún sem á sama tíma var ætt-
móðirin og hélt utan um alla fjöl-
skylduna.
Mig langar til þess að tala um
ömmu mína við ættingja og vini.
Skiptast á sögum við þá sem
þekktu hana svo minning hennar
haldist lifandi. Mig langar líka til
þess að segja fólki sem aldrei hef-
ur hitt hana frá því hvað hún var
merkileg. Hvað hún hafði sterka
réttlætiskennd, hvað henni þótti
vænt um landið sitt, hvað hún var
áhugasöm um lífið, hvað hún var
góð. Mig langar til þess að við töl-
um meira um þær konur sem
hafa gert það að verkum að ég og
aðrar ungar konur getum lifað
eins og við gerum í dag. En mest
langar mig til að tala við sjálfa
mig um ömmu. Mig langar aftur
og aftur að minna mig á hverra
manna ég er. Ég vil vera ömmu
minni til sóma með því að berjast
fyrir því sem er satt og rétt. Ég
vil að fólk sjái það í mér hvað ég
átti flotta ömmu.
Gró Einarsdóttir.
„Ég átti einkar góða ævi sem
barn,“ sagði amma mín Bjarn-
fríður Leósdóttir í ævisögu sinni
Í sannleika sagt sem kom út árið
1986. Það hefur án efa haft mót-
andi áhrif á hana og hafa allir
hennar afkomendur notið góðs af
því. Ég á mínar bestu æskuminn-
ingar með ömmu og frændsystk-
inum mínum á Akranesi. Ég bjó í
Reykjavík en fékk oft að fara
með Akraborginni að heimsækja
ömmu. Ég fór líka ósjaldan með
pabba, mömmu og systrum mín-
um. Við komuna á Stillholtið tók
amma ávallt á móti okkur með
geislandi bros og útbreiddan
faðm og sagði: „Komiði fagn-
andi.“
Á yngri árum fékk ég oft að
gista hjá ömmu með frændsystk-
inum mínum. Amma gaf okkur
gjarnan heimagerðar fiskibollur í
bleikri og nammi í skál. Hún setti
alltaf ilmandi hreint á rúmin og
dúnsængurnar voru svo léttar og
púffaðar að í minningunni fann
ég varla fyrir þeim. Við fengum
svo að hjúfra okkur upp að ömmu
í hjónarúminu og hún las fyrir
okkur þjóðsögur af alkunnri
snilld. Hún las með tilþrifum og
lifði sig alveg jafn mikið inn í sög-
urnar og við.
Órjúfanlegur hluti af heim-
sóknum til ömmu var að fara í
göngutúr niður á Langasand. Við
frændsystkinin fengum suðu-
súkkulaði og rúsínur í poka og
svo fór hún með okkur í parís. Við
tíndum líka kuðunga og skeljar
og lékum okkur við öldurnar og
var amma ekkert minna ærslafull
en við. Hún þekkti hverja þúfu og
vakti athygli okkar á stóru sem
smáu í umhverfinu. Þetta voru
áhyggjulausar stundir. Tíminn
stóð í stað og hjá ömmu vorum
við örugg.
Seinna heimsótti ég ömmu
með eigin fjölskyldu og er ósegj-
anlega þakklát fyrir að eiginmað-
ur minn og börn hafi fengið að
kynnast ömmu Bíu því hún skip-
ar svo stóran sess í lífi mínu og ég
á henni svo margt að þakka. Hún
hefur líka gefið fjölskyldu minni
dýrmætar minningar og vega-
nesti.
Amma var svo lifandi og
skemmtileg og það var alltaf jafn
gaman að heimsækja hana – allt
fram í andlátið. Hún var húmor-
isti og lá ekki á skoðunum sínum,
eins og nafnið á fyrrnefndri ævi-
sögu hennar gefur til kynna. Á
okkar síðasta fundi var hún eins
og hún var vön; geislandi glöð að
sjá afkomendur sína en henti
jafnframt gaman að hinu og
þessu. Hún hrósaði viðstöddum í
hástert fyrir útlit og ýmis afrek
en gat jafnframt ekki stillt sig um
að hafa orð á því ef einhver var of
mjór eða fölur. Þannig var amma.
Hún var líka verkalýðsfrömuð-
ur, baráttukona og félagsmála-
tröll. Fyrir mér var hún þó fyrst
og fremst amma sem dáði fólkið
sitt og lagði sitt af mörkum til að
gera líf þess sem best. Lengi býr
að fyrstu gerð og það átti svo
sannarleg við í tilfelli ömmu.
