Dagblaðið Vísir - DV - 19.01.2011, Page 23

Dagblaðið Vísir - DV - 19.01.2011, Page 23
Viðtal | 23Miðvikudagur 19. janúar 2011 H ildur Elín Ólafsdóttir hef- ur verið búsett nærri helm- ing ævi sinnar erlendis en hún starfar sem atvinnu- dansari í ballett við ríkisóperuna í Hannover í Þýskalandi. Þegar hún var sextán ára þurfti hún að velja á milli þess að fara í Menntaskólann í Reykjavík með jafnöldrum sínum þar sem hún hafði fengið inngöngu eða láta draum sinn um að verða ballettdansari rætast. Hún hafði líka fengið inngöngu sem ballettdans- ari við Konunglega listaháskólann í Haag og ákvað að lokum að freista gæfunnar þar. 19 ára lauk hún námi í Hollandi og hélt þá til Þýskalands þar sem hún komst inn í Rínaróperuna í Düssel dorf. Þar kynntist hún gríska ballettdansaranum og sjarmatröll- inu Pan telis Zikas sem er eiginmað- ur hennar í dag. Þau giftu sig í fyrra- sumar, bæði á Íslandi og í Grikklandi. Þau störfuðu saman í sex ár í Düss- eldorf. Síðan voru þau aðskilin í eitt ár þegar hann var dansari í Sviss en þá hafði Hildur fengið stöðu við rík- isóperuna í Hannover í Þýskalandi. Pantelis fékk síðan stöðu í Hannover ári síðar og búa þau og starfa þar enn í dag. Athygli í Þýskalandi Fyrir stuttu var ítarlegt viðtal við Hildi og Pantelis á þýsku ríkissjón- varpsstöðinni NDR. Hafði sjón- varpsstöðin áhuga á því að fá viðtal við danspar. Urðu þau fyrir valinu enda ansi áhugavert að íslenskur dansari sé giftur grískum dansara og starfi saman í Þýskalandi. NDR er vinsæl sjónvarpsstöð sem næst alls staðar í Þýskalandi og geta flestir af 80 milljónum íbúa landsins horft á útsendingar stöðvarinnar. Þeim hefur gengið afar vel að undanförnu. Í vetur hafa þau tekið þátt í sýningum á borð við Draum á Jónsmessunótt og Hnotubrjótinn. Þau taka bæði þátt í dansleikhúsinu Seven-Up sem er verk fyrir börn sem Pantelis samdi og hefur notið mik- illa vinsælda. Sérstaklega hjá skól- um og fjölskyldum. Byggist sýningin á því að allir séu bestir í einhverju og samtvinnar hann inn í það hluti eins og einelti, einangrun og samvinnu. Pantelis dansar líka í söngleiknum Guys and Dolls. Byrjaði sex ára að dansa „Þegar ég var sex ára fór ég með syst- ur minni í ballett úti á Seltjarnarnesi í Ballettskóla Guðbjargar Björgvins,“ segir Hildur. Þegar hún var tíu ára fór hún í Listdansskóla Íslands þar sem hún var allt þar til hún hélt til Hollands sextán ára. Hildur er dótt- ir hjónanna Ólafs Ólafssonar lyfja- fræðings og Hlífar Þórarinsdóttur, skrifstofustjóra á Landspítalanum. Á hún tvö systkini, Þórarin Óla og Hjördísi Maríu. Aðspurð hvenær hún hafi virki- lega fengið áhuga á ballett segir hún að það hafi gerst um 13 ára aldurinn. „Þetta er bara eins og önnur áhuga- mál sem þú átt. Áhuginn hjá mér var rosalega mikill á ballettinum. Þegar ég var krakki nýtti ég hvert tækifæri til að skoða blöð um ballett, horfa á myndbönd og annað slíkt,“ segir Hildur. Henni gekk strax vel. Þegar hún var á síðasti ári í grunnskóla fór hún að þreifa fyrir sér um að halda utan í dansnám. „Mig langaði að fara út en það var þó svolítil hræðsla hjá mér við óviss- una sem myndi fylgja því að fara utan. Ég ákvað að láta á það reyna. Fór í inntökupróf til Hollands í 10. bekk og komst inn. Það var samt ekki alveg ákveðið strax hjá mér hvort ég ætlaði út. Flestir vinir mínir á