Dagblaðið Vísir - DV - 21.11.2008, Side 32

Dagblaðið Vísir - DV - 21.11.2008, Side 32
föstudagur 21. nóvemer 200832 Helgarblað Davíð Scheving Thorsteins-son tekur glaðbeittur á móti blaðamanni, íklæddur blá-um jogginggalla og ljósblá- um polo-bol, í dyragættinni á heim- ili sínu í Garðabæ. Húsið er tvílyft og augljóslega vel við haldið. Hann er einn heima þegar blaðamann ber að garði en þau búa tvö í kotinu ásamt yngstu dótturinni, Davíð og eiginkona hans til rúmlega fjörutíu ára, Stefanía Svala Borg. Hin börnin fimm flogin úr hreiðrinu og una hag sínum vel, ýmist hér á landi eða í Svíþjóð þar sem ein dóttirin býr. „Þetta er náttúrlega hörmungar- ástand, meðal annars vegna þess að þetta er svo mikið okkar eigin sök. Þetta er ennþá sárara fyrir þær sakir,“ segir Davíð þegar við höfum fengið okkur sæti í betri stofunni hjá honum og talið berst að efnahagsástandinu á Íslandi í dag, eins og iðulega gerist í spjalli landsmanna nú um stundir. „En auðvitað má ekki bera þetta saman við þær hörmungar sem þjóð- in þurfti að búa við í meira en þús- und ár,“ bætir hann við alvarlegur í bragði. „Þetta er heldur ekki saman- burðarhæft við Móðuharðindin þeg- ar fjórðungur þjóðarinnar dó úr sulti á tveimur til þremur árum. Það myndi samsvara því að við þyrftum að grafa í snatri sjötíu og fimm þúsund manns sem dáið hefðu úr hungri. Guði sé lof fyrir að það sé ekki slíkt ástand í dag. En þrátt fyrir það er þetta hörmungar- ástand sem við höfum leitt yfir okkur.“ Tapaði sparnaðinum til elliáranna Davíð segir að líklega eigi allar fjöl- skyldur hér á landi eftir að líða fyr- ir þetta ástand. Sérstaklega ungt fólk sem hafi fjárfest fullt af bjartsýni í von um að Hrunadansinn héldi áfram. „Fólk mun líða fyrir þetta næstu árin. Ég þekki það á eigin skinni að svo er. Allt sparifé okkar Steffí var bundið í hlutabréfum í Kaupþingi. Það sem við ætluðum að nota núna þegar maður kæmist á níræðisaldur, það er horfið,“ segir Davíð. „Í vandræðunum sem ég lenti í vegna Sólar/Smjörlíkis og Íslensks Bergvatns í fastgengisstefnunni í kringum 1993 og ´94 þurfti ég að af- sala mér áunnum eftirlaunum, húsið var tekið af mér og fleira svo þetta er í annað sinn sem ég fer á hausinn,“ seg- ir Davíð og brosir lítið eitt. „Það kom mér sannarlega á óvart að góðærið skyldi enda svona harka- lega. Auðvitað var allt yfirspennt. En að viðskiptabankarnir þrír skyldu fara á höfuðið, og allt það sparifé sem menn höfðu lagt í þá í formi hluta- bréfa skyldi þurrkast út, það kom mér á óvart. Menn vissu vitanlega að gengið var kolvitlaust skráð. Hvernig áttum við Íslendingar að geta verið með mestu verðbólgu í vestrænum heimi, með mestu launahækkanir í vestrænum heimi, með hæstu vexti í vestrænum heimi og með sterkustu mynt í heimi eins og íslenska krónan var? Þetta var auðvitað tómt rugl og það sáu allir. En að þetta skyldi fara svona hrikalega óraði mig aldrei fyrir. Þá hefði ég líka selt bévítans bréfin í bankanum,“ segir Davíð og hlær. Orðlaus af óánægju Stærstu mistökin sem voru gerð í stjórn efnhagsmála á undanförn- um áratugum að mati Davíðs voru þau að Íslendingar skyldu ekki halda áfram á þeirri braut sem var mótuð 1970 þegar við gengum í EFTA. „Það hafði gífurlega þýðingu þeg- ar við gerðum það, fyrst og fremst vegna þess að þá voru mikil völd tek- in af íslenskum stjórnmála- og emb- ættismönnum. Næsti fasi var þegar við gerðumst aðilar að EES. Þá afsöl- uðu íslenskir stjórnmála- og emb- ættismenn sér enn völdum. En svo var stoppað. Þessari þróun var ekki haldið áfram og gengið í Evrópu- sambandið, ekki einu sinni um það rætt. Það eru grundvallarmistökin í þessu öllu saman.