Ég mun ávallt líkt og hingað til
líta upp til ömmu.
Hvíl í friði elsku amma mín.
Vera Einarsdóttir.
Það er svo margt sem fer um
huga minn þegar ég hugsa til
ömmu. Nýverið las ég aftur bók-
ina um hana, þar sem hún segir
frá lífshlaupi sínu á Akranesi. Þá
fann ég enn og aftur hvað ég er
stolt af því að vera afkomandi
hennar og skírð í höfuðið á henni.
Þó að ég viti að henni hafi innst
inni þótt vænt um að ég fengi að
bera nafnið hennar þá var samt
eins og hún hafi hin síðari ár haft
af því áhyggjur að það gæti ein-
hvers staðar valdið mér vand-
ræðum. Smám saman lærðist
mér að svara alltaf á sömu lund
þegar hún spurði: Ég nýt nafns
hvar sem ég kem, amma mín. En
þrátt fyrir að vera þessi mikla
baráttukona, bæði þegar kom að
kvenréttindum og verkalýðsmál-
um, þá var hún samt alltaf fyrst
og fremst í mínum huga blíð og
kærleiksrík amma. Þegar ég var
lítil var ósjaldan sem hún gaf mér
bangsate og spjallaði við mig um
lífið og tilveruna í stofunni sinni á
Stillholtinu. Eftir svoleiðis spjall
leið mér alltaf svo vel. Ef ég
meiddi mig eða var leið vegna
einhvers var alltaf sama viðkvæð-
ið hjá henni: Gráttu bara, Bjarn-
fríður mín. Og svo ruggaði hún
mér og strauk mér um vangann.
Hún var líka fyrirmyndarhús-
móðir, gerði þann allra besta
grjónagraut sem til var, að
ógleymdum fiskibollunum. Þegar
ég sjálf var farin að elda áskotn-
aðist mér eitt sinn þetta fína
þorskflak sem ég vissi ekki
hvernig best væri að matreiða.
Mamma og pabbi stungu upp á
því að ég færi með það til ömmu.
Það var skemmtilegur dagur:
amma hakkaði og blandaði og
mótaði og ég fylgdist með og
skráði niður eftir kúnstarinnar
reglum. Nú eru gómsætu fiski-
bollurnar hennar ömmu efstar á
óskalistanum á mínu heimili.
Amma las líka mikið fyrir okkur
börnin. Hún las skýrt og
áreynslulaust þannig að allt varð
svo lifandi. Og síðar meir þegar
hún las fyrir barnabarnabörnin
sín þá var allt við það sama, lif-
andi og skemmtilegt. Eins var
með leikina. Margir vita hvað
barnaleikir eru erfiðir fyrir full-
orðna. Eftir tíu mínútur í bogri
og þeytingi er maður búinn á því.
Á nítugasta og fyrsta ári lék hún
sér í góðan klukkutíma við fjögra
ára dóttur mína án þess að blása
úr nös. Hvaðan fékk hún kraft-
inn? Henni fannst gaman, í því
fólst galdurinn allt hennar líf. Og
þegar gamanið er samofið kær-
leikanum þá er allt hægt. Litla
dóttir mín kunni vel að meta og
klappaði þess vegna gleymmér-
eyjar í tugatali á peysu lang-
ömmu sinnar í sumar sem leið.
Því miður varð ég ekki vitni af
síðasta fundi ömmu með Karmen,
Leó og Maroni. Þá var hún, eftir
á að hyggja, lögst banaleguna og
ekki til stórræðanna. Afi þeirra
var með þeim í sjúkraheimsókn-
inni en þurfti að skreppa augna-
blik frá. Þegar hann kom til baka
sat amma uppi í rúmi sínu að lesa
fyrir þau kvæðið Gunnarshólma,
en hún og pabbi höfðu einsett sér
að rifja það upp, og þau ættu að
læra það líka því það væri svo fal-
legt. Svo sofnaði hún og var önd-
uð að tveim dögum liðnum.
Elsku amma, minningin um
þig mun alltaf vera hjá mér.
Bjarnfríður Leósdóttir.
Bjarnfríður
Leósdóttir
Fleiri minningargreinar
um Bjarnfríði Leósdótt-
ur bíða birtingar og munu
birtast í blaðinu næstu daga.