Húnavaka - 01.05.1997, Page 147
HÚNAVAKA
145
Svo hafði hún lagað kaffíð sitt eða hitað það upp frá kvöldinu áður.
Þær voru kunnugar hvor annarri og héldu jafnt hvor upp á aðra. Ef bil-
un var í vélinni þá fór konan höndum um hana og talaði við hana. Þá
sjaldan þetta brást leyfði hún vélinni bara að jafna sig smástund og
kveikti svo fyrirhafnarlítið upp í henni á eftir.
Stundum áttu sér stað miklar olíusprengingar í henni með sótfalli um
allt eldhúsið en gamla konan fyrirgaf henni það því að þá var hægt að
baka í henni fyrst á eftir. Sjaldnast hitnaði nefnilega bakarofninn og ófá
voru þau skipti sem konan hélt að hún ædaði að verða sein með matinn
af því að ein hellan hitnaði ekki í það skiptið. Ef gamla konan var eitt-
hvað slappari en í annan tíma þá hitaði vélin ævinlega betra kaffi en
venjulega og var oft á tíðum meira að segja fljótari að hitna. Og í raun
réttri bilaði vélin aldrei, hún var bara stundum ekki alveg í lagi. Kannski
einmitt þess vegna þótti konunni svo vænt um vélina. Báðar áttu þær við
óheilindi að etja, báðar þurftu að treysta hinni og ef önnur forfallaðist
varð hin óvirk líka.
Um vorið fór svo maskínan að verða fyrir á hlaðinu. Það yrði því að
henda henni áður en farið væri að bera á túnið og slóðadraga. Einn dag-
inn ákvað bóndinn að fleygja brakinu og sonurinn hjálpaði honum með
hana fram á bakkann. Þegar þangað kom sagði bóndinn að þeir skyldu
setja hana snöggvast niður. Sonurinn hélt að best væri að hafa það sem
skemmstan tíma svo að hún stæði ekki þar það sem efdr væri sumarsins.
,Jæja, látt' 'ana þá gossa fram af.“
Það kom eitthvert blik í augun á gamla bóndanum þegar hann sá vél-
ina velta fram af brúninni, fyrst hægt svo hraðar með skarki og brestum í
stórum stökkum. Eftir því sem hraðinn á vélinni jókst og fleira brotnaði
úr henni, eftir því dofnaði svipurinn á andliti gamla mannsins, uns það
síðasta af brakinu stoppaði í einhverju dýinu.
Sonurinn gekk heimleiðis og eftir ríkti aðeins þögn en gamli bónd-
inn hélt áfram að horfa ofan í jarðföllin fyrir neðan. Einhver taug hafði
þá einnig verið milli hans og vélarinnar þó að oft hefði hann bölvað
henni og mikið þurft að borga af olíu í hana. Þá hafði gamla manninn
samt kennt til í hvert skipti sem eitthvað brast á leiðinni niður. Aldrei
hafði hann \drst halda upp á þessa vél. Hún hafði verið mesta óþægðar
púta. Til dæmis hafði hún helst aldrei getað hitnað almennilega þegar
hann hafði verið að lífga upp hrakin lömb á vorin og alla tíð ljót verið.
En þarna stóð hann nú á brekkubrúninni, helsærður eftir að sjá vélina
verða að engu. Eins og maðurinn er oftast hamingjusamastur eftir erfíð-
asta daginn eins er hann hryggastur að glata þeim sem hann hafði mest
fyrir og varð að gefa mest af sjálfum sér.
„Blessuð, gamla maskínan", tautaði hann ofan í bringu sína þegar
hann gekk heim.