“ Davíð kveðst ekki efast um að stjórnvöld geri nú sitt besta til að bregðast við ástandinu. „En það er náttúrlega hægara um að tala en í að komast og allt orkar tvímælis þá gert er. Auðvitað finnst mér, eins og öðrum, þetta ganga allt of hægt. En hvort við getum lagt þá sök á herðar þeirra einna er held ég ósanngjarnt. Við erum að reyna að fá peninga erlendis frá. Við létum menn kom- ast upp með að skuldsetja þjóðina fyrir hag örfárra – ég er að tala um IceSave – og það voru náttúrlega slík mistök að ég hef engin orð til að lýsa óánægju minni með að það hafi verið gert og leyft. Að láta eitt- hvert hlutafélag, þar sem tveir, þrír menn ráða, skuldsetja mig, þig og alla íslensku þjóðina!“ segir Davíð og hækkar róminn. „Þetta verður seint fyrirgefið í mín- um huga. Og ég veit ekki hvernig á að fyrirgefa það. Og reynist það rétt að ís- lensku bankarnir hafi framið aðför að íslensku krónunni í því skyni að fegra eigin reikninga, með því að fella krón- una og lækka þar með lífskjör allrar þjóðarinnar, finnst mér að telja eigi slíkt hátterni til landráða.“ Víkingarnir áttu ekkert sameiginlegt með þjóðinni Davíð segir íslensku útrásarvíkingana hafa sagt sig úr íslensku samfélagi fyr- ir löngu. „Þeir áttu ekkert lengur sam- eiginlegt með þér og mér nema að þeir töluðu íslensku. En þeirra lífsgæða- kapphlaup var slíkt að þeir áttu ekkert sameiginlegt lengur með venjulegum Íslendingum. Svo koma þeir, þegar Hrunadansinn byrjaði að daprast, og segja að við eigum að bjarga þeim. Við, sem þeir voru búnir að segja sig úr lögum við! Það gengur ekki upp. Mér fannst gott að hlusta á Gunnar Dal í Sjónvarpinu á dögunum þar sem hann sagði að þegar maður er búinn að safna einhverri ákveðinni upphæð, til dæmis hundrað milljónum króna, á sá maður ekki neitt því eftir það eiga peningarnir hann. Sá maður er ófrjáls. Þetta hefði mátt segjast oft á síðustu árum.“ Að mati Davíðs hafa allt of margir á Íslandi haft Mammon sem Guð sinn í góðæri síðastliðinna ára. Og hann tel- ur að þau ríki sem hafa þennan auð- valdsguð sem leiðtoga lífs síns, og nefnir Davíð þar til að mynda Banda- ríkin, muni farast. „Allt sem hefur Mammon sem Guð sinn ferst. Það hef ég lengi, lengi haldið. Og að meta menn til fjár, en ekki þess sem innra býr, er náttúrlega fyrir neðan allar hellur.“ Aðspurður hvort hann hafi ein- hvern tímann upplifað þá tilfinningu að Mammon væri farinn að vísa hon- um sjálfum veginn fullmikið segist Davíð vona ekki. „Ég er svo lánsamur að pening- arnir út af fyrir sig hafa aldrei skipt mig neinu máli, bara í hvað þeir eru notaðir. Þegar ég var bæði hjá Vinnu- veitendasambandinu og Iðnrekenda- félaginu beindist öll orkan að því að byggja upp undirstöður atvinnulífs á Íslandi en ekki að halda dýrar afmæl- isveislur,“ segir Davíð og kímir. „Í það fór gífurlega mikill tími af minni ævi.