Dagblaðið Vísir - DV - 19.04.2010, Blaðsíða 10

Dagblaðið Vísir - DV - 19.04.2010, Blaðsíða 10
10 MÁNUDAGUR 19. apríl 2010 FRÉTTIR Þrír danskir lögmenn, sem stýra þrotabúum danskra dótturfélaga íslenska fasteignafélagsins Land- ic Property, hafa sent fyrrverandi stjórnarmönnum félaganna bréf þar sem þeir láta þá vita af því að þeir gætu verið krafðir um bætur til þrotabúanna vegna starfa sinna fyrir þau. Bæturnar gætu hljóðað upp á allt að níu milljarða króna, um 385 milljónir danskra króna, samkvæmt heimildum DV. Líklegt þykir að tryggingar stjórnendanna muni dekka bótakostnaðinn ef svo fer að þeim verði stefnt. Ekki er um innheimtubréf að ræða því ekki liggur ljóst fyrir að stjórnarmennirnir þurfi að greiða bæturnar en í bréfunum mun koma fram að þeir verði hugsanlega krafð- ir um bætur. Bótakrafan er byggð á ákvæðum í dönskum lögum um ábyrgð stjórnarmanna samkvæmt heimildum DV. Ekki er vitað hvaða ákvarðanir það eru sem skiptastjór- arnir vilja fá bætur fyrir. Landic Property, sem var í eigu FL Group, Ingibjargar Pálmadótt- ur, Fons og fjárfestingafélagsins Stapa, var tekið til gjaldþrotaskipta í lok janúar á þessu ári. Félagið skuldaði rúmar 970 milljónir evra, rúmlega 141 milljarð króna á þá- gengi, í október 2008. Dönsku dótt- urfélögin voru tekin til gjaldþrota- skipta í fyrra. Fyrirtækið átti fjölmörg dóttur- félög og fasteignir á Norðurlönd- unum í gegnum dönsku félögin Keops Development A/S, Landic Property A/S og Landic Investment A/S. Landic átti meðal annars stór- verslanirnar Illum og Magasin du Nord í Danmörku. Lögmennirnir þrír sem eru skiptastjórar búanna þriggja sendu stjórnarmönnun- um bréfin. Um er að ræða sænska, danska og íslenska stjórnarmenn. Snýst um persónulega ábyrgð DV hafði samband við tvo af lög- mönnunum og þeir staðfestu báð- ir að slíkt bréf hefði verið sent til stjórnarmanna í dönsku dóttur- félögunum. Þeir vildu hins vegar ekkert tjá sig um bréfin þar sem kröfuhöfum félaganna hefur ekki verið greint frá bréfsendingunni til stjórnarmannanna. Annar lögmannanna segir þó að ekki sé um kröfu á hendur stjórnarmönnunum að ræða held- ur verði stjórnarmennirnir að öll- um líkindum krafðir um bætur eftir því hver ábyrgð þeirra var á tiltekn- um ákvörðunum. „Í þrotabúum í Danmörku er það svo að kröfur eru gerðar á hendur einstaka stjórnar- mönnum en ekki á hendur stjórn- inni sem heild. Þegar þú ert með stjórn sem hefur tekið ákvörðun um eitthvað gæti það verið svo að þeir sem greiddu atkvæði með séu skaðabótaskyldir en ekki þeir sem greiddu atkvæði gegn ákvörðun- inni. Þetta getur svo auðvitað líka verið öfugt,“ segir lögmaðurinn í símasamtali frá Kaupmannahöfn. Skarphéðinn fékk bréf Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrverandi forstjóri Landic Prop- erty og stjórnarmaður í dönsku dótturfélögunum, segist ekki kann- ast við að stjórnarmennirnir hafi fengið innheimtubréf, en fyrsta heimild DV um málið sagði að svo væri, frá þrotabúunum en seg- ist hins vegar kannast við að hafa fengið bréf frá skiptastjórunum þar sem honum er tjáð að hugsan- lega komi til þess að hann þurfi að greiða stjórnendatryggingu. „Hins vegar kannast ég við að einhverj- ar stofur hafi gert mönnum viðvart varðandi stjórnendatryggingar. Ég hef fengið bréf frá þeim sem er svona teknískt í dönskum rétti þar sem menn gera vart við það að ef til þess kemur að gerðar verði ein- hverjar kröfur eigi þeir að vera með sín tryggingamál á hreinu,“ segir Skarphéðinn Berg sem bætir því við aðspurður að ýmsar ástæður geti legið að baki slíkum kröfum á stjórnarmenn. Vanræksla möguleg ástæða Viðar Þorkelsson, sem tók við for- stjórastarfinu í Landic Property af Skarphéðni Berg eftir hrunið í nóv- ember 2008, segist einnig hafa feng- ið slíkt bréf frá dönsku lögmönnun- um. „Ég hef fengið svona bréf þrátt fyrir að hafa komið inn í félagið þetta seint. Ég sat í stjórn nokkurra þessara félaga,“ segir Viðar. Aðspurður af hverju bréfin séu send, hvort skiptastjórarnir telji að þeir hafi komið að óeðlilegum ákvörðunum innan félaganna seg- ir Viðar: „Já, það er væntanlega eitthvað í þá veruna... En það er of snemmt að segja eitthvað til um það nákvæmlega.