Lögmannablaðið - 01.03.2012, Side 7

Lögmannablaðið - 01.03.2012, Side 7
lögmannaBlaðið tBl 01/12 7 UMfJöllUn hvort það væri vegna þess að tímafjöldi samkvæmt skýrslu væri endurskoðaður af dómara eða tímagjald. Fram kom hjá lögmönnunum að ákvarðanirnar væru misjafnar eftir dómurum og sögðust sumir greina meiri skilning á málskostnaðarkröfum lögmanna þegar dómarinn hefði sjálfur unnið við lögmannsstörf áður. Sá skilningur gæti til dæmis lýst sér í því að sú tala sem ákveðin rennur ekki beint í vasa lögmannsins heldur hefur hann umtalsverðan kostnað sem þarf að greiða vegna reksturs og upphæðin sem hann fær því í raun öllu lægri. misjöfn staða eftir réttarsviðum Á ákveðnum sviðum eru reglur um málskostnaðarákvarðanir. Þetta á t.d. við um störf verjenda, sem vinna samkvæmt taxta dómstólaráðs, en hann er ákveðinn kr. 10.000,­ á tímann. Sú ákvörðun var tekin árið 2008 og hefur talan ekki verið hækkuð síðan, þrátt fyrir að verðlag í þjóðfélaginu og taxti lögmanna hafi hækkað töluvert á sama tíma og að þessi tala hafi raunar verið í lægri kantinum þegar hún var ákveðin. Ljóst er að verulegur munur er orðinn á tímagjaldi lögmanns, sem sérhæfir sig í sakamálum annars vegar og selur því tíma sína samkvæmt þeim taxta og hins vegar lögmanns sem vinnur samkvæmt algengu tímagjaldi á lögmannsstofum í dag, sem er frá 18 – 22 þúsund krónur á tímann. Líkt og Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs, bendir á í viðtali í blaðinu má þó á móti horfa til þess að laun verjenda í sakamálum eru greidd úr ríkissjóði og greiðslur því öruggari en annars. málarekstri fylgir áhætta Símon bendir á að mat dómara verði að ráða við málskostnaðarákvarðanir og að á þeirri stundu liggi ekki fyrir hvernig uppgjöri lögmannsins og aðilans verði á endanum háttað. Þá liggi að baki málskostnaðarákvörðun í einkamáli tiltekin áhættusjónarmið. Þannig megi sá sem stundi viðskipti á ákveðnu sviði, eða hafi tiltekna atvinnustarfsemi með höndum, reikna með því að til útgjalda kunni að koma vegna atvinnuþátttökunnar sem hann fái ekki að fullu bætt. Símon segir að kostnaður vegna starfa lögmanns sé þar á meðal, hvort sem hann tengist ákveðnu dómsmáli eða ekki. Hann tekur einnig fram að mikilvægi tímaskýrslna sé ótvírætt og að allajafna sé ekki tilefni til að draga í efa að slíkar skýrslur séu sannleikanum samkvæmt. Hann tekur fram að ef efasemdir vakni hjá dómara sé eðlilegt að kalla eftir skýringum frá aðila. ósamræmi getur fælt frá Í þessari samantekt er leitast við að fá fram sjónarmið lögmanna annars vegar og dómstóla hins vegar varðandi þessi atriði. Ljóst er að ákvörðun málskostnaðar er mikilvægur hluti af dómsmáli, einkum ef hagsmunirnir sem eru undirliggjandi eru ekki þeim mun meiri, enda getur hæglega komið upp sú staða að sigur í málinu sjálfu núllast í raun út ef málskostnaður fæst ekki bættur. Jafnvel getur það gerst að viðkomandi tapi á því að hafa farið af stað í málinu til að byrja með. Það er mikilvægt að atriði sem þessi séu til skoðunar. Þótt vissulega felist alltaf í því áhætta að reka dómsmál má ljóst vera að misræmi í málskostnaðarákvörðunum og úrslitum dómsmála getur valdið því að einstaklingar hugsi sig tvisvar um áður en þeir leita réttar síns. ÁH

x

Lögmannablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.