“ Davíð var bankaráðsformaður Iðnaðarbankans í nokkur ár, en Iðn- aðarbankinn er einn þeirra banka sem mynduðu Íslandsbanka á sínum tíma sem seinna fékk nafnið Glitn- ir. „Mér finnst ömurlegt að hann skuli vera horfinn og allt það sem við reyndum að byggja upp þar. Hins veg- ar er að gott að vita til þess að Valur Valsson, sem vann með mér í Iðnað- arbankanum á sínum tíma, skuli vera orðinn formaður hins nýja bankaráðs Iðnaðarbankans. Sem heitir reyndar Glitnir í augnablikinu.“ Davíð brosir út í annað. Er mjööög ríkur Talið berst aftur að tapi landsmanna í bankahruninu. Davíð segir tap fólks alltaf afstætt. „Menn segja aumingja þessi eða hinn af því að hann er bú- inn að tapa þúsund milljónum eða eitthvað álíka. Ég get ómögulega haft samúð með manni sem tapar þús- und milljónum ef hann á fimmtíu eða hundrað milljónir eftir. En ég hef sam- úð með þeim sem tapar fimm milljón- um ef hann á ekkert eftir. Mér verður hugsað til sögunnar af eyri ekkjunnar. Hún gaf bara einn eyri, en það var allt sem hún átti. Þess vegna var gjöf hennar dýrmætust. Það sem ég átti er farið. En það er reyndar bull og vitleysa, það er bara það sem ég átti í peningum,“ segir Davíð og hlær hlýjum hlátri. Hann réttir út faðminn og lítur í kringum sig. „Það er ekki húsið og það sem er hérna inni. En þú sæir nú ekki húsið ef þú sæir lánið sem hvílir á því,“ segir Davíð hlær hærra en áður. „Mikilvægast af öllu er að ég er við góða heilsu, þótt ég þurfi nú af og til á viðhaldi að halda, og hef Steffí sem hef- ur umborið mig í meira en fjörutíu ár. Og ég á sex börn og þrettán barnabörn þannig að hvað er ég að væla? Ég er mjööög ríkur.“ Davíð og Stefanía hafa verið gift síð- an 1966. Davíð missti fyrri konu sína, Soffíu Mathiesen, sem hann eignaðist þrjú börn með. Hann og Stefanía hafa einnig eignast þrjú börn saman. Hann ljómar þegar talið berst að afkomend- unum. „Það er ótrúlegt barnalán sem yfir mér hvílir. Alveg ótrúlegt.“ Eftir stutta stund bætir hann við: „En það er þetta með að eiga. Ég á nátt- úrlega ekki öll þessi börn heldur eiga þau sig. Ég hef bara fengið að njóta þeirra.“ Davíð stendur upp og nær í frum- útgáfu af tímaritinu Fjölni sem gefið var út á þarsíðustu öld af Fjölnismönn- unum svokölluðu. Þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson var þar vitanlega fremst- ur í flokki. „Þegar tengdafaðir minn dó fyrir nokkrum árum eignaðist Steffí þessar bækur. Ég hugsaði: „Vá, frum- útgáfan af Fjölni! Heldurðu að það sé nú maður, að eiga þetta undirstöðurit hér uppi í skáp.“ Svo eftir að ég hafði hugsað um málið dálitla stund fór ég að hugsa hverju það breytti í lífi í mínu að hafa eignast Fjölni. Svarið var engu. Það er gaman að horfa á þetta, fletta þessu og svoleiðis. En þetta breytir ná- kvæmlega engu í lífi mínu.“ Vann hjá vinsælasta fyrirtæki landsins Drykkjarvörufyrirtækið Sól var stofn- að fyrir tæpum þrjátíu árum með Davíð einn af þeim sem fremstir voru í flokki. Hann var þar framkvæmda- stjóri og gekk reksturinn afar vel lengst af. Sól var til að mynda aftur og aftur valið vinsælasta fyrirtæki á Íslandi. Forsvarsmenn Sólar brydduðu upp á ýmsum nýjungum í þessum geira, voru til dæmis fyrstir til að búa til ávaxtadrykk hér á landi og að flytja út íslenskt vatn. Á meðal frægustu vara Sólar eru Svali, Trópí og