Lögmannablaðið - 01.12.2013, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 01.12.2013, Blaðsíða 4
4 lögmannaBlaðið tBl 04/13 Árni HelGAson HDl. leiðAri skuldaniðurfelling vekur spurningar RíkisstjóRnin kynnti á dögunum fyrirhugaðar aðgerðir sínar vegna verðtryggðra lána. Eftir þessu útspili hefur verið beðið frá því í vor, þegar ríkisstjórnin tók við og fyrstu viðbrögð eftir að áformin voru kynnt báru þess merki. Fólk var almennt fegið að loksins færi nú að koma lækkun á lánið þeirra enda þónokkur hópur sem fær allt að fjórum milljónum króna í lækkun með þeim hluta aðgerðanna sem snúa að beinni niðurfærslu lána. Pólitísk umræða um málið er því marki brennd að auðvelt er að svara málflutningi þeirra sem hafa efasemdir eða gagnrýna áformin þannig að þeir séu á móti því að fólk fái „leiðréttingu“ á lánin sín. Hver er á móti því að margir hafi það betra og ótilgreindir erlendir hrægammar borgi? Það vilja ekki margir vera í því hlutverki, a.m.k. ekki þeir sem þurfa að ná endurkjöri í lok kjörtímabilsins. fjármögnun aðgerðanna háð óvissu Engu að síður er fullt tilefni til að efast og spyrja. Aðgerðin er fjármögnuð að stærstum hluta með nýjum skatti, sem ætlunin er að leggja á þrotabú föllnu bankana en sá skattur á raunar einnig að brúa bilið varðandi fjárlög næsta árs. Það er nýlunda hér á landi að skattleggja eignir þrotabúa og eru ýmsar ástæður fyrir því; eignir þrotabúa eru jafnan háðar ákveðinni óvissu, auk þess sem kröfuhafar búanna hafa orðið fyrir verulegu tapi þá þegar, þar sem þeir fá ekki fullnustu krafna sinna. Aðgerðin er afturvirk að því leyti að þessi skattur lá ekki fyrir þegar búin voru tekin til gjaldþrotaskipta, hvað þá þegar lánadrottnar föllnu bankanna lánuðu þeim á sínum tíma. Ekki frekar en það lá fyrir á þeim tímapunkti að innistæður yrðu teknar fram fyrir í rétt­ inda röð við gjaldþrotaskipti og gerðar að forgangskröfum eða að gjaldeyrishöft yrðu sett á þannig að ekki væri unnt að komast út með peningana aftur. Þessar tvær aðgerðir mátti þó rökstyðja með ákveðnum neyðaréttarsjónarmiðum á sínum tíma en slík rök eiga engan veginn við í þessu tilfelli, þar sem ríkisstjórnin er eingöngu að sækja sér fjármagn til að uppfylla tiltekin kosningaloforð og til þess að loka fjárlagagati næsta árs. efnað fólk nýtur góðs af aðgerðum Aðgerðirnar eru þannig uppbyggðar að allir með verðtryggt húsnæðislán njóta þeirra, algerlega óháð því hver eignastaða viðkomandi er að öðru leyti. Hjón sem keyptu sér einbýlishús í miðbæ eða vesturbæ Reykjavíkur árið 1990, svo dæmi sé tekið, njóta góðs af aðgerðunum, jafnvel þótt eignin hafi margfaldast í verði á þessu tímabili og áhvílandi lán nánast uppgerð. sú áhugaverða staða gæti jafnvel komið upp að einstaklingur sem greiðir auð­ legðar skatt vegna eignastöðu upp á 75 milljónir eða meira (t.d. ef við komandi á einbýlishús metið á 90 milljónir og á því eru áhvílandi 10 milljónir), fengi á sama tíma bætur frá ríkinu vegna þess skaða sem hann varð fyrir út af verðbólguáhrifum. leiga og námslán undanþegin Að sama skapi tekur aðgerðin ekki til stórra hópa sem sannarlega urðu fyrir verðbólguáhrifunum án þess að eignir þess hafi hækkað á meðan, t.d. leigjendur og fólk með námslán. Aðgerðirnar ná ekki til þeirra, nema að því leyti að leigjendur geta ráðstafað séreignasparnaði sínum inn á sérstakan húsnæðissparnaðarreikning. Þar sem hámark upp á 4 milljónir er sett á það sem hver og einn fær í sinn hlut varðandi beina lækkun lána þá er ennfremur ljóst að aðgerðin dugar ekki þeim sem mest skulda í eignum sínum. Þótt fyrstu viðbrögð við aðgerðunum hafi verið jákvæð er ljóst að fjármögnun aðgerðanna er óljós og mun að líkindum á hana reyna fyrir dómi. sú ákvörðun að láta aðgerðirnar ná aðeins til hluta þeirra sem urðu fyrir verðbólguáhrifum á sínum tíma en skilja aðra eftir vekur ennfremur upp spurningar um jafnræði og skyldur ríkisvaldsins í þeim efnum. Það á því mikið ryk eftir að setjast áður en myndin skýrist endanlega.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.