Morgunblaðið - 01.05.2015, Blaðsíða 31
31
EVRÓPUKEPPNI
Jóhann Ólafsson
sport@mbl.is
Íslensku liðin sem taka þátt í Evr-
ópumótunum í sumar eru Stjarnan,
FH, KR og Víkingur. Það verður
gaman að sjá hvernig þau fylgja eft-
ir árangri liðanna í fyrra en FH og
Stjarnan náðu glæsilegum árangri.
Sérstaklega var árangur Garðbæ-
inga eftirtektarverður en þeir urðu
fyrsta íslenska liðið til að spila í fjór-
um umferðum í Evrópukeppni á
sama tímabilinu. Þeir komust í úr-
slitaumferð forkeppni Evrópu-
deildar UEFA þar sem þeir spiluðu
um sæti í riðlakeppninni.
FH komst í sömu úrslitaumferð
árið 2013, fyrst íslenskra liða, en fór
styttri leið eftir að hafa byrjað í 2.
umferð forkeppni Meistaradeild-
arinnar.
Frábær árangur Stjörnunnar
Stjarnan hóf leik á því að slá út lið
Bangor City frá Wales en Garðbæ-
ingar unnu báða leikina 4:0. Í 2. um-
ferð sló Stjarnan lið Motherwell út
eftir framlengingu á heimavelli.
Báðum leikjunum lauk 2:2 eftir 90
mínútur en Stjarnan vann heima-
leikinn með glæsimarki Atla Jó-
hannssonar í framlengingu.
Í 3. umferð skelltu Stjörnumenn
pólska stórliðinu Lech Poznan, 1:0
samanlagt. Í 4. umferð mætti
Stjarnan loks ofjörlum sínum þegar
ítalska stórveldið Inter sigraði þá,
3:0 á Laugardalsvellinum og 6:0 í
Mílanó.
FH sló út Norður-Íra
og Hvít-Rússa
Árangur FH var ekki síður góður
en liðið féll út í þriðju umferð for-
keppni Evrópudeildarinnar. Í 1. um-
ferð mættu FH-ingar Glenavon frá
Norður-Írlandi og sigruðu þá örugg-
lega, 3:0 og 3:2.
Í 2. umferð sló FH lið Neman
Grodno frá Hvíta-Rússlandi út. Lið-
in gerðu 1:1 jafntefli í Hvíta-
Rússlandi og FH vann heimaleikinn
2:0.
Í 3. umferð mættu Hafnfirðingar
Elfsborg frá Svíþjóð og urðu að
sætta sig við tap.
Þeir töpuðu leiknum í Svíþjóð 4:1
en unnu heimaleikinn 2:1, sem dugði
ekki til að komast áfram í keppninni.
Fram og KR náðu ekki að sigra
mótherja sína síðasta sumar. Fram-
arar féllu út gegn eistneska liðinu
Nömme Kalju í fyrstu umferð for-
keppni Evrópudeildarinnar.
Heimaleikurinn tapaðist 1:0 og því
dugði 2:2 jafntefli í síðari leiknum
Frömurum ekki til að komast áfram.
KR mætti skoska stórveldinu Cel-
tic í annarri umferð forkeppni
Meistaradeildar Evrópu. KR-ingar
áttu við ofurefli að etja og töpuðu
báðum leikjunum, þó aðeins 1:0 í
Frostaskjólinu, en síðan 4:0 í seinni
leiknum í Edinborg.
Fyrsti Evrópuleikur
Víkings í 23 ár
Stjarnan, FH og KR mæta því aft-
ur til leiks í Evrópumótunum í sum-
ar og Stjörnumenn keppa í fyrsta
skipti í forkeppni Meistaradeild-
arinnar.
Víkingar taka einnig þátt í for-
keppni Evrópudeildarinnar og er
það í fyrsta skipti síðan 1992 sem
þeir taka þátt í Evrópukeppni. Þá
mættu þeir liði CSKA frá Moskvu og
töpuðu báðum leikjum sínum.
Reyndar hafa Víkingar leikið tíu
Evrópuleiki frá 1972 til 1992 og tap-
að þeim öllum.
KR-ingar eiga 66 Evrópuleiki að
baki, næstflesta allra íslenskra liða
en ÍA hefur leikið 72. Þetta verður
sjöunda árið í röð sem KR tekur þátt
í Evrópukeppni en félagið tók fyrst
þátt fyrir 51 ári þegar það mætti
Liverpool í tveimur leikjum.
Tólfta Evrópuár FH í röð
FH tekur þátt tólfta árið í röð og
heldur þar með áfram að bæta eigið
Íslandsmet sem liðið setti í fyrra.
Skagamenn áttu gamla metið en
þeir tóku þátt í Evrópukeppni tíu ár
í röð, frá 1993 til 2002.
