Dagblaðið Vísir - DV - 01.02.2013, Side 24

Dagblaðið Vísir - DV - 01.02.2013, Side 24
24 Umræða 1.–3. febrúar 2013 Helgarblað Ó sjálfrátt“ eftir Auði Jóns­ dóttur hlýtur að teljast með merkilegri bókum liðins árs, ef ekki síðustu ára. Ég var svo heppinn í liðinni viku að þurfa að dvelja heima við, með börnum og flensu, og datt þá svona rækilega ofan í söguna af Eyju, Mömmu, Ömmu, Öggu, Garranum og Skíðadrottningunni. Afleiðingin var ein besta lestrarupplifun síð­ ustu ára. Mikið undir Bókin er sjálfsævisöguleg, frásögn af því hvernig höfundur verður til, hvaðan hún kemur og hvernig henni „tókst það“. Það finnst vel á lestrinum að hér er uppsöfnuð þörf á ferð, bók­ in hefur fengið rækilega meðgöngu í sál höfundarins, brunnið á henni og farið með hana djúpa vegu. „Það er svo mikið undir,“ eins og Nína systir sagði í símann. Fyrir vikið hreyfir sagan vel við lesandanum. Bókmenntalegt Boot Camp Það er ekki auðvelt að gera sjálfan sig að aðalpersónu í skáldsögu en Auður Jónsdóttir hefur greinilega næga fjar­ lægð á sjálfa sig til að gera mátulegt grín að sér og sjá sig „eins og hún er“, með kostum og göllum, um leið og hún stendur þétt með persónunni og hleypir lesandanum aldrei út úr samúð með henni. Við trúum alla tíð á Eyju, í leit hennar og baráttu fyrir eigin leið, um leið og okkur eru van­ kantar hennar ljósir. Eins og jafnan í bókmenntum er það nákvæmnin sem hér ger­ ir útslagið; lýsingin á Eyju þar sem hún situr og þrífur einn heitavatns­ ofn með tannbursta á meðan móðir hennar og vinkonur fara með þrif­ klútum um heila íbúð teiknar upp mjög skýra karaktermynd. Þessi unga kona lifir ekki öll í raunveru­ leikanum. En þessi bók er líka lýsing á því hvernig hún stígur inn í hann, hvernig kona verður til úr stúlku, hvernig unglingur verður að mann­ eskju: Hin óborganlega skíðadrottn­ ing, Rúna Sigurgrímsdóttir, er hér í hlutverki lífsþjálfarans og „Ósjálfrátt“ er á köflum eins konar bókmennta­ legt Boot Camp. Af súlustað á Gljúfrastein Endursköpun Auðar á sjálfri sér minnir helst á sjálfsmynd Þórbergs í Ofvitanum og Íslenskum aðli: Þegar fyndnin fer með mann upp af kodd­ anum og fram úr rúminu verður eina hjálp lesandans sú að ákalla meistar­ ann gamla til samanburðar. Kaflinn þar sem Eyja og Agga fara á „samn­ ingafund“ með súlustaðaeiganda er einn slíkur sem „ósjálfrátt“ flýgur inn í sýnisbók íslenskra bókmennta. Við hljótum að þakka fyrir slíkar gersem­ ar, setjum bókina að lestri loknum í klassísku hilluna í bókaskápnum og spyrjum okkur hvernig stóð á því að slíkt undraverk hlaut ekki tilnefn­ ingu til íslensku bókmenntaverð­ launanna. Það sem færir bók Auðar auka­ bónus er auðvitað tengingin við Gljúfrastein. Og já … hér er við­ kvæmt efni á ferð. Því þótt glíma ungrar konu við ofurkarllæga nálægð gamla Nóbels sé erfið, nýtur Auður hennar líka. Ljóminn frá gamla lifir enn. Og lesandinn spyr sig: Værum við svona hrifin af bókinni ef þetta væri „venjuleg“ fjölskylda útí bæ? En slíkar vangaveltur eru til einskis. Auður er Auður. Fjölskyldan henn­ ar er fjölskyldan hennar. Og bókin hennar er bókin hennar. Og í henni fer Eyja beint af fund­ inum með súlustaðaeigandan­ um, þennan lágpunkt íslenskrar menningar, í mat til ömmu sinn­ ar á Gljúfrasteini, háhöll íslenskrar menningar. Hér myndast stór vídd, og eitthvað segir manni að sumt sé líkt með sumum. Hér