Húnavaka - 01.05.2008, Page 114
H Ú N A V A K A 112
galdraryktis þess er af henni fór og fordæðuháttar er sumir eignuðu henni.
En Þórdís auðgaðist og eignaðist lendur allt út á Skagatá. Flestar voru þetta
viðarsælar víkur þar sem stundum var von hvalreka, einnig voru þar gjöful
selalátur. Sótti hún stíft í þessar matarkistur og flutti til síns heima. Eins var
með trjáviðinn enda voru hús vel viðuð á Spákonufelli og ekkert til sparað í
sperrum og stoðum.
Á Hofi bjó prestur er Eiríkur hét. Var hann, jafnvel fremur Þórdísi, fégjarn
og harðdrægur og ekki smáprúttinn er skara skyldi eld að eigin köku. Ásamt
þessu var hann öfundsjúkur mjög og sá ofsjónum yfir hverju einu er öðrum
hlotnaðist. Einkum voru honum íþyngjandi lestaferðir Þórdísar þá er hún flutti
hjá túngarði á Hofi viðardrögur miklar á mörgum hestum hvert sinn. Reyndi
hann allt sem hann gat að komast yfir rekamál, beitti ýmsum brögðum og
heimti þannig offur til Hofskirkju af þeim er tekið höfðu kristni ella ættu þeir
vísa gistingu í Helvíti þar sem allir er honum mæltu móti sætu í eldslogum og
brennisteini. Þó varð honum lítt ágengt því Þórdís hafði þá þegar náð flestum
feitustu skikunum og landsetar hennar og nábúar skákuðu í skjóli því er hún
veitti og lagði prestur sjaldan í að bekkjast til við þá.
Í Ásbúðum dvaldi kerling ein afgömul, hafði hún gefið húsbændum þar
próventu sína en hélt eftir í sinni eigu tveimur gamalám, kapli er kominn var
að fótum fram og rekaítaki er lá á óvissum mörkum milli Ásbúðna og Hrauns.
Nú veikist kerlingarhróið og virðast lífdagar hennar á enda runnir, var því
Eiríks prests vitjað því hún var kona kristin og þráði að hljóta sakramenti og
fá síðustu smurningu. Prestur brá hart við enda vissi hann af ítakinu, lét hann
söðla hest sinn og reið eins og hann kom dróginni út yfir Króksbjargið.
En Skaginn er langur og illur yfirferðar enda var dagur að kvöldi kominn
er prestur náði að Ásbúðum og kerling þá nærri andarslitrum. Hann dreif sig
að fleti hennar og lýsti fjálglega illri vist er biði þeirra handan grafar er ekki
hefðu gefið neitt til bjargar sálu sinni. Það hrygldi í kerlingunni en skildist þó
að hún ánafnaði Hofskirkju ánum sínum. Enn herti prestur róðurinn uns
kerlingin stundi: Og merina líka. Að svo mæltu tók hún síðustu andvörpin.
Þetta bar brátt að svo klerkur sat nokkra stund ráðþrota á rúmstokknum,
síðan beygði hann sig niður að líkinu og lagði eyrað að vitum þess nokkra
stund. Þá reis hann upp og sagði klökkum rómi við þá er viðstaddir voru: Og
gefur hún enn blessuð. Húsráðendur horfðu felmtsfullir á sálusorgarann en hann
renndi augunum til himins og sagði: Nú ánafnaði hún kirkjunni ítakið hér milli
bæjanna svo nú er hún sáluhólpin, blessuð gamla konan.
Enginn þorði að draga í efa þessar staðhæfingar guðsmannsins og hélt hann
síðan heim á leið harla glaður með árangur ferðarinnar.
Næsta ár var landsmönnum erfitt, vetrarhörkur miklar og fénaðarfellir svo
víða var þröngt í búi og sultur svarf að búandkörlum og hyski þeirra. Á útmán-
uðum bárust þær fréttir að stórhveli maraði í fjöruborði við vestanverða
Skagatá. Að síðustu fjaraði undan honum á stórstraumsfjöru milli bæjanna
Ásbúðna og Hrauns. Fljótt fór hvalsagan um héraðið og dreif fólk að til að
leita sér matbjargar á hvalfjörunni.
Eiríkur prestur fór með húskarla sína og hugði nú gott til glóðarinnar þar