Stjarnan leikur í Evrópukeppni í
annað sinn í sögu félagsins en Evr-
ópuævintýri liðsins í fyrra voru átta
fyrstu Evrópuleikir liðsins.
Erfitt að gera betur í ár
Stjarnan og FH léku samtals 14 Evrópuleiki á síðasta ári Stjarnan fyrst til
að spila átta leiki á sama árinu Langþráðir Evrópuleikir hjá Víkingum
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ævintýri Ólafur Karl Finsen skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna í Evrópukeppninni í fyrra og er hér í kapphlaupi
við Nemanja Vidic, miðvörð Inter Mílanó og fyrrverandi fyrirliða Manchester United, á Laugardalsvellinum.
FÓTBOLTINN 2015
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. MAÍ 2015
INSTINCT
10 YEAR ANNIVERSARY
Íslandsmeistarar Stjörnunnar fá 37
milljónir króna frá Knattspyrnu-
sambandi Evrópu fyrir að hafa
tryggt sér sæti í forkeppni Meist-
aradeildar Evrópu. Stjarnan fær svo
44 milljónir króna til viðbótar fyrir
að spila í 2. umferð, en fulltrúi Ís-
lands fer beint í 2. umferðina. Kom-
ist Stjarnan í þriðju umferð fær fé-
lagið 59 milljónir til viðbótar. Með
því að komast alla leið í 4. umferð,
hið svokallaða umspil um sæti í
riðlakeppninni, væru Stjörnumenn
búnir að tryggja sér að lágmarki 630
milljónir króna að auki, þó að þeir
töpuðu. Tap í umspili myndi skila lið-
inu í riðlakeppni Evrópudeildar.
Tapi Stjarnan í 3. umferð færi lið-
ið í umspil Evrópudeildarinnar, en
þessa leið fór FH árið 2013 og féll þá
út gegn Genk.
FH, KR og Víkingur R. leika í 1.
umferð forkeppni Evrópudeild-
arinnar og fá fyrir það 59 milljónir
króna hvert félag. Fyrir að leika í 2.
umferð fást 62 milljónir, 65 milljónir
fyrir að leika í 3. umferð og 68 millj-
ónir fyrir að leika í umspilinu um
sæti í riðlakeppninni. Með því að
komast í riðlakeppnina eru talsvert
hærri tekjur í boði, að lágmarki 190
milljónir króna. sindris@mbl.is
Gullið glóir
í Evrópu
Jæja, er ekki komið að því?
Hverju? Jú, því að markametið í
efstu deild á Íslandi falli. Það er
frekar vandræðalegt að enginn
hafi komist nálægt því að slá
metið nú þegar sjö leiktíðir hafa
verið spilaðar í 12 liða deild.
Það þýðir að leikirnir sem leik-
menn fá eru 22 talsins en ekki
18 eins og áður. Fjórir leikir í
viðbót til að skora, en það dug-
ar ekki til.
Tryggvi Guðmunds, Þórð-
ur Guðjóns, Gummi Torfa og
Pétur Péturs deila enn marka-
metinu, skoruðu 19 mörk hver,
og við bíðum enn eftir því að
20 marka múrinn verði rofinn.
Hver gæti breytt því í sumar?
Mér detta helst í hug
framherjar sterkustu liðanna.
Ég myndi setja minn pening á
að Steven Lennon í FH verði
markakóngur, en ég er hræddur
um að hann bæti ekki marka-
metið frekar en aðrir. Jeppe
Hansen gæti einnig skorað hell-
ing fyrir Stjörnuna ef hann er í
sama formi og í fyrra, og Gary
Martin varð markakóngur með
13 mörk í fyrra og leiðir fram-
línu svakalegs KR-liðs.
Mun fleiri eru líklegir til að
skora að minnsta kosti tug
marka. Þá er ég að tala um
menn eins og Jonathan Glenn,
Albert Brynjar Ingason, Hörð
Sveins, Ólaf Karl, Patrick Ped-
ersen og jafnvel Rolf Toft, Garð-
ar Gunnlaugs eða Ellert Hreins-
son.
Annars bíð ég ekki síður
spenntur eftir því að sjá hvaða
matvæli félögin bjóða okkur
blaðamönnum upp á. Helstu
höfðingjar deildarinnar, Stjörnu-
menn, munu eflaust standa
áfram undir nafni. Þar er jafnan
tvírétta matseðill fyrir okkur.
Spurning hvort að beint sam-
band sé á milli þessarar gest-
risni og árangurs liðsins í fyrra?
En hvað með nýliðana? Verða
bara þurrar tebollur á Skag-
anum eins og síðast þegar ÍA
var uppi? Og hvernig er grill-
menningin í Breiðholti? Ég mun
svara þessu síðar í sumar.
BAKVÖRÐUR
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is