Skírnir - 01.01.1943, Page 57
Skírnir
Grónar grafir
55
Og það var eins og þau færu með seinasta friðinn úr
sálu minni.
V.
Næstu daga var heyjað í Staðarey. Þar er alltaf heyjað
um hálfan mánuð að áliðnu sumri. Er heyið að mestu sett
saman þar úti og svo ekið heim á sleðum að vetrinum. En
ef tíðin leikur við mann, stillur ganga og heyið þornar
eftir hendinni, flytur maður kannske með sér hest og hest
í prammanum í land á kvöldin. Þegar bundið er, er farið
með hest út í eyna. Er þá farið frá Nautavíkurtanga, en
þangað er stytzt í land.
Öllum þykir hin bezta skemmtun að heyja í eynni, þeg-
ar vel viðrar. Umhverfið og útsýnið er dásamlega fagurt,
gaman er að borða og drekka í tjarnarlundinum og lesa
blóm í hvíldartímanum.
En þó að ég hlakkaði til hvers dags, þá urðu þeir mér
allir að kvalræði. Við Sólveig vorum ekki lengur samstiga.
Það var sem sprungið hefði gjá á milli okkar, sem mikið
stökk var yfir. Ég fann líka, að hún var á verði gagnvart
mér, ef til vill aðeins óvitandi. Hvern dag hugsaði ég mér,
að ég skyldi komast að því, hvað hæft væri í sögu systur
minnar. En á hverju kvöldi fannst mér ég róa heim tóm-
um báti úr löngum róðri.
En þetta tók líka enda.
Sunnudaginn 23. ágúst messaði ég á annexíunni og síð-
an varð ég að fara fram að Blátjörn vegna nefndarstarfa
út af mæðiveikisvörnum. Þótt hugurinn væri allan daginn
heima, komst ég ekki af stað heimleiðis fyrr en seint um
kvöldið. Og það var mjög húmað, þegar ég nálgaðist bæ-
inn. Allir mundu vera í fasta svefni. En skyldi Sólveigu
ekki geta eins vel dreymt mig og kærastann?
Þegar ég kom fyrir bæjarhornið sá ég að það var ljós
frammi í bláu gestastofunni. Þar kom þó varla nokkur
maður, nema messudagana, og Sólveig einstöku sinnum,
ef hún greip í kirkjuorgelið, sem var borið þangað inn,
þegar guðsþjónusturnar voru úti. Næturgestir sváfu þar