birtist ættar­ strengur: Við munum öll hin lax­ nesku einkenni: Snærisþjófur hjálpar Íslandssól, kotbóndi gefur konungi hest, strákur úr Mosó fer til Hollywood. Álíka fjarvíddir mynd­ ast í senunni þar sem fjörusúparinn og beitningamaðurinn að vestan, sá skemmtilega nefndi Garri, mætir ömmu Eyju, fjóluhærðri og fjaður­ hattaðri á stigapalli. Þar er heilt þjóðfélag á milli. Og stúlkan Eyja. „Næsti bær við Sölku Völku“ Okkar flati samtími er ekki beint yfirfullur af slíkum senum og þess vegna fagnar lesandinn. Höf­ undi tekst að gera líf sitt að skáld­ sögu. Sem virðist hafa verið tak­ mark hennar í bernsku. Framan af bókinni talar hin unga Eyja ítrekað um löngun sína til að lifa í skáld­ skap. Og einnig hér er „bókmennta­ afinn“ undirliggjandi. Allt í einu er ung stúlka úr Mosfellsdal sest inn í beitningaskúr í illa leiknu sjávar­ þorpi vestur á fjörðum um miðjan vetur og það ekki árið 1934 held­ ur 1995 ... Og fyrr en varði er hún komin í sambúð með aðalgaurnum í skúrnum, orðin „næsti bær við Sölku Völku“ eins og hún segir sjálf. Í fjarlægð gæti slíkt talist til­ gerðarlegt en eftir því sem við les­ um meira um bernsku Eyju og ung­ lingsár skiljum við hana: Að komast í sambúð við sjóvelktan Garrann, sem skríður drukkinn og blóðugur í bælið á hverju kvöldi, virðist vera nákvæmlega það sem hún þurfti, jafn mikið og hún þarf á því að halda í bókarbyrjun að vera dregin með töngum út úr því hjónastandi. Vogað verk Þótt bókin sé nánast (og blessunar­ lega) laus við gamla Nóbel kraumar hann undir, sem fyrr segir. „Ósjálfrátt“ er saga kvennanna sem stóðu honum næst og líf þeirra er litað af þeirri ná­ lægð. Auður leitar aftur í tímann, gref­ ur djúpt eftir atvikum úr fortíð sem útskýra núið, nær með því djúpu og mögnuðu samhengi í fjölskyldusögu sína, og gerir það af ískaldri nær­ gætni, fer varlega en þó alla leið, og án þess að hlífa neinum að því les­ anda finnst. Henni liggur á að finna út úr því hver hún er, hvaðan hún kemur og hvert hún getur farið. Það er einn góður og gamaldags lífsháski í þessari bók og líkast til er það hann sem skil­ ur verkið frá öðrum á liðinni vertíð. Og verkið er einnig talsvert vogað þar sem hér er um viðkvæma hluti að ræða. Það hefur greinilega ekki alltaf verið auðvelt að vera kona á Gljúfra­ steini. Fyrsta nóttin gefur tóninn: Amma Eyju sefur þar ein á jólanótt. Sá gamli kemur ekki fyrr en daginn eftir „með gestunum.“ (Eftir lesturinn situr lesandinn með löngun til að lesa nýja, aðeins dýpri, ævisögu HKL.) Konurnar standa vaktina. Það gætu verið einkunnarorð þessar­ ar bókar sem er einn stórkostlegur kvennaheimur hvar Eyja kemur fram í heilum tólf hlutverkum: barn, stúlka, kona, barnabarn, systir, móðursyst­ ir, eiginkona, vinkona, vinnukona, móðir og þó kannski fyrst og fremst dóttir. Já, og skáld. Krókaleið er kvennaleið Sjálfsagt hefur það ekki verið auð­ velt hlutskipti að vera ung kona með skriftarþörf í þessari fjölskyldu. Lýs­ ingarnar á blábyrjun Eyju á skálda­ brautinni eru áhugaverðar, stundum átakanlegar, þar sem ein setning í miðjum þrifum, ein grein í DV, viðtal við nektardansmær eða gott orð frá ömmu verða stórar vörður á torfar­ inni leið. Þú ert nú enginn hann, fær Eyja að heyra aftur og aftur og jafn­ vel hin trausta og góða amma sýnir barnabarninu enga miskunn þegar henni líkar ekki pistillinn. Mikil