þess- um tíma voru annaðhvort að fara í MR eða MH. Ég sótti um í MR og fékk inngöngu. Forvitnin var þó meiri og ákvað ég að freista gæfunnar í Hol- landi,“ segir Hildur. Erfitt að yfirgefa fjölskylduna Hún segir að vissulega hafi það ver- ið erfið ákvörðun að flytja að heim- an einungis 16 ára til annars lands. Í burtu frá foreldrum, systkinum og vinum. „Ég get alveg sagt að ég á einstaka foreldra. Þegar ég hugsa til baka núna hugsa ég: Hvernig leyfðu þau mér þetta? Þau vildu auðvitað helst hafa mig áfram heima en þau hafa alltaf sýnt mér mikinn skilning og hvatt mig áfram,“ segir Hildur. Faðir hennar hafði sagt henni að hann vildi ekki þurfa að hlusta á hana bitra síðar meir út í foreldra sína fyrir að hafa ekki leyft henni að láta ballettdrauma sína rætast. „Ást, umhyggja og skilningur eru þau orð sem hægt er að nota um traust for- eldra minna,“ segir hún. Ákvörðun hennar um að fara út hafi þó ekki verið svo erfið því hún hafi verið ákveðin í að þetta langaði hana virki- lega að gera. Pantelis þurfti að æfa með stelpum Pantelis, eiginmaður Hildar, segist hafa byrjað í ballett þegar hann var tíu ára en hann ólst upp í bænum Preveza sem er norðarlega í Grikk- landi. Þá hafi hann byrjað í ein- hvers konar fimleikum með sjö öðr- um strákum. Fyrir það stundaði hann ýmsar íþróttir eins og hlaup og knattspyrnu. Þegar annað námskeið var haldið var Pantelis sá eini sem mætti af þeim sjö sem höfðu byrjað. Kennarinn tjáði honum fljótlega að hann gæti ekki kennt honum einum. Hann gæti hins vegar boðið hon- um að fara í ballett með stelpunum. Honum leist ekkert á það í fyrstu. „Ég fór þó fljótlega að hafa gaman af ballettinum. Þetta er mikil æfing fyrir líkamann og þú þarft stöðugt að passa vel upp á eigin líkama. Um 14–15 ára aldurinn komst ég að því að ég vildi starfa sem dansari,“ seg- ir Pan telis. Listræni þátturinn sé áhugaverður í ballettinum ekki síður en líkamleg áreynsla. Bæði Hildur og Pantelis eru sammála um að leiklist- in í ballettinum sé eitt það skemmti- legasta við greinina. Að takast á við þekkt söguleg verk sé ógleymanlegt. Kynntist Pantelis í Düsseldorf 1999 Þegar Hildur lauk námi við Kon- unglega listaháskólann í Haag árið 1999 reyndi hún fyrir sér við Rínar- óperuna í Düsseldorf í Þýskalandi og fékk starf þar sem dansari. Stuttu áður hafði Pantelis líka fengið starf sem dansari í Düsseldorf. Á árunum 1997 til 1999 var hann dansari við Peter Schaufuss-ballettinn í Dan- mörku. Réð hann sig þangað eftir að hafa sótt ballettnám í London en hann útskrifaðist frá Central School of Ballett árið 1997. „Áður en ég fór til Þýskalands sagði einn vinur minn í Hollandi að ég yrði að skila kveðju til dans- ara í Düsseldorf sem héti Pantelis og væri frá Grikklandi,“ segir hún. Við komuna til Düsseldorf hafi hún því stöðugt verið að spyrja um þenn- an Pantelis. Að lokum hittust þau og kynntust þá. Fljótlega hafi þau orð- ið ástfangin og upp frá því hafa þau búið og starfað saman í ellefu ár. Brúðkaup í Grikklandi og á Íslandi Hildur og Pantelis giftu sig í fyrra- sumar eftir að hafa verið saman allt frá því þau kynntust í Düsseldorf árið 1999. Voru þau strax ákveðin í að halda brúðkaup bæði á Íslandi og í Grikklandi. „Okkur langaði til þess að fjölskyldur okkar beggja fengju að njóta athafnarinnar,“ segir Hild- ur. Sem dæmi hafði