Húnavaka - 01.05.1997, Blaðsíða 49
HUNAVAKA
47
Solveig hlaut nú að víkja úr ráðskonustöðu en var þó um kyrrt á Mikla-
bæ. Taldi hún sig ekki hafa vitað að fyrir dyrum stæði brúðkaup hús-
bónda síns fyrr en hann reið með brúði sína í garð á Miklabæ. Verður
það að teljast næsta ólíklegt en ef rétt er ber það vott um veiklyndi sr.
Odds. Tók Solveig nú fásinni mikið sem ágerðist er lengur leið. Voru
hafðar á henni gætur því sagnir eru um að hún hafí gert tilraunir til að
svipta sig lífi, m.a. í kíl þeim eða síki sem Gegnir heitir og er gamall far-
vegur Héraðsvatna niður undan Miklabæ. Heitir það enn Solkupyttur.
A laugardaginn fyrir pálmasunnudag 11. apríl 1778 fékk hún léðan
hníf hjá konu þeirri er skyldi gæta hennar til þess að spretta flík. Þess
varð vart að hún gekk út úr bænum og var vinnumaður sendur eftir
henni. Hún hafði þá skorið sig á háls upp við réttarvegginn en var ekki
önduð. Vinnumanni varð á orði: „Þar tók andskotinn við henni.“ Fleiri
útgáfur eru til af þeim notalegu orðum sem kastað var til Solveigar á
banastundinni. Sumar sagnir herma að hún hafí þá mátt mæla og beðið
þess að fá leg í vígðri mold. Hermt er að sr. Odd hafí dreymt hana nótt
eftir nótt og hún jafnan ítrekað þessa bón sína.
Sjálfsmorð er voðaverk. Þó var það stórum alvarlegra á 18. öld en nú.
Þá var helvítistrúin útbreidd. Sá sem fór sér sjálfur braut gegn lögmálum
kristni og kirkju og var sjálfkrafa útskúfaður úr samfélagi sáluhólpinna.
Sál hans komst ekki til himna, hún fór annað. Hann fékk ekki leg í vígðri
mold þótt hægt væri að gera undantekningu með leyfi biskups. Sú ör-
vænting er ógnvænleg sem knýr til sjálfsmorðs við slíkar aðstæður.
Sr. Oddur bað biskupinn, föður sinn, um leyfí til þess að jarðsetja lík
Solveigar í kirkjugarðinum á Miklabæ en var umsvifalaust neitað. Ef til
vill hefur biskup talið að með því að dysja þessa stúlkukind utan garðs
væri þar með lokið sögnum um hana og son hans.
Solveig var dysjuð við eitt horn kirkjugarðsins, þó þannig að grafíð var
inn undir vegginn, svo nærri lá að eitt horn kistunnar næði inn fyrir.
Mun sr. Oddur þar hafa notið ráða Vigfúsar Scheving, sýslumanns á Víði-
völlum en á milli þeirra virðist hafa verið kunningsskapur eða vinátta.
Eftir þetta tekur þjóðsagan við um Solveigu en hún verður ekki rakin
hér. Hitt er víst að í hugum fólks varð Solveig fordæða, mögnuð aftur-
ganga, sem vakti ógn og skelfing í myrkhræddri veröld átjándu aldar og
allar götur fram yfír síðustu aldamót.
Engan þarf að undra þótt þessi voðaatburður hafí gengið nærri sr.
Oddi. Sagnir eru um að hann hafí gerst svo myrkfælinn að hann færi
eigi einn saman eftir að dimma tók. Var hann þó áður talinn kjarkmaður.
Sr. Oddur bjó með konu sinni á Miklabæ og eignaðist með henni tvö börn
sem upp komusL Þau voru: Gísli, fæddur 1778, sem varð síðar prestur bæði á
Ríp og Reynistað og Ingibjörg, fædd 1781, síðar kona sr. Jóns Jónssonar á
Auðkúlu, ein af formæðrum Grundarættar sem er fjölmenn í þessu héraði.