Seltzer. Davíð segir að þetta hafi ver- ið óskaplega skemmtilegur tími, en þau hjá Sól hafi hins vegar verið afar óheppin með tíma þegar farið var út í útflutning á vatni. Þegar gengið var fest í bullandi verðbólgu í lok níunda áratugarins kom það til að mynda mjög illa við fyrirtækið. „Tekjurnar stóðu í stað en þar sem lánin voru vísitölutryggð hækkuðu skuldirnar um þrjátíu prósent á ári, ár eftir ár,“ lýsir Davíð. En tekjurnar af útflutningnum og vörunum sem voru í samkeppni við innflutning stóðu í stað, það er að segja misgengi verð- lags og tekna. Það sem vantaði var þolinmótt fé. Hér var engin kaup- höll þá og því enginn vegur að fá nýtt hlutafé. En lánardrottnar gengu mjög fast eftir þessum skuldum og þar sem við gátum ekki borgað þær fórum við í greiðslustöðvun og nauðarsamn- inga. Fyrirtækið varð því aldrei gjald- þrota heldur töpuðu hluthafar öllu. Skömmu síðar var fyrirtækið selt fyrir milljarða.“ Davíð átti að safna nýju hluta- fé fyrir tvö hundruð milljónir króna. Honum tókst það ekki. Tugir manna misstu vinnuna í kjölfarið og útflutn- ingurinn sem var á fullu lagðist af. Þremur árum seinna keypti Coca Cola fyrirtækið á fleiri milljarða. „Tímasetningin var eins vond og hún gat orðið,“ segir Davíð. „Og mér finnst enn að hart hafi verið gengið fram gagnvart mér og mínum. Starfs- lokasamningar voru ekki til þarna, það var ekki búið að finna upp orð- ið. Þvert á móti fólst „stafslokasamn- ingurinn“ í því að ég þufti að afsala mér hluta eftirlaunasamnings míns í nauðasamningunum og mér bann- að að vinna í þrjú ár við það sem ég þó kunni. Og húsið okkar á Arnarnesi var tekið af okkur vegna lána, sem ég hafði verið neyddur til að ábyrgast fyr- ir Sól/Smjörlíki, og þurfti ég að afsala mér því sem eftir stóð af eftirlauna- samningnum til að eignast það aftur.“ Atburðirnir sem Davíð lýsir þarna áttu sér stað á árunum 1993 til ´94. „En þrátt fyrir þessa harkalegu með- ferð hef ég átt gott líf síðan og er sprell- lifandi í dag, og rétt undir áttrætt.“ Þess má geta að vatns- og Seltzer- verksmiðja Sólar/Smjörlíkis og Ís- lensks Bergvatns var tekin niður og flutt til Englands þar sem hún starf- ar enn í dag og framleiðir á fullu vör- ur sem þróaðar voru í Þverholtinu á sínum tíma „Farðu niður í kjallarann í Harrod´s í London og þá muntu sjá uppi á vegg skilti þar sem Seltzer er auglýstur. Og þar stendur „Made acc- ording to our original Icelandic rec- ipe“. Seltzerinn er á þrisvar sinnum hærra verði en Coca Cola, og er enn í dósinni minni,“ segir Davíð og brosir sínu vinalega brosi. Má ekki selja sálu sína Aðspurður hvernig það sé að ganga í gegnum svona raunir segir Davíð öllu skipta á svona tímum að hafa stuðn- ing fjölskyldu og vina. „Og það kom ótrúlega hratt fram hverjir voru vinir og hverjir viðhlæjendur. Vinirnir voru þeir sem héldu áfram að tala við mig og studdu mig í þessum dal. Það sem skiptir meginmáli í svona þrautum er að komast í gegnum þær án þess að selja sálu sína. Margir hafa horft á fyrirtæki fara á hausinn og sjá samt eigendur þess eiga nóga peninga eftir gjaldþrotið. Það eru menn sem hafa ekki barist til síðasta blóðdropa heldur haldið eftir fé fyrir sjálfa sig. Það eru menn sem hafa selt sálu sína. Mér finnst mikil- vægt að hafa ekki freistast til að fara þá leið heldur gengið gönguna til enda, án þess að nokkur geti sagt um mig að ég hafi ekki barist alla leið. Ég held að þjóðin óttist einmitt núna að þeir sem áttu stóran þátt í þeim ósköpum sem nú á okkur dynja haldi sínu og gangi frá veislunni með digra sjóði.