Húnavaka - 01.05.1997, Page 16
14
HÚNAVAKA
ég sætti mig við slíkt og svaraði ég að ég væri ekki í Dagsbrún. Svo fór að
Jafet hætti þarna og fór suður aftur. Þarna bragðaði ég íyrst soðkökur
sem voru hveitibollur er settar voru út í kjötsúpu, líka flatkökur er bakað-
ar voru ofan á hellu á eldavélinni. Mér leið ágætlega þrátt fyrir langan
vinnudag. Fólkið var gott og góður matur. Þarna er mjög fallegt og víður
sjóndeildarhringur. Sólin kom upp yfir Eyjafjallajökli og Vestmannaeyj-
ar blöstu við.
Sumardvöl í Skagafirði
Næsta sumar fór ég til Skagafjarðar. Þar er minn fæðingarstaður í Geld-
ingaholti en ég fór að Hjaltastöðum í Blönduhlíð til Stefáns Vagnssonar
bónda og hagyrðings. Þar var líka ánægjulegur tími og gott fólk. Dóttir
Stefáns og Helgu hét Ingibjörg og vorum við oft að bræða saman vísur
sem við svo bárum undir álit Stefáns. Ein var sú, er við ortum saman, sem
hann hrósaði mikið og sagði að okkur hefði tekist upp þar. En svo bar til
að við fórum á ball í Steinsstaðaskóla í Tungusveit. Maður varð okkur
samferða sem kallaður var „Gvendur knapi“. Atti hann marga hesta og
fékk sér stundum í staupinu. Bauð hann mér hestaskipti þá er við vor-
um komin yfir brúna á Héraðsvötnunum. Tók ég því, þar sem mér leist
vel á hestinn, en um leið og ég settist á bak tók hesturinn sprettinn og
réði ég ekkert við hann. Hvarf þá samferðafólkið og sást ekki góða stund.
Klárinn nam svo staðar við girðingu, langt frammi á melum, þar sem ég
fór af baki og þóttist heppin að hafa hangið á klárnum. Gvendur spurði
hvort hesturinn hefði stöðvast af sjálfsdáðum og sagði ég svo vera. „Ekki
er hann vanur því“, sagði Gvendur og fannst mér þá skynsamlegra að fá
minn hest aftur þótt ekki væri hann jafn viljugur. Eftir ballið týndist
Gvendur og sást síðast til hans nálægt Reykjafossi. Var farið að halda að
hann hefði endað sína ævi þar af því hann var víst æði drukkinn þegar
hann sást síðast. Erfiljóð hans, sem við Imba ortum og fengum lof fyrir
hjá Stefáni, var þessi vísa:
Dauðinn gnapir yfir oss,
ýmsum skapar trega.
Nú er knapi í feigðarfoss,
farinn hrapallega.
Stuttu síðar kom Gvendur í leitirnar, hafði hann riðið vestur í Svartár-
dal, að ég held, gist þar nokkrar nætur og sofíð úr sér vímuna.