fjölskylda Pan- telis aldrei komið til Íslands áður en brúðkaupið var haldið þar. Að sögn Hildar gaf það henni mikið að fá fjölskyldu Pantelis til Ís- lands. Með því hafi skilningur þeirra víkkað á því hver uppruni hennar væri en áður hafi þau einungis hist í fríum í Grikklandi eða Þýskalandi. „Í brúðkaupinu í Grikklandi kom síðan fjölskyldan mín sem fékk þá að kynnast hans heimi,“ segir hún. Það hafi því verið mjög skemmtilegt að halda brúðkaup í þessum ólíku löndum sem Ísland og Grikkland séu. Aðspurð hvort Grikkir séu róm- antískari en Íslendingar segir hún erfitt að segja til um það. „Grikkir hafa meiri þörf fyrir að snerta fólk og faðma á meðan Íslendingar eru svolítið snertifælnir. Grikkir láta manni líða þægilega vel,“ segir Hild- ur. Umgjörðin um brúðkaupið á Ís- landi hafi þó verið persónulegri en í Grikklandi. Athöfnin í kirkjunni hafi verið mjög rómantísk og heil- ög. Grísku gestirnir höfðu að sögn Hildar gaman af því hversu mik- ið var gert á Íslandi. Veislustjórn, myndbönd og annað sem ekki var gert í Grikklandi. „Í Grikklandi var brúðkaupið haldið úti undir berum himni. Við sundlaug og með sjóinn í baksýn. Í Grikklandi er dansað mikið. Sér- staklega þjóðdansar. Það var því dansað langt fram á nótt,“ seg- ir hún. Það hafi því verið frábært fyrir fjölskyldur þeirra beggja að fá að sjá hefðir hvor annarrar. Að- spurð hvort það hafi ekki vakið at- hygli í Þýskalandi að Íslendingur væri að giftast Grikkja segja þau að það hafi alveg verið gert grín að því. Þegar Hildur var gæsuð af vin- konum sínum í Þýskalandi var hún látin bera skilti og var fólk hvatt til að styðja þau fjárhagslega þar sem það væri erfitt að vera frá Íslandi og Grikklandi í dag. Njóta náins sambands Þar sem Hildur og Pantelis starfa bæði við ríkisóperuna í Hann- over má segja að samband þeirra sé mjög náið. Líklega mun nán- ara en flestra enda ekki algengt að hjón hafi sama áhugamál og starfi bæði við það sem þeim finnst skemmtilegast að gera. Þrátt fyrir að þau starfi bæði sem dansarar í óperunni í Hann- over eru þau þó ekki alltaf saman. „Hjá okkur gengur þetta mjög vel. Ég segi alltaf af því að við dönsum ekki saman,“ segir hún. Stundum eru þau í mismunandi sýningum og oft í ólíkum hlutverkum. Þau njóta þess þó mjög að vera í svona nánu sambandi við hvort ann- að og segja það forréttindi. Seg- ir Hildur að það hafi aldrei verið neitt vandamál þó þau séu saman alla daga. Grikkir og Íslendingar nánir fjölskyldunni „Á Íslandi er staða fjölskyldunnar mjög sterk. Hið sama á ekki við um ýmis lönd á meginlandi Evr- ópu þar sem ég hef verið eins og á Englandi, í Danmörku, Sviss og Þýskalandi,“ segir Pantelis. Íslend- ingar eigi þetta sameiginlegt með Grikkjum en í báðum löndum sé fjölskyldan mjög mikilvæg. Grikk- ir séu mjög stoltir af heimilum sín- um og fólk hugsi vel um fjölskyldu sína. Náttúran sé líka mikilvæg fyrir bæði löndin. Grikkir hugsi þó til náttúrunnar út frá því hvað hún færi þeim eins og ávexti sem dæmi. Náttúran fyrir Íslendingum sé meira fjöllin, vatnið og útiveran. Jörðin færi landinu lítið þar sem loftslag og hitastig sé allt annað á Íslandi en í Grikklandi. Íslenskan oft skemmtileg Pantelis segist leggja sig fram um að reyna að læra íslensku. Það sé þó erfitt þar sem þau eru búsett í Þýska- landi. Ef þau flytji til Íslands í fram- tíðinni