“ Eitt af þeim skrefum sem Íslend- ingar verða að taka nú í upphafi end- uruppbyggingar íslensks efnahagslífs að mati Davíðs er að tryggja að ríkis- bankarnir þrír gangi ekki hart fram í að ná íbúðum af skuldugu fólki. Þá verði að hlúa að fyrirtækjunum til þess að einhverja vinnu sé hér að hafa fyr- ir vinnufúsar hendur „Atvinnuleysi er vitanlega ömurlegt hlutskipti fyrir alla þá sem fyrir því verða,“ segir hann. Davíð vill ennfremur láta reyna á aðildarviðræður við Evrópusam- bandið. „Við þurfum að gefa út yfirlýs- ingu um að við ætlum að hefja samn- ingaviðræður við sambandið og sjá hvaða samningum við getum náð við þá,“ segir hann og leggur áherslu á að þetta sé afar mikilvægt og löngu tíma- bært. Þá tekur Davíð undir þá hug- mynd sem Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar og fyrrverandi stjórnarformaður Eimskips, setti fram í grein í Morgunblaðinu á dögun- um um að ríkisbankarnir skuldbreyti skuldum fyrirtækja yfir í hlutafé sem þeir geti síðan selt eigendunum aftur seinna þegar betur gengur. Það yrði þá gert í stað þess að „andskotast“ á eigendum fyrirtækja þar til þau leyst- ust upp, eins og Davíð hefur reynslu af. Getur enn krafsað saman krónur Davíð lætur enn til sín taka í atvinnu- lífinu þrátt fyrir að komast á níræð- isaldurinn eftir rúmt ár. Hann sit- ur í stjórnum nokkurra fyrirtækja og kveðst taka að sér eitt og eitt og verk- efni, til að mynda við ráðgjöf. „Síðasta greiðsla sem ég fékk fyrir launað starf var í október,“ segir Dav- íð glaðbeittur og bætir við að það hafi verið fyrir ráðgjöf í Englandi. „Ég hef sem betur fer verið þeirrar gæfu að- njótandi að geta krafsað saman pen- inga síðan ég var rekinn af bankan- um og Iðnlánasjóði 1995.“ Þess má jafnframt geta að Dav- íð var verkefnisstjóri þess hóps sem samdi leiðbeiningar um stjórnar- hætti fyrirtækja árið 2004 þar sem lagt er til hvernig fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöllinni skuli rekin. „Það hefði kannski mátt fara betur eftir þessum leiðbeiningum,“ segir hann og brosir. Davíð vill enda viðtalið á broti úr aldamótakvæði afabróður síns, Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherra þjóðarinnar. Þau hvatningarorð eigi vel við á þessum tímum. Starfið er margt, en eitt er bræðra bandið, boðorðið, hvar sem þér í fylking standið, hvernig sem stríðið þá og þá er blandið, það er: Að elska, byggja og treysta á landið. Mikilvægast af öllu er að ég er við góða heilsu, þótt ég þurfi nú af og til á viðhaldi að halda, og hef Steffí sem hefur umborið mig í meira en fjörutíu ár. Og ég á sex börn og þrettán barna- börn þannig að hvað er ég að væla? Ég er mjööög ríkur.“ Við færibandið davíð, lengst til vinstri, fylgist með framleiðslu og pakkningu í verksmiðju sólar/smjörlíkis. Sívinsæll seltzer-drykkurinn sem skapaður var af sólarmönnum var mjög vinsæll þegar hann var seldur hér á landi á ofanverðum níunda áratugnum og fyrri hluta þess tíunda.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.