pressa, mikil ætt. En þótt krókaleiðin undan þessu liggi vestur fyrir Garrann og aust­ ur til Sundsvall reynist hún á end­ anum vera kvennaleið. Eyja dýrkar sögur og tilsvör móður sinnar, sem samkvæmt bókinni var líka efni í rit­ höfund, og hún tignar ömmu sína, þiggur áhrif frá systur, skrifar til systurdóttur, og finnur fyrirmyndir í formæðrum sínum sem sátu í fínum stofum bæjarins í byrjun tuttugustu aldar og skrifuðu ósjálfráða skrift. Þaðan kemur titillinn sem líka má skilja stærri skilningi: Stundum við ekki öll ósjálfráða skrift? Ráðum við nokkru um það hver við erum? Erum við eitthvað annað en þversumman af fylleríum, uppáferðum, fjarvistum og brjóstagjöfum forfeðranna? Lesandann grunar að Eyju dreymi í upphafi að lifa í skáldsögu eftir afa sinn, en síðan komist hún að því að sú leið er garrinn einn; svörin, stíllinn og sögurnar liggja hjá konunum í ættinni. Með því að fanga sögu þeirra, og tileinka sér stíl­ brögð þeirra, finnur hún sína rödd. Þess vegna er þessi bók svo mik­ ill sigur: Höfundi tekst að brjót­ ast undan Gljúfrasteini. Hann/hún þurfti að fara mjög skrykkjótta leið undan honum, sem við lesturinn verður þó fullkomlega skiljanleg, en ekki aðeins tekst henni að finna þá leið heldur tekst henni líka að skrifa um það bók. Leit Eyju fær síð­ an mótvægi í fyrirætlan kvennanna í kringum hana sem stefna að því leynt og ljóst að gera úr henni rit­ höfund. Spenna sögunnar felst í átökum þeirrar handleiðslu og eig­ invilja Eyju. Töfrasproti skáldskaparins Sagan hefur sinn eigin stíl, frásögn­ in er feimin, fetar sig tvö skref áfram og annað afturábak, kannski sam­ kvæmt göngulagi söguhetjunnar Eyju, eins og henni er lýst í bókinni á sinni heimaprjónuðu lopapeysu með hárflókann ofaní augu. Hún er stödd hér í þessari málsgrein, en 20 árum fyrr í þeirri næstu, en spólar svo allt í einu fram um 30 ár. Eftir því sem á líður myndast stóra samheng­ ið, þegar öll þessi brot raðast saman í eina sögu, eina manneskju. Það er einhver dauðsjarmer­ andi tónn sem Auður nær að fanga hér, lesanda líður helst eins og hún hræri hægt og rólega í hjarta hans með gömlum klístruðum kokteilp­ inna sem hún fann á gólfinu á barn­ um fyrir vestan, svörtum og særekn­ um kokteilpinna, sem einhvern tíma stóð í glasi í eldhúsglugga und­ ir brattri hlíð en lenti í snjóflóði og tapaðist út á sjó hvar hann eyddi vetrinum í ölduróti uns honum skolaði á land og einhver krakkinn fann hann og bar inn á barinn en týndi útí horni framan við klósettin, hvar Auður Jónsdóttir rakst á hann, þennan ólíklega töfrasprota skáld­ skaparins sem þekkir bæði Dostojev­ skí og Who the Fuck is Alice. Og með honum nær hún að hræra saman sögu sína, rétt eins og Amma, Mamma og Rúna tóku sér hlé frá baksi sínu og bakstri til þess að hræra í skáldið sem hún varð. Dásamleg bók. Og takk. „Hvernig stóð á því að slíkt undraverk hlaut ekki tilnefningu til íslensku bókmenntaverð- launanna,“ segir Hallgrím- ur Helgason um bók Auðar Jónsdóttur, Ósjálfrátt. Konur hræra í skáld Skáld verður til Auður Jónsdóttir leitar til fortíðar í bók sinni Ósjálfrátt. MyNdir úr SAfNi AuðAr „Venjuleg“ fjölskylda útí bæ? En slíkar vangaveltur eru til einskis. Auður er Auður. Fjölskyldan hennar er fjölskyldan hennar. Og bókin hennar er bókin hennar. Aðsent Hallgrímur Helgason

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.