Lögmannablaðið - 01.03.2008, Blaðsíða 13

Lögmannablaðið - 01.03.2008, Blaðsíða 13
Laganefnd telur óásættanlegt að verjendur þurfi að una mati lögreglu á því hvaða skjöl varði skjólstæðinga þeirra og leggur því til að reglu gildandi laga um aðgang verjanda að gögnum máls verði ekki breytt. Laganefnd gagnrýnir ákvæði 89. gr. frumvarpsins sem segir að ríkissaksóknara sé heimilt að setja reglur um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála. Með þessu ákvæði verði lagasetningarvald í raun framselt til ríkissaksóknara og telur nefndin ákvæðið vart standast stjórnarskrá. Lagt er því til að settar verði lagareglur um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála. 3. mgr. 111. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir því að dómur kunni að verða byggður á skýrslu sem gefin var við rannsókn máls hjá lögreglu eða öðrum stjórnvöldum, hafi vitni ekki komið fyrir dóm og staðfest skýrslu sína. Laganefnd telur þá tilhögun ekki samrýmast meginreglu opinbers réttarfars um beina og milliliðalausa sönnunar­ færslu fyrir dómi og bendir að auki á að verjandi sakbornings hefur í fæstum tilvikum tök á því að gæta hagsmuna hans við rannsókn máls hjá lögreglu. Málsmeðferð Laganefnd telur ákvæði 165. gr. frumvarpsins vera of þröngt en ákvæðið mælir fyrir um að dómari geti gefið ákærða kost á því að leggja fram skriflega greinargerð enda sé málið flókið og umfangsmikið. Nefndin telur rangt að setja það í vald dómara að ákveða hvort ákærði fái að leggja fram skriflega greinargerð og að ekki sé réttlætanlegt að meina sakborningi að leggja fram skriflega greinargerð í máli sem ákæruvaldið hefur höfðað gegn honum. Þá leggst laganefnd gegn ákvæði 166. gr. frumvarpsins er mælir fyrir um heimild dómara til að takmarka málfrelsi málflytjanda og telur það ákvæði ekki samrýmast ákvæðum 70. gr. og 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. og 11. gr. stjórnskipulaga nr. 97/1995 og 1. og 3. mgr. 6. gr. og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Laganefnd leggur til breytingu á 2. mgr. 183. gr. frumvarpsins um að dómurum verði gert að rökstyðja það í dómum sínum ef þeir fallast ekki á að leggja tímaskráningu verjanda eða réttargæslumanns til grundvallar ákvörðunar þóknunar. Ennfremur leggst laganefnd gegn því að einungis verði heimilt að kæra úrskurði héraðsdómara til Hæstaréttar en ekki ákvarðanir héraðsdómara. Laganefnd segir það miður að ekki sé gert ráð fyrir þeirri meginreglu í frumvarpinu að bein og milliliðalaus sönnunarfærsla fari fram fyrir Hæstarétti. Bendir nefndin á að núverandi fyrirkomulag, þar sem ekki hefur tíðkast að skýrslur séu teknar við meðferð mála fyrir Hæstarétti, standist hvorki ákvæði Mannréttinda­ sáttmála Evrópu, sem lögfestur hefur verið hér á landi, né þá grundvallarreglu opinbers réttarfars að sönn­ unarfærsla sé bein og milliliðalaus. Þá fagnar laganefnd sérstaklega því ákvæði frumvarpsins er mælir fyrir um að dómari, eða dómarar, sem kveðið hafa upp dóm sem ómerktur er í Hæstarétti, skuli ekki fjalla um sama mál að nýju þegar málið er tekið fyrir í héraðsdómi á nýjan leik. Hér á undan hefur aðeins verið fjallað um nokkur atriði í ítarlegri og vandaðri umsögn laganefndar sem er aðgengileg í heild sinni á heimasíðu LMFÍ. Nefndin hefur vandað til verka og á þakkir skildar. Þorsteinn Einarsson, hrl. Helstu nýmæli frumvarpsins • Gildissvið laga um meðferð sakamála er afmarkað með skýrara hætti en lög nr. 19/1991. • Ákæruvaldinu verður fram vegis skipt í þrjú stjórnsýslustig í stað tveggja. Lögreglustjórar fara með rannsókn og ákæru vald í minni háttar málum. Héraðssaksóknari fer með ákæruvald í öllum meiri háttar sakamálum en ríkissaksóknari tekur ákvarðanir um áfrýjun héraðsdóma auk þess að setja almennar reglur og hafa eftirlit með öðrum ákærendum. • Ítarleg ákvæði eru um skýrslu töku lögreglu af sakborningum og vitnum við rannsókn mála. • Lagðar eru til breytingar á reglum um sönnun og sönn unargögn og ítarleg ákvæði eru um matsgerðir, skjöl og önnur sönnunargögn, sem ekki er að finna í núgildandi lögum. • Sérstakar reglur eru um skýrslugjöf ákærða fyrir dómi en lög nr. 19/1991 geyma ekki sérreglur um það efni. • Ákærða verður gefinn kostur á að skila skriflegri greinargerð af sinni hálfu til dómstóls á sama hátt og stefndi í einkamáli. • Hver sem er getur fengið aðgang að ákæru þremur sólarhringum eftir að hún hefur verið birt ákærða nema sérstakir almanna­ eða einkahags­ munir standi því í vegi. LÖGMANNABLAÐIÐ – 4 / 2007 > 13

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.