Húnavaka - 01.05.1987, Blaðsíða 125
HUNAVAKA
123
Svínavatni. Engin aðstoð var þá veitt af almannafé til slíkra fram-
kvæmda. Ríkið eignaðist nýja húsið fyrir gamla bæinn. Um líkt leyti
lét séra Stefán einnig reisa nýja kirkju á Auðkúlu í stað hinnar gömlu.
Séra Stefán hafði lifandi áhuga á félagsmálum, enda var hann brátt
kosinn til trúnaðarstarfa í sveit sinni. Oddviti hreppsnefndar var hann
fyrst í Bólstaðarhlíðarhreppi og síðan í Svinavatnshreppi. Sýslu-
nefndarmaður Svínhreppinga var hann um 20 ára skeið og varaamt-
ráðsmaður í Norðuramtinu fyrir Húnavatnssýslu 1901-1907. Á Þing-
vallafundi 1888 mætti hann sem fulltrúi Húnvetninga. Hann hallað-
ist jafnan að gætilegri umbótastefnu í landsmálum, og eindreginn
kaupfélagsmaður var hann alla tíð. Á mannfundum var séra Stefán
óhlutdeilinn, en fylgdi fast fram þeim málum, er hann beitti sér fyrir,
og gat verið sáryrtur, ef honum þótti linlega brugðist við réttlætis- og
velferðarmálum. En flestum var hann fúsari að rétta fram hönd til
sátta, þótt i odda hefði skorist. Var hann því jafnan vel metinn og
vinsæll fundarmaður. Honum var líka einkar lagið að halda uppi
samræðum við gesti sína og á mannamótum.
f trúarboðun sinni var séra Stefán jafnan frjálslyndur og mildur, og
mun óhætt að fullyrða, að hann hafi að talsverðu leyti mótast af
trúfræði Magnúsar Eiríkssonar, föðurbróður síns. Séra Stefán mun
hafa orðið einna fyrstur íslenskra presta til að hafna eilífri útskúfun i
boðskap sinum. Hann minnti á það, að ekki væri nóg að segja „herra,
herra“, ef hugarfar og breytni fylgdi ekki með. Kærleikur og trú-
mennska væru hinar æðstu mannlegar dyggðir. Andi kristindómsins
væri jafnan æðri en bókstafurinn. — Margt sóknarbarna séra Stefáns
gerði sér ljóst, að hann batt sig ekki eins fast við bókstafinn og sumir
prestar aðrir, sem það hafði haft kynni af, en það var síður en svo, að
honum væri fundið það til foráttu. Hann var einróma álitinn góður
prestur, og var þar jöfnum höndum átt við mannkosti hans og em-
bætti. Hann skildi manna best hagi sóknarbarna sinna og vissi, hvers
mætti með sanngirni af þeim krefjast, t.d. með kirkjusókn í strjálbýli,
vegleysum og annríki. En einmitt þetta heilaga umburðarlyndi og
kristilega mildi gerði marga hinna fornu sveitapresta að sjálfkjörnum
aðalsmönnum meðal sóknarbarnanna og lagði þeim i munn „það mál,
sem endurhljómar í fólksins sál“, svo lánuð séu orð Einars Benedikts-
sonar.
Sýnishorn af ræðum séra Stefáns má sjá í Hugvekjum til húslestra á