Húnavaka - 01.05.1989, Blaðsíða 97
ANNA ÁRNADÓTTIR:
Bogga
Litla stúlkan kemur skondrandi niður stigann. Sólin skín inn um
gluggann í ganginum og býr til ferhyrnd munstur á hvítskúruðu
gólfinu. Hún frænka er nýbúin að skúra.
„Hvaða dagur er i dag, á að borða haus í dag?“ hrópar hún til
frænku sinnar, sem situr á stóru kistunni í eldhúsinu og spinnur á rokk.
Fjórir hertir þorskhausar liggja á borðinu, óbrigðult merki þess, að
það sé sunnudagur.
,Já, ljúfan mín, það er sunnudagur og komdu nú að borða.“
Það er brauð og smjör, súr sulta og lundabaggi á borðinu, ásamt
hafragraut og slátri, dæmigerður morgunmatur í sveit. En það sem
gerir sunnudagssvipinn eru þorskhausarnir, þetta ótrúlega ljúfmeti,
sem á svo mörg og leyndardómsfull nöfn: Búrfiskur, togfiskur, kinn-
fiskur og meyjarsvunta, og hvað þetta hét nú allt saman.
Hún frænka kann nöfnin á þessu öllu og hún kann líka að rífa
hausinn eftir kúnstarinnar reglum. Sko, nú leggur hún frá sér rokkinn
og tekur litlu stúlkuna í faðminn og setur hana upp á kistuna við hlið
sér. Síðan hefur hún þetta áhugaverða verk, að rífa þorskhausinn lið
fyrir lið og raðar bitum á disk litlu frænku sinnar. Síðan setur hún
örlitla smjörklípu á hvern munnbita og raðar í fallega röð hverjum
bitanum eftir annan. Ó, hvílík dýrð! Það ætti alltaf að vera sunnu-
dagur, því þá er frænka í góðu skapi og allt er svo gott.
Á eftir fara þær með fötu og skóflu í langa gönguferð, alla leið niður
að á.
„Til að sækja sand, til að skúra gólfið með,“ segir frænka, en litla
stúlkan veit, að það er ekki aðalerindið. Hún sá nefnilega í gær að það
var talsvert eftir í sandkassanum. Nei, ónei, hún frænka á önnur erindi
niður í hagann. Það er nýköstuð hryssa þar neðra og það er dýrðlegasta
sjón sem frænka getur hugsað sér, að skoða lítil folöld.
„Sko, ljúfan mín, hefurðu nokkurn tíma séð nokkuð svona fallegt?“