muni hann reyna að breyta því. „Íslendingar tala hins vegar svo góða ensku að alltaf þegar ég reyni að tala íslensku við þá skipta þeir yfir í ensku,“ segir Pantelis. Íslenska sé mjög fallegt tungumál. Nokkur orð séu líka ansi skemmtileg. „Eins og fyrirtæki – tækifæri. Þvottavél, hrærivél, myndavél og mér líður vel. Úsbekistan, Túrkmenistan og frysti- kistan,“ segir hann hlæjandi. Stuttur starfsferill í ballettinum Að sögn Hildar hefur verið mikil gróska í ballett á Íslandi á síðustu árum. Mun fleiri íslenskir dans- arar fari nú í meira nám heima og stöðugt fleiri fari utan. „Ung- ir dansarar eiga að fylgja sannfær- ingu sinni. Viljinn og áhuginn þarf hins vegar að vera mikill. Ballett er þannig grein. Ekki eitthvað sem hægt er að taka með annarri hend- inni. Ég held að dansarar finni þetta þó svolítið hjá sjálfum sér. Hvort þeir hafi virkilega eitthvað fram að færa,“ segir Hildur. Hún segir að það sé að mörgu leyti algjör draumur að fá að starfa við ballettdans. „Þetta hefur marga kosti og líka einhverja galla. Það er auðvitað draumur að fá að starfa við það sem þig langar að gera. Það er líka draumur af fá að starfa við sitt helsta áhugamál. Að þessu leyti er þetta draumastarf. Ballettinn er hins vegar mjög krefjandi. Bæði líkam- lega og andlega. Ýmsar fórnir eins og að maður getur ekki starfað við þetta endalaust. Það er þó líklega ágætt. Ég held að enginn myndi vilja horfa á mig dansa á sextugsaldri,“ segir Hildur hlæjandi. Vissulega geti dansinn verið mjög krefjandi líkt og hjá íþróttamönnum. Þau þurfi að halda sér í góðu formi allt árið en þau fái sex vikna frí á sumrin. „Þegar ég er í fríi reyni ég að synda,“ segir hún. Þau Hildur og Pantelis eiga ekki börn. Hildur seg- ir þó að barneignir séu alveg mögu- legar hjá kvenkyns dönsurum. Það sé þó misjafnt á milli staða. Við ríki- sóperuna í Hannover sé núna stjórn- andi sem eigi sjálfur ung börn og því sé viðhorfið jákvætt. „Það eru fimm pör að dansa hjá okkur og þrjú af þeim eiga börn,“ segir Hildur. Ballettdansarar starfa margir til 35 ára aldurs. Að sögn Hildar geta sumir haldið áfram lengur og nefn- ir að í Hannover séu nokkrir dansar- ar orðnir fertugir. Þó séu aðrir sem þurfi að hætta mjög ungir vegna erf- iðra meiðsla. „Það er merkilegt með ballett að þú ert oft að vinna í styttri tíma sem dansari en þú ert í skóla að læra,“ segir hún. Það sé auk þess algeng- ur misskilningur að líkamsburður skipti höfuðmáli ef fólk ætli sér að verða góðir dansarar. „Það er hægt að vera mjög efnilegur dansari lík- amlega séð en svo hefur fólk oft ekki þann listamann í sér sem þarf til að ná langt,“ segir Hildur. Bæði Pantelis og Hildur telja ágætis líkur á því að þau muni flytja til Íslands í náinni framtíð. Það sé þó alls óráðið og ræðst af því hvað þau taki sér fyrir hendur eftir að dansferlinum ljúki. Ísland sé fjöl- skylduvænt land og þar sé gott að vera. „ Í brúðkaupinu í Grikklandi kom síðan fjölskyldan mín sem fékk þá að kynnast hans heimi. Gifting á Íslandi Hildur og Pantelis giftu sig síðasta sumar eftir að hafa verið saman allt frá því þau kynntust í Düsseldorf árið 1999. MYND FOTOGRAFIKA, SIGURÐUR STEFÁN JÓNSSON Atvinnudansari Hildur starfar sem atvinnudansari í ballett við ríkisóperuna í Hannover. MYND JAN PEZOLD

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.