“ Segir Viðar sem var fenginn inn í Landic til að sjá um endurskipulagningu félagsins. Aðspurður hvaða ákvarðanir það séu sem skiptastjórarnir setji út á segir Viðar: „Ég get nú ekki sagt til um það í smáatriðum. Þetta er nýlega komið til okkar og við höf- um ekki farið yfir þetta í smáatrið- um. Þetta eru ýmis atriði en fyrst og fremst er þetta tæknilegt í mínum huga. En ég veit satt að segja ekki alveg eftir hverju þeir eru að fiska. En það er nú bara þannig í dag að við höfum orðið varir við það í öllu þessu ferli að lögmenn í Danmörku ganga mjög langt í sínum erindis- rekstri. Við höfum ekki kynnst svona löguðu á Íslandi.“ Hann bæt- ir því við aðspurður að rök skipta- stjóranna séu byggð á ákvæðum laga um ábyrgð stjórnarmanna. Viðar segir að stjórnendurnir séu með stjórnendatryggingar og að hugsanlega ætli skiptastjórarn- ir sér að reyna að komast yfir þá peninga. „Það eru á bak við þetta stjórnendatryggingar sem menn sjá kannski eitthvert fé í,“ segir hann en bæturnar vegna stjórn- endatrygginganna munu þá koma frá tryggingarfélögum stjórnar- mannanna. „Það er hins vegar engan veginn ljóst hvort einhverj- ar málssóknir hljótist af þessu. Það er ekki búið að stefna einum eða neinum... En ef það verður gert reynir á stjórnendatrygginguna,“ segir Viðar sem ekki getur staðfest um hversu háar fjárhæðir stjórnar- mennirnir verði hugsanlega krafð- ir. Kröfuhöfum dönsku dótturfé- laganna verður greint frá efni bréf- anna sem fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur dótturfélaganna hafa fengið send í þessari viku. Lík- legt má telja að nánar verði greint frá gagnrýni skiptastjóranna eftir þetta en þeir eru tregir til þess að veita upplýsingar um málið fyrr en það verður. Skiptastjórar danskra þrotabúa dótturfélaga Landic Property hafa sent nokkrum stjórnendum félagsins bréf þar sem fram kemur að hugsanlega verði þeir krafðir um bætur vegna starfa sinna. Tveir forstjórar Landic Property fengu slík bréf fyrir skemmstu. Erlendir starfsmenn Landic hafa einnig fengið slík bréf um bætur. INGI F. VILHJÁLMSSON fréttastjóri skrifar ingi@dv.is Úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem rætt er um Landic Property. 2. bindi, blaðsíða 231 „Landic Property hf. (áður Fasteignafélagið Stoðir hf.) var eitt stærsta fast- eignafélagið á Norðurlöndum, með starfsemi á Íslandi, Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð. Félagið sérhæfði sig í umsýslu og leigu á atvinnuhúsnæði til fyrirtækja og einstaklinga. Umsvif Landic Property jukust verulega á síðustu árum, sér í lagi eftir kaup á fasteignafélaginu Keops í Danmörku árið 2007. Sögu Landic Property má rekja allt aftur til 1999 þegar Fasteignafélagið Stoðir hf. var stofnað. Árið 2002 sameinuðust Fasteignafélagið Stoðir hf. og Þyrping hf. undir nafni Fasteignafélagsins Stoða hf. Á árinu 2005 keypti félagið danska fasteignafélagið Atlas Ejendomme, sem átti m.a. fasteignir stórverslananna Illum og Magasin í Kaupmannahöfn. Umsvif félagsins jukust enn með kaup- um á danska fasteignafélaginu Keops árið 2007. Meðal stærstu viðskiptavina Landic Property á Íslandi voru Hagar, Reykjavíkurborg, Landsbankinn, Glitnir, Hilton Hotel og Actavis. Stærstu hluthafar félagsins sumarið 2008 voru Stoðir hf. (39,8%), Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir og tengdir aðilar (16,3%), Stapi fjárfestingarfélag ehf. (13%) og Fons hf. (7,5%).“ Stjórnarmenn gætu lent í því Stjórnarmenn í dönskum dótturfélögum íslenska fasteignafélagsins Landic Property gætu þurft að greiða bætur til þrotabúa félaganna. Skarphéðinn Berg Steinarsson var forstjóri Landic þar til eftir hrunið og Hannes Smárason var hluthafi í félaginu í gegnum FL Group. VILJA BÆTUR FRÁ STJÓRNENDUM Það er ekki búið að stefna einum eða neinum.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.