Húnavaka - 01.05.1979, Qupperneq 71
HÚNAVAKA
69
fólk í þessum húsum. Reyndar er ekki svo langt síðan Hvammur fór í
eyði, aðeins brot úr mannsaldri, en veður og vindar eru fljótir að
feyskja viði og fægja burtu ummerki mannabyggðar og víst er um það
að eftir nokkur ár verða veggjahleðslur í Hvammi aðeins grónar taett-
ur, að líkum nokkru grænni en þýfið í kring og ef til vill sést þar fífill á
vori, sem enn heldur að hann vaxi undir vegg.
Við hoppum yfir bæjarlækinn í Hvammi og út í mýrina norðan
túnsins, finnum fljótlega götuslóða sem fætur manna og búfjár hafa
troöið þarna á milli bæja og fylgjum honum þar til komið er í hlað-
varpann á eyðibýlinu Mörk. Þessi bær hefur eins og Hvammur staðið
efst í túni, stuttu neðar en miklar urðarbungur, sem að líkindum eru til
orðnar við hrun úr fjallinu sem ber við himin upp af bænum. Ekki
vannst tími til að kanna þetta framhlaup, en hins vegar teknar myndir
af gömlum beðasiéttum, rétt norðan bæjarrústa og af kúnum frá
Gautsdal, sem þarna voru á beit við tóftarbrotin. Ekki er heldur
ýkjalangt síðan búið var á þessum bæ og til minningar um innreið
nútíma bútækni i þennan afdal eru leifar af hestasláttuvél og rakstr-
arvél sem dagað hafa uppi niður á miðju túni eins og hætt hafi verið í
miðjum flekk í samantekt undan rigningu; kannski sofa hér allir i
þúsund ár og bíða eftir prinsi, sem vekur allt með kossi. Kannski
verður það, í takt við nýja tíma, ekki gamalt ævintýri sem rætist,
heldur nýmóðins saga með geimfara, sem kemur svífandi á diski af
öðrum stjörnum og spilar á sína takka í maskínaríinu og svo fer allt i
ganginn. Túnið í Mörk er allstórt og mikið slétt, greinilegt að hér hefur
enginn kotbúskapur verið á mælikvarða þess búskapar sem var í
dalnum, enda hafa bændur oft búið hér góðu búi. Má þar nefna Jón
harða Jónsson sem hér bjó á átjándu öld og í manntali 1703 ber jörðin
heitið Stóra-Mörk. En í túninu má samt sjá þau merki sem best skýra
hvers vegna hér er ekki lengur búið. Stórar hvítar skellur, dautt gras
um nokkurn hluta túnsins, lýsa betur en löng lesning hörðum vetri og
ótryggum heyskap í dalnum, en þessir kumpánar í sameiningu hafa
átt drýgstan þátt í því, þegar lífsgæðakapphlaup hófst í alvöru á
þessari öld, að þessi dalur, með fjölda býla fyrrum, er nú nánast í eyði.
En lengur verður ekki tafið hjá þessum rústum og þær kvaddar ásamt
kúnum frá Gautsdal, sem þó varla líta upp en háma í sig grængresið í
hlaðvarpanum og að húsabaki, þar sem jörð býr enn að þeirri rækt er
hún fékk þegar fólk gekk hér daglega um garða.
Götuslóðar eftir fé og hesta liggja skáhallt út og upp frá bænum,